Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Dægursveifla upp á 23 stig

Í nótt mældist mesti kuldi í byggð á landinu -8,1 stig á Torfum í Eyjafjarðardal. Það var milli kl 4 og 5 í nótt í  næstum því logni. Í dag fór hiti þar hins vegar í 14,7 stig, nú milli klukkan 4 og 5 síðdegis  og varð hvergi hlýrra á mannaðri veðurstöð. Á sjálfvirku stöðinni voru hitatölurnar -7,8 og 15,6.

Þetta er dægursveifla upp á 23 stig á hálfum sólarhring og verður varla mikið meiri á þessum árstíma. 

Bjart var á þessu svæði og loftið þar mjög þurrt að eðli.  

 

 


Kuldakast á Frakklandi og Spáni

Kuldahret hefur gengið yfir á Spáni og í Frakklandi. 

Því olli lægð er fór yfir Miðjarðahaf í grennd við Mæjorku og hæðin sem teygir sig nú yfir Ísland. Þessi kerfi báru óvenjulega kalt loft til Miðjarðarhafs og kuldapollur myndaðist í háloftunum yfir Miðjarðarhafi í grennd við Mæjorku. 

Hæð svokallaðs 500 hPa flatar gefur vísbendingar um hitann í andrúmloftinu og því hærri sem hann er því hlýrri er loftmassinn og því lægri því kaldari er hann. Á þessu korti á hádegi í dag má sjá legu þessara flata. Sjá má að yfir Íslandi er hann mjög hár en aftur á móti lágur yfir Suður-Frakklandi. Í  norðanverðri Afríku er hann jafnvel lægri en á Íslandi.  

Á hádegi var 500 hPa flöturinn í 5780 metra hæð yfir Keflavík en frostið var 22 stig eða líkt og gerist oft í júní. Annar flötur sem oft er miðað við um hita loftmassa er 850 hPa flöturinn. Hann var í 1551 metra hæð yfir Keflavík, kringum 120 metra yfir meðallagi og þar var 7 stiga hiti eða um fjögur stig yfir því sem venjulega gerist í miðjum júlí. Í um 900 m hæð var 9 stiga hiti. Á sama tíma var 500 hPa flöturinn yfir Majorku í 5450 metra hæð og frostið var 25,5 stig.  Í 850 hPa fletinum var hæðin þar 1398 metrar og hitinn 1,4 stig.

10050512_0506_987953.gif

Á kortinu má sjá hæð 500 hPa þrýstiflatarins í dekametrum og ef vel er að gá sést þar líka hitastigið í þeim hæðum. Hæðin yfir Íslandi er fyrirstöðuhæð og lægðin yfir Miðjarðarhafi er eiginlega skilgetið afkvæmi hennar. Hæðin dregur til okkar hlýtt hlýtt loft en kalt austan við hana. Hér verður talsvert hlýrra en ætla mætti eftir árstíma en að sama skapi kaldara þar sem kuldinn og sérstaklega  kuldapollurinn nær sér á strik. Og það er líka tiltölulega kalt norðar í Evrópu.   

Venjulega á að vera um það bil tíu stigum  hlýrra á slóðum kuldapollsins eftir árstíma en hér á landi.  

Á hádegi í dag var hitinn í Clermont-Ferrand í Frakklandi aðeins 2 stig og slydda en í Toulouse var 6 stiga hiti og súld og 11 stig og rigning í Marseilles. Lágmarshiti í Frakklandi og á Spáni var sums staðar 3-5 stig á láglendi en frost til fjalla. Lægðinni fylgdi einnig mikill sjógangur.

 

 


mbl.is Allt á kafi í snjó í S-Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutunum snúið á hvolf

Ég tók ekki þátt í neinum mótmælum í búsáhaldabyltingunni eða á öðrum vettvangi. Því um síður hef ég farið að heimilum fólks til að mótmæla og það mun ég aldrei gera. En  ég stend þó með þeim sem hafa gagnrýna afstöðu til þess sem nú er að gerast í þjóðlífinu og er þar af nóg af taka eins og allir vita. Eins gott að greina þar aðalatriðin frá aukaatriðunum.

Í dag leggur Ólafur Stephensen í leiðara í Fréttablaðinu út af  því þegar lögreglan lét til skarar skríða í héraðsdómi.  Hann vitnar í orð Ragnars Aðalsteinssonar um það að samfélagið sé að breyast í óhugnanlega hörku þar sem ofbeldið ráði öllu. Ragnar átti augljóslega við að valdstjórnin í mynd lögreglunnar væri farinn að beita vaxandi hörku við almenning.

En í leiðaranum er þessu snúið á haus. Meginhluti hans fer í að gangrýna ''mótmælendur'' sem látið hafa til sín taka á ýmsan hátt. Það séu einhverjir mótmælendur sem vandræðum valda og beri að amast við en ekki valdstjórnin. Mjög alvarlegum ábendingum Ragnars Aðalsteinssonar er þar með algerlega snúið á hvolf.

Í Morgunblaðinu skrifar svo Pétur Blöndal um þá örfáu mótmælendur sem hafa safnast saman við heimili fólks. Hann kallar það athæfi ''ódæði''. Þau  beinist bara gegn saklausum börnum að því er helst verður skilið af máli Péturs. Ansi er það langt gengið. Þessi mótmæli eru kannski óviðeigandi og óþægileg en eins og þau hafa farið fram  hafa þau í mesta lagi valdið ónæði. Að kalla þau ''ódæði'' er að fara langt yfir strikið.  Svona álíka stórkarlalegt og innistæðulaust og að kalla þau  mannréttindabrot eins og sumir hafa gert.

Ekki þarf að minna á það hvaða gjörningar hafa komið þjóðinni í stórkostleg vandræði svo þúsundir fjölskyldna eiga verulega um sárt að binda. Ekki væri að skjóta yfir markið að kalla þá gjörninga ódæði og þá einstaklinga og valdastofnanir sem ábyrgar eru fyrir þeim ódæðismenn og ódæðisöfl. Þessu hafa mótmælendur verið að andæfa hvað sem segja má um einstakar aðgerðir þeirra.

Í báðum þessum greinum, sem hér hefur verið vikið að,  eru aukaatriði gerð að aðalatriðum. Hlutunum snúið á hvolf. Og orðum tungumálsins er beitt á svo villandi hátt að jaðrar við merkingarleysi. Slíkt er einmitt helsta einkenni áróðursbragða. 

Það fylgir því ábyrgð að skrifa ritstjórnargreinar eða fasta dálka í dagblöð, drjúgum meiri en skrifa tilfallandi tækifærisgreinar eða blogga. Þá kröfu má gera að þeir sem þar eru fremstir í flokki skrifi  af  rökvísi og sanngirni. 

 


Smá veðurraus 1. maí

Mikið er veðrið í dag eitthvað fyrstamaílegt. Á hádegi var sól og 5 stiga hiti í Reykjavík og hvergi frost á landinu. En í nótt var víða frost, allt niður í níu stig á Miðfjarðarnesi við Bakkaflóa. Þar verður lágmarkshiti furðu oft lægri en annars staðar. Ekki skil ég ástæðuna því þetta er strandstöð  fast við sjávarmál, Kannski streymir kalt loft þarna niður frá heiðunum. 

Einkennilegt er að sjálfvirka stöðin á Þverfjalli á Vestfjörðum er aldrei talin með á vef Veðurstofunnar þegar gefin er upp minnsti hiti á landinu á fjöllum. En oft er þar hvergi kaldara á sumum árstímum.

Ég er að pæla í hvort búið sé að gera einhverjar breytingar á Brunni, gagnavef Veðurstofunnar sem opinn er almenningi. Þar var nú margt að skoða. En nú, frá  því kringum 25. apríl, virðist þar vera einhver stífla. Ef farið er þarna inn og klikkað þar sem stendur myndatól er allt sem þar var boðið upp á steindautt. Meðal þess voru greiningarkort af Íslandi á klukkustundarfresti, undir fyrirsögninni veðurathuganir,  en hægt er að sjá slík kort, en þó í minna broti, á almenna vef Veðurstofunnar á þriggja klukkutíma fresti. Hvernig skyldi nú á þessu standa? Er kannski verið að takmarka upplýsingar frá því sem áður var eða er þetta kannski einhvers konar tæknileg truflun?

Apríl var nokkurn veginn í meðallagi að hita miðað við lásí meðallagið 1961-1990 en fyrir neðan gullaldartalið 1931-1960. Á vesturlandi virðist hann samt í hlýrra lagi, frá Breiðafirði til Vestfjarða. Þurt var víða og þetta var eiginlega skítamánuður. 

Mér líst hins vegar vel á þennan maí sem er að byrja. Ég vænti hlýinda og  stórra eldgosa og þess að menn segi af sér þingmennsku í stórhópum áður en alþýðan hendir þeim út með valdi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband