Þrjár nýjar spennandi veðurstöðvar

Þrjár veðurstöðvar eru nú farnar að birtast í gagnasafni Veðurstofunnar, Vík í Mýrdal, Hólmavík  og Fáskrúðsfjörður.

Í Vík hefur verið svonefnd veðurfarsstöð (sem gerir athuganir en sendir ekki skeyti) frá því 1925. Þetta er einhver úrkomusamasti staður landsins og veður gaman að fylgjast með úrkomunni þar og reyndar líka vetrarhitanum í samanburði við Vatnsskarðshóla og Vestmannaeyjar. Ekki get ég enn  gert mér grein fyrir því hvers konar stöð þetta er því hún er ekki kominn í daglegar skrár Veðurstofunnar á netinu nema úrkoman og eitt hitagildi. Hana er heldur ekki að finna á textavarpinu. Stöðin er því eins konar huldustöð.

 Móðir mín var alltaf í sumarvinnu í Vík þegar hún var ung og það á fjórða áratugnum, mesta hlýviðrisskeiði Íslandssögunnar nema ef vera skyldi síðustu ár. Móðurætt mín lengra aftur kemur úr Mýrdalnum, kynslóð eftir kynslóð í nokkrar aldir. Gaman væri að fá veðurstöð inni í sjálfum dalnum, t.d. á Skammadalshóli eða Hvammi. Ég man alltaf eftir grein í Veðrinu á hafísárunum þar sem skýrt var frá ótrúlegum hitamun á Loftssölum, úti við sjóinn og svo á Skammadalshóli. Nú er að vísu enginn hafís en hvað gerist inni í dalnum á góðum sumardögum?   

Engar athuganir hafa verið gerðar í Hólmavík þar sem nú er kominn sjálfvirk stöð, en úrkomumlælingar hafa verið gerðar á Ósi skammt frá og á Bassastöðum í Steingrímsfirði. Þar hefði ég reyndar heldur viljað sjá stöðina. En það er frábært að alhliða veðurstöð sé loks komin í Steingrímsfjörð.

Ekki hefur heldur verið athugað áður í Fáskrúðsfirði og verður fróðlegt að sjá athugnir þaðan frá sjálfvirku stöðinni. Þessa viku sem stöðin hefur verið á netinu sést að hitinn hefur þar bæði farið hærra og lægra en á Eskifirði, Kollaleiru og Teigarhorni.  Reyndar eru ekki enn komnar inn á netið dagleg mæligögn, aðeins er hægt að sjá vikuyfirlitið.

Svo væri fínt að fá stöð innst inn í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi eða mjög innarlega á Ísafirði sjálfum sem lengst gengur inn í vestfjarðarkjálkann in af Djúpinu. Auk þess í Vatnsfirði í Barðastrandarsýslu, ekki samt í Bjarkarlaundi heldur á veginum við vatnið.     

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband