11. september

Það vill svo til að næst mesti og þriðji mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í öllum septembermánuði hefur fallið á þennan dag. Árið 1968 komst hitinn í 18,5 stig og daginn áður  var reyndar sami hámarkshiti. Svo mikill hámarkshiti hefur hér aldrei mælst þennan dag  frá upphafi samfelldra hámarksmælinga, upp úr 1870. Frá og með 1949 er 11. september 1968 einnig með hæsta meðalhita sólarhringsins nokkurn dag í september, 14,8 stig, lágmarkshitinn fór ekki lægra en í 13,0 stig og Það var nokkur sólarglæta, 4 klukkustundir. Og það var alveg þurrt. Meðalhiti 11. september 1961-1990 er 7,9 stig í Reykjavík sem þýðir þá hámarkshita upp á svona tíu til ellefu stig. Síðasta áratug eru þessar tölur áreiðanlega hærri.   

Þessi dagur 1968 er reyndar nokkuð örugglega hlýjasti 11. september í Reykjavík hvað meðalhita snertir síðan a.m.k. 1935 og reyndar er eiginlega alveg öruggt að ekki var hærri meðalhiti  nokkurn  sólarhring í september öllum árin 1935-1948 nema þ. 2. og. 3. árið 1939, en seinni dagurinn er sá eini sem hiti í borginni hefur náð 20 stigum í september, 20,1 stig. 

Þennan dag árið 1968 fór hitinn í 19,7 stig á Hellu en daginn áður hafði hann komist í 20,2 á Þingvöllum. Fyrri hluti Þessa septembermánðar var afar hlýr í Reykjavík og annars staðar á suður-og vesturlandi og reyndar var hlýtt alveg fram á síðustu dagana en þá kólnaði mjög. Ekki kom jafn hlýr september í borginni fyrr en 1996 og svo aftur í fyrra. 

Árið 1971 komst hitinn þennan dag í Reykjavík í 18,2 stig en meðalhitinn var "aðeins" 12,9 og lágmarkið 11,0, en sólin skein í rúmlega 10 klukkustundir og það var þurrt.  Á Hólmi, skammm frá Rauðhólum við Reykjavík komst hitinn 21,1 stig og 21,9 á Mógílsá á Kjalarnesi. Á suðurlandsundirlendi fór hitinn víða yfir 20 stig, mest í 21,8 á Þingvöllum og er það mesti hiti sem mælst hefur á þeim stað í september. Ekki mældist 20 stiga hiti þennan dag annars staðar en á suðuvesturlandi.   

Árið 1973 var þennan dag afar hlýtt á landinu í heild en einkum þó fyrir norðan og austan. Á Akureyri fór hitinn í 21,5 stig og meðalhiti sólarhringsins var 15,7 og þar var sólarglæta. Daginn eftir var víða enn hlýrra. Einnig var mjög hlýtt fyrir norðan og austan 1952. Mældist þá mesti hiti sem mælst hefur á landinu þennan dag frá 1949, 22,4 stig á Hallormsstað, en á Akureyri varð hitin 19,0 stig. Sólarhringsmeðaltalið á báðum stöðunum var þó nokkru lægra en 1973. 

Einna snautlegasti 11. september á landinu eftir 1949 var árið 1975. Á kortinu hér fyrir neðan má sjá veðrið á landinu þennan dag á hádegi. Kortið segir eiginlega allt sem segja þarf.  Þó má bæta því við að meðalhitinn var sá lægsti þ. 11. september í Reykjavík frá 1949, aðeins 3,6 stig en sólin skein í næstum því tólf klukkustundir. Nokkuð afdráttarlaus sönnun á því að ekki er alltaf besta veðrið þegar sólin skín! Á Akureyri var meðalhitinn hvorki meira né minna en 1,3 stig. Víða var slydda fyrir norðan.

Mesta frost þennan dag í Reykjavík mældist árið 1882, 2,1 stig.  

Mesti hiti sem komið hefur í  öllum september á landinu er hins vegar 26,0 þ. 12. árið 1949 á Dalatanga. Það er sem sagt enn sumar á þessum árstíma ef svo vill verkast. Á sjálfvirkum stöðvum hefur mest mælst eftir 1995 20,7 á Skarðsfjöruvita 1997. 

Á kortunum hér fyrir neðan má sjá veðrið á hádegi á landinu alla þessa daga 1968, 1971, 1973, 1952 og 1975, og auk þess yfirlitskort fyrir veðrakerfin við jörð og í raun og veru hitafarið í kringum 5 km  hæð. Yfirlitskortin  fyrir 1968 og 1971 eru býsna lík, austanátt með hlýindum, en 1973 er aftur á móti rakið sunannáttakort.  

Það gengur ýmislegt á 11. september annað en hryðjuverk mannanna. Náttúran getur líka verið mislynd þennan dag.  

1968-09-11_12

Rrea00119680912

1971-09-11_12

Rrea00119710911

1973-09-11_12

Rrea00119730912

1952-09-11_12 

Rrea00119520911

1975-09-11_12

Rrea00119750911

66


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband