Hlýjustu og köldustu desembermánuðir

Veturinn 1880-1881 er harðasti vetur sem komið hefur á Íslandi síðan einhvers konar veðurathuganir hófust fyrir rúmlega tvö hundruð árum. Hann hefur þó fallið mjög í skuggann af frostavetrinum 1918. Það ár stóðu mestu kuldarnir í minna en mánuð en veturinn 1880-81 voru kuldarnir nær linnulausir frá því í desember og fram í byrjun apríl.

Fyrstu tvo dagana í desember var norðanátt en dagarnir 3.-5. voru þeir hlýjustu í mánuðinum og rigndi þá sunnanlands og vestan. Aðfaranótt hins 10. gerði vestan fárvirði á suðvesturlandi. Í Suðurnesjaanál segir svo: „Ofsaveður kom fimmtudagskvöldið þann 9. desember, sem varði nærfellt alla nóttina fram undir dag. Tók þá upp 3 tíæringa hér í hreppnum, hvar af einn brotnaðí í spón, frá Meiðastöðum. Einnig fuku og brotnuðu fleiri smærri skip og tvö sexmannaför í spón. Þá fauk og brotnaði dekkbátur Lárusar hómopata, sem var í smíðum og 3 róðrarskip hans. Fiskskhjallar fuku og brotnuðu víða, og buðu margir tjón af þessu veðri, sem miðaldra menn mundu ekki eftir að komið hefði slíkt. Kvöldið, sem veðrið datt á, varð manntjón og skipsskaði frá Vatnsleysu. Drukknuðu 6 menn."

Kuldarnir byrjuðu fyrir alvöru 12. desember. Ekki hlánaði eftir það í Stykkishólmi og Grímsey fyrr en á gamlársdag en ekki allan mánuðinn á Teigarhorni. Var áttin milli austurs og norðurs allan tímann og oft hvasst. Kalt var um jólin, frostið fór niður í 21,1 stig á jóladag í Stykkishólmi. Eftir jólin var mjög vont veður á landinu, hávaðarok og frostið var 10 til 20 stig. Mest varð það mælt 23,4 stig á  Valþjófsstað í Fljótsdal. Ekki var mælt á Grímsstöðum eða Möðrudal á þessum tíma. Og heldur ekki á Akureyri. Snjókoma var víða. Þann. 27. komst frostið í Reykjavík niður í 18,4 stig og er það mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í desember. Um þetta leyti fór frostið í Vestmannaeyjakaupstað niður í 17,8 stig sem er mesti kuldi sem þar hefur komið í desember. Í Hreppunum kom líka desembermet, -21,6 stig á Hrepphólum. Á norðurlandi voru mikil frost, allt að 30 stig að sögn blaðanna. Milli jóla og nyjárs voru einlægir norðanstormar og hríðar og rak þá hafþök af ís fyrir öllu norðurlandi. Á Akureyri gerði norðan stróhríð svo svarta þriðja í jólum að tæpast var fært húsa á milli og stóð hún í dvö dægur.

 Á gamlársdag hlýnaði loksins með sunnanátt og var þá rigning á  suður- og vesturlandi.       

Árbækur Reykjavíkur segir um árferðið í þessum mánuði: „Haustið var umhleypingasamt allt til jólaföstu og frosthörkur miklar og bál seinni hluta desember. Um jólin -12-15° R. [-15-19°C] hér syðra á nóttu, mest -11° [-14°C] á hádegi. Milli jóla og nýárs var blindbylur dag eftir dag, svo illfært var húsa á milli hér í bæ. Öll höfnin var einn ísfláki út undir Engey og var gengið á ís ofan af Kjalarnesi, úr Engey, út í Akurey." Í Suðurnesjaanál stendur: "... gengu miklar hörkur allt til ársloka, en frostharkan var svo mikil, að fullorðnir menn mundu ekki aðra eins. Lagði þá víkur og firði með öllum sjó og var gengið frá Hákotstöngum út að Þórukoti. Einnig var gengið úr Reykjavík upp á Kjalarnes. Íshrannirnar voru háar sem hús með sjónum. Fundust sjófuglar frosnir i hel. Kindur höfðu einnig frosið niður sums staðar og jafnvel einhvers staðar hungruð og mögur hross. Varð nú hin mesta vandræða tíð að hjúkra og hirða féð, en batinn með hláku kom á gamlársdag, en þá nótt, eða réttara sagt með morgninum eftir gerði mesta sjávarflóð með svo mikilli ólgu og afli, að garða braut víða, og ísspangirnar liðuðust niður, og hinar miklu íshrannir sópuðust upp á land. Mest varð tjón af þessu á Útskálum og Lambastöðum. Þá brutu ísjakar einnig nokkur skip, sem voru uppi í naustum."

Meðalhiti mánaðarins var alls staðar lægri en síðar hefur orðið. Hér á eftir er meðalhiti mánaðarins á þeim veðurstöðvum sem lengst hafa athugað og meðalhinn 1961-1990 innan sviga: Reykjavík -7,0 stig (-0,2), Stykkishólmur -7,9 (-0,8), Grímsey -8,8(-0,9) Teigarhorn -6,7 (-0,1), Vestmannaeyjar -3,8 (1,4), Hrepphólar -8,6 (-1,6). Í Saurbæ í Eyjafjarðardal var meðalhitinn reiknaður -10,7 stig og þó sitthvað kunni að vera athugunarvert við mælingarnar frá nútímasjónarmiði er þetta vafalaust lægsta meðaltal sem komið hefur í nokkrum desemberánuði á íslenskri veðurathugunarstöð á láglendi.            

Næst kaldasti desember var árið 1824. Þá voru aðeins gerðar veðurathuganir, nokkuð ófullkomnar, í Nesi á Seltjarnarnesi og er meðalhitinn reiknaður -5,9 stig. Þriðji kaldasti desember í Reykjavik var 1886, -5,0°. Næst kaldasti desember á Akureyri, frá 1881, var hins vegar 1892, -6,3° og var hann lítið eitt kaldari en árið 1886.   

Kaldasti desember á landinu síðan 1886 var árið 1973. Hann er sem sagt kaldasti desember sem núlifandi Íslendingar hafa kynnst ef eigin raun. Var hann samt talsvert mildari en þeir mánuðir sem taldir hafa verið hér að framan, meðalhitinn í Reykajvík var -3,7 stig en -6,0 stig á Akureyri. Mánuðurinn var ekki aðeins kaldur heldur einnig umhleypingasamur. Mjög snjóþungt var fyrir norðan. Að morgni gamlársdags var snjódýptin hvorki meira né minna en 153 cm á Raufarhöfn og Hornbjargsvita.  Reyndar byrjaði mnuðurinn með hlýindum, aðfaranótt þ. 3. komst  hitinn í 16 stig bæði á Dalatanga á austfjörðum og Galtarvita á vestfjörðum. En eftir fyrstu tíu dagana voru ekki hlákur að heitið geti. Suma dagana var frostgrimmdin með allra mesta móti. Samkvæmt könnun Trausta Jónssonar veðurfræðings var sá. 14. fimmti kaldasti dagur á landinu yfir allt árið síðan a.m.k. 1949, sá. 18. sjötti kaldasti og sá 17. 24. kaldasti dagurinn. Á Breiðafirði var svo mikill langaðarís að menn gátu allvíða gengið milli eyja á tímabili.

Þrír desembermánuðir skera sig úr fyrir hlýinda sakir á Íslandi, 1933, 1987 og 2002.

Desember 1933 er sá hlýjasti sem mælst hefur á Íslandi í heild. Þá var meðalhtinn á þaki Landssímahússins í Reykjavík 4,7 stig en á Akureyri 3,7 og þetta er eini desember sem  hefur verið fyrir ofan frostmarks á Grímsstöðum á Fjöllum, 0,2 stig.

Það var lengst af snjólaust, tún voru græn og blóm í túnum og görðum. Víða lá fénaður úti og var lítið sem ekkert gefið. Nokkuð úrkomusamt var sunnanlands og vestan og óstöðugt veðurlag. Aldrei var alhvítt af snjó á Hvanneyri, í Vestmannaeyjum og í Fagradal í Vopnafirði. Í Reykjavík snjóaði ekki fyrr en í mánaðarlok og var snjódýpt 1,5 cm að morgni gamlársdags. Stormar voru nokkuð tíðir en suðlægar áttir voru auðvitað yfirgnæfandi. Á Hraunum í Fljótum mældist hitinn 16,6.stig þann 3. og var það mesti hiti í desember á landinu allt til 1988 en var jafnaður 1970 og 1981. Þetta er líka sá desember sem hefur hæst skráð mánaðarlágmark hitans á öllu landinu, -6,9 stig og mældist það frost á Kollsá í Hrútafirði. Þá er þetta sá desember sem hefur hæsta lágmarkshita í Reykjavík, -1,6 stig. Á Stórhöfða mældist minnsti hitinn -0,2 og er hugsanlegt að alveg froslaust hafi verið í kaupstaðnum þennan mánuð. 

Árið 1987 var tiltölulega hlýjast á suður-og vesturlandi en náði þó hvergi alveg desember 1933. Jörð var að mestu þíð og snjólaus til jóla, grænn litur var á túnum  og brum jafnvel þrútnuðu. Í Reykjavík varð aldrei alhvít jörð.

Ekki er talinn marktækur munur á hita desember í Reykjavík árin 1933 og 2002 vegna flutninga Veðurstofunnar um bæinn. Árið 2002 var meðalhitinn 4,5 stig en 4,4 1933 reiknaður til veðurstofutúns. Í Stykkishólmi var mánuðurinn rétt aðeins kaldari en 1933. Í Vestmannaeyjum var þetta hins vegar hlýjasti desember sem þar hefur komið frá því mælingar hófust 1878. Þar var alveg snjólaust og reyndar á öllu suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði. Í Reykjavík varð aldrei alhvítt en flekkótt jörð var tvo morgna. Á Akureyri var heldur aldrei alhvít jörð og er það einsdæmi í desember. Mest snjódýpt á veðurstöð var aðeins 14 cm og var það á Hveravöllum en þar var aðeins alhvítt í einn dag og er það með ólíkindum.  Í mánuðinum mældist mesti hiti sem komið hefur í desember í Reykjavík, 12,0 þ. 6. Á suðurlandi var úrkomusamt en þurrkar á norðurlandi.     

Á Akureyri voru desember 1987 og 2002 ekki eins hlýir og desember 1953 og 1941 en þeir voru annar og þriðji hlýjasti desember á staðnum en þá voru hins vegar engin methlýindi á suðurlandi þó hlýtt væri að sjálfsögðu.  

Í fylgiskjali má sjá hita, sól og úrkomu í desember í Reykjavík 1987, 2002 og 1973 og mesta og minnsta hita dag hvern á öllu landinu. Ekki hef ég handbær dagleg hitagögn frá Reykjavík árið 1933 en hins vegar frá Kirkjubæjarklaustri þar sem meðalhitinn var nánast sá sami og í Reykajvík en sól og úrkomutölur eru þó frá Reykjavík. Árið 1880 hef ég ekki heldur tölur frá Reykjavík en birti í staðinn hitatölur frá Strykkishólmi. Það var um það bil einni gráðu mildara í mánuðinum í Reykajvík.

Heimildir: Trausti Jónsson: Langtímassveiflur II, Kuldaköst og kaldir dagar, VÍ, Reykjavík, 2003, Frostaveturinn mikli 1880-1881, Nátturufræðingurinn 1, 1977; Fróði, 1880; Fréttir frá Íslandi, 1880; Jón Helgason:  Árbækur Reykjavíkur, Leiftur, Reykjavík, 1936;, Suðurnesjaanáll Sigurðar B. Sívertsen, Rauðskinna III.

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband