Nú hallar undan fæti í hlýindamálum

Þegar 20 dagar eru liðnir af desember er hann enn sá hlýjasti í Reykjavík fyrir þá daga. Meðalhitinn er 5,6 stig. Næstur kemur desember 1987, 5,4 stig, 2002, 5,3 stig, 1933, 4,7 stig og 1978, 4,3 stig. Hlýjastur allra desembermánaða í heild í Reykjavik er sá árið 2002 sem var 4,5, 1933 4,4 stig  og 1987, 4,2 stig. Þessir mánuðir eru í sérflokki meðal desembermánaða því sá sem næstur kemur er desember 1946 sem mældist "aðeins" 2,9 stig þegar hann var allur. Þetta eru því gull, silfur og bronsmánuðurnir fyrir desember í Reykjavik.

En nú hefur kólnað og mun kólna enn þá meira svo öruggt má heita að þessi desember sem nú er að líða falli af verðlaunapalli hvað hitann varðar, já, með sneypu og skömm, sem einn af þremur hlýjustu desembermánuðum! 

Fyrsta frostið í Reykjavik í þessum mánuði var í gær en fyrsti alhvíti dagurinn á veðurstöðinni var í morgun og snjódýpt var 7 cm. Í fyrradag var jörð talin hálfhvít.

Þannig fór nú það.

Sumir fagna snjónum en alls ekki allir eins og mætti þó halda eftir fagnaðarópum fjölmiðla yfir því að líkur sé á hvíum jólum. Á fasbókarsíðu minni, sem vitanlega er takmörkuð við fáa, hafa þó komið "læk" svo mörgum tugum skiptir þegar ég segist kunna að meta hlýindin og fagni ekki snjóum!


Enn þá hlýindamet i Reykjavík

Þegar desember er rúmlega hálfnaður er hann enn sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík. Meðalhitinn er 6,1 stig sem er heilum fimm stigum yfir meðallagi síðustu 30 ára en 4,9 yfir meðallagi fyrstu 16 desemberdaganna á okkar öld. Já, fyrri hluti desembermánaðar hefur ekki verið sérstaklega hlýr á okkar nýbyjuðu öld miðað við svo marga aðra daga og mánuði aldarinnar. Þar munar ekki svo litið um hina köldu desemberbyrjun árið 2011 sem er sú næst kaldasta eftir aldamótin 1900 en kaldara var fyrstu 16 desemberdagana árið 1950. 

Næst hlýjustu 16 fyrstu dagarnir í desemeber í borginni voru árin 1987 og 2002 með 5,4 stig en 1978 með 5,3 stig. Hlýjustu desembermánuðir þegar hann var allur liðin voru 2002, 4,5 stig, 1933 4,4 stig og 1987,4,3 stig.

Í þessu sambandi má minna á það að október var sá næst hlýjasti sem mælst hefur bæði í Reykjavík (reyndar ómarktækur munuur þar á honum og þeim hlýjasta 1915) og á Akureyri. Nóvember var einnig hlýr en ekki í hæstu hæðum tiltölulega. En svo kemur þessu desember sem reyndar er ekki nema hálfnaður. Þetta verður því að teljast nokkuð óvenjulegt ástand. En óvenjulegt ástand yfir einhvern tíma í veðrinu í einhverjum árum er reyndar einmitt hið venjulega! 

Meðalhitinn mun liklega halda sér í hæðunum næstum tvo daga en síðan er spáð kaldara veðri og jafnvel snjókomu. Svo gæti þá farið að þessi desember verði um áramót ekki í röð þeirra allra hlýjustu í Reykjavík eða annars staðar.

Árið stefnir þó í það í Reykjavík að verða með allra hlýjustu árum. 

 


Söguleg byrjun á desember

Þegar fyrstu tíu dagarnir eru liðnir af desember er meðalhitinn í Reykjavík 7,1 stig. Það er rétt rúmlega sex stigum  yfir meðallagi síðustu 30 ára fyrir sömu daga. En jafnframt er þetta hlýjasta byrjun á desember frá því mælingar hófust í Reykjavík. Næstir koma í röðinni desembermánuðirnir 1933 og 1978 sem voru með 6,0 stig fyrstu 10 dagana en svo 1989 með 5,7 stig, 1987 með 5,6 stig og 1902 með 5,4 stig. Desember 2002 var 5,2 stig fyrstu 10 dagana en endaði sem hlýjasti desember sem mælst hefur í Reykjavík, 4,5 stig, en 1933 er næstur, 4,4 stig og 1987 þriðji, 4,3 stig. 

Margt getur gerst á 20 dögum sem eftir eru mánaða svo sem sjá má á því að desember 1989 endaði í 0,2 stigum, 1978 i 1,4 stigum og 1902 í 0,6 stigum þrátt fyrir afar hlýja byrjun. Ekki er því hægt að spá neinu um það hver hitinn verður í mánaðarlok. 

En auðvitað er forskotið núna sérstaklega glæsilegt, meira en heilu stigi meira en það sem mest hefur áður verið fyrstu tíu dagana.Vikutími með frosti gæti þó gert þennan  glæsileika að engu. 

Þetta er sem sagt æði söguleg byrjun á desember. Enginn hefur bókstaflega lifað annað eins! Og það fylgir þá með ýmislegt sem ekki er beint hversdagslegt. Skammdegisbirtan er til dæmis öðru vísi en næstum því alltaf á sama tíma. Það stafar af því að enginn snjór er á jörðu, ekki aðeins á láglendi heldur upp um öll fjöll. Það sem gerir þetta svo sjarmerandi er auðvitað það hve sjaldgæft það er. Náttúran er að sýna hlið sem hún er einna spörust á.Ekki er ástandið núna í myrkasta skammdeginu að þessu leyti þó alveg einsdæmi þó hitunn sé að slá met. Á aðfangadag 1997 var snjólaust hér á láglendi og næstum því enginn snjór í Esju og reyndar alautt á öllu landinu. Þann dag skein sól á sundin við Reykjavík um miðjan dag og voru þau litbrigði sem þá birtust engu lík og alveg ógleymanleg. Oft er þó þungbúið við svona aðstæður og slíkt sjónarspil er því einstaklega fátítt þó snjólaust sé. En menn ættu endilega að hafa augun hjá sér og fylgjast vel með ef slíkt einstætt náttúrundur léti á sér kræla næstu daga, sólskin í snjólausu skammdegi, í stað þess að rella eftir jólasnjó sem alltaf er hvort sem er meira og minna og er engan vegin sjaldfgæt náttúrufar. Njótum náttúrunnar þegar hún sýnir sínar leynilegustu hliðar! 

Þó erfitt sé enn þá að átta sig á því nákvæmlega sýnist mér að landsmeðalhiti megi heita sá sami eða jafnvel örlítið hærri en sá mesti frá og með árinu 1949 fyrstu tíu dagana í desember. En hlýindin nú eru mest á suðvesturlandi. Hlýtt er auðvitað alls staðar en nokkuð vantar upp á víðast hvar annars staðar að fyrstu tíu dagar mánaðarins séu í toppnum eins og hér.

Til samanburðar og andstæðu við hlýindin núna má nefna fyrstu 10 dagana í desember 2011 sem voru upp á -4,8 stig í Reykjavík. Það er reyndar kaldasta desemberbyrjun sem núlifandi borgarbúar hafa lifað. Samt er ekki rétt að tala um neinar öfgar varðandi mismuninn á þessum tíu dögum en tal um öfgar í veðri í fjölmiðlum er stundum  með nokkrum öfgum á vorum dögum! Þannig geta bara hagað sér dagar í vetrarmánuðum milli ára, þeir geta verið óvenjulega hlýir eða óvenjulega kaldir og allt þar á milli. Það er einfaldlega náttúrulegur breytileiki veðurfars sem ekki er hægt að jafna við öfga. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband