Færsluflokkur: Mannlífið

Að vera dauður í viku

Já, nú koma systur mínar, sem komu til mín í gær, ekki í heimsókn á næstunni. Og ég ekki til þeirra. Það er heldur ekkert víst að við tölum saman í síma fyrir jól. Þó ég eigi góða vini sem ég hitti eða tala við reglulega getur hæglega liðið vika á milli og meira en það.

Það að enginn vitji mín eða ég þeirra í viku er allaf að gerast.

En ef ég hefði nú dottið dauður niður um leið og systur mínar fóru út úr dyrunum yrði ég örugglega ansi rotinn þegar einhver færi að pæla í því hvað eiginlega hefði orðið um mig. Svo myndi ég finnast eftir hálfan mánuð eða þrjár vikur svona líka steindauður. Það þyrfti ekki að sýna að ég hefði verið svo einn og yfirgefinn að ástæða væri til að væla yfir því. Það væri bara tilviljun.

Þegar við búum í jafn miklu fjölmenni og við gerum í Reykjavík er eiginlega óhjákvæmilegt að það gerist annað slagið að maður finnist vikudauður á heimili sínu. Það er ekkert til að gera veður út af. Þar fyrir getur vel verið að til sé einmana fólk. Margir eru reyndar einmana þó fullt af fólki sé í kringum þá. Ástæður einmanaleika eru ekki í sjálfu sér einvera. Og sá sem getur ekki verið einn með sjálfum sér er verri en dauður.

Ekkert er eins ógeðslegt eins og innantómt væmnishjal um skort á kærleika og samkennd í þjóðfélaginu þegar uppvíst verður um það að einhver finnist dáinn án þess að hafa haft fyrir því að tilkynna það.

Íslenskt samfélag hefur aldrei verið jafn gott og mannúðlegt eins og núna. Var það betra á dögum niðursetninganna?

Tilviljanir mannlífsins eru samar við sig eftir sem áður.

En hvað yrði nú samt um aumingja Mala ef ég dytti í þessum skrifuðu orðum dauður niður?    

 

 


Vandræðagemsinn

Gemsinn er mesta ógnunin við mannleg samskipti nú á dögum.

Hann er alls staðar gjammandi. Á tónleikum, í leikhúsinu, í jarðarförum, á AA-fundum. Það er ekki haldinn svo AA-fundur að svo og svo margir gemsar glymji ekki í miðjum klíðum. Og ekki nóg með það. Flestir standa þá upp og yfirgefa fundinn meðan þeir eru að blaðra í hann.

Sitjir þú með vini þínum á kaffihúsi máttu bóka að samtalið verður rofið og truflað margsinnis af gemsanum. Engin einbeiting né athygli fæst í spjallið. Það verður bara pirringur.

Gamall vinur þinn sem þú hefur ekki séð í nokkur ár kallar á þig úti á götu og það verða fagnaðarfundir. Það er mikið spurt af högum hvors annars og feikna áhugi látinn í ljósi. En viti menn! Hringir ekki óláns gemsinn og þér er samstundis og afsökunarlaust ýtt til hliðar eins og þú sért hver annar skítur á priki. 

Annar vinur kemur í heimsókn og býður þér með ofbeldi upp á það að hann svari oft og tíðum í gemsann meðan hann staldrar við. Engu breytir hvert umræðuefnið er, það gæti verið eitthvað hjartnæmt, sorglegt eða viðkvæmt. Þú gætir jafnvel verið að trúa vini þínum fyrir því að nú sé illt í efni því í gær hafi þeir verið að greina krabbamein í endagörninni á þér. En vinur þinn hlustar ekki. Hann valtar algjörlega yfir þig og allt sem þú hefur að segja þegar gemsinn gjallar. Og ég hef ekki enn lifað það að þráðurinn í samtalinu sé tekinn upp þar sem hann var slitinn. Gemsinn tvístrar athyglinni og einbeitingunni og sá sem hringt var í veit ekkert hvað hann sjálfur var að tala um og því um síður viðmælandinn. Það er af sem áður var að vinir komist nærri hverjum öðrum, að hugir þeirra og sálir snertist á viðverustundum og komist þá inn á einhverjar dýpri lendur mannlífsins. Til þess að það gerist þarf næði og alúð.

Þá er það algengt að einhver hringi í annan úr heimasíma sínum og tali lengi með kurt og pí og ekki ógáfulega. En loks glamrar gemsinn og þá breytist hringjarinn þegar í stað í dónalegt fífl og segir: Jæja, ég verð að svara í símann. En hann er í símanum!! Á þennan hátt gefur hann  fullkomlega skít í þann sem hann er að tala við, stjakar honum beinlínis í burtu með fyrirlitningu og í gemsaákefðinni gefur hann ekki einu sinni færi á að kveðja. Gemsinn fær hann til að skella bara á.  

Ég þekki einn og aðeins einn vin sem kann með gemsann sinn að fara. Hann tekur hann úr sambandi þegar hann situr með mér á kaffihúsi eða kemur í heimsókn. Þetta kalla ég tillitsemi og nærgætni í mannlegum samskiptum. Eðlilega kurteisi.

Allir aðrir vinir mínir eru barbarar í mannlegum samskiptum þegar gemsinn er annars vegar. En þeir eru þó hvorki verri né betri en gengur og gerist með aðra. 

Fólk ímyndar sér að það geti ekki án gemsans verið. Ég hef samt enn ekki verið með vinum mínum sem svara kalli gemsans á eins óhagstæðum stað í samtali og hugsast getur að gemsaútkallið hafi verið eitthvað annað og meira en ómerkilegasta blaður. 

Og nú mætti segja mér að þeir verði svo reiðir út í mig fyrir sannleikann að þeir tali ekki við mig í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. En ég segi: Ágætu vinir! Setjist nú niður og lærið lágmarks samskiptareglur áður en þið farið að setja ykkur á háan hest. Gjörist voldugir herrar yfir gemsunum ykkar í stað þess að vera auðmjúkir þrælar þeirra.

Verðið frjáls og gleðjist yfir frelsi ykkar!

 


Hvernig bjargaðist Hannes lóðs?

Einstaka sinnum gerast atburðir í lífi manna sem engir fá skilið og eru þá stundum kallaðir kraftaverk. Slíkt gerðist í lífi Hannesar lóðs í Vestmannaeyjum þegar hann var unglingur. Hannes var lóðs í Vestmannaeyjum í hálfa öld en þar á undan nafntogaður formaður á opnum skipum, lengst 37 vertíðir á Gideon. Hann var fiskisælasti formaður Eyjanna og afburða sjómaður. Hannes fæddist 21. nóvember 1852 en andaðist 1. júlí 1937 á 85. aldursári og hélt öllum andlegum og líkamlegum kröftum. Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson, sem út kom 1938-1939 en var endurútgefin 1966, segir svo frá ótrúlegum atburði í lífi Hannesar eftir sögn hans sjálfs og fleiri heimildum:

bjarnarey „Sumar eitt fór hann til lundaveiða í Bjarnarey með fleiri mönnum. Það mun hafa verið árið 1865 og var Hannes þá 13 ára gamall. Dag nokkurn fór hann einsamall með 15 faðma langt lagnet suður á eyjuna og ætlaði að leggja það þar í lundabyggðina. Upp af Hrútaskorunefinu varð honum fótaskortur í brekkunni, og hrapaði hann fram af hamarsbrúninni. Vissi hann það næst af sér, að hann hékk í lausu lofti með höfuðið niður og annan fótinn flæktan í netinu sem í fallinu hafði festst á snös, og var hann úr öklaliðnum á þeim fæti, sem hann hékk á. Með erfiðismunum tókst Hannesi að ná með höndunum í netið og rétta sig við. Í þeim svifum hrökk öklinn aftur í liðinn.

Spölkorn fyrir ofan Hannes, þar sem hann hékk í netinu, var sylla í berginu. Þangað tókst honum að lesa sig upp netið en af syllunni sýndist honum ókleift standberg á alla vegu, og slútti það fram yfir sig víðast hvar. Syðst á syllunni var krókur inn í bergið, og virtist honum líklegast þar til uppgöngu. Hann vissi, að árangurslaust var að kalla á hjálp, því að félagar hans voru allir fjarri. Mjakaði hann sér suður hilluna, með því að hoppa á öðrum fæti og styðja sig við bergið með hendinni. En þegar hann kom í krókinn syðst á hillunni, sá hann að bergið var einnig ókleift þar. Varð honum nú ekki um sel, og sagðist muna það síðast eftir sér þarna á hillunni, að hann hefði haft það eitt í huganum: „Hér verð ég að komast upp." Hugur hann hafi verið fullur af þessu einu, og þá missti hann meðvitundina. Vissi hann síðan ekki af sér fyrri en uppi í grösum á eynni, langt frá brúninni, og var hann þá lamaður og ósjálfbjarga. Þar fundu félagar hans hann nokkru síðar.

hannes_2Hann vissi aldrei með hverjum hætti hann hafði farið upp, og eru menn í engum vafa um, að björgun hans hefur farið fram með aðstoð einhverra dularafla eða verndarvætta. Magnús Guðmundsson, bóndi á Vesturhúsum, tengdasonur Hannesar, athugaði nákvæmlega alla staðhætti þarma, og fullyrðir hann, að uppganga af syllunni sé algerlega óhugsandi og ómöguleg á venjulegan hátt, enda þótt fimasti fjallamaður ætti í hlut, hvað þá lamaður 13 vetra drengur. Þar sem hann hrapaði heita síðan Hannesarstaðir.

Eftir áfall þetta lá Hannes rúmfastur nær eitt ár og var búizt við, að hann yrði örkumlamaður alla ævi. Reyndin varð önnur. Náði hann fullri heilsu, en varð upp frá þessu svo sjálfhentur, að hann átti erfitt með að drekka úr kaffibolla. Og nafn sitt skrifaði hann þannig, að hann lá ofan á handleggnum á meðan. Þrátt fyrir skjálftann var Hannes góð skytta og skaut fugl á flugi, og hæfði vel. Lék hann þetta fram á gamals aldur, en skjót handtök hafði hann við, því að ekki tjáði að tefja lengi við miðanir." (1966, bls. 205-6).

(Á myndinni hér að ofan er Bjarnarey til hægri). Þetta er merkileg frásögn. Hannes var auðvitað alþekktur í Vestmannaeyjum og fór það ekki framhjá neinum hvað hann var skjálfhentur. Frásögnin öll og sú staðreynd að Hannes var skjálfhentur og hin árslanga sjúkralega eftir atburðinn ber með sér að gangan upp bergið hefur verið honum andlega og líkamlega geysileg þolraun sem hann á vissan hátt beið aldrei bætur. En hann hefur verið andlega sterkur. Mér sýnist samt ljóst að hann hefur verið skelfingu lostinn en jafnframt haldinn ótrúlegum lífsvilja og þori sem hefur gefið honum afl og lagni til að klifra upp bergið en kannski eins og í hálfgerðri leiðslu eða jafnvel svefni, að því er virðist. Ég spurði einu sinni sálfræðing um útskýringar á þessu atviki en hann hafði aldrei heyrt söguna og hafði  takmarkaðan áhuga á henni og varð fátt um svör. Þetta er reyndar erfitt að skýra en samt ekki óhugsandi. Ekki er hægt að taka alvarlega þá skýringu að dularöfl eða verndarvættir hafi hjálpað Hannesi upp bergið. Hann komst auðvitað upp af eigin rammleik. En hvernig og af hvaða líkamlegu ástæðum varð hann svona skjálfhentur það sem eftir var ævinnar? 


Svindl

Allar árstíðir hafa síns til ágætis nokkuð. En mér finnst nóvember og desember orðnir leiðinlegustu mánuðir ársins. Orsökin er þetta taumlausa jólastand. Tveir mánuðir af jólahasar gera það að verkum að maður er örmagna af jólahorror þegar jólin loksins byrja. Þegar ég var drengur byrjaði þetta stand alltaf fyrsta desember. Þá vaknaði maður við það að jólaskreytingar voru komnar um allar götur. Og búðirnar fóru í gang um svipað leyti. Í þá daga var stemning og jól í lofti. Nú er þessi ofgnótt bara stemningarlaus subbuskapur. Ekki bætir svo úr skák að það verður æ algengara að menn láti jólaljósin loga fram á vor.

Þetta heitir sukk og svínarí og er af sama meiði og agaleysið í umferðinni og drykkjuorgíurnar um helgar.

Nú, en hvað um það, fjandinn hafi það. Einn ljós punktur er í þessu jólasukki. Það eru bækurnar.

Jólabókaflóðið er nú fremur seint til og ekkert bólar á Bókatíðindunum.

Það er gamall vani minn að rölta oft í bókabúðir fyrir jólin og skoða herlegheitin. Í dag var ég í Eymundsson og fór þá ekki rafmagnið í miðjum klíðum. Varð þá heljarinar pannik og ung og sæt afgreiðslustúlka baðaði út öllum öngum og fór að halda ræður fyir búðargestum því tölvudraslið fór náttúrlega allt úr sambandi svo ekkert var hægt að afgreiða og því þurfti að róa niður bókóðan mannsskapinn. Þetta var óvænt fjör. Svo kom rafmagnið fljótlega aftur og þá  var ekkert fjör lengur. 

Ég hef séð eina bók nú þegar sem ég ætla að útvega mér: Nútímastjörnufræði. Það er bók sem hefir eitthvað að segja og það úr ljósárafjarlægð og sér ljósár fram um tímann.  Flestar jólabækur sem mest er hampað hafa því miður ekkert að segja og eru þröngsýnar með afbrigðum.

Ég las í blaði í tilefni af væntanlegri ævisögu Davíðs Stefánssonar að vinstri menn á Íslandi hafi markvisst unnið að því að koma í veg fyrir að hann hefði verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna.

Það var gott hjá vinstri mönnum.

Það var hreinlega út í hött að láta sér  detta í hug að hraðmælskur hagyrðingur væri verðugur Nóbelsverlauna jafnvel þótt hann hafi slegið nýjan tón í íslenskri ljóðlist sem entist honum þó æði skammt. Ég trúi því svo sem ekki að nokkur hægri maður hafi verið svo glámskyggn og banal að hafa viljað í alvöru útnefna Davíð en verið stoppaður af vondum vinstri mönnum.

En nú er jólabókaflóðið að bresta á og það verður að selja bækurnar með öllum ráðum. 

Ég bíð í ofvæni eftir ævisögu Þórbergs sem mér skilst að nái bara til 45 ára aldurs. Það hlýtur þá að vera bara fyrra bindið. Annað væri algjört svindl.

En lífið er svo sem ekkert nema eitt allsherjar svindl.

  


Kynlífslanganir miðaldra og eldri manna

Í Kiljunni var um daginn talað við Ágúst Borgþór Sverrisson vegna skáldsögu sem hann hefur skrifað um mann sem kaupir sér vændisþjónustu, eða eitthvað í þá áttina. 

Stjórnandi þáttarins tók fram, eins og það væri alveg sjálfsagður hlutur, að fátt fyndist mönnum óviðfelldnara en kynlanganir miðaldra eða eldri manna og Ágúst bætti við að þeir mættu víst ekki hafa slíkar langanir, bara konur og hommar.

Hvers vegna ekki? Hvers konar fordómar eru þetta eiginlega? Kannanir hafa æ ofan í æ sýnt að kynhvöt beggja kynja heldur áfram fram í rauðan dauðann. Sú hugmynd að kynhvötin hverfi með árunum er bara ranghugmynd.  

Er nokkuð ógeðslegra við það að 55 ára maður langi til að sofa hjá en þegar hann var 25 ára? Hvað breytist á þessum 30 árum? Nú er ég ekki að tala um sókn eftir vændi. Það er svo sem eftir fordómatalinu að gera ráð fyrir að kynlífslanganir miðaldra manna beinist bara að vændi.

Þegar koma fréttir af eldri mönnum í sambandi við kynlíf koma oft upp ótrúlegustu og illgjörnustu athugasemdir á bloggsíðum.

Hvaðan kemur þetta?

Ágiskun og grunur: Frá kvennahreyfingunum gegnum árin. Þær hafa útmálað miðaldra og þaðan af eldri menn í óhagstæðu ljósi, sem karlrembur. Það færist svo yfir á kynlífið. Kvennahreyfingin hefur þarna skapað fordóma í ákefð sinni við að eyða öðrum fordómum.  

Það þarf að fara að vinna gegn þessum fordómum af fullri alvöru. Það þarf að leyfa mannlífinu að vera það sem það er. Það þarf að viðurkenna að kynhvötin hverfur ekki með árunum og það sem sæmir ungu fólki sæmir líka eldra fólki.

Fyrst og fremst er fólk yfirleitt fallegt og langanir þess eðlilegasti hlutir í heimi. Sama hvað fólk er gamalt.

 


Friðbjörg og Gudda graða

Mér hnykkti við þegar ég las lýsingu Halldórs Guðmundssonar í bókinni Halldór Laxness á bæjarbragnum í Reykjavík um aldamótin 1900. Íbúarnir hafi verið sex þúsund en aðeins tveir lögregluþjónar. Allt hafi verið í hershöndum ef erlend skip með fjölmenni lágu í höfn og síðan segir bókarhöfundur og það var setningin sem mér brá í brún yfir enda kemur hún nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum:

" Lögreglumennirnir hafa hugsanlega þurft að takast á við skækjurnar tvær, þær Friðbjörgu og Guddu gröðu, sem Þórbergur Þórðarson og Stefán frá Hvítadal segja að hafi verið við störf í bænum árið 1906." (Bls. 15).

Frá þessum konum segir Þórbergur í smábókinni Í Unuhúsi sem hann hefur eftir Stefáni en konur þessar voru viðloðandi húsið. Þar segir fullum fetum að þær hafi verið "opinberar skækjur" sem er auðvitað mjög ónákvæmt orðalag. Hvað felst í slíkri staðhæfingu? Sumar frásagnirnar af Friðbjörgu eru næsta krassandi í meðförum skáldsnillinganna Þórbergs og Stefáns. Þar er til dæmis sagt frá Jóakim sem var með lekanda og læknir bannaði öll afskipti af kvenfólki en svaf þó hjá Friðbjörgu í Unuhúsi á hverri nóttu. Ekki virðist það hafa kallað á nein viðbrögð frá gestgjafa né gestum gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og lá þó lagaskylda við. Þar er líka sagt frá Hermanni nokkrum Rúti sem hafði króað Friðbjörgu af úti í horni, hélt pilsum hennar uppi undir höndum og þæfði hana upp við annan gluggakarminn. Hún æpti og kallaði á hjálp. Þegar menn komu að sleppti nauðgarinn stúlkunni og sagði". Helvítis mellan vill ekki lofa mér það". Og Þórbergur bætir um betur með  ritsnilld sinni: "Rölti Friðbjörg síðan niður." Stefán segir um Friðbjörgu að hún hafi verið vínhneigð og orðið fyrir ástaróláni "enda var hún döpur í bragði og leið auðsjáanlega illa. " Hún komst eitthvað í kast við lögin fyrir hnupl. 

Una sagði um þær stallsystur Friðbjörgu og Guddu að "þær höguðu sér líkast veslings hundunum og svona manneskjum væri ekki viðbjargandi." En ekkert er haft eftir Unu um þá karlmenn sem notfærðu sér lánleysi þessara kvenna sem líklega voru niðurbrotnar manneskjur og önnur að minnsta kosti alkóhólisti, en meðal ríðaranna hafa ef til vill verið einhverjir af þeim andansmönnum sem stunduðu Unuhús og með fullri vissu, samkvæmt frásögn bókarinnar, einn guðfræðingur sem átti kannski eftir að verða þekktur prestur og mikill kennimann. 

Friðbjörg fór einn dag alfarinn úr Unuhúsi og fara ekki af henni meiri sögur.

En ég hef verið að hugsa um þessar konur sem dúkka svona óvænt upp í ævisögu nóbelsskáldsins. Þær voru raunverulega manneskjur en ekki bara nöfn í bókum.   

Hver var uppruni þeirra? Voru þær dætur betri borgara? Eða ólust þær upp í örbirgð? Hver varð þeirra ævisaga? Meiri fengur fyndist mér reyndar í henni en ævisögu nóbelsskáldsins. Hvernig var menntunarstig þeirra? Hvernig var gáfnafarið og geðfarið? Getur verið að þær hafi átt við þroskafrávik eða geðræn vandkvæði að stríða eins og sagt er nú á dögum? 

Var einhver sem elskaði þessar konur? Urðu þær svo mikið sem einn dag virðingar aðnjótandi frá samborgurum sínum? Skipti guð sér nokkuð af þeim?

Var Gudda graða nokkuð graðari en þeir andans jöfrar, skáld og kennimenn, sem notfærðu sér hana?  

Hvenær dóu þessar konur? Hvar eru þær grafnar?

Skyldi þeim nokkru sinni hafa órað fyrir þeim meinlegu örlögum að nöfn þeirra ættu eftir að verða ódauðleg með því að tengjast nokkrum helstu ritsnillingum þjóðarinnar á afar lítilsvirðandi hátt!  

Þetta voru nokkrar af þeim hugsunum sem fóru í gegnum huga minn þegar ég las þessa einkennilegu athugasemd í Ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson.

 

   


Að fá ekki að deyja

Eins og kunnugt er hefur Ariel Sharon sem einu sinni var forsætisráðherra Ísraels verið í dái í marga mánuði eftir að hann fékk heilablóðfall. Hann mun aldrei komast aftur til meðvitundar. Lífi hans sem viti gædds einstaklings er lokið. Hann skynjar ekki umhverfi sitt og á enginn mannleg samskipi. Hann er lítið annað en samsafn líffæra sem halda áfram sinni vélrænu starfsemi. Hann er bara form, innantóm skel. Lifandi lík í orðsins fyllstu merkingu. Ef hann hefði lifað áður en tækni nútímans kom til sögunnar væri hann löngu dáinn. Hann fékk ekki að deyja. Hann var skorinn upp hvað eftir annað bara til að þetta sálarlausa form geti haldist lengur við lýði.

Mér finnst þetta eitthvert ljótasta dæmið sem ég þekki um böl tækninnar þegar líf og dauði eru  annars vegar. Tæknin varnar mönnum að deyja en neyðir þá til að lifa sem skugga. Þetta sýnir líka vissar ógöngur sem læknisfræðin getur ratað í þegar allt er gert til að halda líffærum líkamans í gangi þó merkingarbært líf einstaklingins sé ekki lengur fyrir hendi. Mér finnst slíkt ganga glæpi næst.

Og Sharon er ekki eini maðurinn sem svona er ástatt um og svona er farið með. En líklega geldur hann þess fremur en hitt hvað hann er þekktur og var valdamikill. Það verður að reyna að "bjarga" slíkum manni hvað sem það kostar.

Ég segi fyrir mig: Ef það á fyrir mér að liggja að verða svona lifandi lík endilega þá notið koddann til að koma mér yfir í annan heim.

Fariði samt varlega og látið ekki sjást til ykkar! Ekki vil ég að nokkur þurfi að sitja inni í mörg ár fyrir slíkt þjóðþrifaverk. En það væri algjört glæpaverk að halda í mér lífinu. 

Synd bæði gagnvart guði og mönnum.

 

 


Fjölskyldur

Fjölskyldur eru andstyggilegar. Hvergi í lífinu er kúgunin meiri. Hvergi er skilningurinn þrengri. Hvergi er nærgætnin minni. Hvergi er samkenndin snauðari. Hvergi er höfnunin miskunnarlausari. Hvergi er hatrið heitara. Hvergi er ofbeldið hrottalegra.

Hvergi eru börnin varnarlausari. 

Já, fjölskyldur eru sannkallaðir ormagarðar. Börn tala ekki við foreldra árum og áratugum saman. Systkini hatast út af lífinu. 

Þetta vita allir og þekkja um það ótal dæmi. En aldrei er á það minnst opinberlega. Þar er alltaf dregin upp sú mynd af fjölskyldum að í þeim ríki ást og eindrægni. 

Og sí og æ er verið að tala um eitthvað sem kallað er fjölskyldugildi. 

Ef einhver getur gert mér ljósa grein fyrir því hvaða gildi það eiginlega eru þá má hann alveg gefa sig fram.

     


Hver er glæpurinn?

Í dag sýndu niðurstöður DNA-prófs að 99,9 % líkur væru á því að Lúðvík Gizurarson sé sonur Hermanns Jónassonar. Þetta er sem sagt vissa.   

Það þykir nú á dögum vera skýlaus réttur hvers manns að fá að vita um blóðforeldra sína.  Lúðvík er lengi búinn að berjast fyrir því að fá skorið úr um faðerni sitt.  

Samkvæmt fréttasíðu Vísis vildi Pálína dóttir Hermanns Jónassonar ekkert tjá sig um málið að öðru leyti en því að hún teldi það glæpsamlegt að ráðast gegn látnu fólki með þessum hætti.

Hver er þá glæpurinn? 

Er það glæpsamlegt að barn, sem engu ræður um tilurð sína, reyni að ganga úr skugga um faðerni sitt? Á að útmála Lúðvík Gizurarson sem glæpamann fyrir það eitt að eiga föður eins og önnur börn? 

Menn og konur verða að taka afleiðingum gerða sinna í kynlífi sínu. Það er nú það minnsta sem þau geta gert.

Og það er allt að því glæpsamlegt að gera börnin sem þá koma undir að sökudólgum.

 


Undarlegar tengingar í lífinu

Horfði í kvöld á myndina um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra árið 1968  í syrpunni um sönn íslensk sakamál. 

Þegar ég var um tvítugt bjó ég á Kambsvegi í Reykjavík. Einu sinni tók ég leigubíl heim til mín. Ég tók mjög vel eftir bílstjóranum vegna þess að það vantaði á hann annað eyrað. Nokkrum dögum seinna var framið þetta morð og þegar ég sá mynd af hinum myrta þekkti ég strax manninn sem hafði ekið mér heim fáeinum dögum áður. Og hann hafði reyndar átti heima nokkrum húsum ofar á Kambsveginum.

kopur2Þegar ég var tíu ára var ég nokkrar vikur með fjölskyldunni í sumarbúðstað í Skorradal. Við vorum þar með lítinn og fallegan hvolp sem hét Kópur. Þá var  hundahald bannað í Reykjavík og þegar við komum aftur í bæinn var hvolpurinn settur í fóstur hjá manni sem bjó  skammt utan við bæinn. Og það var einmitt maðurinn sem grunaður var um morðið á Gunnari leigubílstjóra en var sýknaður fyrir rétti. Svona getur maður tengst mönnum og atburðum á hinn undarlegasta hátt.

Til hægri er mynd af mér og hvolpnum. Ég er ansi góður með mig á myndinni en hundurinn samt miklu betri. Hægt er að stækka myndina með tvíklikki til að sjá það. 

Einkennileg var þessi mynd í sjónvarpinu. Maðurinn var sýknaður fyrir dómi en samt var eins og myndin vildi endilega gera hann sekan  þó það væri sláandi í málinu að ekki var nokkur leið að finna ástæðu fyrir því að sakborningurinn hefði viljað myrða manninn.

Þetta er ægilega vond sjónvarpsmynd.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband