Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Dalai Lama hundsaður af stjórnvöldum og alþingismönnum

Þeir sem stóðu að komu Dalai Lama til landsins reyndu ítrekað að koma á fundi með honum og forsætisráðherra. Bréfum um það var ekki svarað. Bréf voru einnig send til allra alþingismanna um það að hitta hann en  þeim  var heldur ekki svarað. Svo var sagt frá í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Þetta er óskiljanlegt. Því verður ekki neitað að Dalai Lama hefur fengið friðarverðlaun Nóbels sem er virðingarvottur alveg sérstakrar tegundar í heiminum og maður skyldi ætla að þeir sem með völdin fara myndu ekki hundsa gjörsamlega slíkan mann.

Dalai Lama hefur stundað hugleiðslu alla ævi. Ég veit ekki hvort hann hefur öðlast  algjöra hugljómun en finnst þó líklegt að hann hafi öðlast einhver stig hennar en uppljómun er sögð vera á mörgum þrepum. Framganga Dalai Lama ber því vitni að hann er enginn venjulegur maður.

Ekki geri ég ráð fyrir því að forsætisráðherra eða alþingismenn hafi hitt marga menn með álíka andlegan þroska.

Þarna misstu þeir eflaust af mesta tækifæri lífs síns í þeim efnum.


Óvenjulegur sólar-og hlýindakafli í maí

Maí var sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík frá upphafi mælinga. Sólin skein í 280 klukkustundir.  Sólríkastur allra maímánaða var árið 1958, 330, 1 klst. En næstur í röðinni kemur maí 2005 þegar sólskinsstundirnar voru 317,7.

Síðasti maí var líka vel hlýr, 7,7 stig, held ég, en var samt heilu stigi kaldari en maí í fyrra sem var sá hlýjasti síðan 1960. Úrkoma var vel yfir meðallagi.

Eiginlega var þessi síðasti maí samt notalegri en í fyrra. Það er ekki aðeins sólin sem veldur heldur einnig gott hlýindatímabil sem hófst þann 12. og stóð í nokkra daga.

En merkilegast var þó að í 9 daga í röð frá þ. 14. skein sólin í 10 klukkustundir eða meira hvern dag. Það hefur ekki gerst í maí áður nema 1.-9. árið 1958 og 17.-25. árið 1967.

Meðalhiti sólarhringsins þessa 9 daga núna var 10,0 stig en sólarstundirnar voru 123,4.  Þetta er óvenjulega hár meðalhiti en langir sólarkaflar í maí eru nánast alltaf kaldir.

Til samanburðar voru sólarstundirnar samfelldu 9 dagana árið 1958 125,3 klst. en meðalhitinn var aðeins 3,4 stig, en árið 1967 voru samfelldu sólarstundirnar 135,4  en meðalhitinn var 6, 4 stig. Mesti hiti sem mældist þessa daga 1958 var 12,0 stig en 1967 12,9 stig. Núna fór hitinn í 18,3 stig, þ. 17. (Þegar Jóhönnu Guðrúnu var fagnað á Austurvelli), daginn áður í 16,9 stig og daginn eftir í 16,2 stig. 

Vegna hitans í síðasta maí má því alveg segja að í þeim mánuði  hafi borgarbúar notið lengsta samfellda hlýinda og- sólarkafla sem dæmi eru um frá því mælingar hófust í máimánuði. Hlýrri tímabil hafa komið sem staðið hafa færri daga en með meiri hita, minnisstæðast árin 1960 og 1988.

Hægt er líka að finna kringum hálfsmánaðar sólarkafla í maímánuðum þar sem sólarstundir hafa flesta daga verið yfir 10 klukkustundir en inni á milli hafa komið dagar með minna sólskini. Allir hafa þessir dagar verið kaldir að meðaltali og engin tímabilana náð 10 stiga meðalhita en stundum verið sæmilega hlýir dagar með öðrum köldum. 

Við megum því vel við una í upphafi rigningasumarins alræmda árið 2009!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband