Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Þurrasti janúar í sögu mælinga fyrir norðan

Janúar reyndist sá úrkomuminnsti sem mælst hefur á stóru svæði fyrir norðan. Allt frá Ströndum  í vestri til Vopnafjarðar í austri. 

Á Akureyri var úrkoman aðeins 0,8 mm og féll á fimm dögum. Þar hefur úrkoma verið mæld frá 1926 og aldrei verið jafn lítil í janúar. Aldrei hefur heldur mælst eins lítil úrkoma í janúar á Grimsstöðum, frá 1936 og Hrauni á Skaga frá 1949. Á sjálfvirku úrkomustöðinni á Raufarhöfn mældist minni úrkoma en nokkru sinni mældist á hinni mönnuðu sem er ný hætt, alveg frá 1934. Sömu sögu er að segja frá öðrum veðurathugunarstöðvum á öllu þessu svæði með mislanga mælingasögu.

Það er skammt öfganna á milli því síðasti desember var sá úrkomumesti sem mælst hefur á Akureyri. Í byrjun janúar var snjódýpt þar 81 cm og hefur aldrei mælst meiri í janúar. Ekki kom þar dropi úr lofti fyrstu 15 daga mánaðarins en vegna hlýindanna var þar orðið snjólaust 26. janúar og er enn.

Á suður og vesturlandi var úrkoma víðast hvar yfir meðallagi.

Meðalhitinn í Reykjavík er kringum 2,4 stig og hafa einir 8 eða 9 janúarmánuðir verið hlýrri frá 1870, síðast 1992.

Þetta var óvenjulegur mánuður enda hefur veðurlag verið óvenjulegt á stóru svæði í kringum okkur og í Evrópu. 


Snjólítið á landinu

Í gærmorgun var hvergi talin alhvít jörð á veðurstöðum í byggð. Þá var í fyrsta sinn  í mánuðinum alauð jörð á Akureyri en á nýjársdag var snjódýpt þar 81 cm. Flekkótt jörð var talin á nokkrum stöðvum um miðnorðurland og á norðvesturlandi.

Í nótt snjóaði hins vegar nokkuð á norðvestanverðu landinu og yst á Tröllaskaga. Alhvítt var því talið í morgun á  Hólum í Dýrafirði, Hrafnabjörgum við Ísafjarðardjúp, Bergsstöðum í Skagafirði og við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum þar sem mæld var mesta snjódýpt á landinu, 7 cm. Það þykir  víst  ekki mikið á þessum árstíma. Sums staðar á þessu svæði var talin flekkótt jörð í morgun þar sem alautt var í gær.

Meðalhiti mánaðarins er nú 2,8 stig í Reykjavík og er það meira en þrjú stig yfir meðallagi. Fyrstu fimm dagar mánaðarins voru undir frostmarki en meðalhiti síðustu 18 daga er 5,0 stig eða 5,5 stig yfir meðallagi og er þetta með lengstu og sterkustu hlýjindaköflum á þessum árstíma. Ekki hefur frosið í Reykjavík síðan 7. janúar. En janúarhitametið er samt nokkuð langt í burtu vegna kuldanna í upphafi mánaðarins og svo er frosti spáð í lok mánaðarins og mun þá meðalhitinn lækka um sirka hálft stig. 

Meðalhiti þessa janúar mun því þrátt fyrir allt ekki teljast til neinna verulega sérstakra tíðinda.


Hitamet fyrir norðan

Hitinn fór í dag í 16,9 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði sem er mesti hiti sem mælst hefur í janúar á veðurstöðvum í því héraði en þær ná til ársins 1930 fyrir janúar.  Á sjálfvirku stöðinni mældust  17,6 stig. Á Sauðanesvita fór hitinn í 16,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst frá 1990. Á Staðarhóli í Aðaldal mældist hitinn 15,0 sem er met frá 1962.

Á sjálfvirku stöðinni á Siglufirði fór hitinn í 16,6 stig og 15,6  á Ólafsfirði og 15,3 á Hallormsstað en svo hátt fór hitinn aldrei þar á mönnuðu stöðinni árin 1938-1990 og munar miklu.  

Aðeins á einum stað á Spáni og öðrum í Portugal mældist meiri hiti í dag í Evrópu en hér á landi.

Mesti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar er 18,8 stig og komu á Dalatanga þ. 14. 1992. Sama dag mældust 17,5 stig á Akureyri.

Mjög hlýtt loft sunnan út höfum er yfir landinu eins og sjá má hér fyrir neðan. Skammt fyrir sunnan land er 10 stiga hiti í kringum 1300 til 1400 metra hæð.

rhavn002.gif


En ekki hvað

Upp hefur komist um alvarlega villu í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Fullyrðing um að mjög líklegt sé að allir jöklar í Himalajafjöllum verði horfnir árið 2035 var bara bull. 

Á loftslag is. gera þeir því skóna að þetta atvik verði vatn á myllu efasemdarmanna um hlýnun jarðar.

En ekki hvað? Erum við ekki alin upp í þeirri trú að treysta niðurstöðum þessarar nefndar?Ætli hlýnunarsinnar hefðu ekki fitnað á fjósbitanum ef annað eins svindl hefði orðið uppvíst á hinum kantinum?

Á loftslag is er gert eins lítið úr þessu atviki og mögulegt er. 

Og ekki er mikið gefið fyrir þá hugsun sem hlýtur að koma upp: Hvað með áreiðaleika annarra fullyrðinga sem finna má í skýrslunni?

En okkur er sagt að allt annað sé þar í himnalagi- þangað til næsta hneyksli verður uppvíst. 


mbl.is Játa á sig ýkjur um bráðnun jökla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasta veðurspá Nimbusar

Ísland mun frjósa í helvíti. 

Krýsuvíkurkirkja

Um áramótin voru brotnar rúður í Grensáskirkju. Nú er Krýsuvíkurkirkja brunninn. Sagt er að einingis ''mannleg mistök'' eða íkveikja hafi verið orsök brunans.

Svo sannarlega hefur ekki verið um nein mistök að ræða þegar Grensáskirkja var brotin. Það var viljaverk.

Talað var um ''mikinn eril'' hjá lögreglunni í fréttum af áramótunum. Það eru skrauthvörf fjölmiðla um mikið fyllerí og vesen sem má víst ekki nefna fullum fetum. 

Ekki kæmi mér á óvart þó drykkjuskapur epa dópneysla hafi tengst báðum þessum atburðum. Ótrúlegt sukk og stjórnleysi virðist hrjá þessa hrundu þjóð sem samt hefur efni á að brenna upp hundruðum miljóna til að spilla andrúmslofti borgarinnar á nýjársnótt.

Engan hef ég séð kenna trúleysingjum um að hafa komið nærri málunum. En einn vantrúarseggur vildi samt meina að einhverjir hafi kennt þeim um kirkjubrotið. 

Ég tek það fram að ég kveikti ekki í kirkjunni þó slæmur sé og reikull í trúnni.


Hlutfall

Hvort er nú stærra hlutfall kjörgengra manna einn fjórði hluti eða þrír fjórðu hlutar?

Hvor skyldi hafa sig meira í frammi með opinberum aðgerðum? 

Hvort á að hlusta meira á minnihluta eða meirihluta? 

Datt þetta bara sisvona í hug. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband