Veðurmetingur

Nú liggja Reykvíkingar í því!

Þar hefur verið snjólaust. En hríðarbylurinn sem var að ganga yfir náði sér eiginlega hvergi á strik nema þar. Í morgun var jafnfallinn snjódýpt 12 cm bæði í Reykjavík og á Korpu. Það er ekkert  afskaplega mikið en getur þó valdið vandræðum hvar sem er fyrir umferð venjulegra fólksbíla. En snjórinn er ekkert jafnfallinn. Það er vindstrekkingur með stormhviðum og stórir skaflar hafa myndast mjög víða. Það eru þeir sem skapa mesta vandann. Annað slagið er talsvert kóf sem dregur úr skyggni svo menn eiga erfitt með að sjá skaflana.

Umferðarvandræðin láta því ekki á sér standa. 

Það stendur heldur ekki á því að sumir landsbyggðarmenn á netinu séu farnir að gera lítið úr úr þessu veðri og þeim vandræðum sem af því skapast. Þeir fyrirlíta reykvísk óveður sem þeim finnst annars flokks og óæðri veður miðað við þau göfugu hamfaraveður sem verða í þeirra heimabyggðum. 

Það sem þeir taka yfirleitt ekki með í reikninginn er í fyrsta lagi það að ýmis hríðarveður sem gerir á reykjavíkursvæðinu myndi alls staðar valda vandræðum. Í öðru lagi er það fólksfjöldinn á reykjavíkursvæðinu og bílamergðin. Þær aðstæður eru allt aðrar og snúnari en í fámennum byggðum.

Miklir hríðarbyljir eru sjaldgæfari og yfirleitt vægari (ekki samt alltaf) fyrir sunnan en á norðanverðu landinu. Hins vegar eru illvirði með regni og miklum vindi algengari á suðurlandi en norðurlandi og skapa oft heilmikinn vanda. Illviðri gerir því sannarlega líka í höfuðborginni og nágrenni. Ekki má svo gleyma því að flestir fjölmiðlar eru einmitt í Reykjavík og eiga auðvellt með að segja fréttir af vettvangi. Jú, það vill við brenna að þeir geri stundum full mikið úr hlutunum.  

Það er enginn ástæða fyrir íbúa nokkurs landshluta til að setja sig á háan hest í alvöru með veður í öðrum landshlutum en alltaf er gaman að góðlátlegri stríðni milli landshluta í þeim efnum. Illviðri skapa vandræði hvar sem þau koma en aðstæður geta verið mismunandi á hverjum stað.Svipað veður sem ekki veldur verulegum usla á einum stað getur gert það á öðrum vegna búsetulegra og félagslegra aðstæða.

Ekkert veðurtengt finnst mér fáfengilegra en metingur um veður milli landshluta ef hann er settur fram í fúlustu alvöru og með hroka og yfirlæti.

Eins og sumir landsbyggðarlúðar iðka í garð okkar reykvíkinga! Við sem höfum ekkert til saka unnið annað en lepja okkar latte!

 

 


mbl.is Strætó metur stöðuna næst kl. 15:30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ekki finnst mér mikið til þessa veðurs koma; ég hef lent í verra veðri en þetta innandyra og að sumri til.

Ásgrímur Hartmannsson, 7.3.2013 kl. 07:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband