Mesta snjóatíð í Reykjavík síðan veturinn 2004-2005

Nú hefur jörð ekki verið talin alauð í Reykjavík í 31 dag. Leita þarf allt til desember 2004 og janúar 2005 til að finna eitthvað sambærilegt. Þá var ekki alauð jörð í Reykjavík alveg frá 14. desember til 23. janúar að undanskildum öðrum í jólum þegar jörð var talin alauð.

Snjódýpt hefur verið mæld samanlögð alla dagana 246 cm í þessari snjóatíð nú, frá 9 janúar. Í gamla snjóakastinu 2004-2005 var hún 227 cm. Snjódýpt var þá ekki mæld alla dagana en varð aldrei meiri en 14 cm en hefur núna þrisvar farið yfir 20 cm og í dag er hún 19 cm.

Ef aðeins eru teknir alhvítir dagar verður myndin miklu flóknari og ég nenni ekki að þvæla málin frekar.

En það er sem sagt æði stutt síðan var svona nokkurn vegin sambærileg snjóatíð og nú er. Það þarf svo sannarlega ekki að leita til níunda áratugarins eins og sumir eru að segja. Ekki lítur út fyrir að jörð verði alauð alveg á næstunni.  

Sumum finnst gaman að snjónum. Skíðamenn fagna. En ekki má gleyma því að þeir eru miklu fleiri sem aldrei fara á skíði en þeir sem stundum gera það, hvað þá oft. Snjórinn getur verið ævintýralega skemmtilegur en þegar hann liggur vikum saman og blotnar og myndast klaki sem svo snjóar aftur ofan í og svo verður hann meira og minna skítugur og þvældur er nú mesti glansinn af honum. Mörgum  finnst slík vetrartíð hreinlega niðurdrepandi, ekki síst þegar vorið lætur á sér standa þegar að því á að draga. Auk þessa veldur snjórinn að sjálfsögðu miklum samgönguerfiðleikum, beinbrotum og öðrum slysum og skapar snjóflóðahættu.


Athugasemdir

1 identicon

Þetta er í fyrsta skipti sem ég les veðurfærslu frá þér með mikilli athygli.

Geturðu nokkuð spáð fyrir um það hvort ég geti flogið vandræðalaust austur til Egilsstaða á fimmtudaginn og til baka þremur dögum síðar?

Eða kannski ertu enginn Siggi stormur...

love

þhs

P.S. Nokkrar setningar síðustu bloggskrifa frá þér glöddu mitt gamla hjarta. Ég ætlaði að kópera þær og hrósa þér í sérstöku kommenti, en ég nenni því ekki.

Þórunn Hrefna (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 23:20

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég nenni nú ómögulega að gefa þér flugspá en þú færð þetta í staðinn. Mjög upplýsandi og mjög upplífgandi fyrir allar flugferðir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.2.2008 kl. 23:34

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meðal annarra orða: Hvaða setrningar (bara nokkrar!?), bannað að æsa mann upp í forvitni.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.2.2008 kl. 23:52

4 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Hvernig er með 9. Mars? Verður rigning þá?

Já.  

Ólafur Þórðarson, 9.2.2008 kl. 02:20

5 identicon

Ókei. Þú veist að ég er sökker fyrir stíl og sérkennilega orðuðum setningum. Þessvegna er þetta mitt uppáhald úr síðustu færslum Sanasólarinnar.

"Fyrir tíu árum rauk ég í það að rekja frændgarð minn, ættir frá öllum langalangöfum mínum og ömmum. (Dúkkuðu þar upp ýmsir furðulegir fuglar og kynjakvendi, sumir landsfrægir hálfvitar)."

Og svo...

"En áður hafði læknirinn vaðið með lúkuna upp í rassgatið á mér eins langt og hann komst. Ég lét mér þó hvergi bregða við það þukl og djarfar þreifingar."

Já, ég veit. Ég er undarleg. En það ert þú líka!

Þórunn Hrefna (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 03:08

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hin síðari af þessum gullvægu setningum var eingöngu sögð til að gleðja eitt húsmóðurhjarta í vesturbænum hver er eitt undarlegt kynjakvendi og landsfrægur ........ að auki.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.2.2008 kl. 08:42

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég sakna snjósins sem var talað um fyrst áður en athugasemdir fóru í rass og rófu. Hér í Danmörku eru liljur farnar að gróa á hundaskítnum. Frost finnur maður aðeins þegar maður leitar að grænum baunum í frystinum.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.2.2008 kl. 20:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband