Þessi júní á sér marga bræður

Nú þegar einn þriðji af þessum júnímánuði er liðinn er meðalhitinn í Reykjavík 7,2 stig eða 1,2 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 2,6 undir meðallagi þessarar aldar (fyrstu 10 júnídagana) en okkar öld hefur hingað til skartað langhlýjustu júnímánuðum sem hægt er að finna fyrir samfelld 14 ár í mælingasögunni. Og veður það að kallast afbrigðilegt.  

Á Akureyri er meðalhitinn núna 6,9 stig eða 1,6 stig undir meðallaginu 1961-1990 og 3,0 stig undir meðallagi síðustu tíu ára en ég veit ekki enn meðalhitann á þessari öld. Verður bráðum! Á Akureyri, gagnstætt Reykjavík, hefur hitinn sótt í sig veðrið því um tíma var meðalhitnn þar um 4 stig undir meðaltalinu 1961-1990.

Ekki er þetta gæfulegt. Þó var enn kaldara fyrstu tíu dagana i Reykjavik í júní 2001, við upphaf okkar aldar, 6,7 stig,  en endanleg tala fyrir þann mánuð var 8,8 stig. Og eins og ég gat um í síðasta bloggi var sá júní sá kaldasti sem af er öldinni í Reykjavík. Hugsanlega slær okkar júní hann út en við skulum þó vona að eigi eftir að hlyna hressilega áður en mánuðurinn er allur. Fyrstu 10 dagana í júní 1997 var meðalhitinn 7,0 stig, 7,2° 1994, 7,5° 1985,7,2° 1983, 7,0° 1978 (endaði í 7,8°), 6,7° 1977, 7,4° 1975, 7,0° 1970, 7,3° 1959, 6,4° 1956 og 1952, um 5,9 1946, um 7,1° 1938, svo dæmi séu tekin.

Á landinu öllu var nokkru hlyrra fyrstu tíu júnídagana 2001 en núna en frá 1949 var kaldara 1997,1994,1991, 1983,1981, 1977,1975, 1973, 1959,1952 og 1949.  

Þó vissulega sé kuldatíð núna voru álíka kuldar tiltölulega algengir alveg fram á okkar öld fyrstu dagana i júní og við erum því ekki að lifa nein söguleg tímamót í kulda vegna þessara daga út af fyrir sig, hvað sem síðar verður.

Sólskinsstundir það sem af er í Reykjavík eru 55 sem er 9 stundum færra heldur en meðaltal þessara daga frá upphafi mælinga 1923. Það er nú allt og sumt. Ísland er ekki beint sólskinsland. Þetta er reyndar bara fimm stundum færra en þessa daga á okkar öld sem sólarlega hefur ekki staðið sig sérlega vel fyrstu 10 júnídagana þó annað sé uppi á teningnum fyrir allan mánuðinn. Færri sólarstundir þessa daga en nú voru 2013, (13,4 klst), 2009, 2008, 2007, 2006 og 2003. En hlýrra var yfirleitt þessa daga í þessum  mánuðum en nú er.

Úrkoman núna, bæði á Akureyri og í Reykjavik, hefur verið fremur lítil og ekki til að tala um. 

Á netinu hefur nokkuð borið á því að menn hér í Reykjavík séu að jafna þessum júní, 2015, saman við júní í fyrra. 

Meðalhitinn í fyrra fyrstu tíu júnídagana í Reykjavik var 11,1 stig en 7,2 núna, annars vegar einn af þeim fimm hlýustu sem mælst hafa þessa daga (og allt til loka) og hins vegar okkar mánuður sem fer í flokk með þeim köldustu, miðað við það  sem af er mánaðar. Reyndar var úrkoman þessa daga í fyrra helmingi meiri í Reykajvík en nú en sólarstundir voru aftur á móti sjö fleiri og þá komu tveir miklir sólardagar en aðeins einn hefur enn komið núna, alveg skítkaldur. Báðir sólardagarnir í júní í fyrra voru vel hlýir, hásuamrdagar, með 15 stiga hámarkshita. Annars þeirra, sá 6. var reyndar sólríkasti sjötti júní sem mælst hefur og hinn, sá 7., var aðeins hálftíma frá því að jafna sólskinsmetið fyrir þann dag.

Að jafna saman júní 2015 og 2014 er hreinlega út í hött.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýir og kaldir júnímánuðir

Það hefur víst ekki farið framhjá mönnum að maí var óvenjulega kaldur. Í Reykjavík sá kaldasti síðan 1979 en á landinu í heild svipaður og 1982. Þetta er kaldasti mánuðurinn að tiltölu sem var í vetur og í vor.

Það kemur óneitanlega nokkuð flatt upp á mann að fá svona mánuð ofan i leiðinlegan vetur eftir góðviðrið á þessari öld en ekki kemur það samt beinlínis á óvart.

Horfurnar fyrir fyrri hluta júní eru svo vægast sagt ekki gæfulegar.

Meðalhitinn í júní í Reykjavík á þessari öld er 10,4  stig en síðustu 14 ár tuttugustu aldar 9,1 stig og má heita sá sami viðmiðunartímabilið 1961-1990. Ekkert smáræðis hitastökk! Á öllum árunum 1942-2001 kom engin júní sem náði meðaltali allra júnímánaða á okkar öld, 10,4 stigum. Frá og með 2002 hafa júnímánuður verið með eindæmum hlýir, til dæmis komið þrír mánuðir sem hafa náð ellefu stigum eða meira (sá síðasti í fyrra) en aðeins tveir frá 1871-2000, árin 1941 og 1871. 

Hitafarið í júní á okkar öld er því mjög óvenjulegt ástand og stendur varla óbreytt til langframa.

Nú eru Reykvíkingar þó auðvitað svo vanir því að fá júnímánuði frá svona tíu og hálfu stigi og upp fyrir ellefu stig, oft mjög sólríka líka, að mönnum mun sannarlega bregða í brún ef fara að koma svalir mánuðir, til að mynda undir 9 stigum og ég tala nú ekki um undir 8 stigum. Síðasti júní undir 9 stigum var reyndar sá fyrsti á okkar öld, 2001 en sá mánuður mældist 8,8 stig. Fimmtán kaldari mánuðir komu þó árin 1961-2000 og einn jafn kaldur. Af þessum mánuðum voru fjórir undir 8 stigum, sá síðasti 1992, 7,8 stig. Ekki er nú langt síðan i veðurfarslegu tilliti.

Kaldasti júní sem mælst hefur í Reykjavík var 1867 6,4 stig en kannski var aðeins kaldara í júní 1851 en þá var ekki mælt í Reykjavik en hins vegar í Stykkishólmi þar sem var kuldi mikill. Köldustu júnímánuðir sem miðaldra fólk ætti að muna eftir voru einmitt 1992, 7,8 stig og 1978 með sömu hitatölu. Fáir munu nú reka minni til júní 1922 sem mældist aðeins 7,4 stig.

Þó síst af öllu vilji maður spá af alvöru um framtíðina eða taka upp kuldahrollstakta, þó þeir séu nú nokkuð í tísku, kæmi manni ekki á óvart þó þessi órofnu að kalla má sumarhlýindi (og önnur hlýindi) sem ríkt hafa á landinu þessa öld fari nú að brotna eitthvað upp.

Fylgiskalið fylgist svo áfram með veðrinu í júni. Þar hefur við hliðina á meðalhita hvers dags á landinu verið bætt við meðaltali hitans fyrir hvern dag á þessari öld, 2001-2014.

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband