Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Fréttaskýring

Það er engum blöðum um það að fletta eða snjóboltum um það að kasta að þetta kuldakast stafar af gróðurhúsaáhrifunum og hinni ógurlegu hlýnun jarðar. 

Öfgar í veðurfari (og hvers kyns óárán) fylgja henni eins og allir vita!

En í mínu ungdæmi hefði veður af þessu tagi reyndar verið kallað stórhríðarveður eða bara stórhríð.


mbl.is Níu látnir eftir óveður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýjustu októbermánuðir

1915 (7,4°) Október 1915 er talinn hlýjasti október í sögu mælinga á landinu. Meðalhitinn var 3,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Í Reykjavík var hann 7,9 stig en 8,4 stig í Vestmannaeyjakaupstað. Það er mesti meðalhiti á landinu sem mælst hefur nokkurs staðar í október fyrir utan Andakílsárvirkjun 1959 sem maður veit ekki almennilega hvort maður á að taka alvarlega. Í Eyjum er þetta úrkomusamasti október sem mældist þar meðan mælt var í kaupstaðnum frá 1881 til 1920 og næst úrkomusamasti á Teigarhorni. Úrkoman var meira en tvöföld meðalúrkoma á þessum stöðvum. Mánuðinn reikna ég þriðja úrkomusamasta október á landinu. 1915_10_850.pngÁ Stóranúpi í Hreppunum var meðalhitinn 8,0 stig sem er með ólíkindum í október á veðurstöð langt inni í landi. Mánuðurinn var sá hlýjasti sem komið hefur á suður og suðvesturlandi og á austfjörðum. Meðalhitann á þeim fáu stöðvum sem athuguðu sést á litla kortinu. Sérlega hlýtt var í fyrstu vikunni, þann fjórða komst hitinn í 19 stig á Akureyri og 18 á Seyðisfirði. Á Grímsstöðum á Fjöllum var 14-15 stiga hámarkshiti alla dagana frá 3.-7. Í Grímsey fór hitinn hærra en bæði fyrr og síðar í október, í 15 stig, þ. 3. Ekki voru hámarks- eða lágmarksmælingar í Reykjavík þennan mánuð en lesið á hitamæla þrisvar á dag. Aldrei var lesið frost af mælinum, lægsta talan var 2,5 stig yfir frostmarki síðasta daginn. Á Vífilsstöðum voru hins vegar lágmarksmælingar og fór hitinn ekki lægra en 1,0 stig yfir frostmarkinu og var það líka síðasta dag mánaðarins. Það má eiginlega slá því föstu að ekki hafi heldur frosið í Reykjavík allan mánuðinn. Þann 1. nóvember segir Morgunblaðið frá því að fyrsta næturfrostið hafi orðið í fyrrinótt, 31. október, og hafi ekki orðið jafn seint í mannaminnum en vanalega séu margar frostnætur í októbermánuði. Áreiðanlega er þarna átt við hélu á jörð en ekki frost í venjulegri mælingahæð. Á Ísafirði töluðu menn um það fyrsta vetrardag að fara inn í dal í berjamó, segir í Fréttum þ. 24.                                                                                  

okt_1915.gifEkki mældist heldur frost í Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Arnarbæli í Ölfusi og Vestmannaeyjabæ, en Stórhöfði var þá enn ekki orðin veðurstöð. Í kaupstaðnum var lágmarkið 3,9 stig. Á Akureyri mældist hins vegar dálítið frost. Engar snjómælingar voru gerðar í þessum október en víst er að snjór á landinu hefur lítill verið eða enginn í byggð. Blaðið Suðurland segir frá því þ. 23. að enginn snjór hafi þar fallið við sjóinn í haust. Blaðið var gefið út á Eyrarbakka. Það skýrði svo frá því 9. nóvember að fyrsta frostnóttin hafi ekki komið fyrr en vika var af nóvember. Lægsti hiti mánaðarins á landinu mældist -4,0 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Er það hæsta mánaðarlágmark á landinu í nokkrum október. Morgunblaðið skrifaði þ. 27.: „Um þetta leyti í fyrra var kominn ís á Tjörnina. Nú er hér hver dagurinn öðrum hlýrri - alveg eins og á vori væri. Eru ekki margir dagar síðan útsprunginn fífill fanst hér uppi á túnum. Lauf er enn eigi fallið af trjám í görðum hér og mörg tré  hafa enn græna laufkrónu." Vísir skrifar þ. 30.: „Maður kom með 3 útsprungna fífla inn á skrifstofu Vísis í gær, sagði, að á Austurvelli væri krökt af nýútsprungnum fíflum". Næsta dag segir blaðið frá því að kvöldið áður hafi norðurljós verið ákaflega mikil, allt suðvestur loftið hafi verið eitt ljóshaf. Síðasta dag mánaðarins skrifaði Ó. J. í Vísi:

1915_10_850t_an.png „Nú er ein vika af vetri. - Enga verulega breytingu á veðráttunni er þó að sjá, frá því í sumar, aðra en þá, að rigning hefir verið undanfarna daga, en sama hlýviðrið og í sumar. Hiti oftast 8-11 stig um daga, þó loft sé dimt. Grös falla lítt á túnum, en tré standa mörg í blóma. Tré eitt stendur undir húshliðini hjá mér og hafa greinar þess lengst um hálfan meter í sumar, að minsta kosti sumar þeirra, og laufguðust vel. Fyrir rúmri viku voru flestöll sumarblöðin fallin af trénu. En þá komu í ljós nýir blaðknappar og springa blöðin nú óðum út á öllum greinum trésins. Þetta mun vera víðar í trjágörðum hér, eftir því sem eg hefi séð. En fágætt mun það þó vera hér á landi á þessum tíma árs.''

Við þetta má því bæta að varla hefur þetta nokkurn tíma gerst áður í Reykjavík í tíð þá lifandi manna og jafnvel enn í dag.

Þess má geta að vitað er um tvo aðra alveg frostlausa októbermánuði í Reykjavík, í þeim góða mánuði 1939 og árið 1963 sem var þó ekkert sérstaklega hlýr.  

Hæðasvæði var oftast yfir Norðurlöndum, en stundum yfir Bretlandseyjum, í þessum mánuði en lægðir fyrir suðvestan eða sunnan land. Þetta mun vera einna allra mesti sunnanáttamánuður í október sem um getur. Sjá litkortið sem sýnir hæð 850 hPa  flatarins í um 1400 m hæð. Hitt litkortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í þessari hæð. Aldrei brá til norðanáttar en loftstraumar báru hlýtt loft til landsins sunnan úr höfum en síðasta þriðjung mánaðarins frá Evrópu. Mjög þungbúið var syðra. Á Vífilsstöðum var sól mæld í aðeins 17 klukkustundir og hefur svo lítið sólskin aldrei mælst í Reykjavík eða nágrenni síðan sólskinsmælingar hófust þar árið 1911.          

1946 (7,3°) Fyrir norðan hefur þessi mánuður betur í hlýindum en 1915 og er þar sá hlýjasti sem mælst hefur. Og sömu sögu er raunar að segja um Vestfirði og Stykkishólm. Einnig Hrútafjörð þar sem mælingar ná aftur fyrir 1915 en á Úthéraði þar sem mælingar ná enn lengra aftur var lítillega  kaldara en 1915. Þessir mánuðir mega teljast jafningar að hita. Mánaðarmeðalhitinn á landinu 1946 var mestur í Grindavík, 8,3 stig. Meðaltal hámarkshita á Hofi í Vopnafirði var 11, 2 stig og er það hæsta sem skráð er á nokkurri veðurstöð í október og væri þetta vel boðlegt í júní. Þetta er með allra mestu sunnanáttamánuðum í október en með suðvestlægum blæ og mældist úrkoman á Höfn í Bakkafirði, norðaustan á landinu, einungis 0,1 mm, það minnsta sem mælst hefur á veðurstöð í nokkrum október. Hæðarsvæði var langtímum saman viðloðandi austan og suðaustan við landið og teygði  stundum anga sína inn á það, einkum austurland. 1046_10_09.gifKortið af stöðu mála við jörð og í 500 hPa fletinum þ. 9.  er ekki ólíkt því sem oft var þennan mánuð. Þess má geta að næsta dag sást mikill fjöldi víghnatta frá Kópaskeri og víðar á norðausturlandi og var talið að þeir væru leifar halastjörnu. Þurrviðrasamt var sem sagt á norðausturlandi en úrkomusamt sunnanlands og var þetta til dæmis fjórði úrkomusamsti október í Reykjavík. Þar var þetta annar sólarminnsti október sem mælst hefur. Á Akureyri var hins vegar tiltölulega sólríkt og þar er þetta fjórði sólríkasti október. Úrkoman í þessum mánuði var í heild aðeins lítillega meiri en í meðallagi 1931-2000. Mest var hún í Kvígyndisdal við Patreksfjörð, meira en tvöföld meðalúrkoma. Snjólag á landinu var aðeins 3%, hið næst lægsta í nokkrum október. Lægst var það 2% í október 1928 sem var mildur en ekki í röð allra hlýjustu októbermánaða og einnig árið 2000. Meðaltal snjólags í október allra mánaða frá 1924 er 17%. Á fjöllum, ofan 600 metra, var snjóhula aðeins 13% 1946 og er sú minnsta sem mælingar ná yfir frá 1935. Hlýjast var dagana 6.-10. og fór hitinn í 19,2 stig á Húsavík þ. 9. Sama dag mældust á Akureyri 17,8 stig og hefur hiti aldrei mælst jafn hár þann dag á þeim stað. Á Hofi í Vopnafirði fór hitinn í átján stig þ. 6. Í Stykkishólmi mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í október og það meira að segja tvisvar sinnum, 16,0 stig þ. 9. og. 12. Þó hlýtt væri varð mánuðurinn hvergi alveg frostlaus.  Kaldast varð -7,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn þ. 27. Kort fyrir meðalhita mánaðarins er hér fyrir neðan.

Þann fyrsta voru kveðnir upp dómar í stríðsglæparéttarhöldunum yfir nasistum í Nürnberg. Þeir sem hlutu dauðadóma voru síðan hengdir þ. 16. Keflavíkursamningurinn var samþykktur þ. 5. og olli hann miklum deilum. Daginn áður voru bein Jónasar Hallgrímssonar flutt til landsins og olli það vafstur ekki minni deilum. 

okt_1946_1117610.gif
  

1959 (7,2°) Á Fagurhólsmýri hefur ekki komið jafn hlýr október sem þessi, 7,7 stig. Á rafstöðinni í Andakíl var meðalhitinn 8,6 stig. Það er mesti meðalhiti sem mælst hefur á veðurstöð í október á landinu en þess ber að gæta að stöðin var í miklu skjóli svo þetta er kannski ekki að alveg að marka. Mikil hlýindi ríktu dagana 5.-10. Í Reykjavík var sá níundi líklega hlýjasti októberdagur að meðalhita sem þar hefur komið síðan byrjað var að mæla og örugglega síðustu 75 ár, 12,7 stig, en hámarkshitinn var 14,5 stig (14,8 í Heiðmörk) og daginn eftir var meðalhitinn 12,3 stig. Þetta var þó ekki hlýjasti dagurinn á landinu að meðalhita. Það var sá sjötti en þá var meðalhiti landsins 12,7 stig og hefur ekki orðið jafn hlýr dagur í október eftir 1948 að minnsta kosti. Þennan dag komst hitinn á Seyðisfirði í 20,9 stig sem var mesti hiti mánaðarins. Allir þessir dagar settu dagshitamet í Reykjavík. Þeir 9. og 10. eru hins vegar taldir fjórðu og tíundu hlýjustu októberdagar að meðalhita á landinu að því er segir á bloggsíðu Trausta Jónssonar. Allvíða, einum norðvestantil á landinu og sums staðar á norðausturlandi, mældist mesti hámarkshiti sem mælst hefur í október. Meðaltal hámarkshita var 10,9 stig í Fagradal og á Skriðuklaustri. Á Sámsstöðum var það 10,2 stig og hefur ekki orðið hærra í október á veðurstöð á suðurlandi. 1959_10_850_tan.pngAldrei mældist frost á Hellissandi, Flatey á Breiðafirði, Hvallátrum, Kvígyndisdal, Galtarvita, Æðey og Keflavíkurflugvelli. Ber voru óskemmd fram undir mánaðarmót. Snjólag var aðeins 4% á landinu. Fyrir norðan var talin einmunatíð en vestanlands og sunnan var mjög úrkomusamt. Suðlæg átt var auðvitað ríkjandi. Hitafarið var nokkuð svipað um landið og 1915 og 1946. Kortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð.  Frostmarkshæð yfir Keflavík var að meðaltali í 1360 metra hæð. Þykktin yfir landinu var svipuð og 1965 en þó heldur meiri á norðausturhorninu en þá, sjá þykktarkortið fyrir október 1965 hér að neðan. Loftþrýstingur var mjög lágur en vætusöm suðaustanátt var yfirgnæfandi. Lægðir voru  framan af djúpt suður í hafi eða á Grænlandshafi með miklum hlýindum en mikilli úrkomu en er á leið var lægðagangur nær landinu og áfram miklar úrkomur.  Úrkoman var meiri á Eyrarbakka og Stórhöfða en hún hefur orðið í nokkrum október. Einnig við rafstöðina við Elliðaár við Reykjavík en ekki á sjálfri veðurstöðinni í Reykjavík sem þá var á flugvellinum. Þar var hún hins vegar sú þriðja mesta sem mælst hefur. Yfir landið í heild virðist þetta vera fimmti úrkomusamasti október síðan mælingar hófust eftir mínu tali. Mest var úrkoman á veðurstöð 430 mm í Vík í Mýrdal. Sólinni var ekki fyrir að fara syðra  og er þetta fimmti sólarminnsti október í Reykjavík í hundrað ár.

Þann 26. voru fyrstu myndirnar teknar af  af þeirri hlið tunglsins sem ekki sést frá jörðu. Þann 30. lauk í Júgóslavíu áskorendamótinu um heimsmeistaratitilinn í skák og var Friðrik Ólafsson þar meðal keppenda.         

1920 (6,9°) Þeir mánuðir sem nú hafa verið taldir eru í sérflokki og nokkuð bil er niður í þennan fjórða hlýjasta október. Mjög hlýtt var í byrjun mánaðarins með suðaustlægri átt, sérstaklega fyrstu fimm dagana, og fór hitinn þá í 12-13 stig í Reykjavík. Í Grímsey komst hitinn í 14,6 stig þ. 9. sem er með því allra mesta sem þar hefur mælst í október og á Grímsstöðum fór hitinn í 14,1 stig þ. 6. sem er líka með því hæsta sem þar hefur mælst í þessum mánuði. Mestur hiti á landinu varð aftur á móti  17,8 stig á Seyðisfirði. Þann 11. snérist til svalari vestanáttar og loks norðaustlægar áttar með mjög vægu kuldakasti. Fór frostið þann 19. í -6,9 stig á Grímsstöðum og var þar þá nokkur snjókoma. Eina nótt fraus ofurlítið í Reykjavík, -0,5 stig þ. 13. en frostlaust var allan mánuðinn í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum. Fljótlega eftir litla kuldakastið dró aftur til suðaustlægra átta með hlýindum, þó ekki væru þau eins sterk og fyrstu dagana og héldust þau til mánaðarloka. Almikil úrkoma var á suðurlandi.  

Þýska tónskáldið Max Bruch, sem einkum er þekktur fyrir fyrsta fiðlukonsert sinn, sem reyndar er einhver vinsælasti og mest spilaði fiðlukonsert sem til er, lést þ. 2. og var þá orðinn 85 ára gamall.

1908 (6,8°) Þessi hlýi mánuður er úrkomusamasti október sem mælst hefur á landinu eftir mínu tali (sjá skýringar) og einnig út af fyrir sig á Teigarhorni, 382,9 mm. Eftir fyrstu vikuna mátti heita á staðnum nær stöðugar stórrigningar, mest 89 mm að morgni hins 9. Í Vestmannaeyjum er þetta fjórði úrkomumesti október. Frá þeim 9. til mánaðarloka voru stórrigningar marga daga á austfjörðum og suðurlandi. Lægðir voru mjög þrálátar á Grænlandshafi og fyrir suðvestan land og lágur loftþrýstingur á landinu. Á Seyðisfirði mældist hitinn 16 stig þ. 5. en aldrei varð kaldara en -5,3 stig, á Möðruvöllum. Víða var frostlaust þar til síðasta daginn. Hýindi voru svo að segja stöðug þangað til. Einna hlýjast varð þó seint í fyrstu vikunni og mældist mesti hiti á landinu 16,0 stig þ. 5. á Seyðisfirði. Í Reykjavík, Stykkishólmi, Seyðisfirði, Teigarhorni, Papey, Fagurhólsmýri og Eyrarbakka kom aldrei frost. Eins og allir þeir mánuðir sem hér hafa verið taldið var þetta með mestu sunnanáttamánuðum í október. 

Fyrsta dag mánaðarins tók Kennaraskólinn til starfa.

Októbermánuðurnir sem komu eftir tvo hlýjustu septembermánuði sem mælst hafa komast hér hver á eftir öðrum inn á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði.

1939_10_500_an.pngOktóber 1939 (6,6°) kom eftir næst hlýjasta september. Þessi október er sá þurrasti sem mælst hefur á Akureyri og einnig á Nautabúi í Skagafirði (4,7 mm) Grímsstöðum á Fjöllum, Húsavík (4,6), Raufarhöfn (7,0), Siglunesi (7,7), Sandi í Aðaladal (2,4) og Reykjahlíð (7,2). Úrkoman á Grímsstöðum var 0,6 mm sem féllu á einum degi. Norðlægar áttir voru mjög sjaldgæfar en suðvestanátt var algeng. Hægviðrasamt var og stillt. Tiltölulega sólríkt var fyrir norðan og á Akureyri er þetta fimmti sólrikasti október. Hlýjast varð 16,5 stig þ. 4. á Húsavík. Í Miðfirði mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í október, 14,6 stig á Núpsdalstungu þ. 6. Kaldast varð -13,0 stig á Grímsstöðum þ. 26. Þessi mánuður var svo auðvitað lokahnykkurinn á því  eindæma góðæri sem ríkt hafði á landinu alveg síðan í mars. Kortið sýnir frávik hæðar í 850 hPa fletinum og hefur mesta frávikið upp á við gert sig heimakomið yfir landinu.

Þjóðverjar hófu innreið sína inn í  Varsjá þann fyrsta eftir að hafa gjörsigrað pólska herinn. Þann 12. byrjaði Adolf Eichmann að flytja tékkneska gyðinga til Póllands. Og í síðustu vikunni var hinn illræmdi Hans Frank skipaður landsjóri Þjóðverja í Póllandi. Eftir stríðið var hann hengdur fyrir stríðslæpi. 

1941_10_500_an.pngBróðir þessa mánaðar, október 1941 (6,2°), kom í kjölfar hlýjasta september sem komið hefur (annars er ekki hægt að segja að  nokkur hitamunur sé á september 1939 og 1941). Hann er sá þurrasti sem  mælst hefur á Teigarhorni, 9 mm. Hitinn fór í 18,0 stig þ. 5. á Sandi í Aðaldal 1941 en kaldast -12,0 á Grímsstöðum þ. 21. Þessir tveir októbermánuðir, 1939 og 1941, voru nokkuð öðru vísi en aðrir mánuðir sem hér er fjallað um. Loftþrýstingur var venju fremur hár á landinu í þeim og fremur lítil úrkoma. Í október 1939 fraus ekki í Reykjavík, Arnarstapa á Snæfellsnesi, Vík í Mýrdal og í Vestmannaeyjum. Árið 1941 fraus ekki á Arnarstapa og í Eyjum. Lítill snjór var báða þessa mánuði, 7% 1939 en 8% 1941, og víðast hvar snjólaust á suður og vesturlandi. Kortið sýnir frávik hæðar í 850 hPa fletinum.

Í stríðinu var það efst á baugi í október 1941 að Þjóðverjar sóttu mjög að Moskvu en tókst þó aldrei að vinna borgina.

1965_10_thick_an.png1965 (6,3°) Í þessum mánuði var sá 20. hlýjasti októberdagur sem mælst hefur að meðalhita á Akureyri frá a.m.k. 1949, 14,9 stig, með hámarkshita upp á 17,6 stig. Á Raufarhöfn kom þá og októbermetið, 17,2 stig. Daginn áður mældist mesti hiti mánaðarins á landinu, 18,9 stig á Garði í Kelduhverfi sem er þar reyndar októbermet í að vísu ekki langri mælingasögu. Síðustu dagana kólnaði mikið og snjóaði fyrir norðan. Komst frostið þá niður í 11,2 stig á Staðarhóli þ. 30. Snjólag á landinu var 7%. Á suður- og vesturlandi var mjög votviðrasamt og urðu miklar vegaskemmdir í stórrigningum um þ. 20. Þann dag var sólarhringsúrkoman á Kvískerjum 125 mm en mánaðarúrkoman var þar  768,9 mm sem er með því mesta sem gerist. Á Skógum undir Eyjafjöllum (433,9 mm), Ljósafossi (474,9) og Hveravöllum (264,3) mældist met mánaðarúrkoma í október.  Og síðast en ekki síst í Stykkishólmi. Sólarlitið var um land allt. Næsti október á eftir þessum, 1966, var hins vegar sá sólríkasti í Reykjavík og sá þurrasti sem komið hefur á landinu í mælingasögunni. Hæð var iðulega yfir Bretlandi eða Norðursjó í október 1965. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu sem var æði mikið en því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra. Hún var svipuð 1959 en minni í öðrum októbermánuðum, a.m.k. eftir 1946.   

Malbikuð Reykjanesbrautin var opnuð þ. 26. og daginn eftir voru sett lög um Landsvirkjun. 

1945 (6,1°) Október 1945, sem er þá 9. hlýjasti október, var snjóléttur, snjóhula 8%. Jörð var alauð á suður og vesturlandi og aðeins fáa daga var snjór fyrir norðan. Í vestanátt þ. 5. mældist  mesti októberhiti sem komið hefur í Hornafirði, 17,6 stig á Hólum, en sama dag fór hitinn á Teigarhorni í 19,3 stig, sem þar er líka októbermet, og 18,7 á Sandi í Aðaldal. Hæð var sunnan við land þessa daga og framan af mánuðinum með vestlægum vindum en síðar varð austanátt algeng vegna lægða suður í hafi. Veður voru hæglát. Aldrei varð kaldara en átta stiga frost og var það á Grímsstöðum þ. 27. Fremur úrkomulítið var víðast hvar en þó ekki í Vestmannaeyjum. En það var líka sólarlítið og er þetta þriðji sólarminnsti október í Reykjavík. Dálítið er Það merkilegt að næsti október á eftir þessum er sá annar eða hlýjasti október sem komið hefur, 1946.        

Þann tíunda var nýi Sjómannaskólinn vígður í Reykjavík. Stríðlæparéttarhöldin yfir þýskum nasistum hófust þ. 19. Norðmaðurinn Vidkun Quisling, hinn eini og sanni kvislíngur,  var tekinn af lífi þ. 23.

1985101418.gif1985 (5,9°) Sá hlýi október sem næstur okkur er í tíma og kemst inn á topp tíu listann er 1985. Í  Grímsey og á Akureyri er  hann sá úrkomusamasti sem mælst hefur. Meira en þreföld  meðalúrkoma var á Akureyri. Það var líka úrkomusamt á vesturlandi og þetta er annar úrkomusamasti október í Stykkishólmi. Einnig var úrkomusamt á Vestfjörðum. Á Hólum í Dýrafirði var mánaðarúrkoman 526 mm og sólarhringsúrkoman þ. 22. var 150,3 mm og urðu þá mikil skriðuföll á Vestfjörðum. Lægðagangur var tíður við landið en suðvestanátt var algengust. Ótrúlega hlýtt var dagana 14.-15. þegar hitinn komst í 22,0 stig á Seyðisfirði, 21,5 á Dalatanga, 20,9 á Kollaleiru og 20,7 á Neskaupsstað. Á Akureyri mældist mesti hiti sem þar hefur komið í október þ. 15., 19,5 stig. Lægðasvæði var þann dag suður af Grænlandi en hæð var yfir Bretlandseyjum og var hún þar í grennd á sveimi nær allan mánuðinn en var komin suður af Íslandi síðasta daginn. Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins kl. 18 þann 14. Þyktkin yfir Keflavík fór í þessari hlýindagusu upp í um 5600 metra og hitinn í háloftunum var um 10 stig yfir meðallagi og svipað við jörð þegar mest var. Mjög hlýtt varð einnig seinast í mánuðinum. Jörð var lengst af alauð og þíð. Snjólag var 6%. Af kuldum er það að segja að í Möðrudal fór frostið í -10,2 stig þ. 10. en ekki þykir það sérlega mikið á þeim stað.

Kvikmyndaleikarinn Rock Hudson lést þann annan og var fyrsti heimsfrægi maðurinn sem dó úr eyðni eða alnæmi.

Enginn október fyrir 1865, sem hér er helsta viðmiðunarárið, nær því að vera með allra hlýjustu mánuðum eftir hita að dæma á þeim fáu stöðvum sem þá athuguðu. Hlýjastir voru árin 1856 sem eftir mælingum í Stykkishólmi var svipaður og 1965 og svo 1828 sem í Reykjavík var áþekkur 1985. 

Í fylgiskránni eru tíu hlýjustu októbermánuðir á landinu fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað, ásamt úrkomu og sól.    

Skýringar.

    

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu októbermánuðir

Eins og áður er miðað við þær 9 veðurstöðvar sem lengst hafa athugað. Meðalhiti þeirra er í sviga aftan við hvert ár en nánari tölulegar upplýsingar eru í fylgiskjalinu. Meðalhiti stöðvanna 1961-1990 er 3,9 stig.

okt_1917_1117493.gif1917 (-0,1) Þetta er greinilega kaldasti október á öllu landinu eftir 1865 þó það hafi ekki gilt um Reykjavík. En í Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey og á Akureyri er þetta kaldasti mældi október. Það einkenndi mánuðinn auk kuldanna að mörg aftakaveður gerði, flest af norðri eða norðaustri. Eftir hlýindi fyrstu tvo dagana skall á norðan ofsaveður og kuldar þ. 3. Á Ólafsfirði brotnuðu og sukku 4 bátar og tvö skip sleit upp á Siglufirði og ýmsir fleiri skaðar urðu. Í kjölfarið voru stórhríðar víða og kom mikill snjór. Þann 7. var þvílíkur hríðarylur á Hellisheiði að hún var tæplega fær. Þann 12. kom annað illviðri af norðaustri með hörkufrosti um land allt. Sunnanóveður skall hins vegar á þ. 19. og komst þá hitinn á Seyðisfirði í 11,0 stig, en síðasta illviðrið var þ. 25. og var af norðri. 1917_10_500t_an_1117540.pngMjög kalt var alla síðustu vikuna og var þá mikið frost allan sólarhringinn nær alls staðar og talsverður snjór. Meðalhitinn á Grímstöðum í mánuðinum var -4,1 stig, sá lægsti sem þar hefur mælst í október. Fyrstu tvo dagana og aftur 16. til 20. var þar dálítil hláka en annars voru stöðug frost, mest -17,0 stig þ. 28. Flesta frostdagana snjóaði á Grímsstöðum. Snjór þó  nokkur var á landinu seinni hluta mánaðarins. Þetta haust, október til nóvember, er hið kaldasta sem mælst hefur á landinu fyrir utan haustin 1824 og 1841 og var þetta kalda haust 1917 reyndar undanfari frostavetrarins 1918. Kortið sýnir ætlað frávik hitans frá meðallagi í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.   

Njósnarinn frægi, Mata Hari, var tekin af lífi þ. 15. 

1926 (0,4) Þetta er kaldasti október sem mælst hefur á Teigarhorni, Fagurhólsmýri og á Hæli í Hreppum. Snemma settist að með frosti og snjó, kringum þ 8.-9. víða. Mánuðurinn byrjaði þó ekki kuldalega því þann þriðja komst hitinn i 15,7 stig á Hvanneyri sem er reyndar mesti októberhiti sem þar hefur mælst í nokkuð slitrótti mælingarsögu. 1926_10_850t_an_1117542.pngEn þessi mildi stóð ekki lengi. Dagana 7. til 13. var víðast hvar snjór en hann lág þó ekki lengi á sunnanverðu landinu. Síðustu vikuna var hins vegar sannkallað vetrarríki nær alls staðar og síðasta daginn fór frostið á Grímsstöðum niður í -19,3 stig. Sólríkt var í Reykjavík eins og verða vill í mjög köldum októbermánuðum þegar norðanátt er þrálát og er þetta þar fjórði sólarmesti október. Mánuðurinn var þurr á landinu og úrkoma aðeins um helmingur meðalúrkomu. Alls staðar var þurrviðrasamt og kannski nær mánuðirnn inn á topp tíu listann yfir þurrustu októbermánuði. Fyrir norðan var víðast hvar alhvítt í meira en 20 daga. Mest var snjódýpt 70 cm í Fagradal í Vopnafirði þ. 31. Snjóhula á landinu var hin næst mesta í október, 51%, á landinu en meðaltalið frá 1924 er 17%,  og enginn október hefur haft eins fáa alauða daga í Reykjavík, 21 dag, en alhvítt var þar í fimm daga. Loftvægi var óvenjulega hátt, 1016,7 hPa í Reykjavík en 1018,4 á Ísafirði. Hæst stóð loftvog 1033,6 hPa á Teigarhorni síðdegis þ. 18. Kortið sýnir ætlað frávik hitans í 850 hPa fletinum i um 1400 m hæð. Mikill jarðskjálfti varð á Reykjanesi þ. 25. og slokknaði á vitanum. 

Um miðjan mánuð kom fyrst út sagan um Bangsímon eftir A. A. Milne.

1896 (0,5) Fremur var þurrviðrasamt á landinu en tíðin þótti óstillt. Mánuðurinn hófst með hlýindum og komst hitinn þann fyrsta í 12,8 stig á Teigarhorni. Norðan ofsaveður var dagana 2. til 7. sem þótti eitt hið hvassasta í manna minnum. 1896_10_850_1117508.pngMikil snjókoma fylgdi veðrinu fyrir norðan og austan og urðu af allmiklir fjárskaðar, einkum á austurlandi. Í Reykjavík var alveg þurrt fyrstu tíu dagana en suma daga úrkomusamt eftir það. Í mánaðarlok var þar auð jörð. Kuldatíð ríkti þó eftir miðjan mánuð. Fyrir austan fjall var hnésnjór síðast í mánuðinum og þótti þetta ekki góð veðrátta ofan í landskjálftana miklu sem komu síðla sumars. Mest frost varð í Möðrudal, -15,7 stig. Meðalloftvægi var hátt, 1017,5 hPa í Stykkishólmi. Hæðir voru oft vestan við land en lægðir suðaustan við það og norðanstrengur yfir landinu. Kortið sýnir stöðuna í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Jónas Jónassen lýsti svo tíðrfarinu í Reykjavík í nokkrum blöðum Ísafoldar:

Hefir verið útnorðanátt, opt hvass, hlaupið í útnorðrið og aptur í norður, optast bjart veður. Snjóað mikið í fjöll h. 2. (3.okt.). - Afspyrnu-norðanrok hefir verið hjer síðan 3. og kafaldshríð um tíma snemma morguns h. 7. gekk ofan að kvöldi þessa dags (7.) og hefir mátt heita blægjalogn og fagurt veður síðan. Í morgun (10.) hægur, austan bjartur. (10. okt). - Undanfarna viku veðurhægð, optast við suðausturátt með nokkurri vætu, síðari part dags h. 16. gekk hann allt í einu til norðurs upp úr lognrigningu mikilli. í morgun (17.) hvass á norðan, bjartur; loptþyngdarmælirinn kominn afar-hátt. (17. okt.). - Laugardaginn 17. var norðanveður, hvasst fram yfir miðjan, var svo hægviðri, opt logn næstu dagana, gekk svo til norðurs aptur, hvass, aðfaranótt hins 23. hefir fallið hjer óvenjulega mikill snjór um þetta leyti; síðari part dags h. 22. fór að rigna og var úrhellisrigning að kveldi; fór svo að frysta og allt varð að klaka. Í morgun (24.) bál-hvass af norðan, bjartur. (24.okt.). - Hvass á norðan h. 24. Síðan veðurhægð, rjett logn daglega með sudda-þoku. Í morgun (31.) þoka og logn. (31. okt.).

1981 (0,6) Þetta er kaldasti október í Reykjavík síðan sæmilega áreiðanlegar hitamælingar hófust  en á landinu öllu er þetta fjórði kaldasti október. Síðan veðurstöðvar urðu verulega margar er þetta kaldasti október sem komið hefur. Sjá kortið yfir meðalhita á landinu hér fyrir neðan. Og þetta er annar sóríkasti október í borginni en norðanáttin var linnulaus svo að segja. Veðrið var talið mjög óhagstætt frá Breiðafirði til austfjarða en á suðurlandi var talin góð tíð þrátt fyrir kuldann. Úrkoma var um helmingur af meðalúrkomu. Hún var þó mikil austanlands og sums staðar sitt hvoru megin við Eyjafjörð en mjög lítil á öllu suður og vesturlandi. Óvenjulega þurrt var á Hveravöllum, 11,5 mm og er það minnsta úrkoma í október sem veðurstöðin þar mældi. 1981_10_thick_an.pngÁ Kvískerjum, úrkomusamasta stað landsins, er þetta þurrasti október sem mælst hefur, 144,2 mm, frá 1962. Á ýmsum stöðum á vesturlandi með mislanga mælingasögu er þetta einnig þurrasti október sem mælst hefur. Snjóalög voru óvenju mikil fyrir norðan. Á Akureyri var hún hálfur metri þ. 12. og hefur aldrei verið meiri þar í október. Á Vestfjörðum voru skráð 24 snjóflóð og um miðbik norðurlands 33. Í Reykjavík lá snjór á jörð tvo daga seint í mánuðinum. Hvergi var jörð talin alauð allan mánuðinn. Snjólagsprósenta er sú hæsta sem finnst í október á landinu, 53%. Á Hólum í Hjaltadal var alhvítt allan mánuðinn og einnig á hálendisstöðvunum á norðausturlandi en hins vegar aðeins 15 daga á Hveravöllum þó aldrei væri þar talin alauð jörð. Þar varð og kaldast í mánuðinum, -15,5 stig þ. 16. en í byggð -13,7 stig þ. 4. í Möðrudal sem er mesti kuldi sem finna má á veðurstöð þann dag í a.m.k. 60 ár. Einstaklega kalt var framan af mánuðinum, oft 6-8 stig undir meðallagi. Fyrstu tveir dagarnir voru þeir köldustu eftir dagsetningum í Reykjavík í a.m.k. 75 ár. Dagana 12.-13. hlánaði ekki allan sólarhringinn þar í sólríku veðri og þeir dagar eru líka þeir köldustu í borginni eftir dagsetningum. Síðasti þriðjungur mánaðarins var tiltölulega mildastur. Þegar sá kafli hófst komst hitinn víða í 8-10 stig en mest seinna í mánuðinum í 12,2 stig þ. 22. á Seyðisfirði. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu en því minni sem hún verður því kaldara.

Forseti Egyptalands, Anwar Sadat, var myrtur þ. 6. Þann 14. varð Halldóra Bjarnadóttir 108 og  varð ekki eldri. Hún lifði lengst allra Íslendinga sem vitað er um. 

okt_1981.gif

1873 (0,8) Hryssingslegur mánuður. Fyrsti þriðjungur hans var ekki kaldur en þó engan veginn hlýr en eftir það var yfirleitt kalt. Hæð var þá oftast yfir Grænlandi en lægðir austan við landið. Undir lokin voru mikil frost og stórhríðar um nánast land allt. Hlánaði þá varla eða ekki allan sólarhringinn í Stykkishólmi. Fyrir norðan og austan var meira fannfergi en elstu menn mundu eftir árstíma. Aðeins þrjár stöðvar voru að athuga veðrið ef Reykjavík er talin með (hinar stöðvarnar voru Stykkishólmur og Teigarhorn) og í höfuðstaðnum mældist bæði mesti og lægsti hitinn á þessum þremur stöðvum, 8,1 stig þ. 9. og -3,7 stig þ. 28. Athugunarmaður í Reykjavík á þessu tíma var víst enginn annar en Jón Árnason þjóðsagnasafnari. Blaðið Víkverji birti yfirlit yfir tíðarfarið í bænum í nokkrum tölublöðum sem hér fer á eftir allmikið lagfært.

1. Landsynningur með hægum skúrum. 2. Landnyrðingur, þegar á daginn leið austan og landsunnangola, rigning um kveldið. 3. hvass útsynningur með skúrahriðjum 4. Landsynningsrigning. 5. Hvass á útnorðan með krapaskúrum. 6. Hæg norðangola. 7. Hvassviðri af norðri. 8. Landnyrðingsgola. 9, 10. og 11. rokviðri af austri síðar af landnorðri. 12. og 13. norðangola, 14. hægviðri af austri, hafði snjóað ofan í sjó um nóttina. 15. hvassviðri af austri  með suddarigning. 16. útsynningstormr og rigning, 17. og 18. lygn útsynningur með  éljadrögum, 19. snjóaði fyrri hluta dags. Hvassviðri af norðri, þegar á daginn leið, 20 austangola, 21. logn, síðan norðangola, 22., 23. og 24. norðanrok, lygndi um miðjan dag 24. og var komið logn um miðaftan. 25. austankæla, 26. austangola með regnskúrrum, 27. norðangola, síðan mikil austanrigning, 28. rigning af landsuðri og norðri, 29. hafði snjóað um nóttina, logn, heiðríkt, síðan hæg austanátt, 30 mikil landsunnan og útsunnan rigning, 31. hafði snjóað um nóttina, sunnankaldi heiðrikt lopt.

1880 (1,4) Í kjölfar hlýjasta sumars á seinni helmingi 19. aldarinnar, 1880, var október einn af þeim köldustu en þá voru 12 stöðvar að fylgjast með veðrinu. Meðal loftþrýstingur hefur aldrei verið hærri í október, 1023,5 hPa í Stykkishólmi. Fyrirstöðu hæðir voru oft í námunda við landið, iðulega vestan við það. Sjá kortið af  hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. 1880_10_500.pngSvalt var fyrstu dagana í norðanátt og snjóaði þá fyrir austan en síðan hlýnaði fram yfir miðjan mánuð en þá var hæðin sunnan og suðaustan við landið. Mesti hiti, 12,4 stig, og mesti kuldi, -14,3 stig, mældist á sama staðnum, Valþjófsstað í Fljótsdal en ekki var athugað á Hólsfjöllum. Tveir slæmir kuldakaflar komu í mánuðinum, 17.-20. og frá þeim 25. til mánaðarloka. Snjóaði þá nokkuð fyrir norðan. Síðustu tvo dagana var mikill kuldi og framundan var þriðji kaldasti nóvember og síðan mesti harðindavetur sem mælst hefur á landinu í rúm 200 ár.   

Franska tónskáldið Jacques Offenbach, sem samdi óperuna Ævintýri Hoffmanns, lést þ. 5.

1929 (1,6) Tíðin var umhleypingasöm af ýmsum áttum en oftast köld. Mikil snjókoma var norðanlands eftir miðjan mánuðinn en sunnanlands fraus á auða jörð. Strax þ. 4. var jörð reyndar alhvít í Reykjavík en það var næu samt eini dagurinn sem þar var alhvítur í mánuðinum. Þann 7. var norðanhvassvirði um land land og sums staðar stormur og í lok mánaðarins gengu nokkur fleiri hríðarveður yfir norðurland.  Í óveðri þann 19. fórst vélbáturinn Gissur hvíti frá Ísafirði með ellefu mönnum. Á norðurlandi var stórhríð með brimi og sjávarflóði þ. 24. og töldu þá 11 veðurstöðvar storm. Flæddi sjór yfir eyrina á Siglufirði og inn í mörg hús en næsta dag brotnuðu þar bátar og bryggja. Síðustu dagana var hvasst mjög syðst á landinu. Mesti hiti mánaðarins á landinu var aðeins 10,8 stig, í Vík í Mýrdal, þ. 19. sem er með því lægsta sem gerist í október enda náði almennilega hlýtt loft aldrei til landsins. Á Grímsstöðum var jörð aldrei talin auðauð en alhvít í 28 daga og þar mældist mesta frostið, -17,1 stig þ. 28. Feiknalegur kuldi var yfir landinu um það leyti í nokkra daga. Snjólag á landinu var 34% sem er með því mesta. 

Kreppan mikla skall á í lok mánaðarins.

1895 (1,3) Mjög snarpa kafaldshríð gerði fyrstu dagana um allt land í norðvestanáhlaupi. Þann þriðja var hríðin allan daginn í Reykjavík með ofsaveðri og brimi og hámarkshiti um frostmark.  Mikið tjón varð á landinu af þessum sjávaragangi sem stóð dagana 2.-3., mest við Ísafjarðardjúp, á Ströndum, Siglufirði, Eyjafirði og á Húsavík. Fjártjón varð einnig nokkuð. Þetta er einn af allra þurrustu októbermánuðurm. Aðeins fjórir októbermánuðir hafa þurrari verið í Stykkishólmi og einn í Reykjavík. 1895_10_500.pngSíðasta þriðjung mánaðarins var oft bjart syðra í látlausri norðaustanátt og úrkoma þar hverfandi eftir mánuðinn miðjan. Í Reykjavík voru þá oft talsverð næturfrost en frostlaust um hádaginn. Frost voru þó aldrei afskaplega hörð á landinu þrátt fyrir kuldatíð, mest þó -14,7 stig í Möðrudal. Hlýjast varð 10,5 stig þ. 15. á Teigarhorni. Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins.  Jónassen fjallaði um tíðarfarið í Reykjavík í Ísafoldaarblöðum:  

Fyrri part vikunnar sunnan-útsunnan með mikilli úrkomu og hagljeljum, snjóaði mikið í öll fjöll aðfaranótt h. 1.; hvass á norðan h. 2. og rokhvass á vestan útnorðan með blindbyl fram á kvöld h. 3., hægur af austri og bjart veður h. 4. Í morgun (5.) rjett logn, bezta veður. (5. okt.).- Umliðna viku hefir optast verið rjett logn, þar til hann gekk til útsuðurs. h. 11. hvass með jeljum og regnskúrum. Í morgun (12.). sunnan, dimmur. (12. okt.) - Fyrri part vikunnar var hægð á veðri, en h. 15. gekk hann til vesturs útsuðurs með brimhroða og regnskúrum miklum við og við; foráttubrim í sjónum af útsuðri h. 18. og þá með haghriðjum, dimmur síðari part dags. Í morgun (19.) genginn til norðurs, hvass, bjartur. (19. okt.) - Alla vikuna bjart og fagurt veður, optast logn með vægu frosti. (26. okt.) - Framan af vikunni fagurt veður og logn með vægu frosti; gekk svo h. 29 til útsuðurs með regnskúrum þann dag; 30. aptur bjart og fagurt veður, hægur norðanvari; h. 31. sunnansvækja, koldimmur og fór að hvessa að kveldi með regni; 1, hvass á landsunnan fram á kveld með regni; gekk svo til útsuðurs. (2. nóv.).

1909 (1,7) Úrkomusamt, einkum framan af, og aldrei vel hlýtt enda virðist kuldapollur hafa verið þaulsætin yfir landinu og nágrenni þess. Mikil úrkoma var á austfjörðum 5.-6. og í Vestmanaeyjum næstu daga þar á eftir í austlægum áttum. Verulega kalt var síðustu vikuna í norðaustanáttum og sjóaði víða um land, jafnvel í Vestmannaeyjum. Þar varð hlýjast í mánuðinum, 10,7 stig þ. 17. en kaldast  varð -16,0 í Möðrudal.  

1885 (1,7) Þetta var fremur þurrviðrasamur október. Mjög kalt var í fyrstu vikunni en nokkrir hlýir dagar komu kringum miðjan mánuðinn vegna hæðar suður undan er fór svo vestur fyrir og kólnaði þá aftur en þó voru engar stórkostlegar frosthörkur en samt kalt og nöturlegt. Hlýjast var 11, 3 stig á Akureyri en þar varð einnig kaldast, -10,0 stig. Jónassen stóð veðurvaktina í Ísafold:  

Umliðna viku hefir verið optast fagurt og bjart veður og síðan fyrir miðja viku hefir verið norðanátt, þó ekki kaldur, hjer hefir ekki verið mjög hvasst, en til djúpa hefir verið stormur á norðan og er enn í dag 6. með björtu sólskini. Talsvert snjóað i fjöll þessa vikuna. (7. okt.). - Allan fyrri part vikunnar hefir verið norðanveður, hvasst til djúpanna, hjer hægur eða logn, síðari hluta vikunnar hefir hann verið við hæga austanátt; að kveldi h. 12. fór að rigna og hjelst rigning næstu nótt. í dag 13. hvass á austan í morgun, hægur á austan eptir miðjan dag, dimmur. (14. okt.). - Umliðna viku hefir verið óvenjuleg stilling á veðri og veðurbliða; loptþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið mjög hátt og lítið haggazt. Má svo segja, að logn hafi verið á hverjum degi; 16. var hjer logn, en hvass að sjá til djúpanna á norðan, sem aldrei náði hingað heim og gekk strax niður, því daginn eptir (17.) var hjer blíða logn frá morgni til kvölds. Í dag (20.) logn, þoka og rigning. (21. okt). - Þessa vikuna hefir ókyrrð verið á veðrinu og síðustu dagana verið við hátt; síðari hluta h. 24. var hjer húðarigning af austri; aðfaranótt sunnudags (25.) frysti og gjörði alhvítt af snjó; gekk til norðurs síðari part dags og gjörði kopar yfir alla jörð. Þessa viku hefir snjóað mikið í öll fjöll og er Esjan hjeðan að sjá, eins og væri um hávetur; h. 26. var vestanútnyrðingur, mjög hvass til djúpanna, en í dag 27. er hann genginn úr norðanátt með þýðu og hægri rigningu, hægur austankaldi, dimmur. (28. okt.). - Fyrstu daga þessarar viku var hjer rjett að kalla logn og rigndi talsvert, einkum 30. er rigndi allan daginn til kvelds kl. 7, að hann allt í einu gekk til vesturs með krapasletting. Síðan hefir verið útsynningur með jeljagangi og að sjá snjóað mikið til fjalla. (4. nóv.).      

Kaldasti október í Reykjavík sem sögur fara af er líklega 1824. Þá voru hitamælingar gerðar í Nesi á Seltjarnarnesi sem þykja þó nokkuð ábótavant miðað við nútímamælingar. En kuldinn sem mælingarnar sýna er svo mikill að hugsanlega er þetta kaldasti október síðustu 200 árin, meðalhitinn verið undir frostmarki, -0,7 stig. Aðeins var gerð ein hitamæling á dag og var hún að  morgni. Fram eftir mánuðinum var hitinn þá 0-3 stig en þó 4 stig þ. 5. Frost fóru að koma þ. 18. og voru viðvarandi það sem eftir var mánaðarins nema þ 22. Sex stiga frost var að morgni þess 27.

Árið 1782 voru gerðar hitamælingar á Bessastöðum á Álftanesi en þeim var ekki síður ábótavant en 1824. Þær sýna ámóta kulda og 1824. Frost var um hádaginn fyrstu tvo dagana og sýnist reyndarekki hafa hlánað síðustu tvo dagana að auki í september sem er nú eiginlega ótrúlegt. Hvað sem um þetta má segja er ljóst að mjög kalt var þessa daga. Síðan kom þrettán daga hlýindakafli en frá þeim 16. voru aftur kuldar miklir til mánaðarloka svo ekki virðist hafa hlánað um hádaginn. Næsti október, 1783, var einnig mjög kaldur.    

Árin 1835 og 1841 var meðalhitinn í október í Reykjavík svipaður og 1917 og 1926 en ekki voru þá annars staðar gerðar hitamælingar á landinu.

Í fylgiskránni eru tíu hlýjustu og köldustu októbermánuðir á landinu fyrir þær stöðvar sem  lengst hafa athugað, ásamt úrkomu og sól eftir atvikum.  

Víkverji 1., 9., 15., 22., -29. okt, 1. nóv. 1873.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Staðan í október

Þegar tveir þriðju eru liðnir af október er meðalhitinn lítið eitt yfir meðallagi í Reykjavík en vel yfir því á Akureyri. Á öllu landinu er hitafrávikið fremur í ætt við Akureyri en Reykjavík. Sem sagt vel hlýtt. Úrkoman er um það bil að komast upp í meðaltal alls mánaðarins í Reykjavík  en er komin langt upp fyrir það á Akureyri. Votur mánuður það sem af er.

Þann 13. var jafnað hámarkshitamet dagsins á landinu, 18,0 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði en þess ber að gæta að ýmsir dagar hafa náð hærri hita um þetta leyti árs og síðar þó ekki hafi það fallið á þessa dagsetningu. Það sem af hefur lágmarkshiti á landinu aldrei nálgast dagshitamet.

Skaflinn í Esju hvarf þá aldrei.

Gott hjá honum!

Meðalhiti fyrstu níu mánuði ársins er 0,7 stigum lægra en í fyrra í Reykjavík en má þó heita í meðallagi síðustu tíu ára og auðvitað langt yfir því meðallagi sem við er miðað, 1961-1990, eða næstum því  1,2 stig og 0,6 stig yfir meðaltali hlýindatímabilsins 1931-1960.

Það er því ekki vegna harðinda sem skaflinn hvarf ekki!

Allir eru þessir veðurleyndardómar mánaðarins í hinu ábúðarfulla fylgiskjali.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dylgjur og lágkúra innanríkisráðherra

Innanríkisráðherra fullyrðir að Ríkislögreglustjóri hafi ekki brotið lög eins og Ríkisendurskoðun heldur fram.

En hvor er trúverðugri innanríkisráðherra eða Ríkisendurskoðun?

Hver og einn ætti nú að líta í eigin  barm til að svara þeirri spurningu!   

Ráherrann segir að ríkislögreglustjóri hafi orðið fyrir mjög ómarklegum árásum, sleggjudómum og ég veit ekki hverju frá fjölmiðlum. 

Þegar fréttamaðurinn í kvölfdfréttum Ríkisútvarpsins spurði svo ráðherrann um dæmi svaraði hann að menn ættu bara að fletta blöðunum og hver og einn ætti að líta í eigin barm.  

Við eigum orð yfir það þegar menn koma með leiðinlegar ásakanir en neita að nefna nein hlutlæg dæmi.

Dylgjur.

Orð ráðherrans eru flatneskjulegar dylgjur. Eins og sagt er: Rakalausar dylgjur.  

Hann veit hins vegar að hann kemst upp með þær. Veit af valdi sínu. Og veit að flokksbræður sínir munu styðja hann. 

En er hægt að leggjast lægra í málflutningi?

Fjöldi fólks, bæði til hægri og vinstri og þar á milli, hefur áreiðanelga áhyggjur af framtíð íslenskra stjórnmála og hreinlega framtíð þjóðarinnar þegar æðstu ráðamenn leggja aðra eins lágkúru fyrir almenning og ráðherran hér gerir og komast upp með það.

Enn eitt dæmið sem sýnir hvers vegna margir eru búnir að fá skömm á stjórnmálamönnum.

 


Skítt með sjúklingana

Á Alþingi hafa nokkrir þingmenn hneykslast mikið á því að að réttargeðdeilin á Sogni verði lögð niður en starfsemin flutt til Reykjavíkur.

Málfutningur þeirra snýst eingöngu um hreppapólitik, atvinnumál í héraði, en hvergi er svo mikið sem minnst á það hvort þessi skipti komi sjúklingunum til góða eða ekki. (Viðbrögð sunnlenskra sveitarfélaga eru reyndar alveg þau sömu). 

Ekki svo mikið sem á það minnst.

Segir allt sem segja þarf um hug þessara skotgrafaþingmanna til geðsjúklinga og skilning þeirra á málaflokknum.

Hann er enginn.

Alls enginn. 

 


Glæpur en ekki mistök

Eftir því sem segir í fréttinni var um ,,stórkostlegt gáleysi'' að ræða sem olli sjúklingnum óbætandi skaða til lífstíðar. Tók hann á barnsárum hreinlega út úr öllu venjulegu lífi. 

Þetta var ekki slys. Þetta var stórkostlegt gáleysi.

Ef ég myndi valda einhverjum því með stórkostlegu gáleysi og hirðuleysi að hann hann hefði skerta heyrn og sjón, væri mjög spastískur og í hjólastól og gæti ekki staðið í samskiptum við umhverfið og hann yrði þannig það sem hann ætti ólifað, kannski áratugum saman, yrði ég alveg örugglega dæmdur til refsingar í fangelsi, auk skaðabóta.

Í þessu tilfelli, þegar um var að ræða stórkostlegt gáleysi, eru dæmdar skaðabætur sem skattgreiðendur borga.

Enginn af starfsfólkinu, enginn yfirmaður sjúkrahússins eða starfsmaður yfirleitt, virðist þurfa að bera persónulega ábyrgð á gáleysinu, hvorki fjárhagslega eða á annan hátt. 

Þetta var ekki slys.

Þetta var glæpur. 

Og það er líka glæpur að þeir sem olllu þurfi ekki að bera á því neins konar persónulega ábyrgð fyrir dómstólum.

Og loks er það glæpur að kerfið skuli vera þannig að menn skuli með gáleysi geta eyðilegt gjörsamlega líf annarra án þess að þurfa á bera á því minnstu ábyrgð. 

Jafnvel nöfn þeirra og starfsheiti eru falin. 

Þetta mál er ekki um læknamistök.

Þetta er einstaklega óhugnanlegt glæpamál. 

 


mbl.is Stórkostlegt gáleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrstu næturfrost í Reykjavík

Í nótt mældist fyrsta næturfrostið á þessu hausti í Reykjavík, -2,5 stig. Síðasta frost í vor var 21. maí. Frostlausi tíminn var því 141 dagur. Það er reyndar tveimur dögum skemur en meðaltalið frá 1920 sem er 143 dagar.

Enn hefur ekki mælst frost á suðausturlandi, syðst á landinu og á stöku stað við sjóinn annars staðar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Október

Í nágrannalöndnunum byrjaði október með methita.

Ekki mundum við nú slá hendinni á móti því að slíkt myndi gerast hér líka næstu daga.

Það er til dæmis brýnt að nýtt og sómasamlegt hitamet verði sett í Reykjavík, svo sem sautján stig.

Hið opinbera októbermet fyrir borgina er hin ámáttlega tala 15,7 stig frá 1958. Og þegar á það er litið að þessi hiti mældist alls ekki í október heldur kl. 18 síðasta dag september, þá verður októbermetið beinlínis vandræðalegt og hallærislegt.

Það verður að slá þetta met. 

Þess vegna fylgjumst við nú í fylgkiskjalinu með árangri þessa októbers sem miklar vonir eru við bundnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkasta sumar í Reykjavík síðan 1929

Sumarið sem nú er liðið, júní til september, reynist vera hvorki meira né minna en fjórða sólríkasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík en þær mælingar ná yfir hundrað ár.

Sólskinsstundir voru 836 en meðaltalið 1961-1990 er 612. Þetta jafngildir meira en 22 dögum með tíu klukkustunda sól framyfir meðallagið.

Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.

Tveir mánuðir af fjórum ná inn á topp tíu listann fyrir sólríkustu mánuði, júní nr. 7 og september sem krækti í að verða fikmmti sólríkasti september.  Allir sumarmánuðirnir voru yfir meðallagi hvað sólskin varðar.  

Þetta er þá sólríkasta sumar síðan 1929. Langflestir borgarbúar hafa því aldrei lifað annað eins. 

Og hvað eru menn þá að kvarta yfir þessu sumri en sá söngur hefur verið svo að segja linnulaus í allt heila sumar hjá mörgum.  

Reyndar voru líka allir mánuðurnir í Reykjavík yfir meðallagi hitans 1961-1990 og allir nema júní yfir meðalagi góðærisáranna 1931-1960.

Samt hefur sumarið ekki orðið kaldara síðan 2005, bæði í Reykjavik og yfir allt landið. En það er alvarleg villa að kalla þetta kalt sumar. Síðustu sumur hafa verið mjög afbrigðilega hlý. Meðalhitinn  í Reykjavík sumarið 2011 er þrátt fyrir allt 1,2 stig yfir meðallagi. Aðeins 16 sumur hafa verið hlýrri en 2011 í Reykjavík frá 1866, þar af sjö á þessari öld. Yfir landið held ég að ein 27 sumur hafi verið hlýrri en þetta eins og ég reikna þau.   

Á Akureyri rétt skriður hitinn yfir meðallagið í sumar. En yfir það samt! Ekki er hægt að tala þar um kalt sumar eftir júní sem reyndar var alveg hryllilegur.

Hitinn á landinu í sumar held ég að sé alls staðar yfir meðallaginu 1961-1990, þegar upp er staðið, nema þá einna helst á Fljótsdalshéraði.

Það er einhver forskrúfun komin í Gagnatorgið. Ef maður ætlar t.d. að slá upp sólskini í einum mánuði, eins og ég reyndi í dag með september, kemur bara upp ein síða, með þrettán fyrstu dögunum og ómögulegt að fletta neitt eins og alltaf hefur verið hægt. Flettingartakkarnir eru óvirkir. þetta hefur staðið í nokkra daga. Nú er þetta gagnslausa torgið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband