Met sólskin í byrjun marsmánaðar í Reykjavík

Þegar 8 dagar eru liðnir af mars hafa mælst 68,2 sólskinsstundir i Reykjavík. Þær hafa aldrei verið fleiri þessa daga síðan mælingar hófust fyrir meira en 90 árum. Næst kemur byrjun mars 1962 þegar sólskinsstundir voru 62,0. Úrkoman hefur nú mælst 0,1 mm, sem mældist að morgni 1. mars og hefur úrkoman aðeins mælst minni í marsbyrjun 1995, 1937 og 1894 en þá var hún alls engin.

Meðalhitinn er nú þessa 8 fyrstu daga í Reykjavík -1,4 stig eða 2,4 stig undir meðallagi þessarar aldar. Eigi að siður er hitinn eða kuldinn ekki tiltökumál. Strax fyrstu dagana árið 2009 var hann -2,5° þessa daga og -8,2 stig 1998. Sólríku dagana árið 1962 var meðalhitinn -2,5 stig. Síðustu 30 árin hefur marsbyrjun í Reykjavík sjö sinnum verið kaldari en nú, hvað þá á fyrri árum. Var um -11,4  stig í marsbyrjun 1919!  Eiginlega er furðu hlýtt núna miðað við stöðuga norðaustanátt í marsbyrjun. Aðeins tvo daga hefur ekki hlánað um hádaginn.

En það er sólin og þurrkurinn sem er óvenjulegur. Hann leggst misjafnlega í fólk. Hann fer mjög í suma, ef marka má fasbók, en aðrir segja að veðrið í höfuðborginni gæti ekki betra verið. 

Hvað sem um það má segja er það víst að þessir fyrstu 8 dagar í mars  eru afbrigðilegir og sögulegir í veðurfarslegu tilliti í Reykjavík         


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband