Hlýjasti tími ársins

Hlýjasti tími ársins er um það bil mánuði eftir sumarsólstöður, kringum 22. júlí.  Um það leyti og  næstu daga þar á eftir er yfirleitt hlýjast í sveitum landsins. Víða á annesjum er hlýjast fyrstu dagana í ágúst.

Þetta sýna langtíma dagsmeðaltöl. Kólnunin eftir sumarhámarkið er  hæg.

Núna er sem sagt hásumar. Þess vegna er skelfilegt  til þess að hugsa að slæmt kuldakast virðist vera í uppsiglingu. 

Ég hef oft orðið var við að fólk telji að farið sé að hausta strax upp úr verslunarmannahelgi, ekki síst ef hún er votviðrasöm, og ég hef lesið á bloggi að ágúst sé í raun fyrsti haustmánuðurinn. Algengt finnst mér að menn telji ágúst síðri júní hvað sumarblíðu varðar. Hann er að vísu nokkru úrkomusamari en hvað hitann snertir er þetta ekki rétt. Í heild er ágúst lítið kaldari en júlí og sums staðar við sjóinn á norður og austurlandi er hann hlýjasti mánuður ársins.

Síðustu þrír dagar ágústmánaðar og þrír síðustsu dagar júnímánaðar eru svipaðir að meðalhita á landinu en annars er allur ágúst að meðaltali hlýrri en júní. Birtustigið er auðvitað annað en það kemur hitanum ekki beint við. Fyrstu tíu dagar september eru  meira að segja að jafnaði hlýrrri að meðaltali en fyrstu tíu dagar júní. 

Það er sem sagt veðurfarslegt hásumar um þetta leyti árs og áfram svona um það bil fyrsta þriðjung ágústmánaðar. En þetta getur auðvitað verið mismunandi eftir árum.

Og því miður geta leiðinleg kuldaköst komið í öllum sumarmánuðum. 

   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband