Sumar og sól

Þegar 11 dagar eru liðnir af júní er meðalhitinn í Reykjavík 10,3 stig. Það er 0,6 stigum yfir meðallagi fyrir þá daga á þessari öld. Hitinn í júní á 21. öld í höfuðborginni hefur þó verið í hæsta máta afbrigðilegur. Síðustu tíu ár tuttugustu aldar var meðalhiti þessara daga aðeins 8,2 stig og meðalhitinn öll árin frá 1949 til 2012 var 9 stig. Meðalhitinn 1971-2000 var 8,3 stig. 

Þeirri hitasprengju sem staðið hefur nánast alla þessa öld í júní er því aldeilis ekki lokið. Hitinn í Reykjavík það sem af er mánaðar eru þó eiginlega smámunir miðað við hitann víða á norður og austurlandi. Á Akureyri er meðalhitinn 12,3 stig og 12,0 á Egilsstöðum. Jafnvel á Raufarhöfn er meðalhitinn 11,2 stig sem er svo mikið yfir öllum hugsanlegum meðaltölum að ég næ ekki einu sinni upp í það! Tvö dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita hafa verið sett á Akureyri miðað við tímann frá og með 1949, þann 4. og 6.

Frá þeim þriðja hefur hiti sjö daga farið í tuttugu stig eða meira einhvers staðar á landinu og oftast á nokkrum stöðvum. Á suður og vesturlandi er líka vel hlýtt eins og tölurnar frá Reykjavik vitna um. Í fyrrinótt fór hitinn þar til dæmis ekki lægra en í 11 stig.

Það er því fullkomlega óðs manns æði að tala um það, eins og gengur þó eins og faraldur á netinu, að það hafi ekki komið neitt sumar og spurt er geðveikislega: Hve nær ætlar sumarið eiginlega að koma? 

Þennan júní, að fyrstu tveimur dögunum frátöldum, hefur einmitt verið sumarveður á landinu og það i betri kantinum. En það hefur verið lítið sólskin syðra. Það er hins vegar eins og furðu margir setji samasemmerki á milli sumarveðurs og sólskins. Ef sólin glennir sig hér í Reykjavík í 8 stiga hámarkshita, sem æði oft hefur gerst fyrstu dagana í júní og sólskinið er þá oft reyndar einstaklega brilljant þrátt fyrir  næturfrostin, er sumar að þeirra áilti, en ef skýjað er og 18 stiga hiti, eins og í fyrradag er ekkert sumar í þeirra huga. 

En hvernig er þetta þá með sólina í Reykjavík núna í júní?

Ég fletti upp í mínum dularfyllstu leyndarskrám og þá kom þetta í ljós: 

Sólskinsstundir fyrstu 11 dagana í júní eru svo margar sem 15,4 í borginni. Þær hafa reyndar aldrei verið jafn fáar þessa daga frá því mælingar hófust 1923. Sem sagt eins lengi og elstu menn muna!

Þar með fá sólarsinnar ofurlitla uppreisn sinnar æru!

En það breytir ekki því að nú er alveg hörku sumar! Sumarveður felst ekki bara í sólskini eins og ég sagði áðan. Það felst líka í ýmsu öðru, ekki síst hitanum. Nú hefur til dæmis verið hlýtt og notalegt kvölds og morgna ekki síður en um hádaginn en í miklu sólskinsveðri svo snemma sumars er oftast ekki út komandi fyrir kulda strax og sólar nýtur ekki og reyndar jafnvel þó hennar njóti. 

Sumarið er varla byrjað. En strax 1. eða 2. júní var kvartað yfir því á netinu að ekkert sumar ætlaði að koma, rétt eins og menn væru vanir því að þá væri sumarið komið á fullan blús í okkar landi. 

Þess skal hér getið að ef alla daga skini sólin eins lengi og hún hefur mest gert hvern dag væru sólskinsstundir nú í Reykjavík 194 eða 17,6 að meðaltali á dag. Ef sólin skini hins vegar eins og hún hefur minnst gert hvern dag þessa fyrstu ellefu daga væru sólarstundirnar einfaldlega engar. 

Og nú dúkkar upp eitt mikilvægt atriði sem vegur allmjög að æru sólskinssinna!

Þó sólarstundir séu svona fáar í Reykjavík þessa fyrstu daga júnímánaðar eru slíkar dagasyrpur með litlu sólskini út af fyrir sig svo algengar í öllum sumarmánuðum að það tekur varla að nefna það. Þær eru eitt af einkennum íslensks sumars. Hér koma yfirleitt nokkrir sólskinsdagar á stangli, stundum reyndar fáeinir í röð, innan um marga sólarlitla daga.

Annars var maí vel sólríkur í Reykjavík. Margir góðir sólskinsdagar komu, oft verið færri í öllum sumarmánuðum, sem voru líka það hlýir að menn nutu þeirra í botn með því að lepja sitt latte á stéttinni fyrir framan Café París við Austurvöll. Ekki seinna vænna áður en skuggavarpið ógurlega svelgir allan völlinn! 

En það er eins og sumir hafi steingleymt þessu. 

Það vill svo til að þessi sólarleysissyrpa kemur í alveg blábyrjun sumars eftir alveg eðlilegan sólarmaí og vel það, en  það er engin ástæða til að setja dæmið þannig upp að ekkert sumar hafi verið. Það er einfaldlega fjarstæða.

Mórallinn í þessum pistli er sem sagt þessi:

Í fyrsta lagi hefur verið bullandi sumarveður á landinu í júní og líka á suðurlandi þó það hafi verið betra fyrir norðan og austan. Í öðru lagi er ekki hægt að setja einfalt samasemmerki milli sumars og sólskins. Sumarveður sé bara sólskin og ekkert annað. Í þriðja lagi var maí sólríkur í Reykajvík og apríl reyndar sá næst sólríkasti frá upphafi mælinga. Það er ekki eins og ekki hafi sést neitt til sólar eftir að vetrinum lauk.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Dómur alþýðunnar er kannski bara hinn endanlegi dómur um sumarkomuna. Fólk krefst sólar og ekkert múður og mun brátt rísa upp með mótmælum ef bongóblíðan lætur á sér standa.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.6.2013 kl. 17:00

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Klaufavillur voru í fyfrstu gerð þessarar færslu sem voru endurteknar í frétt á mbl. is. Já, það er sólaleysi en ekki sumarleysi! En var ég ekki búinn að spá alræmdu rigningarsumri?   

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2013 kl. 18:47

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Til að bæta þá gráu ofan á svart var mesta úrkoma dagsins á landinu, 3,5 mm, -í Reykjavík! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2013 kl. 18:55

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eftir netinu að dæma eru það aðallega höfuðborgarbúar sem kvarta um að ekkert sumar sé skomið. Og það er alveg slándi að það er sem athygli þeirra og skynjun nái ekki úti fyrir höfuðborgarsvæðið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.6.2013 kl. 11:38

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Bændunum í Fljótum finnst sumarið hafa byrjað vel!

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2013 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband