Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Afhverju voru Knud Hamsun og Ezra Pound ekki skotnir

Fasistar og nasistar voru ekki nein lömb við að eiga og stríðsárin voru ekki tímar mildi og miskunnsemi. Föðurlandssvik voru litinn alvarlegum augum. Þau voru verri en allt annað.

Föðurlandssvikarar voru teknir af lífi.

Knud Hamsun og Ezra Pound kusu sér vitandi vits hlutskipti föðurlandssvikara og jafnvel glæpamanna gegn mannkyninu.

Þeir nutu frægðar sinnar. Í stað þess að vera skotnir voru þeir úrskurðaðir geðveikir.

Listamenn um allan heim hafa emjað yfir því hvað illa var farið með þá að þeirra áliti.

En það var einmitt farið vel með þá.

Það er í rauninni ranglátt með tilliti til þess hvernig komið var fram við aðra föðurlandssvikara. 

Það átti auðvitað að skjóta þá eins og hina ef jafnræðis og sanngirnis hefði verið gætt.

(Ég er samt persónulega skilyrðislaust á móti dauðarefsingum).


Úrkomumet í apríl

Ég fæ ekki betur séð en að í þessum apríl hafi mælst meiri úrkoma á mannaðri veðurstöð í það minnsta en áður hefur mælst á veðurstöð á Íslandi. í þessum mánuði. Á Kvískerjum mældust 523,7 mm en gamla Íslandsmetið var 520,7 mm frá 1984 og var það einnig á Kvískerjum. 

En það féllu fleiri úrkomumet stöðva í mánuðinum. Hér koma nokkur sem ég veit um en gömlu metin innan sviga og ártal sem sýnir hvenær mælingar hófust. 

Vík í Mýrdal 311,4 mm (289,3, 1955;1925).

Stórhöfði í Vestmannaeyjum 218,1 (214,7, 2002;1922, áður mælt í kaupstaðnum frá 1881-1921). 

Eyrarbakki 199,3  að minnsta kosti (190,0, 1883; 1881-1911, 1926).

Mýri í Bárðardal 59,7 (49,2, 1979;1957).

Hugsanlega geta verið villur í þessum nýju tölum upp á smábrot en metin eiga að vera rétt.

Í Reykjavík var úrkoman 99,9 mm og mun þetta þá vera tíundi úrkomumesti apríl þar frá upphafi mælinga ef öll  tímaskeið eru talin með, líka mælingar Jóns Þorsteinssonar á nítjándu öld. Frá stofnun Veðurstofunnar er þetta sjötti úrkomumesti apríl sem mælst hefur. 

Meðalhiti mánaðarins er á góðu róli. Mun verða um 5 stig í Reykjavík eða meira en tvö stig yfir meðallagi. 

En veðurlag hefur vægast sagt verið óvenjulegt eins og sést á þessum úrkomumetum.  

 


Afsökun og fyrirgefning

Afsökunarbeiðni er ekki það sama og fyrirgefning.

Einhver biður annan afsökunar á misgjörðum sínum í hans garð.

Fyrirgefningin er hins vegar á valdi þess sem brotið hefur verið á.

Stundum er fyrirgefningar krafist með hálfgerðri frekju. Og ef einhver vill  þá  ekki fyrirgefa á hann á hættu að breytast í vonda gaurinn. Kærleikslausan mann sem ekki vill fyrirgefa. 

Fórnarlambið breytist í sökudólg. 

Við eigum svo erfitt með að horfast í augu við erfið mál, til dæmis kynferðislega misnotkun.

Þess vegna heimta sumir fyrirgefningu og þá á málið að vera leyst.

Fyrirgefning er ekki nauðsynleg fyrir þolendur misgjörða. Það er nauðsynlegt að ná sér eftir þær  vinna sig frá þeim, láta þær ekki yfirskyggja sig. Verða frjáls. Það gera menn með sálrænni úrvinnslu  hvort sem hún er einkaleg eða undir handarjaðri fagfólks.

Fyrirgefning er aðallega guðfræðilegt hugtak.

Það hefur ekkert upp á sig í sálrænni vinnu vegna áfalla.


Uppljóstrun um hlýnunarspursmálið

Sá auðmjúki bloggari sem hér bloggar viðurkennir  að hann er hallari undir kenningarnar um hlýnun jarðar af mannavöldum en hann hefur hingað til látið almennilega uppi.

Hins vegar fer það óskaplega í taugarnar á honum þegar allir vitringar heimsins eru orðnir sammála um eitthvað. Þá vill hann ólmur verða ósammála þeim.

Svo fer það líka í taugarnar á honum hvernig allir veðurfarsatburðir eru umsvifalaust skrifaðir á reikning gróðurhúsaáhrifanna.

En langmest fer það í taugarnar á honum að veðurfarið, hans góða og gamla áhugamál, er orðið pólitískt æsingmál hjá ótrúlegasta fólki, jafnvel listamönnum sem fæstir vita af hvaða átt hann blæs.

Fölmargt annað í lífinu, stórt og smátt, fer í taugarnar á bloggarnum þó hann hafi að vísu stáltaugar, en verður hér ekki upptalið.

Það gæti farið í taugarnar á einhverjum.


Sparnaður

Það ætti að verða eitthvert fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að leggja niður þetta hallærislega forsetaembætti. 

Það ætti líka endilega að leggja niður Þjóðkirkjuna á fjárlögum.

Við höfum ekki efni á neinu bruðli. 


Svínvirkar

Flensan svínvirkar og fer sigurför um heiminn.

Manneskja sem kemur til Íslands beint frá Mexíkó hlýtur að vera mögulegur smitberi þó hún kenni sér einskis meins. 

Einmitt þannig berst smit milli landa. 

Flensan gæti alveg eins þegar verið komin til landsins.

 


Veðurvaktin

Hvað er hann Einar Sveinbjörnsson eiginlega að hugsa? Kosningarnar eru búnar en samt er hann ekki aftur byrjaður að blogga um veðrið.

Við svo búið má ekki lengur standa. 


Fíflalæti

Atli Gíslason vill láta mynda þjóðstjórn.

Voru þá kosningarnar bara til þess að draga dár að kjósendum?

Þeir ætlast til að stjórnarflokkarnir einbeiti sér að því að takast á við brýnustu vandamál þjóðarinnar.

En ekki láta eins og fífl. 


Flensan kemur

Svínapestin er nú kominn til Danmerkur og Svíþjóðar samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins.

Eftir viðtali við Harald Briem er dánartala veikinnar hærri en í spönsku veikinni 1918.

Það er tímaspursmál hvenær pestin kemur hingað.

Enda virðist ekkert vera gert til að hindra það.  Menn bíða bara tvístígandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband