Pavarotti

Ég heyrði Pavarotti syngja í Laugardalshöllinni 20. júní 1980. Ég var þá tónlistargagnrýnandi á blaði og skrifaði meðal annars þetta um tónleikana:

"Það er margt sem hrífur í fari Pavarottis. Persóna hans geislar af lífi og fjöri. Framkoma hans er glaðvær, eðlileg með afbrigðum og umfaðmandi. Og söngur hans kemur eins og úr öðrum heimi. Röddin er mjög falleg og hann beitir henni meistaralega.

Og þetta leiðir hugann að þeim jarðvegi er elur af sér jafn háþróaða list. Pavarotti er persónugervingur mjög ræktaðrar hefðar, bæði í söng og sköpun tónlistar. Í honum kristallast  mörg hundruð ára tóniðkun þar sem fjöldi kynslóða hefur lagt sitt af mörkum."

2007_09_06t112615_450x351_us_italy_pavarottiVið þetta má bæta því að mér finnst enginn taka Pavarotti fram í þeim óperuhlutverkum sem hann helgaði sér meðan hann var upp á sitt besta. Það var svo mikil gleði og hamingja í söng  hans. Hins vegar er Domingo fjölhæfari söngvari en Pavarotti en þessir tveir eru mestu óperusöngvarar síðustu áratuga.

Þessi hefð sem ég vék að í þessari gömlu tónlistargagnýni, sem skrifuð var fyrsta sumarið sem ég sinnti því starfi en það urðu samtals eitthvað um tuttugu ár, er kannski nú á enda runnin. Óperuheimurinn er að breytast. Markaðsöflin eru að eyðileggja hann eins og allt annað. Nú er meira lagt upp úr útliti og glamúr söngvara en list hans.

Eitt er víst.

Það kemur enginn annar Pavarotti fremur að það kom aldrei annar Caruso. Mestu listasmennirnir eru alltaf einstakir í orðsins fyllstu merkingu. Það er ekki hægt að búa þá til með markaðsbrögðum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Ég tárast af gleði þegar ég heyri hann syngja, stundum einfaldlega græt ég af hrifningu, enginn annar söngvari hefur hrifið mig eins og Pavarotti. það verður langt þangað til að við fáum annan söngvara sem verður með tærnar þar sem Pavarotti var með hælana.  Góðar stundir.

Linda, 7.9.2007 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband