Færsluflokkur: Allt í plati

Skáldlegur dagur íslenskrar tungu

Í Morgunblaðinu í dag lýsa "fjórar kynslóðir" Íslendinga veðrinu í gær með sínum orðum. Þetta er víst eitthvað í sambandi við dag íslenskrar tungu. 

Það er eftirtektarvert að allir reyna að lýsa veðrinu á hálfvegis skáldlegan hátt. Af lýsingu þessa fólks er hægt að sjá að veðrið hafi verið "gott" og þykkt og ekki mikill vindur. Að öðru leyti er ekki hægt að gera sér neina grein fyrir því hvernig veðrið var. Ekki er getið um stefnu vindsins, skyggni eða ský og ekki hitastig. Það er aldeilis munur hvort hitinn í veðri eins og var í gær er tvö stig eða þau níu sem voru. Í þessu tilfelli er það hitastigið sem mest segir um það hvers konar veður var í rauninni.

En það má ekki nefna tölur á degi íslenskrar tungu í veðurlýsingum. Það er svo óskáldlegt. 

Afleiðingin verður sú að þrátt fyrir mörg orð verða menn engu nær um veðrið sem verið er að lýsa.

Þetta er háttur Íslendinga.

Þó þeir hafi búið í landinu alla sína hundstíð geta þeir yfirleitt ekki lýst veðrinu þannig að menn verði einhvers vísari um það. Allt leysist upp í sjálfhverfum skáldlegheitum.

Dagur Eggertsson borgarstjóri er með bjánalegasta en dæmigerðasta svarið. "Það er alltaf bjart yfir hjá mér", byrjar hann. Hvað segir svona vitleysa um veðrið? "Alltaf sól á Akureyri", - einhver þannig aulaháttur í þessu. Gjörsamlega sneitt öllum veðursans. Í gær var einmitt sérlega dimmt yfir. Svo segir Dagur: "Svo getur skipast veður í lofti og staðan björbreytt eftir hálftíma." No way! Ekki í veðurlagi eins og var í gær.  Veðrið var sérlega stöðugt eins og vænta má þegar geiri hlýs lofts er yfir landinu og fer hægt yfir. Hitinn var t.d. næstum því nákvæmlega níu stig í Reykjavík allan liðlangan daginn. En það er íslenskur frasi að tala um breytilegt veður jafnvel þó engra breytinga sé að vænta á þeim degi sem verið er að lýsa. Og stjórnmálamenn geta víst ekki talað í öðru en innantómum frösum.  

Æ já, svona eru yfirleitt veðurlýsingar Íslendinga. Tómt bull og kjaftæði. Með engu móti er hægt að gera sér skynsamlega grein fyrir því  hvernig veðri þeir eru að lýsa. 

Íslendingar eru of bókmenntlega sinnaðir til að geta sagt orð af viti um veðrið. Svo er alltaf líka þessi sama skáldlega þoka í hausnum á þeim.

Er ég annars nokkuð að setja mig á háan hest?! 

 Tounge   


Night Music for Adults

Í dag spilar Sinfóníuhljómsveitin á náttfötunum og hvetur áheyrendur til að mæta á tónleikana á náttfötum.

Það verður spiluð næturmúsik og þetta er aðallega hugsað fyrir börn. 

Eins og allir vita gerir fullorðna fólkið ýmislegt á næturna annað en að sofa bara í náttfötum.

Nú bíðum við spennt eftir því að á næstu sinfóníutónleikum fyrir fullorðna leiki hljómsveitin villta næturmúsik en mæti á adams-og evuklæðum og áheyrendur geri slíkt hið sama.

Night music for adults. 

Svona er íslensk menning í dag.   

 

 


Trúrir þú á svartálfa?

Samkvæmt könnun félagsvísindadeildar Háskóla Íslands eru Íslendingar mun trúaðri á álfa, huldufólk, drauga og síðast en ekki síst blómálfa en aðrar þjóðir.

Gott og vel. Segjum að álfar séu til. En þá er eitt sem ég skil ekki. Úr hvers konar efni eru þeir?  Hvar búa þeir? Hvað borða þeir? Gras? Meðal annarra orða: Hvað verður um úrgangsefnin úr þeim? Eru þau náttúrulegur skítur eða yfirnáttúrulegur skítur?

Hvernig stendur á því að ég sé aldrei áfla þó ég sé með haukfrán augu? 

Jú, það er sagt að bara skyggnt fólk sjái álfa. Yfirleitt eru það mjög weird og hnöttóttar kellíngar en það er samt mark á þeim tekið af því að Íslandi er það hefð að sá sem efast um dulræn fyrirbrigði er sagður algjörlega ferkantaður og það þykir ekki par fínt.

Nú er eitt í þessu með skyggnina ég fæ ekki skilið fremur en svo margt annað enda er mér eigi gefin andlega spektin. Augað er mjög efnislegur hlutur sem nemur ljós frá fyrirbærum sem eru líka mjög efnislegt. Hvaða ljós er það sem skyggnu kellíngarnar sjá eiginlega en aðrir geta ekki séð? Hvernig gerist prósessinn í skynjuninni?  Hvaða líffæri nemur hvers konar ljósbylgjur til að framkalla sjón í auganu? Eða sjá þær kannski ekki með augunum? Með hvaða líffæri sjá þær þá? Heilanum? Það finnst mér ólíklegt því þegar þessar skyggnu kellíngar ljúka upp sínum munni um huldufólk og álfa og drauga kemur klárlega í ljós að þær eru gjörsamlega heilalausar. En það þykir samt ekki bara ókurteisi að efast um að það sem skyggnu kellíngarnar segjast sjá sé nákvæmlega það sem þær segjast sjá og ekki neitt rugl og bull heldur þykir sá sem efast vera svo ferkantaður að enginn þorir annað en að halda kjafti um efann. Nema ég!

Æ, já, ég er víst algjörlega ferkantaður á alla kanta.

Og þó! Nú dettur mér eitt frábært í hug: Getur ekki verið að huldufólk sé einmitt úr þessu hulduefni sem ku vera svo troðfullt af í alheiminum að það slær út allt annað efni að fyrirferð þó enginn sjái það? Huldufólk er náttúrlega úr hulduefni!   

En takið svo endilega þátt í skoðanakönnuninni á þessari bloggsíðu. Ég nenni ekkert að spyrja að  því sem þegar er búið að spyrja um, blómálfa og svoleiðis blúnduverk, ég spyr fullkomlega hnöttóttri spurningu:

Trúir þú á vonda svartálfa?

Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að svartálfar eru svo svartir  og myrkir að þeir eru öllum fullkomlega ósýnilegir.     

    


Tómhyggjan

Nú er ég svo tómur eitthvað í hausnum að ég er eins og andlegt slytti. Ég er alveg dofinn og dauður. Get ekkert skrifað og ekkert hugsað. Er meira að segja sama um veðrið.

Ég er sem sagt bæði domm og dúmm.

Svona er það víst að verða tómhyggjunni að bráð.

 


Jafnrétti í trúboði

Nú er Ísland orðið mikið fjölómenningarþjóðfélag. Þess vegna verður lögreglan að gæta þess vandlega þegar hún fer að stunda trúboð yfir drukknum skrílnum í miðbænum um helgar að bjóða bæði upp á kristilegt trúboð í anda Jesú og  múslimskt trúboð í anda Múhameðs. 

Annað er hreinlega ekki bjóðandi í jafnréttissinnuðu fjölómenningarþjóðfélagi.    

 


Strangtrúar spakmæli

Nú verður áfram haldið með spakmælabloggið hvað einungis iðka menningarvitar, gáfumenni og ofvitar. Hér kemur þá spakmæli þessa þykka og úrilla dags.

Þeir sem ekki trúa á helvíti munu munu sjálfir fara beina leið til helvítis. 


Meira spakmælablogg

Nú held ég ótrauður áfram, án þess að líta til hægri né vinstri, með kjarnyrt spakmælablogg eins og fögur fyrirheit voru gefin um. Hér kemur þá uppáhaldsspakmælið mitt.

Veðurblogg er eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi.

Á þessu spakmæli tönnlast ég í tíma og ótíma enda er þetta uppáhaldsspakmælið mitt:

Veðurblogg er eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi.

 


Spakmælablogg

Nú ætla ég að fara að blogga í kjarnyrtum spakmælum eins og þykir voða fínt að blogga. Því það gjöra bara menningarvitar og gáfumenni.  

Hér kemur þá fyrsta kjarnyrta spakmælið.

Þegar maður hefur komist á top twenty á Moggablogginu hefur maður komist á botninn í lífi sínu.

 

 


Draumurinn

Það dreymdi mig í nótt að mér fannst ég staddur í löngum gangi og gekk ég fram og til baka eftir ganginum. Fyrir enda gangsins var stórt borð og þar sat Björn Bjarnason dómsmálaráðherra umkringdur mörgum konum, ungum og forkunnarfögrum. En Björn sýndi ekki sitt rétta andlit heldur var eins og Þór Whitehead í framan.

Þar sem ég gekk þarna fram og aftur um ganginn ávarpar Björn mig allt í einu með þessum orðum:

Viltu nú ekki koma og setjast hérna hjá okkur Siggi minn!

Þennan draum túlka ég umsvifalaust beint af augum eftir freudískum skilningi: Dómsmálaráðherrann er ekki svo lítið upp á kvenhöndina og er umvafinn villtu meyjum alla daga við sitt lífsins borð. Hann vill endilega að ég fylgi fordæmi hans í því efni. Hlammi mér við kvennahlaðborðið mikla sem svignar undan ilmandi og lostætum krásunum og eti og drekki og veri afskaplega glaður. Og ég er að hugsa um að taka hann bara á orðinu.

En það var meira  en Freud í þessum djúpa og merkilega draumi. Hann var líka hinn huggulegasti daglátadraumur í þjóðlegum stíl.

Um hádegið leit ég við í Bókavörðunni á Hverfisgötu þar sem seldar eru gamlar bækur. Ég kem þarna oft og þeir hafa verið að taka frá fyrir mig, eftir því sem þær berast í búðina, bækurnar eftir Þór Whitehead um aðdragandann að hernámi Íslands. Og viti menn! Í dag var síðasta bókin komin sem mig vantaði: Bretarnir koma. 

Ég hef miklar mætur á þessum bókum. Ekki síst vegna þess að þær ná einhvern veginn svo vel blænum á borgarlífinu á þessum tíma. Ég er að vísu fæddur eftir stríð en man vel fyrsta áratuginn þar á eftir og þá voru braggar og aðrar stríðsminjar enn úti um allt.

Mikið er nú gaman að dreyma flotta freudíska drauma og fyrir svona daglátum sem hitta beint í mark.

 


Föstudagurinn langi

Jesús Kristur! Hvar endar þetta?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband