Enn hlýrra í dag fyrir austan en í gær

Hitinn í dag fór í 24,1 stig á Seyðisfirði. Það er reyndar mesti hiti sem mælst hefur á landinu þennan mánaðardag frá stofnun Veðurstofunnar 1920. En meiri hiti hefur þó mælst nokkrum sinnum nærri þessari dagsetningu, bæði fyrir og eftir. Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í september er 26,0 á Dalatanga þann 12. árið 1949.

Í dag mældist hitinn 23,3 stig á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 23,2 í Neskaupstað og 22,2 stig á mönnuðu stöðinni á Miðfjarðarnesi. Þetta er mesti septemberhiti sem mælst hefur á Skjaldþingsstöðum síðan stöðin byrjaði 1994. Meiri septemberhiti hafði áður mælst í Vopnafjarðarkauptúni. 

Á Raufarhöfn fór hitinn í 21,7 stig á sjálfvirku stöðinni en á mönnuðu stöðinni þann 12. september 1949 mældust 22,0 stig. 

Hitinn í dag er því aðeins einu þrepi eða svo neðar en það mesta sem mælst hefur á norðausturlandi í september. Skilyrði voru í háloftunum fyrir enn meiri hita en mældist en sjaldan skila slík skilyrði sér fyllilega niður við jörð.

Ekki er þó hægt að segja annað en þetta hafi verið vel heppnaður dagur norðaustanlands. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 7. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband