Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Esjan orðin hvít

Það mátti ekki seinna vænna að skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju hafi horfið í gær. Nú er fjallið orðið alhvítt niður í miðjar hlíðar. Klukkan 18 var hitinn í Hreppunum 1 stig og ekki kæmi á óvart þó snjór verði á jörðu í fyrramálið á láglendi á suður-og vesturlandi. Í dag gekk á með hagléljum í Reykjavík. 

Tímaspursmál er hve nær  frýs í Reykjavík og það getur hæglega komið snjór fyrir mánaðarlok.  Það hefur aðeins gerst árin 1926, 1954 og 1969 að snjó hafi fest í borginni í september.

Það er nánast móðgun við náttúrulega dómgreind að kenna þetta veðurlag þegar ekki er lokið september á einhvern hátt við blíðu eins og gert hefur verið.

Bjartir dagar í kjölfar svona ískalds vestanskots eru eitthvert hvimleiðasta kuldaástand sem getur komið á þessum árstíma.


Ekki neitt blíðskaparveður

Í morgun var alhvít jörð í fyrsta sinn í haust á nokkrum veðurathugunarstöðvum á láglendi. Mest var snjódýptin 12 cm í Steinadal  inn af Kollafirði á Ströndum en einnig var alhvítt  innst í  Steingrímsfirði og á einum stað við Ísafjarðardjúp.

Ansi er þetta snemma og ansi er þetta vondur endir á góðu sumri. Þessi september hefur reyndar verið ósköp leiðinlegur á suðurlandi. Sólarlítill og hryssingslegur og ætlar að enda illa. Þegar upp verður staðið er vafasamt hvort hann nái hitameðaltali áranna 1931-1960 en hann nær meðaltali  áranna 1961-1990 en það meðaltal er eiginlega orðið út í hött fyrir veðurfar nútímans.

Á mánudag verður bjart veður um land allt en einungis fárra stiga hiti um hádaginn. Ásdís Auðunsdóttir veðurfræðingur kallaði það ''blíðskaparveður'' í sjónvarpsspánni í gær. Það finnst mér ekki viðeigandi lýsing. Mér finnst að hiti skipti líka máli þegar talað er um blíðskaparveður. Það er ekki nóg að sé kyrrt veður og stillt. Orðið blíða felur í sér mildi en ekki hörku.

Stillt og bjart veður á þessum árstíma með næturfrostum og kannski fimm stiga hámarkshita  í sólinni er ekki blíðskaparveður. Ef hitinn færi í 10 stig væri nær lagi að  tala um blíðskaparveður en fyrst og fremst ef hitinn væri enn þá meiri.

Það dettur úr manni allur sumarfílingur að fá bjartviðri í september með næturfrostum og dagshita rétt yfir frostmarki. 

Það er nánast þjófstart á haustinu og ekki blíðskaparveður fyrir fimm aura í mínum augum.


Haustið er komið

Í dag komst hitinn í Reykjavík ekki upp í 10 stig. Það hefur ekki gerst síðan 2. júní.

Á morgun verður bjart en skítkalt. Nokkuð langt frá því haustveðri sem ég hef verið að óska mér en samt verið viss um að við myndum ekki fá héðan af, björtu og stilltu verði með hitastigi sem gæti gengið að sumri til.

Það hlýnar svo aftur í skamma stund með ''roki og rigningu'' en svo kólnar aftur með ótvíræðum hausthita. 

Kannski snjóar áður en mánuðurinn er úti!

Þetta er búið. Sumarið.

 


Ójafnræði um ábyrgðarmenn á bloggi

Moggabloggið meinar mönnum að blogga um fréttir nema fullt nafn ábyrgðarmanns sá skráð fyrir blogginu og birtist á síðunni fyrir allra augum. Sömuleiðis birtast bloggsíður ekki á forsíðu bloggsins eða öðrum síðum nema nafn ábyrgðarmanns komi fram. Ekki nægir dulnefni.

En ég hef tekið eftir því að ef félag eða samtök er með blogg án þess að nokkurt nafn ábyrgðarmanns birtist, aðeins nafn félagsins sem þá er talinn ábyrrgðarmaður, þá birtist það á síðum Moggabloggsins rétt eins og fullt nafn einhvers ábyrgðarmanns fylgi blogginu.

Þetta finnst mér ranglátt gagnvart þeim einstaklingum sem blogga undir dulnefni og verða annars flokks bloggarar fyrir vikið.

Þegar ábyrgðarmaður bloggs er félag en hvergi birtist nafn neins einstaklings eða einstaklinga þar á bak við er það ekkert annað en dulnefni. Félög blogga nefnilega ekki. Á bak við þau eru alltaf einstaklingar.

 


Hagsmunir hverra

Þetta mál er auðvitað gert að flokkspólitísku máli. Áður var Sjálfstæðisflokknum úthúðað þegar Guðlaugur Þór var ráðherra þegar hann vildi stokka upp starfsemina en núna Ögmundi af því að hann er við stjórn heilbrigðismála.

En mér er minnisstætt viðtal í útvarpi við Guðjón Magnússon sem þá var forstjóri Lýðheilustöðvar  þegar allt  var vitlaust út af Guðlaugi Þór. Guðjón sagði  fullum fetum eitthvað á þá leið að hagsmunir lækna og annars starfsfólks réðu ferðinni í afstöðu  þeirra en ekki hagkvæmni í rekstri sem á endanum væru hagsmunir sjúklinga. Hann rökstuddi þetta ítarlega.

Þetta er kannski kjarni málsins sem hverfur alltaf í flokkspólitískum æsingi. Þetta er heilsupólitískt mál í breiðari skilningi en eftir flokkslegum línum.  

Það er auðvelt fyrir voldugar sérfræðistéttir að skapa andrúmsloft moldviðris eigin hagsmunum til framdráttar. Menn bíta á það agnið eftir því sem hentar flokkspólitískum hagsmunum þeirra. 

 


mbl.is St. Jósefsspítala lokað hægt og hljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð sé oss næstur

Hætt hefur verið við göngu samkynhneigðra í Belgrad vegna hótana um ofbeldi.

Hengd hafa verið upp veggspjöld um alla borgina þar sem hópar and-samkynhneigðra hóta göngumönnum ofbeldi verði af göngunni. 

''Hreyfing öfgasinnaðra þjóðernissinna í Serbíu hefur fagnað því að ekki verði af göngunni, “enda sé ekki rúm fyrir heiðingja og satanista í borginni.”''

Devil

 

 


mbl.is Gay Pride blásin af í Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppáhaldskaflinn okkar Mala úr íslenskum bókmenntum

Fyrir mörgum árum þekkti ég svolítinn kött. Við áttum heima í sama húsi. Ég kom í húsið í október um haustið. Þá var kisa fjögurra mánaða. Hún var hrafnsvört, með hvítan kraga um hálsinn. Hún minnti mig alltaf á hempuklæddan klerk með prestakraga. Kisa var silkimjúk viðkomu og góðlynd við alla. Hún var ekki enn þá farin að átta sig á því, að nú væri hún fædd í fávísan mannheim, sem heldur, að dýrin séu sköpuð sér til skemmtunar.

Kisa litla átti ekki sjö dagana sæla. Enginn í húsinu bjó yfir svo auðvirðilegum duttlungum, að brýnustu þarfir kisu yrðu ekki að lúta fyrir þeim í lægra haldi. Stundum fann einhver krakkanna upp á því að vilja hvergi sitja nema á stólnum, sem kisa svaf á, þó að fullt væri af auðum sætum í stofunni. Þá var kisa rifin upp af fastasvefni og kastað út í horn. Greyið leit syfjuðum augunum lúpulega í kringum sig og skreið í felur. Þegar einhver var gripinn af löngun til að draga kött á rófunni var þrifið í stýrið á kisu litlu og henni snarsnúið. Aumingja kisa skrækti af sársauka. Þá var hlegið. Oft var hún dregin á skegginu til og frá um gólfið. Það þótti ágæt skemmtun.

Á hverju kvöldi var kisa litla byrgð úti í gisnum timburhjalli, sem kaldur vetrarvindurinn blés í gegnum. Þar var henni vísað til rúms á pokagarmi, sem breiddur var á kolakassa. Kisu leið illa í þessari vistarveru, eftir að veturinn lagðist að með snjó og kulda, og hún smaug út um rifur á hjallinum í þeirri von, að miskunnsemi mannanna skyti yfir sig hlýrra skjólshúsi. En það urðu ekki margir til að líkna kisu.

Eina nótt í nóvembermánuði kom ég heim um eittleytið. Allir voru í fastasvefni nema kisa. Hún sat skjálfandi við dyrnar. Frost var á og norðanstormur, og kisa hafði ekki afborið vistina í hjallinum. Kisa vældi aumkunarlega og nuddaði sér við fætur mér. Það var henar bæn um líkn. ''Aumingja kisa!'', sagði ég. ''Í nótt skaltu lúra að fótum mínum.'' Og ég bar hana inn í ofnhitann. Kisa tók að sleikja sig og mala. Nú færðist ylur í litla skinnið. Á hverju kvöldi síðan beið hún mín við dyrnar, þegar ég kom heim. 

Svo fluttist ég úr húsinu.  Þá varð hjallurinn aftur athvarf kisu. Á jólaföstu árið eftir fór að brydda á lasleika í kisu litlu. Hún hætti að éta og varð sljó og rytjuleg. Enginn fékkst um að leita henni lækninga. Á jólamorguninn lá hún liðið lík á kolakassanum.

Kisa mátti ekki sofa í íveruhúsinu. Hún gat velt um einhverju af þessu skrani, sem veslings fólkið hafði hreykt þar upp andleysi sínu til augnagamans. Aumingja kisa var látin hírast í köldum og dimmum hjallagarmi. Sjálfa jólanóttina háði hún þar dauðastríð sitt í myrkri og kulda. Til þess lét Kristur líf sitt á krossinum.

Úr Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson.

Og svo er hér mynd af svolitlum ketti sem ég þekki og er hrafnsvartur og með hvítan kraga um hálsinn. Hann hefur samt aldrei verið dreginn á stýrinu eða skegginu um gólfið og sá mætti  aldeilis biðja fyrir sér sem það reyndi.

pict2872a_911636.jpg

 

 

 

 


Rysjóttur september

Jæja, það er best að halda sig þá bara við veðrið!

September er nú hálfnaður. Meðalhitinn er í Reykjavík 10,0 stig, tæp tvö stig yfir gildandi meðallagi.  Hitinn hefur farið upp í 10 stig eða meira hvern dag í Reykjavík en það er ekki alltaf svo þegar mánuðurinn er hálfnaður. Flesta daga hefur rignt en úrkomumagn er ekki mikið.

Það sem stendur upp úr finnst manni er það hvað mánuðurinn hefur verið hryssingslegur alveg eins og í fyrra. Sól er nánast aldrei svo heitið geti.

Eftir því sem lengra líður á mánuðinn dofna vonir manns að fá notalegan sólskinsdag með sæmilegum hita, það er að segja hita sem gæti verið á sumardegi. Þrátt fyrir tiltöluleg hlýindi finnst mér þessi mánuður vera antiklímax á sumrinu. Hann er reyndar ekki búinn en spáin næstu daga gefur ekki ástæðu til að vona að verulega góðir dagar komi nokkuð hér syðra. 

Þessi svokallaða hitabylgja var svo sem ágæt fyrir norðan en það fylgir þessu öllu saman mikill hryssingur og vesen, eitthvað svo langt langt frá mildum og góðum haustdögum.    

Engir dagar ársins finnst mér eins sérstakir sem tiltölulega hlýir og bjartir dagar  um jafndægur á hausti án þess þó að um einhvern methita sé að ræða en slíkum hitum fylgir yfirleitt ekki sól á þeim árstima á suðurlandi.

Ég á við daga eins og þennan sem hér sést.

Viðbót 17.9. Enn heldur Höfn í Hornafirði, af öllum stöðvum, að mæla flesta daga minnsta lágmarkshita á kvikasilfursmæli á landinu. Þessar mælingar sýna svona fimm stig lægra en  sjálfvirki mælirinn á staðnum og eru auk þess í engu samræmi við hitafarið annars staðar á suðausturlandi og það sem venjan segir að búast megi við á stað eins og Höfn á þessum árstíma  í því veðurlagi sem ríkt hefur. En svona hefur samt þetta gengið allan mánuðinn.

2000-09-23_12.gif

 


Ekki rassgat að marka biblíuna

Gunnar karlinn í Krossinum er að skilja við sína ektakvinnu.

Einu sinni var Jesús, sem kristnir menn segja að sé sonur guðs, spurður hvort rétt væri að skilja við konu sína. Og hann svaraði og sagði: 

“Hafið þér eigi lesið að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði:  “Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður”?  Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður.  Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja” (Matt. 19,3-6).

Úr því að bókstafstrúarmaðurinn Gunnar í Krossinum telur sér ekki skylt að fara efir afdráttarlausum orðum Jesú Krists í ritningunni er þá nokkur ástæða til að taka mark á öðrum orðum Krists og öðru sem stendur í biblíunni yfirleitt? 

Það er greinlega ekki rassgat að marka hana. 

 

 


Að springa af harmi

Vísindamenn segja að líkurnar á að fá hjartaáfall allt að því sexfaldist skömmu eftir ástvinamissi og með réttu sé því hægt að tala um að fólk geti dáið úr sorg.

Þetta hafa menn vitað um allar aldir. Í gömlum bókum er sagt að menn hafi sprungið af harmi. Þessi rannsókn vísindamannanna segir því ekkert nýtt.

Sorg er eiginlega aldrei nefnd lengur. Það er bara talað um þunglyndi. Og litið er á það sem eitthvað læknisfræðilega sjúklegt en ekki sem hluta af því hlutskipti að vera manneskja. Læknisfræðin er í rauninni búinn að drepa alla  fegurð og harmræna tign í mannlífinu.

En menn geta bugast af sorg þó þeir hafi ekki orðið fyrir ástvinamissi. Ástarsorgir eru þar ofarlega á blaði. En það er víst hægt að ''lækna'' þær með pillum.

Margt fólk er reyndar bugað af ýmis konar andstreymi, vonbrigðum, mótlæti og hreinni sorg. Það læðist bara með veggjum og býður eftir því að deyja. En af því að það lifir áfram er samt ekki sagt að það hafi ''gefist upp''. Neyti það hins vegar síðustu kraftana og fyrirfer sér fær það þann dóm að það hafi ''gefist upp''. Það er eitthvað mesta skammaryrði  sem til er í okkar samfélagi  að ''gefast upp''.  Og ekki nóg með þetta heldur fær þetta fólk líka þann stimpil að það hafi verið geðveikt og ekkert mark á því takandi.

Það hafi verið þunglynt.

Þessu fylgir reiðuþrungin höfnun og fordæming á hinum látna. Hvernig gat hann gert þeim sem eftir lifa annað eins?

En menn eru ekki að setja sig í spor þeirrea sem deyja, skilja þá, hafa samúð með þeim, bera virðingu fyrir upplifun þeirra og lokaákvörðun. Þeim er ekki treyst til að geta sjálfir metið sitt eigið líf og framtíðarmöguleika. Allir aðrir vita betur. Læknarnir best. Og trúarbragðakreddufólk.

Í þessu sambandi er skylt að geta þess að ''þunglyndi'' er mjög illa séð. Nefndu það við vini þína , hvað þá aðra, að þú sért ''þunglyndur''og taktu eftir allt að því gremjulegri frávísun þeirra. Enginn vill vita um raunir annarra. Enginn hlustar. Mönnum stendur  svo hjartanlega á sama. Það eina sem þeir vilja er að þetta sé falið, að þeir sjálfir séu ekki truflaðir með því að fá vitneskju um það. Enda getur það ýft upp yfirborðið í þeirra eigin huga og komið þeirri  sorg og örvæntingu  sem þar  lúrir undir ''hamingjusömu'' yfirborðinu fram í dagsljósið. Síst af öllu vilja þeir  glíma við þær kenndir, einungis bæla þær niður af offorsi. 

Þeir sem eru ''þunglyndir'', með öðrum og réttari orðum eru  sligaðir af því sem í gamla  daga var nefnt lífsharmur og allir vissu hvað í fólst, er raun og veru hafnað með kulda og algjörri skort á samkennd. Hundsun.Þangað til þeir taka líf sitt. Þá allt í einu beinist öll athygli að þeim.

Fordæmingin.

Ekki alltaf opin og augljós. En fordæming samt. 

Fyrr á tíð voru sjálfsvíg fordæmd út frá sjónarmiði kristninnar. Það var staðhæft að sál þess sem tók sitt eigið líf færi til helvítis. Kristinn kvalalosti í essinu sínu.

Nú hafa læknavísindin tekið við þessu fordæmingarhlutverki. En fordæming þeirra er fágaðri og  tæknilegri en fordæming kristninnar áður fyrr. Hún tekur samt alveg jafn mikið mannorðið af þeim sem fyrirfara sér og sviptir þá allri mannlegri virðingu. Það er bara litið á þá sem geðsjúklinga og nákvæmlega engin virðing er borin fyrr ákvörðun þeirra. 

Ég veit að það sem ég er að segja  er yfirleitt ekki samþykkt. Viðhorf læknavísindanna til sjálfsvíga mega heita algjörlega einráð í samfélaginu. Þau eru hins vegar einhver mesta lífslygi sem um getur.

Enginn getur metið lífið fyrir aðra en sjálfa sig. Enginn læknir, enginn prestur.

Sá sem fremur sjálfsvíg hefur alltaf rétt fyrir sér.

Það er auðvitað sorglegt en það er samt satt.

Og menn eiga að horfast í augu við staðreyndir lífsins eins og þær eru.   


mbl.is Ástvinamissir eykur líkur á hjartaáfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband