Hvít og rauð jól síðustu áratuga í Reykjavík og á Akureyri

Jóladagur varð þá hvítur í Reykjavík eftir allt saman! Snjódýptin 1 cm. Síðast voru hvít jól í Reykjavík árið 2003. Hér á fylgiskrá færslunnar  má sjá hvít og rauð jól í borginni nokkra áratugi aftur í tímann. Venjan er að miða við snjó að morgni jóladags. Það sem stingur í augu er snjóleysið síðustu árin og sex hvít jól í röð árin 1990 til 1995. Á jóladag 1992 var snjódýptin 17 cm.

Annars held ég að flestir miði í huga sér við klukkan 18 á aðfangadag með það hvort jólin séu hvít eða rauð. En það er önnur og flóknari saga.  

Hér farið eftir grein í Morgunblaðinu 18. desember 1994 þar sem birtur var listi frá Veðurstofunni um snjólag á jóladag 1964-1993 og flokkað eftir alhvítri, auðri og flekkóttri jörð en þá voru svell og gamlir skaflar, sem sagt ógeðslegasta jólajörð sem hægt er að hugsa sér. Frá og með 1994 er farið eftir Veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar og fylgt sömu flokkun.

Fyrir 1964 liggja ekki  samsvarandi upplýsingar á lausu. En það er samt hægt með smávegis njósnum að geta sér til um snjóinn með heilmiklu öryggi og oft vissu. Farið er þar eftir fréttum í Morgunblaðinu og  nokkrum gömlum veðurskýrslum með stöðugri hliðsjón af Veðráttunni.   

Árið 1952 var t.d. enginn snjór í bænum allan desember. Morgunblaðið segir að snjór hafi verið á jólunum 1951, 1955, 1957, 1960 og 1963 en rauð 1949, 1950, 1953, 1956, 1958 og 1961. Óljóst er um jólin 1959 en líkast til voru þá svellajól og sennilega rauð jól 1962.   

Árin 1940-1948 (nema 1943) er af gömlum skræðum, blöðum og skýrslum nokkurn veginn ljóst hvernig snjólagið var á jóladag en óljóst með 1939.

Það má einnig ráða að árið 1931 hafi verið hvít jól og mjög sennilega 1938 en rauð 1936 og 1937. En jólin 1935 eru í óvissu. Árin 1932-1934 sést í Veðráttunni að voru rakin hlýindi fyrir og um jólin og næstum því örugglega snjólaust. 

Ef enn lengra er farið aftur í tímann er víst að á aðfangadag 1927 var snjódýptin 19 cm segir Veðráttan og varla hefur það allt verið farið á jóladag. Árin 1926 og 1929 voru mjög líklega rauð jól.

Gaman væri að vita þetta allt með öruggri vissu en þetta er það sem næst verður komist í bili með árin fyrir 1964. Ég held að megi alveg segja að um þau ár sem hér eru ekki merkt með spurningamerki fari þessar upplýsingar langt með að segja sannleikann um snjóalag um jólin.   

Á Akureyri veit ég ekki um jólalasnjó nema frá og með árinu 1985. Þar hafa aðeins verið rauð jól 1985, 1988, 2001, 2002 og 2005. Snjódýptin var 40 cm árið 1992 og 35 cm árið eftir.

Sjá má á fylgiskránni snjóalög um hver jól í Reykjavík frá 1931.  

Guði sé svo lof fyrir rauðu jólin í ár. Þá verður auðvelt að komast leiðar sinnar og þægilegt að ganga úti með jólabarnið í hjartanu að ég tali nú ekki um í vöggunnni.  

Gleðileg eldrauð jól!

Opniði nú svo jólagjöfina elskurnar mínar!                                                      

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Undur og stórmerki! Var þá ekki alhvít jörð, 1 cm, í Reykjavík kl. 9 í morgun! Hvít jól! Aðeins var talin alhvít jörð þar og á Keflavíkurflugvelli, í Stykkishólmi og á Bláfeldi á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þetta má nánar sjá á vefsíðu Veðurstofunnar. http://www.vedur.is/athuganir/urkoma/index.html? og farið inn á snjódýpt. En þetta atvik er gott dæmi um þann mun sem getur verið á þvi hvort snjór er á jörðu kl. 18 á aðfangadag, þegar hátíðin gengur í garð og kl. 9 á jóladag.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.12.2006 kl. 00:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband