Rokkað og rólað í bíó 1957 og 1958

María Kristjánsdóttir listagyðja fékk frá mér hugskeyti í gær þegar ég var einmitt að hugsa um að enginn gerði athugasemdir við þessar innblásnu veðurskýrslur mínar. Í þeirri síðustu, um hlýja nóvembermánuði, vék ég að Conway Twitty sem átti vinsælasta lagið í rigningarnóvembernum mikla  1958, It's  Only Make Believe. María kom einmit með athugasemd og skrifar: 

"Þetta var góð skýrsla, ég man eftir 1956 en ekki eftir Conway Twitty, en minnir að í þessum nóvember hafi ég fengið svartar gallabuxur og svartan gallajakka og horft á fyrstu rock ´n roll bíómyndina í Bæjarbíó og það var fjör. Og oftast var maður votur í fæturnar því þá átti enginn stígvél nema í vinnu."

Við þessi orð fór ég nú að rifja upp í mínu afbrigðilega minni og varð þessa þegar vísari.

Fyrsta rokkmyndin í íslensku bíói var Rock, Rock Rock sem Austurbæjarbíó sýndi 20. febrúar til 1. mars 1957 og þar komu fram m.a. Chuck Berry og Frankie Lymon (sem kom til Íslands 1959) en Tuesday Weld lék aðalhlutverkið. Stjörnubió sýndi sama ár Rock Around the Clock með Bill Haley  og The Platters 4.-22. mars. Nýja bíó var með The Girl Can´t Help It 3.-16. ágúst þar sem Gene Vincent söng BeBop A Lula, Little Richard titillagið, Fats Domino Blue Monday og The Platters sungu Remember When. Jayne Mansfield var aðalleikona myndarinnar en hún var þá mikil kynbomba. Hún missti síðar höfuðið í bifreiðarslysi. Frank Tashlin var leikstjóri og var þekktur þá.   

En þetta var ekki búið. Austurbæjarbíó sýndi The Tommy Steele Story 29. ágúst til 16. september  og hann söng þar auðvitað Water Water sem Skafi Ólafsson gerði ódauðlegt á Íslandi undir orðunum Það er allt á floti alls staðar. Annað frægt lag var í myndinni, Freight Train, sem Ragnar Bjarnason söng síðar undir nafninu Lestin brunar eða eitthvað. Hafnarbió sýndi Rock Pretty Baby 26. september til 7. október með Sal Mineo. Sú mynd var bönnuð börnum. Austurbæjarbíó bauð enn upp á rokkmynd 3.-19. desember, Don't Knock the Rock. Þar söng Little Richard hvorki meira né minna en Tutti Frutti og Long Tall Sally og setti fótinn upp á píanóið og allt það. Áhorfendur æptu í sætunum. Ég líka.

Stóra bíótropmpið kom svo fyrsta febrúar 1958 og hélt áfram til þess 15. Tjarnarbíó sýndi þá Loving You með Elvis í flottum litum. Hann söng m.a. Teddy Bear. Með honum lét Doloroes Hart sem ég varð bálskotinn í en það var til lítils því hún gerðist nunna skömmu síðar. Aftur var Tjarnarbíó með geggjaða rockmynd 29. apríl til 6. maí Mister Rock and Roll sem hét því ágæta íslenska nafni í auglýsingum Vagg og velta. Þar lék Alan Freed plötusnúð en Chuck Berry, Fankie Lyomon og Little Richard komu fram ásamt The Moonglows og fleirum.

Þetta voru fyrstu rokkmyndirnar i íslensku bíói en heldur fór að draga úr slíkum myndum eftir þetta.

Ég nennti ekkert að vera að gera einhverjar skrifkrúsidúllur utan um þessar staðreyndir. Staðreyndir tala nefnilega sínu máli. Svo í veðri sem í rokki.

Já, börnin mín, ég þekki nú the fifties betur en fingurna á mér!   

See You Later Alligator.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Þakka þér fyrir þessi skrif,fannst mjög gaman að lesa þetta,yngdist um mörg ár,og þetta vakti upp myndir og minningar sem hafa legið í undirmeðvitundinni án þess að þeim hafi verið gaumur gefinn fyrr en við þessa upprifjun þína,þetta var frábært tímabil.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 7.11.2007 kl. 08:34

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Gúmoren. Gaman að þessari upprifjun og ekki skemmir þetta fyrir í upprifjun frá USA sé:

http://oldfortyfives.com/TakeMeBackToTheFifties.htm

Yngvi Högnason, 7.11.2007 kl. 09:26

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

 Það var sem sé ekki í byrjun vetrar heldur að vori sem ég sá Rock Rock Rock- en það var fyrsta myndin og það man ég rétt. Og þvílík upplifun! 

María Kristjánsdóttir, 7.11.2007 kl. 10:02

4 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Það var rétt hjá Maríu. Kvikmyndin Running Wild var sýnd í Bæjarbíói sunnudaginn 8. nóvember 1956. Í auglýsingu um myndina í Morgunblaðinu þann dag segir. Ný spennandi amerísk mynd. "Rock and Roll" lagið "Razzle Dazzle"" leikið í myndinni. Sýnd kl. 5. Bönnuð börnum. Hvað svona kornung stúlka eins og María var þá var að gera á bannaðri mynd hjá Helga í Bæjarbíói veit ég ekki. Kannski skriðið inn um gluggann í portinu bakatil eins og maður gerði stundum.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 7.11.2007 kl. 15:14

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta eru athyglisverðar uppýsingar nafni. En eitthvað hefur samt skolast til því þessi mánaðardagur var fimmtudagur og í Mogganum á Lanfsbókasafni er þessi mynd ekki auglýt þennan dag. Getuðru fundið þetta fyrir okkur? Svo ég bæti enn við nostalgíulistann sýndi Nýja bíó Love Me Tender 1-15. júní 1958. Elvis söng lagið en þetta var ekki rokkmynd þó rokkgoðið mesta léki í henni. Ég var þá með fjölskyldunni í sumarbústað í Skorradal og tek enn ekki á heilum mér að hafa ekki séð myndina. Þegar ég kom í Eymundsson í dag hljómaði Love Me Tender með Elvis þar um allt! Og því trúi ég vel að Maria hafi snemma runnið villt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.11.2007 kl. 16:36

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

1-15. júlí á þetta að vera.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.11.2007 kl. 16:38

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Helgi í Bæjarbío var náfrændi minn og mikill áhugamaður um það að Hafnfirðingar sæu góðar myndir og sennilega talið það nauðsynlegt fyrir menntun mína að fá að sjá þetta. Ég sá líka Love me Tender en það kann að vera að ég hafi svindlað mér inní hlé einsog á ítölsku myndirnar allar sem voru stranglega bannaðar því eftir þessum glugga man ég ekki Sigurður Á!

María Kristjánsdóttir, 7.11.2007 kl. 16:59

8 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Fyrirgefðu Nafni. Það var laugardaginn 17. nóvember 1956. Myndin auglýst á bls. 14

Sigurður Á. Friðþjófsson, 7.11.2007 kl. 17:06

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Minnið hennar Maríu er ekki til að spauga með. það er eitthvað annað en með mig sem man ekkert stundinni lengur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.11.2007 kl. 17:45

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Til hamingju Nimbus með 'sýndarsagnfræðina' þína í Kastljósi. Ég hefði nú viljað sjá þig þar sjálfan í eigin persónu, eins og frænda okkar Jón Kalman.

þú ert lunkinn við að koma þér annað hvort í blöðin eða sjónvarpið.

Svava frá Strandbergi , 7.11.2007 kl. 23:13

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Fyrirgefðu Nimbus, ég meinti auðvitað í Kiljunni hjá Agli. Ég held bara að ég sé komin með Alzheimer.

Svava frá Strandbergi , 7.11.2007 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband