Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Ekki öll sagan

Af fréttinni að dæma mætti halda að ekki hafi mælst tuttugu stiga frost í Stokkhólmi.

En hér mun vera átt eingöngu við hitann eftir árstíðinni. Á þessum árstíma, nóvember er ekki liðinn,  hefur ekki  mælst 20 stiga frost í Stokkhólmi.   Í desember til mars hefur  hins vegar all oft mælst tuttugu stiga frost í Stokkhólmi eða meira, mest 28 í  janúar.  

Ónákvæmni af þessu tagi í fréttum af veðri má heita daglegt brauð. 


mbl.is Metkulda spáð í Stokkhólmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólríkur nóvember og mögulegt silfurár

Nú er tvennt til. Annað hvort er heimsendir í nánd eða hamfaravetur framundan. Og kannski byrjar heimsendinn einmitt með honum!

Hæðin sem kortið sýnir nær ég veit ekki hvaðan til ég veit ekki hvert. Gaman að sjá hvað gerist eftir morgundaginn, the day after tomorrow! 

Þessi nóvember er þegar orðinn sá fjórði sólríkasti í Reykjavík. En hann fer varla hærra en í þriðja sæti að lokum. En brons er alveg viðunandi árangur.

Meðalhitinn er ekkert óskaplega lágur, 0,5 stig eða eitt stig undir meðallaginu 1961-1990 sem er reyndar 1,4 stigum kaldara en 1931-1960. Nóvember 1996 er sá kaldasti mjög langt aftur, -1,9 stig. Hitinn mun líklega eitthvað smávegis stíga i okkar nóvember síðustu tvo dagana. Svo þetta er nú ekkert óskaplegt.

Desember verður samt að taka á honum stóra sínum til að árið verði það  hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavik. En það hefur góða möguleika á að krækja í silfrið - það er að segja ef ekki kemur annað hvort heimsendir eða hamfara Lurkur.

Þetta verður þá silfurárið fræga! 

Fylgikskjalið birtir umbúðalausan sannleikann um þennan nóvember. Alveg þar til daginn eftir morgundaginn.  

10112806_2806.gif

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Blíðskaparveður

Meðalhitinn í nóvember í Reykjavík er loksins kominn yfir frostmarkið. Hann er nú 0,5 stig og er 1,3 stig undir meðallagi. Á Akureyri er hitinn -0,9 og er svipað undir meðallagi.

Nú er glaðasólskin í Reykjavík og milli sjö og átta stiga hiti. Vindur fremur hægur.

En þetta verður besti dagurinn á næstunni. Síðan kólnar smám saman. Meðalhitinn mun samt stíga  í dag og á morgun en verður síðan aftur líklega undir frostmarki í hægu veðri og mun lækka hægt. 

Nú er það bara spurningin hvort meðalhitinn helst yfir frostmarki þegar upp verður staðið í mánaðarlok.

Nóvember er sá mánuður sem mest kólnaði frá hlýindatímabilinu 1931-1960 til kuldatímabilsins 1961-1990, 1,4 stig. Síðustu árin hefur nóvember hlýnað mjög en þessi ætlar greinilega að svíkja lit í þeim efnum.

Sólskinsstundir eru þegar orðnar fleiri en í meðallagi alls mánaðarins í Reykjavik.  

Í fylgiskjalinu sést hinn sláandi munur sem oft er á snjóalögum á suðurlandi og norðurlandi. Í Reykjavík hefur alhvít jörð verið í þrjá daga og einn dag flekkótt af snjó en annars hefur jörð verið alauð. Snjódýptarsumma alhvítra daga er 12. Á Akureyri hefur verið alhvítt allan mánuðinn og summa snjódyptar er 422. 

Áfram getum við fylgst með þessu á fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykjavík og blaði tvö fyrir Akureyri.

Hámarkshitinn á mönnuðu stöðinnni á Höfn í Hornafirði hefur verið eitthvað undarlegur síðustu daga og ekki trúverðugur. Úrkomutölur frá mönnuðu úrkomustöðinni á Raufarhöfn eru einnig stundum stórundarlegar og kannski líka frá sjálfvirku stöðinni á Fáskrúðsfirði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ósiður í Ríkisútvarpinu

Séra Bára Friðriksdóttir, prestur í Hafnarfirði, réðst í útvarpsmessu á ''húmanista'' fyrir að vilja ''banna sér'' og níutíu prósentum þjóðarinnar að rækja lífsskoðun sína eða trú. Orðið húmanisti var ekki þarna skilgreint frekar. En í almennri umræðu á Íslandi, ekki síst um trúarleg efni, mun áreiðanlega næstum öllum detta í hug félagar í Siðmennt en þeir kalla sig einmitt húmanista og eru svo oft líka nefndir af öðrum.

Samkvæmt venjulegum skilningi í umræðum þegar ýjað er að hlutum án þess að nefna þá alveg beint, en treyst á að menn kveiki á perunni samkvæmt hefðbundnum tengingum, var Bára Friðriksdóttir í útvarpsmessu á vegum ríkisfjölmiðils að saka félaga í Siðmennt um að vilja banna sér og 90 prósentum þjóðarinnar að iðka trú sína. Það hljómar ekki vel. Brugðið er þannig upp mjög neikvæðri mynd af þessu félagi. Og þetta er gert í formföstu helgihaldi þar sem hefðin gerir ekki ráð fyrir því að þeir sem fyrir ásökunum verða geti svarað fyrir sig. 

Þetta er þess vegna mjög rætinn málflutningur. Sumir myndu segja guði andstyggilegur málflutningur.

Ég tek það fram að ég er ekki í Siðmennt og hef engin tengsl við þann félagsskap og er heldur ekki húmanisti fyrir fimm aura. Ekki einu sinni trúleysingi. Ég  hef hins vegar smávegis réttlætiskennd.

En þessi málflutningur Báru er ekki aðeins rætinn. Hann er líka mjög heimskulegur. 

Hún virðist þarna rugla saman ''húmanistum''og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar sem kom fram með tillögur um samband skóla og trúfélaga.

Aðatriðið er samt það að hvorki félagið Siðmennt né mannréttindaráðið vill banna 90 prósentum þjóðarinnar að iðka trú sína eða lífsskoðun.

Bára Friðriksdóttir fer því með hreina lygi frammi fyrir alþjóð. Og hún gerir það til þess að gera lítið úr og koma höggi á þá sem hún kallar ''húmanista'' og liggur beinast við að skilja í fyrsta lagið sem félagið Siðmennt og í öðru lagi allir þeir sem hafa einhverjar minnstu efasemdir um það að rétt sé að prestar boði trú í grunnskólum utan kennslustunda.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útvarpsmessur eru notaðar í svipuðu skyni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa ótakmarkað tækifæri til að gagnrýna og stundum níða niður alla þá sem þeim eru ekki þóknanlegir og þeir hafa sannarlega ekki legið á liði sínu. Þeir sæta hreinlega færis um að '' kasta sprengjum'' í útvarpsmessum af því að þeir vita að þá tala þeir til þjóðarinnar og hafa góða möguleika eins og reynslan sýnir að komast í fréttirnar í fjölmiðlunum að auki.

Það er ekkert í sjálfu sér að því að atast í húmanistum eða trúleysingjum eða hverju  og hverjum sem er. Það er bara fútt í því. En það er ósanngjarnt að ríkisfjölmiðill skuli kerfisbundið gefa prestum Þjóðkirkjunnar færi á að gera þetta án þess að á sama vettvangi fái þeir sem fyrir skotunum verða minnstu tækifæri til að svara fyrir sig. (Hve nær skyldi Siðmennt  -eða Vantrú- , nú, eða ég! -fá að boða lífsskoðanir sínar í Ríkisútvarpinu?).

Hve nær líður þessi ósiður með útvarpsmessurnar undir lok? 

Lesið svo þetta yður til andlegar uppbyggingar á erfiðum tímum!


Nóvember

Jæja, þá er það nóvember.

Nú snýst málið um það hvort þetta ár verði það hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík. Þeir tveir mánuðir sem eftir eru verða því að standa sig. Og ekkert múður!

Við getum fylgst með þessu í fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykjavík og landið og blaði tvö fyrir Akureyri.

 

 


Október ekki meðal þeirra tíu hlýjustu

Meðalhitinn í október er 6,3 stig í Reykjavík en 4,3 á Akureyri.

Mánuðurinn kemst ekki á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði í Reykjavík og heldur ekki yfir landið.

Samt er hann kringum 1,8 stig yfir meðallagi á landinu. Hann er svipaður og október 2001 en annars verður að fara til 1985 til að finna hlýrri október, bæði fyrir landið og Reykjavík. Í Reykjavík er þetta þó aðeins 14. hlýjasti október frá 1866. Á landinu tel ég þetta vera 13. hlýjasta október frá sama tíma.

Sem sagt ekkert til að gera veður út af hér á Allra veðra von!

Eins og menn væntanlega muna byrjaði mánuðurinn með miklum hlýindum. Þann 17. var meðalhitinn í Reykjavík 9,4 stig eða 4,4 stig yfir meðallagi. En það sem eftir var mánaðarins var meðalhitinn 2,5 eða 1,1 stig undir meðallagi. En hann hefði alveg getað verið þrjú stig fyrir neðan meðallag!

Af hlýjum október að vera er þetta sólríkur mánuður, sólarstundir líklega yfir hundrað í höfuðstaðnum. Sumir kvörtuðu um rigningar en úrkoma var þó minna en helmingur þess sem venja er í Reykjavík en um meðallag á Akureyri.

Sem fyrr er hægt að sjá ýmislegt varðandi mánuðinn í fylgiskjalinu, blaði eitt og tvö.

Og nú er veislan búin og ég spái fádæma harðindum og vetrarhörkum framundan! 

Mun sá vetur skuldalurkur og Hreggviður hinn meiri kallaður verða. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband