Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Barnsmorð lögreglu í Aþenu

Eins og sést af þessari frétt ber vitnum ekki sama um atburðarásina sem leiddi til dauða drengsins. Það er því ekki hægt að taka skýringar lögreglunnar gildar einar og sér eins og sumir gera þó óhikað sem gert hafa athugasemdir við síður sem hafa bloggað um þessa frétt. Fyrsta viðbragð manna af því tagi eru allt að því ósjálfráð viðbrögð að verja lögregluna ef eitthvað kemur upp á. Það er hins vegar óumdeilt að 16 ára drengur var skotinn til bana.

Á Íslandi er það venjan að skýringar lögreglu á atburðum eru teknar góðar og gildar af fjölmiðlum án nokkurra spurninga.

Takið svo eftir því hvernig fyrirsögnin í þessari frétt segir líka sögu: ''Óöld í Aþenu'' en ekki til dæmis  ''Barnsmorð lögreglu í Aþenu''. Fréttir fjölmiðla eru aldrei hlutlausar. Þær lýsa alltaf ákveðinni hugmyndafræði, viðhorfi til umheimsins.  

Auðvelt er að skilja að ''óöld'' brjótist út þegar 16 ára barn er drepið af lögreglu.   

Mér finnst líklegt að lögreglan muni verja athæfið fullum fetum og án minnstu iðrunar. Ekki mun hún lýsa yfir harmi sínum eða samúð í garð aðstandenda drengsins. Stjórnvöld munu standa með lögreglunni og fordæma ''skrílinn''.

Lögregla og stjórnvöld eru söm við sig í öllum löndum.


mbl.is Óöld í Aþenu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klám og guðlast um aldur og og ævi

Í grein í Lesbókinni í dag segir Árni Matthíasson að það sem einu sinni sé sett á netið verði þar um aldur og ævi.

Ég hef heyrt þetta áður en skil samt ekki hvernig það má verða.

Setjum svo að ég skrifaði svo geðveikislegt klám og guðlast inn á bloggsíðuna mína að liði yfir hvern mann sem læsi það,  en svo tæki ég það bara út aftur og enginn hefði haft vit á því af skelfingu að taka afrit af því. Svo yrði sjálfu Moggablogginu lokað.

Yrði samt klámið og guðlastið mitt áfram á netinu um aldur og ævi. Hvernig þá?


Jarðskjálfti

Mér fannst ég finna snarpan jarðskjálfta rétt áðan.

Bætt við: Stærðin var 3,7 og upptökin 5,6 km suðvestur af Skálafelli við Hellisheiði kl. 14:16, dýpi 5  km.

Jarðskjálftar, eldgos, mótmæli, óáran!


Þraukað í þúsund ár

Sá mæti maður Hörður Torfason var áðan í útvarpsfréttum að gera lítið úr ábendingu fréttamanns um það hvort vetrarveður hefði ekki áhrif á mætingu á útimótmæli. Hörður svaraði með því að þjóðin hefði nú '' þraukað í þúsund ár'' og veðrið ætti því ekki að skipta máli. 

En það gerir það nú samt. Hvort þjóðin hefur þraukað í þúsund ár, sem er bara staðfesting á því að hún er enn á lífi eins og allar aðrar þjóðir, kemur mótmælum úti við á okkar dögum ekkert við.

Þó samúð mín sé með mótmælendum þá fer svona veðurafneitun í taugarnar á mér. Ekkert hefur eins mikil áhrif á útiathafnir og einmitt veðrið. Nú er kominn vetur og því ekki bara kalsamt heldur jafnvel óbærilegt að vera úti lengi hreyfingarlaus. Það er bara líffræðilegt atriði. Hins vegar vill svo til að nú er komin hláka svo dagurinn í dag er ekki svo slæmur til útimótmæla. En það er bara heppni.  Það gæti verið stórhríð og stormur eða norðanbeljandi og 15 stiga frost.

Ekki  tjóir að neita því að veðrið hefur beinlínis úrslitaáhrif á það hvort menn nenna að mæta í útimótmæli eða ekki.   


Er þetta þá ekki svo alvarlegt brot?

''Við ákvörðun refsingar Guðmundar var litið til ungs aldurs einnar konunnar og þess að brotin beindust að konum sem höfðu leitað í brýnni neyð eftir meðferð vegna vímuefnaneyslu og ákærði hefði fært sér það í nyt með ófyrirleitni.'' 

Svo segir Hæstiréttur. Þetta virðast vera mjög alvarlegar sakir. Samt fær sakborningurinn aðeins tveggja og hálfs árs fangelsisdóm. Hann var reyndar sýknaður af einni ákærunni sem héraðsdómur hafði fundið hann sekan fyrir. En hvað ætli refsiramminn sé rúmur fyrir hin brotin þrjú?

Ég er ekki meðmæltur hörðum refsingum en er það ekki með svívirðilegri brotum að meðferðaraðili notfæri sér aðstöðu sína gagnvart skjólstæðingum sínum? Ber ekki að dæma eftir því?


mbl.is Forstöðumaður Byrgisins dæmdur í 2½ árs fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð er þá búinn að brjóta bankaleyndina

Davíð Oddsson ætlar ekki að skýra viðskiptanefnd Alþingis frá því hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og ber bankaleynd fyrir sig. Ef sú leynd er svona mikilvæg þá hlýtur hún líka að hafa náð til þess að seðlabankastjóri minntist yfirleitt á það opinberlega að hafa nokkra vitneskju um hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn bankastofnun.

Davíð Oddson er því augljóslega búinn að brjóta bankleyndina nú þegar. 

Það lýsir kannski best því samblandi af ráðleysi og gerræði sem nú ríkir í landinu að menn í hans stöðu skuli komast upp með slíkt háttarlag án þess að nokkur fái rönd við reist eða reyni það einu sinni. Menn láta bara gott heita.  


mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Intrum og Landsbókasafnið

Ég hef notað bókasöfnin mjög stíft í hálfa öld. Næstum því alltaf gæti ég þess að skila bókunum langt innan þess tíma sem menn mega hafa þær. Í algjörum undantekningartilfellum getur þó dregist að maður skili bók. En alltaf verður henni samt skilað á endanum, ekki eftir nokkur ár heldur eftir svona tvo mánuði í hæsta lagi. Núna hef ég til dæmis verið með Veðurfar á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen að láni frá Landsbókasafni. Ég hef þurft að nota hana við samningu bloggpistlanna minna um hlýjustu og köldustu mánuði. Ég hef oft skilað henni og tekið hana aftur. Nú beið ég aðeins með að skila enn einu sinni af því að ég var um það bil að ljúka skrifunum og ætlaði þá að skila bókinni endanlega.

En þetta dróst aðeins. Ég fékk áminningu um að skila bókinni frá Landsbókasafninu. Fínt að fá svona áminningar til að halda manni við efnið. Svo fékk ég ítrekun. Þar var sagt að ef ég skilaði ekki bókinni innan 14 daga yrði innheimtufyrirtækinu Intrum sigað á mig með tilheyrandi kostnaði. Það var reyndar spurning um daga hve nær bókinni yrði skilað. Landsbókasafnið sendir sem sagt eina áminningu fyrir vanskil. Síðan kemur ítrekun með hótun um að siga á lánþega bófafélagi, en í mínum augum er innheimtufélagið Intrum ekkert nema bófafélag. Það kom best í ljós þegar það herti þumlaskrúfurnar á skuldurum alveg sérstaklega þegar kreppan skall á þrátt fyrir tilmæli þjóðfélagsins um samstöðu og skilning.

Mér finnst það ekki sæmandi menningarstofnun eins og Landsbókasafni - og reyndar heldur ekki Borgarbókasafninu - að hafa samvinnu við bófafélög. 

Hér áður fyrr komu menn frá bókasöfnunum heim til fólks ef skil á bókum dróst mjög úr hömlu. Það fannst sumum að vísu óþægilegt en það var samt manneskjuleg aðferð. Að siga á lánþega bófafélagi er hins vegar ekkert nema ómanneskjulegur bófahasar. Mér finnst skilvísir lánþegar í áratugi, þó fyrir komi að þeir efni til skulda, eigi ekki  að þurfa að búa við slíkt frá þeim stofnunum sem þeim finnst einna mest vænt um af öllum stofnunum: bókasöfnum. 

Þetta hleypir bara kergju í fólk og fælir það frá bókasöfnunum. Ég segi fyrir mig að ef svo ólíklega vildi til - og það gerðist ekki nema ég væri orðinn meðvitundarlaus vegna veikinda - að Intrum yrði sigað á mig vegna vanskila yrði það ekki til að ég myndi skila. Þvert á móti myndi ég þá aldrei skila og kæra mig kollóttan um allar sektir. 

 Ætli menn eigi annars von á lögtökum eða fangavist fyrir að skila ekki bókum á Landsbókasafnið?

Að lokum vil ég minna Landsbókasafnið á að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á vorin meðan próf standa yfir að ég hef þurft að hrökklast frá safninu, þegar ég hef ætlað að skoða gögn sem hvergi eru aðgengileg nema þar, vegna þess að öll sæti voru upptekin af háskólanemum sem voru með skólabækurnar sínar að heima og ekki að nota bókakost safnsins.

Landsbókasafnið ætti að reyna að standa undir nafni og vera bókasafn allra landsmanna, en ekki bara háskólanema, fremur en standa í því að þjarma að fólki með eins konar handrukkurum frá bófagengi eftir að einni áminningu um vanskil á bókum sleppir.    

 


Auðlindin

Nú ætla ég að líta upp úr veðurskræðunum til að vera neikvæður. Hvernig dettur Ríkisútvarpinu í hug að setja þennan mjög svo sérhæfða þátt Auðlindina,sem fjallar um atvinnumál, á dagskrá klukkan 19:15? Þessir þættir eru afar sérhæfðir og höfða áreiðanlega ekki til fólks í stórum stíl. Áðan var til dæmis fjallað um þaravinnslu.

Menn verða svo að bíða eftir Speglinum til klukkan hálf átta en þar er fjallað um efni sem höfðar til miklu fleiri.

Er ekki hægt að finna annan og hentugri tíma í dagskránni fyrir þessa atvinnumálaumfjöllun sem Auðlindin er? Ég held að þetta sé leiðinlegasta efni sem ég heyri í útvarpinu.


Stórtíðindi fyrir veðurdellufólk

Í dag kom danska veðurbókin, Meteorologiske Aarbog, sem gefin var út af dönsku veðurstofunni inn á vefinn á tímarit.is. Hægt er  skoða árin 1873-1919 og sjá þar m.a. daglegt veður á nokkrum veðurathuganastöðvum.

Þessar bækur hafa aðeins verið til á Landsbókasafni og hjá Veðurstofunni og ekki verið hlaupið að því fyrir fólk að komast í þær (menn biðu alveg í röðum!). En nú geta menn legið í þeim heima í stofu yfir ilmandi kaffi og kleinum. Og þarna er ólíkt meiri vísdómur en finna má í bullinu á blogginu og feisbúkkinu.

Já, ég skal segja ykkur það! Er einhver að tala um kreppu?   

Ég verð víst lítið til viðtals á blogginu eða búkkinu á næstunni.

Viðbót: Hér má sjá lýsingu á efni þessarar bókar og líka Íslenzkri veðurfarsbók sem líka er komin á netið á tímarit.is. 


Byltingin er ekki hafin!

Jæja. Byltingin er þá ekki ekki hafin.

Mótmælendur lúffuðu. 

En koma dagar koma ráð!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband