Hlýjustu og köldustu nóvembermánuðir

Hver skyldi trúa því að nóvember gæti orðið hlýrri en gengur og gerist í maí? Það gerðist eigi að síður í Reykjavík árið 1945. Þá var Veðurstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og mældist meðalhiti mánaðarins 6,5 stig. Meðalhitinn í maí 1961-1990 var 6,4 stig. Þetta  er langhlýjasti nóvember sem komið hefur í borginni og er hálfu öðru stigi hlýrri en sá sem næstur kemur.

Veðráttan segir svo um mánuðinn: „Tíðarfarið var einmuna gott, hlýindi svo mikil að blóm sprungu út, og var kúm beitt fram yfir miðjan mánuð." Það var látlaus suðlæg átt  fyrstu tæpu þrjár vikurnar. Eftir það gerði skammvinnt kuldakast en hlýnaði svo á ný í lok mánaðarins. Meðalhiti fyrstu 24 dagana var 7,9 stig. Meðalhiti alls mánaðarins 1961-1900 var 1,6 stig. Allra síðustu dagana 1945 var ofurlítill snjór á jörðu en annars var auð jörð.

Þetta er hlýjasti nóvember sem mælst hefur á landinu í heild og sá hlýjasti frá Hornafirði vestur og norður um að Eyjafirði en frá Eyjafirði til Hornafjarðar var hlýrra árið 1956. Sá mánuður var talinn óvenju hagstæður um austanvert landið en óhagstæður vestan lands vegna storma og mikillar úrkomu. Þetta er næst hlýjasti nóvember í Reykjavík en þrátt fyrir hlýindin var snjór á jörðu í 8 daga en aldrei þó mikill. Þann 24. var stórviðri um allt land af suðvestri. Slitnuðu þá fimm vélbátar frá bryggju í Reykjavík. Rafmagnsstaur fauk um koll í Garðarstræti í Reykjavík í ofviðri aðfaranótt þ. 15. og féllu allar rafmagnslínarnar að honum á þakið á nr. 17 svo neistaflug varð svo mikið að albjart varð. Engar skemmdir urðu þó á húsinu.                                   

Úrkoman var mikil á suður-og veturlandi, einkanlega í Borgarfirði og sums staðar á Vestfjörðum og suðurlandsundirlendi. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist þá mesta nóvemberúrkoma sem þar mældist þau ár sem mælt var, 1934-1985, en árið 1993 fuku flest önnur úrkomumet nóvembers í héraðinu. Í Kvígindisdal við Patreksfjörð mældist meiri úrkoma en þar mældist í nokkrum mánuði í mælingasögu staðarins 1928-2004, 466,1 mm. Á Þórustöðum í Önundarfirði mældist mesta nóvemberúrkoma sem þar kom árin sem þar var mælt 1955-1996.  Á Sámsstöðum í Fljótshlíð er sömu sögu að segja en þar var mælt 1928-1998.   

Árið 1958 kom úrkomusamasti nóvember á landinu og hann var sá þriðji hlýjasti. Úrkoman var gríðarleg um sunnan-vestavert landið. Á Stóra-Botni í Hvalfirði var hún 603,2 mm og var það mesta mánaðarúrkoma sem nokkru sinni hafði þá mælst á veðurstöð á Íslandi. Í Reykjavík var þetta blautasti nóvember frá upphafi mælinga og þar til í nóvember 2003. En sums staðar á suður-og vesturlandi standa nóvemberúrkomumet sem sett voru þennan mánuð enn. Má þar fyrst nefna Stykkishólm þar sem mælingar ná frá 1856, 281,3 mm, og er þetta mesta úrkoma þar í nokkrum mánuði allan þennan tíma. Einnig má nefna Elliðaárstöð við Reykjavík (frá 1923), Eyrarbakka (1880-1911 og frá 1926), Kirkjubæjarklaustur (1931) og Seyðisfjörð (1935-1953 og frá 1957). Víða syðra rigndi alla daga nema einn í mánuðinum. Fádæma úrkoma var á suður- vesturlandi þ. 17.-18. Á Rafstöðinni í Andakíl mældist sólarhringsúrkoman 165,3 en 184,6 mm í Stóra-Botni. Metið á Rafstöðinni stendur enn. Úrkoman í Stóra-Botni var þá mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á Íslandi á venjulegum athugunartímum. Urðu af þessu úrfelli víða vegaspjöll vestan lands og skriður féllu á vegin milli Ísafjarðar og Hnifsdals.

Tíðin var þó talin mjög hagstæð, einkum síðari hluti mánaðarins. Veðráttan segir: „Grænn litur var á túnum og fíflar og sóleyjar sprungu út. Fé gekk yfirleitt sjálfala, og fjallvegir voru lengst af opnir. Í lok mánaðarins var víða autt upp á efstu fjallabrúnir."

Þá eru það köldustu mánuðirnir.

Einn sker sig alveg úr með kulda. Það var árið 1824. Þá gerði Jón Thorsteinsson veðurathuganir í Nesi á Seltjarnarnesi. Þær athugnir voru ófullkomnari en síðari mælingar en meðalhitinn er áætlaður -4.6 stig sem er miklu kaldara en nokkur annar nóvember sem hefur verið mældur. Og hann kom á eftir kaldasta október sem vitað er um, „frá septemberlokum til nýárs var einlæg og óslitin kuldaveðrátta með miklum snjóþunga", segir í Árbókum Reykjavíkur. Ætla má að um allt land hafi verið feikna mikill kuldi.

Köldustu nóvembermánuðir eftir þennan í Reykjavík var -3,3 stig 1841, -2,9 árið 1866 og svo -1,.9 stig 1996. Sá síðastnefndi var líka sólríkasti nóvember í Reykjavik frá 1923 og skein sólin í 79,2 klukkustundir en meðaltalið 1961-1990 er 33 klukkustundir. Meðalhámarkshiti á landinu fór ekki upp yfir frostmark í 19 daga. Þrátt fyrir kuldann var tíð ekki talin óhagstætt og vestanlands var snjólétt. Sums staðar austanlands mældist frost alla daga mánaðarins og á nokkrum stöðvum var jörð alhvítt allan mánuðinn. Þessi mánuður var sögulegur fyrir það að eftir eldgos í Vatnajökli kom þá mesta Skeiðarárhlaup sem vitað er um þ. 5.-7. Skeiðarárbrú skemmdist og einnig brú yfir Sæluhúsakvísl. Miklar skemmdir urðu á vegum og  varnargörðum. Í byrjun mánaðarins féllu snjóflóð í Mýrdal en ollu ekki skaða.     

Í fylgiskjali má sjá ýmsar staðreyndir um daglegt veður í Reykjavík og hitann á öllu landinu í nóvember 1945, 1956, 1958, 1841 og 1996. 

Heimildir: Árbækur Reykjavíkur eftir Jón Helgason og Morgunblaðið. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta var góð skýrsla, ég man eftir 1956 en ekki eftir Conway Twitty, en minnir að í þessum nóvember hafi ég fengið svartar gallabuxur og svartan gallajakka og horft á fyrstu rock ´n roll bíómyndina í Bæjarbíó og það var fjör. Og oftast var maður votur í fæturnar því þá átti enginn stígvél nema í vinnu.

María Kristjánsdóttir, 7.11.2007 kl. 00:51

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband