Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Mikil úrkoma á Kvískerjum

Á sjálfvirka úrkomumælinum á Kvískerjum mældist úrkoman að morgni sunnudagsins 181,2 mm. Því miður eru ekki mannaðar úrkomuathuganir á staðnum núna en þar hefur mest mælst í september með þeim hætti 157,0 mm þ. 28. árið 2007.

Kvísker eru úrkomusamasti staður landsins og þar eru ekki aðeins flest úrkomumánaðarmet heldur líka flest sólarhringsúrkomumet. Það gildir þó ekki um september. Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á mannaðari stöð í september er 197,0 mm á Nesjavöllum þ. 17. 2008 en á sjálfvirkri stöð 220,2 mm þ. 27. 2007 á Ölkelduhálsi.

Meðalhitinn í Reykjavík í þessum mánuði er enn 10,2 stig og mun líklega halda sér nokkurn vegin að minnsta kosti til mánaðarloka. Ef það gengur eftir og jafnvel þó hann lækki eitthvað mun þetta verða hlýjasta sumar, júní til september, sem mælst hefur í Reykjavík. 

Við getum fylgst með þessu í fylgiskjalinu. Í gær var mesti meðalhiti og hæsti hámarkshiti sem komið hefur 26. september á Akureyri síðan a.m.k. 1949.     

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óafsakanleg framkoma Hæstaréttar

Það er algerlega óafsakanlegt af Hæstarétti að birta í dómnum á vef sínum nafn sjúklingsins sem sviptur var sjálfræði til að koma yfir hann læknismeðferð þó það hafi  aðeins staðið á vefnum í skamman tíma.

Rétturinn ætti að biðja viðkomandi opinberlega afsökunar án þess þó að nafngreina hann. 

Og nafnbirtingin sem slík ætti að verða tekinn til meðferðar af réttum aðilum. Ef ekki er það viðurkenning á því að koma megi fram við geðsjúklinga eins og hverjum og einum þóknast.

Það er með ólíkindum á 21. öld hve þessi dómur og frágangur hans er niðurlægjandi fyrir þann sem fyrir honum verður. Hún er meiri en nokkur dæmdur sakamaður verður að þola þó viðkomandi beri enga sök.  

 

 

 


Bjartar vonir vakna

Eftir veðurspánni til mánaðarloka er engan vegin útilokað að þetta sumar verði það hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík ef miðað er við túnið á Veðurstofunni. En það er eiginlega ómögulegt að það nái þeim hita sem mældist 1939 á þaki Landsímahússins.

Meðalhiti alls mánaðarins verður að að hanga í 9,9 stigum til að sumarið verði met. Hann er nú í 10,2 stigum og mun líklega lítið  lækka næstu daga eftir spánni að dæma.  

Og áfram getum við fylgst með hetjulegri baráttu septembermánaðar í fylgiskjalinu. Mun hann tryggja sumrinu gull í metakeppninni eða verður sumarið að láta sér silfrið nægja?

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Guðlaug líti í eigin barm

Upplýsingarnar sem Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir kvartar þarna yfir eru ekki síst frá henni sjálfri komnar. Hún vissi auðvitað vel þegar hún gaf vitnisburð fyrir réttinum að  hann yrði gerður opinber samkvæmt venju. Og alveg áreiðanlega ber orðalagið í dómsorðinu mjög sterkan svip af því hvernig Guðlaug sjálf setti málið fram í réttinum, bæði að anda og orðalagi.  

Og grimmur er vitnisburðurinn, ótrúlega tillitslaus og auðmýkjandi  fyrir viðkomandi.  Algerlega  einstakur í sögu dóma og í sögu íslenskra geðheilbrigðismála að því leyti. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem viðkomandi hafi ekki verið gert mögulegt að koma neinum sómasamlegum vörnum við.

Ég geri samt ekki ráð fyrir að geðlæknirinn sem svíkur sjúkling sinn í tryggðum og niðurlægir hann opinberlega líti í eigin barm. Fremur að hún vilji halda þessu í leyndum og ásaki aðra um eigin  sök. 

Það alvarlegasta í málinu er þó það að lækni þessum og teymi hans sé eftir sem áður treyst fyrir meðferð á sjúklingum sem nú á að fara fram með valdi og ofbeldi þó lesa megi í dómnum að  læknateymið viðurkenni að það sé komið í þrot. 

Það virðist vera eitthvað meira en lítið bogið við það hvernig staðið er að sjálfræðissviptingu  fyrir  dómstólum.

En það er í sjálfu sér einnig alvarlegt ef geðlæknar krefjast þess að niðurlægjandi vitnisburður þeirra um sjúklinga fyrir dómstólum sé hafður falinn og reyni að segja Hæstarétti fyrir verkum til að svo megi verða.

 

   

 


mbl.is Kvartað vegna upplýsinga sem birtust á vef Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarréttarhöld

Að kröfu Velferðarsviðs Reykjavíkur, sem líklega hefur farið eftir óskum annarra en ekki átt frumkvæðið, úrskurðar Hæstiréttur að þrítug kona verði svipt sjálfræði í ár til að hægt verði að veita henni meðferð við átröskun.

Ýmislegt stingur í augu þegar dómur Hæstaréttar er lesinn. Fram kemur að nauðsynlegt sé að svipta manneskjuna sjálfræði að mati geðlækna til að hægt verði að lækna hana. Samt er rakið að hún hafi verið inn og út af  geðdeild frá táningsárum en aldrei hafi þó tekist að lækna hana! Sú staðreynd finnst mér ekki réttlæta valdbeitingu. En samt er ofbeldi beitt fremur en horfst sé í augu við þau augljósu sannindi að læknavísindin eiga ekkert svar við vanda konunnar. Það er auðvitað sorglegra en tárum taki. En það er samt  sannleikurinn sem ekki hverfur þó beitt sé ofbeldi til að breiða yfir hann. Það er líka mikilvægt atriði að manneskjan hafnar ekki læknismeðferð heldur einungis sjálfræðisviptingu. 

Fullyrt er að hún sé í lífshættu. En hún er samt á lífi eftir þessa löngu  þrautagöngu. 

Það blasir því hreinlega við að helsta ástæðan til  réttlæta að svipta manneskjuna sjálfræði, að hún sé í lífshættu, er einfaldlega ekki trúverðug.

Hún er lygi. Og á grundvelli þeirrar lygi er manneskja svipt sjálfræði. 

Það er svo hálf nöturlegt að lesa að geðlæknir konunnar til tíu ára, Guðlaug Þorsteinsdóttir, er því mjög meðmælt að skjólstæðingur sinn sé sviptur sjálfræði. Það hefði nú verið hægt að tala um rýting í bakið af minna tilefni. 

Tómas Zoega og Halldóra Jónsdóttir geðlæknar vitnuðu líka gegn konunni.

Þrír sprenglærðir geðlæknar mæla sem sagt í reynd fyrir hönd sóknaraðila þó þeir eigi að heita vitni.

Ekki kemur fram í neinu að dómararnir hafi fjallað um vitnisburð læknanna á gagnrýninn hátt. Hann er bara talinn vera óyggjandi sannleikur sem ekki þurfi svo mikið sem að hugsa út í.    

Og bíðum nú við - ekki verður séð af dómnum að konan  hafi haft  einn einasta sérfræðing sér til halds og trausts til að gefa mótvitnisburð af nokkru tagi.

Það kemur hins vegar vel fram í dómnum að vitnisburður hennar sjálfrar um það hvernig hún upplifir sjálfa sig og líkama sinn gæti ekki verið minna metinn. Hann er talinn einskis virði. Á konuna er ekki hlustað.

Út yfir tekur þegar það kemur skýrt og greinilega fram í dómsorðinu að vitnisburður  hennar sé beinlínis notaður gegn henni.

Það er hreinlega valtað yfir hana.  

Maður fær það mjög sterkt á tilfinninguna að dómshald sem svona fer fram sé bara sýndarréttarhöld. 

Það var í rauninni búið að ákveða niðurstöðuna fyrirfram af félagsmálastofnun og geðdeild Landsspítalans. Dómsorðið er aðeins formsatriði. Skrípaleikur.   

Dómarar málsins voru alls ekki Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Dómarar málsins voru í reynd Tómas Zoega, Guðlaug Þorsteinsdóttir og Halldóra Jónsdóttir. Og allt gert til að neyða manneskju í læknismeðferð sem reynslan hefur óþyrmilega sýnt að kemur að engu gagni. Ár eftir ár eftir ár. Geðlæknar þessir rísa með ''lækningum''  sínum greinilega ekki undir því valdi sem þjóðfélagið veitir þeim til að læknisfræðilegra réttlætinga fyrir valdbeitingu.   

Eftir því sem ég hef lesið um dómshald í svipuðum málum er þessi dómur engan vegin sérstakur nema að því leyti hver sjúkdómslýsingarnar eru ónærgætnislegar.  Dómar um sjálfræðissviptingu eru flestir með svipuðu sniði.

Algerlega berskjaldaður einstaklingur stendur frammi fyrir ofurefli sóknaraðila án þess  að nokkrar raunverulegar varnir séu fram fyrir hann færðar. 

Og fram á þennan dag hefur enginn gert minnstu athugasemd við þetta. 

Hvernig lækning fer fram gegn vilja einstaklings er svo annar handleggur. 

En ég get aldrei hætt að hugsa um hvað gerist ef einstaklingur sem neyddur er í slíka meðferð vill ekki vinna með ''meðferðarðaðilum'' á þeim grunni að hann sé órétti beittur og ofbeldi. Hvort hann verði þá brotinn á bak aftur tilfinningalega og karakterlega af fullu miskunnarleysi.  Og hvað gerist ef hann snýst gegn og hafnar þeim sem upptökin eiga að ofbeldinu sem oft eru í rauninni ættingjar hans þó formið sé kannski félagsmálayfirvöld?

Viðkomandi á þá enga að í heiminum. 

Niðurbrotin manneskja sem á enga að. 

Er hægt að hugsa sér skelfilegra hlutskipti? 

 

 


mbl.is Í lífshættu af átröskun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti haustsnjór í Esju

Meðalhitinn í september hefur hríðfallið í rúmlega viku eins og reyndar við var að búast eftir að óvenjuleg hlýindi tóku enda. Meðalhitinn í Reykjavík er nú 10,9 stig og er enn 2,9 stig yfir meðallagi. Á Akureyri er meðalhitinn 10,2 stig eða 3,2 stig yfir meðallagi.

Þessi september ætlar ekki að verða með allra hlýjustu septembermánuðum eins og hann hafði alla burði til eftir fyrsta þriðjunginn.  Hann hefur síðustu daga verið leiðinlega kaldur þó engir stórkuldar hafi samt verið. Ekki hefur enn gert næturfrost í Reykjavík en því er spáð alveg á næstunni  hvort sem það gengur nú eftir eða ekki. Það hefur heldur ekki frosið á Akureyri og reyndar mjög víða á suður og vesturlandi og við sjóinn á norðvestanverðu landinu og á austfjörðurm. Í Reykjavík hafa þrír fjórðu septembermánaða síðustu 30 ár verið frostlaustir svo frostlaus september eru engin sérstök tíðindi.

Í morgun hafði snjóað í Esju í fyrsta sinn á þessu hausti. Í Gunnlaugsskarði mátti sjá að jörð  var  gráhvít.  

Til þess að sumarið í Reykjavík verði það hlýjasta sem mælst hefur þarf það sem eftir er mánaðarins að vera 7,9 stig að meðaltali.  Næstu tveir dagar a.m.k. verða svalir en heldur hlýnar eftir það. En vonin um metsumar í hlýindum er veik.

Áfram er hægt að fylgjast með september í fylgiskjalinu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úrkomumet fyrir norðan

Þessi september býður ekki bara upp á hitamet fyrir norðan heldur líka sólarhrings úrkomumet.

Á Grímsstöðum féllu 44,8 mm og á Staðarhóli 54,8 mm. Hvort tveggja ný met.

Mest var úrkoma í Hrísey 94, 6 mm og 79 mm á Ólafsfirði. Ekki veit ég um metastsöðuna á þeim stöðvum.  

Á Egilsstaðaflugvelli mældust 62,5 mm á sjálfvirkan mæli. Þar um slóðir hefur mælst mest á mannaðri stöð 45,4 mm.

Kannski fáum við fleiri met í þessum undarlega mánuði. Hver veit nema mesta snjódýpt eigi eftir að mælast og mesta frost! 

Og ruglið á  Alþingi verður væntanlega svo mikð  að það verður ekki mælanleg!

 


Hvað gerir septemberinn okkar?

Meðalhitinn í september í Reykjavík er nú 12,7 stig eða 4,3 stig yfir meðallagi. Aðeins einn dagur,  sá 13., hefur verið undir meðallagi.  Ef mánuðurinn yrði 4,3 stig yfir meðallagi allt til loka yrði hann á mörkunum að vera hlýjasti september sem mælst hefur.

Því miður eru ekki miklar líkur á að svo verði, hvað þá að hann verði enn hlýrri. 

En það er alls ekki útilokað að sumarið í heild, júní til september, eigi eftir að verða það hlýjasta sem mælst hefur. Og miða ég þá við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar. En þá verður meðalhitinn í september að ná 9,8 stigum. Það er ansi há tala og hefur ekki náðst nema fimm eða sex sinnum frá aldamótunum 1900. 

Ég giska á, eftir spám,  að þ. 20. verði meðalhitinn í þessum september kominn niður í um 11 stig. Þá þyrfti það sem eftir er að ná 7,6 stigum að meðallagi. Það er 1,2 stigum yfir meðallaginu 1961-1990 fyrir síðasta þriðjung septembermánaðar en hins vegar í meðallagi miðað við 1931-1960.

Munurinn á meðalhita mánaðarins milli þessara tveggja tímabila er ótrúlegur og ekki meiri í neinum mánuðum nema nóvember og desember.

Satt að segja finnst mér það nokkuð snautlegt ef september ætlar alveg að hrynja. Það er nú ekki nema 15. í dag. En hitinn mun varla merja mikið meira en fara upp í 10 stig í Reykjavík í dag ef hann þá gerir það.

Fáir dagar ársins finnst mér eins sjarmerandi sem síðseptemberdagar, ekki síst um jafndægur,  sem eru bæði bjartir og hlýir. Þá verður hitinn að ná tíu stigum, það er hins vegar ekkert varið í bjarta daga með 6-8 stig hita. Þeir eru tvímælalaust annars flokks. Og hitinn má ekki bara merja tíu stigin einhvern tíma dagsins heldur vera yfir þeim, helst 10-13 stig alveg frá hádegi til kl. 6 síðdegis. Svona dagar geta hæglega komið. Og þegar þeir koma kemst ég alltaf í einvers konar kveðjustemningu. Aldrei að vita nema maður lifi ekki næsta vor. Ég fer að hlusta á 19. aldar síðrómantík, Ljóð jarðar eftir Mahler eða Fjóra síðustu söngva eftir Richard Strauss sem fluttir  verða  á  næstu sinfóníutónleikum, tala nú ekki lagið September sem er eitt af lögunum í þeim flokki.

Stundum komu ekki svona dagar síðla í september i Reykjavík, annað hvort bara skýjaðir og regnþrungnir dagar eða ískaldir norðanáttadagar sem vekja upp októberstemningu. En þessi síðsumarsblær sem ég er að vísa til er septemberfyrirbrigði. Það er einstakur blær yfir veröldinni þegar slíkir dagar koma, trén eru enn laufum skrýdd til að sjá og birtan er sumarbirta en ekki jafn skær og um hásumarið. Það er síðrómantísk birta, mild, munúðarful og seiðandi.

Til að menn skilji hvers konar daga ég á við kemur hér kort með einum slíkum.

Skyldi maður upplifa svona góða daga seint í þessum mánuði? 

Hér er svo áfram hægt að fylgjast með september, bæði í Reykjavík og á Akureyri, blaði eitt og tvö í fylgiskjalinu.  

 

2000-09-23_12_1026577.gif

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Septemberarnir þrír

Þrír septembermánuðir skera sig alveg úr fyrir hlýindi, 1939, 1941 og 1958.  Meðalhiti þeirra var í Reykjavík 11,8, 11,6 og 11,4 stig. 

Meðalhiti júlí árin 1961-1990 var 10,6 stig í Reykjavík og 11,2 árin 1931-1960. Á þessu sést að septemberernir þrír voru ígildi góðra júlímánaða hvað hitann snertir.

Sumrin þessi ár voru líka með þeim allra hlýjustu í heild. September er talinn til sumarmánaða og munar því ekkert smáræði um mánuði af þessum hitaflokki.

Meðalhitinn það sem af er september núna er 13,6 stig í Reykjavík, hærra en nokkur september hefur afrekað þ. 11. Munurinn á okkar september og fyrstu 11 dögunum 1939 má þó reyndar enginn heita. Sá mánuður stóð sig  til mánaðarloka. 

Nú er bara eftir að sjá hvort okkar september tekst að blanda sér í baráttuna um hlýjustu septembermánuðina. Hvort tenórarnir þrír... nei afsakið, septemberarnir þrír vildi ég sagt hafa verða þá orðnir fjórir!

Á fylgiskjalinu má sjá hita, úrkomu og sól hvern dag í þessum mánuðum. Meðalhitinn er eftir þeim stað þar sem mælt var, fyrstu tveir á þaki Landssímahússins við Austurvöll en sá síðasti á Reykjavíkurflugvelli. Sérstaklega er tekið fram að hér er úrkoman frá því kl. 9 þann dag sem tilgreindur er til kl. 9 næsta dag.

Athuganirnar á fyrstu tveimur  mánuðunum voru gerðar eftir íslenskum meðaltíma og nokkuð óreglulegum eftir nútíma venju en í hinum síðasta á heimstíma sem er sá tími sem við notum nú. 

Og hér er náttúrlega okkar september

Látum ekki deigan síga við að hvetja hann til dáða. Áfram september!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Glænýtt septembermet í Reykjavík

Í nótt fór hitinn í Reykjavík niður í 7,8 stig og fór þar með niður fyrir 10 stig í fyrsta sinn í þessum mánuði. Þetta er lengsta tímabil í septembermánuði síðan mælingar hófust að hiti þar sé samfellt yfir 10 stigum, 11 sólarhringar. Gamla metið var 10 dagar, 3.-12. 1958 og  svo fyrstu 9 dagarnir í  september 1939.

Að þessu sinni voru tveir síðustu dagarnir í ágúst í Reykjavík líka yfir 10 stigum svo sólarhringarnir sem verið hafa yfir tíu stigum eru nú 13 í röð. Það er líka met yfir mánaðarmótin ágúst til september en gamla metið var frá 1939,12 dagar frá 29. ágúst til 9. september.

Þetta er reyndar með allra lengstu tímabilum yfireitt að sumri sem hiti í Reykjavík fer ekki undir tíu stig.

Svo höldum við áfram að fylgjast með þessum september sem nú er að líða. 

Meðalhitinn er enn langt yfir meðallagi um allt land. En nú mun saxast á meðalhitann statt  og stöðugt. Við þyrftum að fá hlýindagusu eins og kom í seinni hluta september 1941 og síðustu vikuna 1958 en síðasta dag þess mánaðar fór hitinn í Reykjavík í 17 stig. 

Áfram september!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband