Næturfrost

Í nótt var víða næturfrost á landinu, á suðurlandsundirlendi, Borgarfirði, víða inn til landsins á norðausturlandi, jafnvel líka úti við sjóinn og á stöku stað á hálendinu.  

163_normÁ flugvellinum við Akureyri fór frostið í eitt stig en á lögreglustöðinni fór hitinn ekki lægra en 2.5 stig yfir frostmarki og á sjálfvirka mælinum við Krossanesbraut niður í 2.7 stig.  Kuldi er oft meiri á flugvellinum en inni í bænum. Veðurstofan gefur enn ekki kost á veðurupplýsingum frá  Akureyrarflugvelli á sinni vefsíðu en hægt er að sjá þær á vefsíðu NOOA í Ameríku. Þar er einnig hægt að sjá veðurathuganir á klukkustundarfresti frá flugvöllunum í Reykjavík, Egilsstöðum og Keflavík

Myndin er af vef Flugskóla Akureyrar og er tekin af Herði Geirssyni.  

Mesta frostið í nótt var sem hér segir á sjálfvirkum stöðvum: 3,4 Kálfhóll,  2,5 Þingvellir,  2,3 Eyrarbakki, 1,9 Árnes, 1,8 Hella, 1,5 Möðruvellir, 1,2 Reykir í Fnjóskadal. Á stöð vegagerðarinnar við Þjórsárbrú var frostið kringum þrjú stig.

Og á kvikasilfursmælum: 1,7 Torfur (1,4 á sjálfvirka mælinum), 1,2 Stafholtsey, 1,1, Miðfjarðarnes, 1,0 Eyrarbakki, Staðarhóll, 0,6 Hjarðarland.   

Í Reykjavík varð ekki kaldara en 5.0 yfir frostmarki og þó er það mesti kuldi í borginni síðan 29. maí en síðast var frost hér 27. maí, -0.4°.

Bjart  var víðast hvar yfir landinu í nótt og í morgun. 

Veðurfréttir bárust í morgun frá Hólum í Dýrafirði eftir langt hlé. Stöðin mun víst bráðum lögð niður en sjálfvirk stöð sett upp á flugvellinum þar rétt hjá.

Þessi ágúst ætlar ekki að verða neitt sérstakur í Reykjavík eins og júlí sem var sá næst hlýjasti. Meðalhitinn stendur nú í 11.2  stigum sem eigi að síður er næstum því heilu stigi yfir meðallagi 1961-1990, en margir mánuðir hafa þó gert betur. Á morgun fara sólarstundirnar líklega upp í 200, næstum því 50 fleiri en venjulega og úrkoma er nú þegar orðin 68 mm og er það dálítið yfir meðallagi alls mánaðarins.     

Einu hef ég tekið eftir. Það er eins og mannaðar veðurstöðvar sem voru oft í samkeppninni um mesta hitann á sumrin blandi sér ekki í þá baráttu eftir að þeim er breytt í sjálfvirkar stöðvar. Ég hef þar helst í huga Nautabú í Skagafirði og Kollaleiru í Reyðarfirði. Kannski er þetta vitleysa í mér. Ég hef  þetta bara á tilfinningunni með því að fylgjast vel með en get ekki stutt það neinum gögnum. Samt held ég að eitthvað sé til í þessu. Annars botna ég ekkert í því  að vera að drífa veðurstöðina í jafn láglendri sveit og Skagafjörður er upp í yfir 100 metra hæð yfir sjó en þar uppi er Nautabú. Ég vil fá stöð í Reykjahverfinu eða í Blönduhlíð þar sem er snjóléttara en vestanmegin og hiti nær sér betur á strik á sumrin. Skil heldur ekki af hverju sjálfvirka stöðin á Seyðisfirði var sett í 90 metra hæð en mannaða stöðin var nánast við sjávarmál. Enda gerir Seyðisfjörður engar rósir lengur í sínum hita eins og hann var þekktur fyrir á öllum árstíðum meðan hún var mönnuð á gamla staðnum, rétt hjá kirkjunni . Á veturna var hann oft með hæsta hitann í hlýindum. Miklu sjaldnar nú orðið. Já, og eitt enn. Skil síst af öllu skil ég hvers vegna sjálfvirka stöðin við Mývatn var sett upp á Neslandatanga en ekki Reykjahlíð þar sem enn er reyndar veðurfarsstöð með gamla laginu. Ekstrímhitinn upp og niður á Neslandatanga er alltaf miklu lægri en í Reykjahlíð. 

246258_klausturTvær mannaðar veðurstöðvar eru ansi stopular. Lambavatn og Miðfjarðarnes. Stöðin á Lambavatni er komin yfir áttrætt en stöðin á Miðfjarðarnesi er ekki enn komin á gelgjuskeiðið. Hún mætti alveg hætta ef það mætti verða til að eitthvað betra væri hægt að gera við peningana, t.d. að setja upp sjálfvirka stöð á Skriðuklaustri. Þar var lengi mönnuð veðurfarsstöð og það kom skýrt í ljós að þar er enn hlýrra en á Hallormsstað á sumrin. Þarna gæti ég trúað að sé hægt að finna hæsta meðaltal hámarkshita á öllu landinu að sumarlagi.

Myndin af Skriðuklaustri er af Skólavefnum.

Ég hef engan áhuga fyrir Skriðuklaustri sem Gunnarssetri. En ég hef brennandi áhuga fyrir staðnum sem veðurathugunarstöð.

Bætt við seinna: Á nýju vefsíðu Veðurstofunnar má reyndar sjá nokkrar veðurathuganir á flugvöllunum síðustu þrjá kukkutímana í Reykjavík (BIRK), Akureryri (BIAR),  Egilsstöðum (BIEG), Keflavík (BIKF) og Vestmananeyjum (BIVM). Þetta er samt ekki skiljanlegt nema fyrir innmúraða og innvígða. 

 

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Svo bregðast krosstré............. Það fór fyrir lítið spaklegamælabloggið.

Yngvi Högnason, 27.8.2007 kl. 12:04

2 identicon

Sæll Sigurður!

Fróðlegt og skemmtilegt yfirlit, eins og þín er von og vísa. Það þurfti að skafa af bílrúðum á Sauðárkróki um fimm leytið í morgun, þrátt fyrir að mælir í 2ja metra hæð sýndi +2°C

Ástæðan fyrir því að sjálfvirka stöðin á Nautabúi hefur - eftir að hún kom til skjalanna - ekki sýnt neinar sérlega háar mælingar á hita er að mínu mati til komin vegna þess, að veðurfar hefur verið nokkuð sérstakt undanfarin sumur, og þessir heitu dagar með "faun" vindum úr suðri hafa ekki komið í nokkur ár. Einmitt þau ár sem liðin eru síðan hún Hulda á Nautabúi hætti að skrá veðurathuganir. Hef satt að segja ekki trú á að Hulda hafi nokkru sinni hagrætt tölum hitamælanna, hvorki í plús eða mínus!

Norðanvindurinn (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 14:57

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Yngvi: Veðrið leiðir mig alltaf afvega í minni spekt. En meiri speki og ekkert smáræði kemur seinna.

Norðanvindur: Ekki hvarflar að mér að tölum hafi verið hagrætt. Ég held að þetta sé ekki af þeirri ástæðu sem þú tilgreinir heldur fremur eitthvað í uppstetningu sjálfvirka mælisins. Líka á Kollaleiru. Í veðri sem maður býst við að þessir staðir brilleri gera þeir það ekki eftir að þeir urðu sjálfvirkir. Reyndar er það sama um Straumsvík. Þar er aldrei neinn hiti á sumrin heldur bara hafgolukæla. Það var ekki svona áberandi, miðað við Reykjavík,  meðan þar var mælaskýli og kvikasilfur.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.8.2007 kl. 16:17

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband