Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík

Í nótt mældist frost í Reykjavík í fyrsta sinn síðan 7. janúar. Þíðukaflinn var því 21 dagur og er sá lengsti sem komið hefur í janúar frá því Veðurstofan var stofnuð 1920.

Vetur á Íslandi er talinn  vera mánuðina desember til mars.

Fyrir kemur að langir þíðukaflar í desember hafi byrjað í nóvember og sömuleiðis er það þekkt að frostlausir kaflar í mars haldi áfram fram í apríl.

Frá því Veðurstofan var stofnuð eru lengstu samfelldu þíðukaflarnir í vetrarmánuðunum þessir:

40 dagar, frá 17. nóvember til 26. desember 2002. Kannski er þetta svindl af því að svo stór kafli frostleysunnar var í nóvember en í það minnsta eru þíðudagarnir í desember 26 sem út af fyrir sig er líka met!

26 dagar, 9. mars til 4. apríl 1923.

25 dagar, 7.-31. mars 1929; 18. nóvember til 12. desember 1933; 30. nóvember til 24. desember 1987.

22 dagar, 7.-28. febrúar 1964.

21 dagur, 7.-28. janúar 2010.

20 dagar, 1-20 mars. 1964.

Veturinn 1847 var mjög afbrigðilega hlýr. Þá voru gerðar hitamælingar í Reykjavík. Þær eru kannski ekki sambærilegar við nýrri mælingar en ekki var þá skráð frost alveg frá 23. febrúar til 30. mars eða í 36 daga. 

Frá stofnun Veðurstofunnar er hægt að telja 76 frostlausa kafla að vetrarlagi sem staðið hafa 10 daga eða meira. Tíu daga vetrarhlákur eru því tiltölulega algengt fyrirbæri. Af þessum eru 15 á þeim áratug sem enn er ekki liðinn og hafa aldrei verið fleiri á áratug en 12 voru þeir árin 1932-1941.  Á árunum 1949 til 1958 voru þessir kaflar aðeins tveir.

Á fylgiskjalinu má sjá alla þessa þíðukafla að vetrarlagi í Reykjavík frá árinu 1920.

Lengst til vinstri er ártalið en síðan kemur fjöldi daga hvers hlákukafla, síðan þeir mánuðir sem þeir falla á og eru þeir stundum tveir eins og gefur að skilja, loks koma dagsetningarnar, þegar þær eru tvær á sú fyrri auðvitað við mánuðinn sem hlákan byrjar í en en hin síðari þegar hún endar. Árið 1921 t.d. byrjar hlákan sem sagt í 11 mánuði, nóvember, þ. 26, en lýkur í 12. mánuði, desember, þ. 12.  Árið 1923 er öll hlákan í sama mánuði, febrúar,  og eiga því dagsetningarnar aðeins við hann. Og svo framvegis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nefnilega það. Janúar og desember 1987 eru eiginlega fyrstu alvöru hlýindamánuðirnir sem ég man eftir að vetralagi enda höfðu þá slíkir mánuðir ekki komið lengi.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.1.2010 kl. 00:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband