Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Methlýindi í júnímánuði

Síðasta bloggfærsla mín var um það hvað júnímánuður færi vel af stað hvað hlýindi varðar.

Nú er orðið ljóst að mánuðurinn er sá hlýjasti sem mælst hefur bæði  í Reykjavík og Stykkishólmi.

Í Stykkishólmi var byrjað að mæla seint á árinu 1845. Hlýjustu júnímánuðir þar hingað til voru árin  2007 og 1871 þegar meðalhitinn mældist 10,5 stig. Nú er hann hins vegar 10,8 stig fremur en 10,7. En vafalaust er að hitinn er meiri en mælst hefur hingað til í júní.

Í Reykjavík er meðalhitinn 11,4 stig. Það er heldur hlýrra en var í hlýjasta júní þar hingað til sem var 2003, 11,3 stig. Hægt er að átta sig á hitanum í Reykjavík í júní frá 1866 og einnig árin 1821-1853.  Júní 1830 og 1831 hafa mjög háar tölur og hærri en nú en  ekki er  rétt að gera of mikið úr þeim vegna ófullkominna mæliaðstæðna, en ljóst er þó að þessir mánuðir voru afar hlýir. En á þeim tíma sem mælingar frá Reykjavík eru sæmilega trúverðugar er ekki hægt að finna hlýrri júní en nú. 

Samkvæmt þeirri aðferð sem ég hef notað til að finna hlýjustu og köldustu mánuði á öllu landinu út frá þeim veðurstöðvum sem lengst hafa athugað og lesa má um hér á bloggsíðunni  er þessi júní sá hlýjasti á landsvísu síðan 1941 en hlýrra var einnig 1933, 1909 og líklega 1871. Miðað við það meðaltal sem nú er í gildi er mánuðurinn um það bil tveimur stigum fyrir ofan meðallag  á landinu .

Ekki virðast þó mánaðarmet hafa verið slegin nema í Reykjavík og Stykkishólmi og líklega í Borgarfirði og jafnvel í uppsveitum suðurlands og uppi á hálendinu. Hjarðarland er með met, en stöðin er ekki gömul og Hæll  í Hreppum er mjög nærri sínu meti frá 1954.  Hveravellir eru örugglega með sinn hlýjasta júní frá því mælingar hófust þar um miðjan sjöunda áratuginn. Stöðvar eins og Vestmannaeyjar, Bolungarvík, Akureyri og Kirkjubæjarklaustur halda hins vegar sínum gömlu metum og einnig stöðvar á austurlandi. Á austurlandi og norðaustanverðu landinu er reyndar einna svalast en hitinn er þar samt vel yfir meðallagi.

Mánuðurinn er ansi þurr og nær vísast varla meira en hálfri meðalúrkomu þar sem hún er mest. Á Akureyri hefur aðeins einu sinni verið þurrara í júní. Það var árið 2007 sem var afar þurr og hlýr mánuður og minnir reyndar um sumt á þennan sem nú var að líða.

Nokkuð hefur verið kvartað um sólarleysi í Reykjavík en sólskinsstundir voru þó næstum því í meðallagi. Ísland er bara ekkert sólskinsland!

Þökk sé Gagnatorginu þar sem hægt er að fylgjast með stórviðburðunum  í veðrinu jafnóðum og þeir gerast.

Það má í lokin segja að þessi júní hafi svo sannarlega sýnt meistaratakta ekki síður en fótboltaliðin í Suður-Afríku!

 

 


Sóma júnímánuður

Það er ekki hægt að segja annað en þessi júní sé góður það sem af er. Stundum á sumarið erfitt uppdráttar fram eftir júní en það sem af er þessum líkist hann fremur júlímánuði en júní víðast hvar.

Meðalhitinn í Reykjavík eftir gærdaginn er 10,9 stig eða  2,2 stig yfir meðalagi. Meðalhiti alls júlí 1961-1990, sem var reyndar kuldatímabil, er ekki nema 10,6 stig. Hiti hefur þegar komist í 19,2 stig í borginni og var það öskufallsdaginn þ. 4. Oft er mesti hiti ársins í Reykjavik minni en þetta. Sól hefur verið alveg þokkaleg og úrkoma mjög lítil, er nú (þ. 18.) aðeins  18,9 mm en hefur þó fallið á níu dögum  eða helmingi allra daga en alltaf nema einu sinni verið mjög smávægileg. Eins og fram hefur komið á bloggi Einars Sveinbjörnssonar er úrkoma á Akureyri afar lítil, 1,1mm en hvergi held ég að úrkoma hafi verið eins lítil eins og einmitt þar. Úrkoma er reyndar alls staðar langt undir meðallagi enn sem komið er.

Meðalhitinn á Akureyri er 10,4 stig og heldur minna yfir meðallagi en í Reykjavík. Það gæti þó breyst því spáð er sunnanátt og hlýindum. Á Stykkishólmi er hitinn svipað yfir meðallagi og í Reykjavík en hátt upp í þrjú stig yfir því í Bolungarvík. Á Kirkjubæjarklaustri er meðalhitinn 11,3 stig og er það yfir meðaltali alls júlímánaðar 1961-1990.

Svalast er á norðausturhorninu og er meðalhitinn á Raufarhöfn aðeins rúmt eitt stig yfir meðallagi en áreiðanlega undir meðallaginu á Fonti á Langanesi. Þar hefur verið furðulega kalt, kringum tveimur stigum kaldara en á Raufarhöfn sem er nokkuð óvenjulegt.  

Einstaklega hlýtt hefur verið á hálendinu og  ef hitinn á Hveravöllum heldur sér til mánaðarloka stefnir í hlýjasta júní sem þar hefur mælst. Tiltölulega enn hlýrra og jafnvel í beinum tölum virðist þó vera á Sprengisandi. 

Hiti hefur farið í tuttugu stig eða meira einhvers staðar á landinu á helmingi allra daga. Hins vegar hafa frostsdagar á láglendi verið sjö þrátt fyrir hlýindin.

Nú er kominn 17 stiga hiti í Reykjavík og má vel vera að meðalhitinn mjakist upp í ellefu stig eftir daginn eða hinn daginn. Fyrir norðan og austan er sums staðar kominn yfir 20 stiga hiti. Hlýtt loft er nú yfir landinu og frostlaust hátt upp í 4 km hæð. Þykkt 500 hPa flatarins, en því þykkari  sem hann er því meiri líkur á hlýindum, er nú sú mesta sem komið hefur það sem af er sumri. Gert er ráð fyrir hlýindum næstu daga svo meðalhitinn á landinu heldur sér líklega eða jafnvel eykst. Þegar hitafrávik er orðið svona mikið eins og nú er þarf  ekki marga svala daga til að það hrynji. En það verður samt í það minnsta ekki á næstunni.

Ég undra mig á því hvers vegna ekki berast úrkomuupplýsingar frá Kvískerjum, úrkomustöð landsins númer eitt. 

Miðlun rita Veðurstofunnar til almennings er vel þeginn af öllum veðurfönum. En gaman væri ef hægt væri líka að birta almenningi gömul  og óeinfölduð veðurkort sem snillingarnir á Veðurstofunni geta galdrað fram fyrir sjálfa sig. Og ekki spillti að birt væru líka háloftakort en slík kort er reyndar víða að finna á netinu. Mér finnst líka vanta að menn geti flett upp mánaðarmeðaltölum fyrir hæðir og þykkt þrýstiflatanna og hitann í þeim yfir Keflavík en það hef ég hvergi fundið. Hins vegar er hægt að sjá þetta nokkra áratugi aftur í tímann fyrir hvern dag á netinu

En það eru annars árans vandræðin með þessi hlýindi. Eiga menn ekki að vera alveg í sjokki yfir þessum bévítans gróðurhúsáhrifum? Það er samt huggun þungum harmi gegn að hafís er að læðast inn á Húnaflóa! 


Hæglætissumar

Ég trúi ekki á það að verði í votara lagi hér í sumar eins og sumar spár gera ráð fyrir.

Okkur Mala, en hann er minn helsti ráðgjafi í veðurmálum sem öðru, finnst endilega að það verði fremur þurrt sumar með hæglætisveðri og góðvirði en oft kuldaþræsingi á útsnesjum fyrir norðan og austan. Svolítið í stíl við það sem hefur verið síðustu daga eða sumarið 1957.

En kanski sjátlast okkur Mala með þetta.


Gleymdist að setja á myndbandið

Svifryk fer yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík í dag og jafnvel líka á morgun. 

Mistrið er augljóst í Reykjavík núna og ekki sérlega geðslegt að líta í kringum sig en ekki sést til fjalla.

Fólk sem er veikt í lungum, eins og ég t.d. núna, er hvatt til að vera heima. Nú er 18 stiga hiti á öllu Reykjavíkursvæðinu og um og yfir 20 stig í Borgarfirði. Það er alls ekki útilokað að þetta verði mesti hiti sumarsins á þessum slóðum.

En fólk er hvatt til að vera inni!

Reykjavík er ansi langt frá upptökum öskunnar. Samt er hún hér svona augsýnileg. Og það mun hún líklega verða í allt sumar hér og hvar á landinu, jafnvel dögum saman, eftir því hvernig vindur blæs á hverjum stað. Mest þó sem nær dregur elstöðvunum. Heilsufarsmörk svifryks eru 50  mikrógrömm en voru áðan 3000 á Hvolsvelli en 440 í Reykjavík.

Þetta er hin eldfjallalega og veðurfarslega staðreynd málsins. 

Það gleymdist samt alveg að minnast á hana í þessu myndbandi sem á að telja útlendinga á að koma til Íslands.

Í rauninni er verið að blekkja þá  og ljúga að þeim um þann náttúrufarslega veruleika sem hér ríkir. Meira um öskuna. 

Myndin af vefmyndavél Veðurstofunnar sem snýr upp í vindáttina segir sína sögu.  Myndin stækkar ef smellt er nettlega á hana.

100604_1430.jpg

 


mbl.is Aska svífur yfir Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sambandslaust

Írska flutningaskipið Rachel Corrie sem er á leið til Gaza er nú sambandslaust. Talið er að Ísrael hafi rofið samband við skipið.

Svo segir hér í fréttinni.

Skipuleggjendur ferðarinnar vildu að skipið færi til hafnar til að fá fleiri þekkta farþegar um borð og fjölmiðlafólk. En svo virðist sem ekki hafi verið hægt að koma skilaboðum til skipsins um þetta.

Mér sýnist stjórnvöld í Ísrael líta á þá sem voru á skipinu sem ráðist var á sem  óðan múg og  hryðjuverkamenn og spurning hvort þeir líta ekki sömu augum á þá sem eru á Rachel Corrie. 

Haft er eftir einhverjum hernaðarpótentáta að Ísraelar hafi unnið skemmdarverk á Rachel Corrie og fylgiskipum þess. Og sagt er að sama flotadeild muni ráðast um borð í skipið og drap 9 menn um daginn.  

Hér og hér má lesa írskar frásagnir af málinu þar sem þetta kemur fram.

 


mbl.is Ekki samband við flutningaskip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitnisburður

En sumir munu vísa vitnisburði allra á bug með fyrirlitningu nema þeim sem kemur frá ísraelskum yfirvöldum.

 


mbl.is Lýsir svívirðingum ísraelskra lögreglumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð spurning

„Hvað mun gerast á næsta ári þegar við komum aftur með hundruð skipa? Munu þeir varpa kjarnorkusprengju?" sagði Mankell við fréttastofuna TT þegar hann kom til Gautaborgar í nótt.

Góð spurning. 


mbl.is Mankell segir árásir Ísraelshers hrottafengnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lexían

Ísraelsmenn segjast stöðva öll skip sem reyna að sigla með hjálpargögn til Gaza.

Aðgerðir þeirra í gær áttu auðvitað að kenna öllum þá lexíu hvað bíði þeirra sem reyna.

Þeir verði sallaðir niður.

Ég hef trú á því að um borð í þessum skipum sé  mestan part venjulegt fólk en ekki neinir hryðjuverkamenn en orðið aðgerðasinnar er notað í þeirri merkingu af Ísraelsmönnum og fleirum. Vel má vera að þar séu einhverjir  hatursmenn Ísraelsríkis. Það breytir ekki því að um vopnlausa almenna borgara er að ræða. Og það má kannski líta á þetta sem mótmæli vopnlausra  borgara gegn aðgerðum ríkis. Ekki ósvipað mótmælum borgara gegn pólitískum valdhöfum innan ríkis. 

Það er ekki hægt að líða það að slíkum aðgerðum almennra borgara gegn ráðslagi ríkja í heiminum, hver sem þau eru, sé svarað með blóðugri hernaðaraðgerð af best þjálfuðu og miskunnarlausustu sérsveit herveldis.

Vonandi er þetta upphafið á því að almenningur um heimsbyggðina rísi upp gegn  svona framferði.

Besta svarið væri að almennir borgarar stefndu stórflota til Ísraels en færu með algjörum friði. 

En mönnum er auðvitað annt um líf sitt svo þetta verður kannski ekki.

Terrorismi og glórulaust ofbeldi er vissulega árangursrík aðferð.

 


mbl.is Annað skip á leið til Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband