Færsluflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir

Hlýjustu marsmánuðir

Meðalhiti stöðvanna níu er -0,3 stig árin 1961-1990.

1929 (5,3) Þrír marsmánuðir skera sig úr á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hvað hlýindi varðar, 1929, 1964 og 1847. Hlýjastur er þó 1929. Hann er hlýjasti mars alls staðar þar sem mælt hefur verið nema í Hornafirði og á Reykjanestá. mar_1929_1068243.gifHitinn var  5,6 stig yfir meðallagini 1961--1990. Í Veðráttunni segir svo: Öndvegistíð um land allt, mjög hlýtt, tún græn og nál í úthaga um mánaðarlokin, klakalaus jörð á láglendi, fé gengur víða sjálfala, útsprungnar sóleyjar finnast í túnum. Allan þennan mánuð er oftast suðlæg átt og blíðviðri, úrkomusamt sunnanlands, frá Fagurhólsmýri að Kvígindisdal, en þurrt norðanlands, einkum fyrir og um miðbik mánaðarins. Allan fyrri hluta mánaðarins er hæð fyrir sunnan og austan land, og dagana 8.-9. gengur lægð fyrir norðan land, og er hann þá víða á vestan. Síðara hluta mánaðarins eru lægðir fyrir Vesturlandi. Þ. 20.-21. er hann víða austlægur, enda gengur þá lægð austur um Suðurland, og veldur norðanátt á Vesturlandi síðari daginn, en næsta dag er aftur komin sunnanátt. Síðustu tvo daga mánaðarins er vestanátt og ekki eins hlýtt í veðri.' Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn hæstur á landinu, 6,8 stig sem væri alveg eðlilegur maíhiti á suðurlandi. Á Grímsstöðum á Fjöllum var hitinn 2,7 stig og hvergi lægri. Í Vík og á Hólum í Hornafirði  mældist ekki frost og er það nær einsdæmi í mars. Í Reykjavík varð frostið mest -1,5 stig. 1929-3-500-an_1068247.pngMældist frost þar aðeins í einn dag (6.) en enginn sólarhringur var undir frostmarki að meðalhita. Tvisvar fór hitinn í bænum yfir tíu stig og meðallágmark var 4,0 stig en meðalhámark 8,1. Lágmarkið á öllu landinu er einnig met,-8,0 á Eiðum,þ. 2. Mestur hiti mældist 14,4 stig á Teigarhorni þ. 9. og þ. 19. fór hitinn í 14,1 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hvassviðri mjög sjaldan. Loftvægi var hátt, hæst að meðaltali 1013,6 hPa á Hólum í Hornafirði. Snjólagið var minna en í nokkrum öðrum mars,6% en meðallagið 1924-2007 er 61%. Allvíða var alautt allan mánuðinn (á 16 stöðvum af af 41), m.a. á Akureyri. Í Reykjavík var alautt nema þ. 25. þegar snjódýpt var svo mikil sem 1 cm. Hvergi voru alhvítir dagar fleiri en þrír og var það í Fagradal í Vopnafirði. Þar mældist mesta snjódýptin á landinu, 10 cm, sem ekki þykir nú mikið í mars. Í sunnanáttinni var sólinni ekki fyrir að fara syðra og er þetta sólarminnsti mars í Reykjavík, 38,9 klst. Ekki var mælt sólskin á Akureyri. Talsvert eldingaveður var nærri  Reykjavík þ. 24. og olli skemmdum á rafstöðinni. Sama dag var einnig þrumuveður á suðurlandi. Mikið þrumuveður var einnig á Efrahvoli þ. 14. Eldsumbrot voru í Öskju sem hófust í janúar þetta ár. Mjög kalt var í Evrópu um þetta leyti  og einnig var kalt vestan við landið. Kortið sýnir meðalhitann á öllum stöðvum á landinu en litkortið frávik hæðar 500 hPa flatarins miðað við 1921-1950 kringum Ísland. Kortin stækka ef smellt er tvisvar.

Þann 28. var nýji Kleppsspítalinn vígður.  

1847 (4,9) Þetta er hlýjasti mars í Reykjavík. Meðalhitinn var þar 6,4 stig en miklu kaldara var þá í Stykkishólmi en 1929, 3,6 stig, sem er þó tiltölulega mjög hlýtt. Ég skipa þessum mánuði í annað sæti yfir landið. Þessi hlýji mánuður kom ekki stakur. Janúar þetta ár er líklega sá hlýjasti sem mælst hefur á landinu og veturinn í heild er sá fjórði hlýjasti, eftir 1964, 1929 og 2003. Í riti Þorvaldar Thoroddsen Árferði á Íslandi í þúsund ár segir svo um tíðina þennan vetur:  ''Á Vesturlandi var tíðarfar frá nýári til sumarmála eins og syðra eitt hið ágætasta, svo mátti kalla, að ekki væri frost nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, fannir sáust að eins í háum hlíðum, láglendi var snjólaust og jörðin klakalaus, svo sauðfje og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill sást þrisvar sinnum vera farið að spretta; fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum, andir og æðafuglar flokkuðu sig um eyjar og nes og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn nje skepnur fyndi til vetrarins. Menn sljettuðu tún, hlóðu vörzlugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalvindstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, svo sjógæftir voru nokkuð bágar ... .  " Einmuna blíða var sem sagt nær því allan mánuðinn. Dálítið frost var í Stykkishólmi dagana 16.-17. en það virðist ekki hafa náð til Reykjavíkur. Þar fraus ekki fyrr en  síðasta daginn en þess ber að gæta að mælingarnar þar voru ekki eins góðar og í Stykkishólmi. Úrkoman í Reykjavík var 48 mm. Mánuðurinn var mjög hægviðrasamur.

1964 (4,7) Veðráttan lýsir tíðinni svo: ''Tíðarfarið var einmuna milt og gott, jörð grænkaði, tré og blóm sprungu út. Fé var víða beitt. Gæftir voru góðar.'' Í heild var þessi mánuður hálfu stigi kaldari en 1929 en á Hólum í  Hornafirði og Reykjanesvita var hann 0,2 stigum hlýrri í þessum mánuði og auðvitað hlýjasti mars þar sem mælst hefur. Aðeins 0,1 gráðu  kaldara var á Akureyri, Raufarhöfn og í Grímsey en 1929. Hitinn fór mest í 15,1 stig á Akureyri þ. 28. Alla daga var  blíða nema þ. 25, en þá fór frostið í -10,8 stig á Grímsstöðum. Var þá suðvestanátt. Um það leyti festi víða snjó en hann tók fljótt upp aftur. Snjólag var 12% á landinu, það næst minnsta í nokkrum mars. Á Fljótsdalshéraði og við sjóinn á suðausturlandi var alautt allan mánuðinn en annars staðar voru alhvítir dagar aðeins einn til þrír víðast hvar en þó átta á Grímsstöðum. Mest snjódýpt mældist reyndar á suðurlandi, 24 cm þ. 24. á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Úrkoman var yfirleitt minni en í meðallagi nema á austanverðu landinu þar sem hún var ansi mikil. 1964-3-850.pngÁ Kvískerjum mældist hún 509,0 mm og var það þá mesta mánaðarúrkoma sem mælst hafði á landinu í þessum mánuði. Á Fagurhólsmyri er þetta þriðji úrkomusamasti mars. Furðu sólríkt var á norðausturlandi þar sem sólskinsstundir voru 123 á Höskuldarstöðum við Raufarhöfn og voru aldrei fleiri í mars þau 40 ár sem þar var mælt. Í Reykjavík er mánuðurinn sá tíundi sólarminnsti. Það er eftirtektarverð staðreynd að af tíu hlýjustu marsmánuðum í Reykjavík eru fimm þeirra á lista yfir þá tíu sólarminnstu. Nokkuð var vindasamt fyrir sunnan en fremur hægviðrasamt fyrir norðan. Suðaustanátt var tíðust vindátta en svo sunnanátt. Á undan þessum mánuði kom fimmti hlýjasti febrúar en veturinn í heild er sá hlýjasti sem mælst hefur. 

Haldið var upp á 75 ára afmæli Þórbergs í þessum mánuði sem þrátt fyrir aldurinn fór í sínar daglegu gönguferðir í góða veðrinu. Daginn eftir var hlýjasti dagur mánaðarins  að meaðlhita á landinu fra 1949, 7.0 stig og er það reyndar dagshitamet og líka í Reykjaavík,8,2 stig. Fyrsta dag mánaðarins lést Davíð Stefánsson skáld. Bítlaæðið var að breiðast til Íslands. Um miðjan mánuð voru allmiklir jarðskjálftar ávið Ármúla í Ísafjarðardjúpi og eru þeir nær einsdæmi á þeim slóðum.      

1923 (3,9) Þetta er úrkomusamasti mars í Reykjavík 183,2 mm. Úrkomudagar voru 24. Þá er það bara í stíl að þetta er næst sólarminnsti mars í bænum. Á öllu suður og vesturlandi var æði úrkomusamt. Í Stykkishólmi er þetta næst úrkomumesti mars allt frá 1857. Á Möðruvöllum í Hörgárdal var úrkoman hins vegar aðeins 6,4 mm og varð ekki minni í mars þau tólf ár sem þar var mælt um þetta leyti. Frost var fyrstu dagana á landinu og komst það niður í 10,9 stig á Grímsstöðum þ. 3. og Staðarseli á Langanesi þ. 9. Eftir það voru stöðug hlýindi og varð hlýjast á Möðruvöllum 13,0 stig þ. 28. Oft var hæð austan við landið en lægðir á Grænlandshafi eða við Grænland. Þetta var í upphafi hlýindatímabilsins sem stóð í ein 40 ár. Var þetta hlýjasti vetrarmánuður sem komið hafði á landinu frá því mars 1847 og veturinn var einnig í heild sá hlýjasti frá sama ári og ég tel hann enn þann níunda hlýjasta á landinu frá því mælingar hófust í Stykkishólmi. Suðaustanátt var ansi oft.

Í þessum mánuði stofnaði Mussolini fasistaflokk sinn.

2004 (3,6) Eftir mars 2003, þann áttunda hlýjasta, kom svo þessi fimmi hlýjasti en vætusami marsmánuður. Sérstaklega var hlýtt dagana 7.-10. og varð hlýjast á mannaðri stöð 14,5 stig á Haugi í Miðfirði, sem er nokkuð óvenjulegur staður, en síðastnefnda daginn en 16 stig á sjálfvirku stöðinni á Siglunesi þ. 7. Næstu þrjá daga fór hitinn þar í 16, 14 og 15 stig. Landsmeðalhitinn þann 9. var 8,8 stig og er það mesti landsmeameðalhiti nokkurs dags svo snemma árs síðan a.m.k. 1949. Dagurinn á undan var með dægurmet upp á 8.1 stig og reyndar líka sá 7. með 7.2 stog og líka sá 10. með 7.5 stig. Fjórir methlýindadagar i röð! Um þetta leyti voru miklir vatnavextir um allt land sem ollu skemmdum á mannvirkjum og slysum á fólki. Alla daga var hlýtt nema 21.-22. og svo þ. 28. Kaldast varð -13,7 stig á Hveravöllum þ. 23. og -12,0 stig  sama dag á Haugi í Miðfirði, skammt frá Bjargi þar sem Grettir sterki ólst upp. Úrkoma var lítil á norðausturlandi en mikil vestan til, einkanlega sums staðar á suðvesturlandi, á Vestfjörðum og á hálendinu. Reyndar er þetta hlýjasti mars sem mælst hefur á Hveravöllum frá 1966, -1,3 stig. Líklega hefur mars þar 1929 verið ofan við frostmark. Eins og að líkum lætur var þurrviðrasamt á norðausturlandi  en úkomusamt suðvestanlands. Snjólag var 24%. Á Reykhólum og Haugi í Miðfirði var alauð jörð. Í Reykjavík var alautt í 27 daga en alhvítt í þrjá. Jafnvel á Hveravöllum var aldrei talin alhvít jörð en alauðir dagar voru þar tíu. Mikl hæð var yfir Norðurlöndum þennan mánuð en lægðir gengu norður Grænlandshaf. Sunnan og suðaustanáttir voru því algengastar en norðaustanátt var sérstaklega fátíð. 

1963 (3,4) Þetta var austan- og suðaustanáttamánuður en fremur hægviðrasamur. Lægðir voru mjög oft sunnan við landið. Úrkoman var því minnst við Breiðafjörð og fram til dala í Skagafirði og Húnavtanssýslum en í útsveitum norðaustanlands var hún allt upp í rúmlega fjórföld miðað við það meðallag sem þá var  í gildi. Á  Seyðisfirði mældist úrkoman 226 mm en 312 á Kvískerjum, þar sem rigndi 28 daga, en aðeins 7,8 mm á Barkarstöðum í Miðfirði. Tiltölulega sóríkt var líka við Breiðafjörð, 130 klst á  Reykhólum sem var með því mesta sem þar var í mars í þau tæpu 30 ár sem mælt var. Hitinn var mjög jafn allan mánuðinn. Lágmarkshiti í Reykjavík var aðeins -1,1 stig (en frostdagar fjórir) og hefur mánaðarlágmark þar aldrei verið hærra í mars. Enginn dagur var undir frostmarki að meðalhita. Á Loftsölum í Mýrdal og Vestmannaeyjum kom hins vegar aldrei frost. Lágmarkshitinn var þar 0,7 og 0,6 stig. Er það aðeins annað dæmið um það að ekki hafi frosið á íslenskri veðurstöð í mars. Fyrra dæmið var árið 1929. Því miður fraus á þessum frostlausu stöðum í apríl 1963 í kuldakastinu alræmda sem þá kom og skemmdi gróður víða um land. Hlýjast var fyrstu dagana og komst hitinn í 11,7 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 3. Kaldast  varð -13,4 stig í Möðrudal þ. 8. En kaldasti dagurinn að meðaltali varð þó hinn 21. Var þá hæðarhryggur yfir landinu, bjartviðri fyrir norðan og nokkurt frost en sunnanlands var suðaustan átt og skúrir og fremur milt.  Síðustu dagana voru umhleypingar en aldrei kólnaði að ráði. Snjólag var það þriðja minnsta i mars, 17%. Á nokkrum stöðum, þeirra á meðal Reykajvík, var alhvítt í einn dag. Alhvítir dagar voru aðeins ein til tveir á suður og vesturlandi og reyndar litlu fleiri fyrir norðan. Mjög snarpur jarðskjálfti, 7,0 á Richter,  varð úti í sjó í Skagafirði þ. 27. kl. 23:16 að þágildandi tíma. Fannst hann um land allt nema á austurlandi. Engar skemmdir urðu og lítil slys á fólki en því brá nokkuð í brún og er þessi skjálfti mörgum enn minnisstæður.

1974 (3,3) Hægviðrasamt í ríkjandi sunnan og suðaustanáttum og sólarlítið á suðurlandi en fremur sólríkt fyrir norðan var í þessum mánuði. Eigi að síður var víða sunnanillviðri þ. 4. og 5. Auk ýmissa fokskemmda varð þá samsláttur á háspenulínu frá Búrfelli og var um stund rafmagnslaust á öllu háspennukerfi Landsvirkjunnar. Syðst á landinu varð vart við þrumur. Að morgni hins 5. mældist sólarhringsúrkoman 121,7 mm á Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum og næsta morgun var hún 36,8 mm í Reykjavík sem telst mikil úrkoma þar á bæ. Næstu daga urðu vegaskemmdir á suður og vesturlandi í miklum hlýindum. 1974_3_500t_1068347.pngKalt var fyrstu tvo dagana en eftir það var úti vetrarþraut og apríl varð síðan sá hlýjasti sem mælst hefur á landinu. Lítið eitt kólnaði þó fyrir norðan og austan þ. 20. mars þegar hæð var yfir landinu og fór frostið í -15,0 á Brú í Jökuldal næstu nótt. Strax hlýnaði aftur með suðlægum áttum og voru síðustu dagarnir einstaklega mildir en þá var hæð austan við landið en lægðir suðvestan við það. Hlýjast varð 15,1 stig á Seyðisfirði  þ. 31. og sama dag 13,9 á Vopnafirði. Snjólag var 34%. Alautt var í Reykjavík í 27 daga og aldrei alhvitt. Því líkt var ástandið á suðurlandi. Úrkoma var mikil á suðvesturlandi, mest 398 mm á Stóra-Botni í Hvalfirði og var næstum því þreföld þar miðað við þágildandi meðallag. Ég tel þetta vera þriðja úrkomusamasta mars á landinu (úrkomusamari voru 1918! og 1976). Sunnan og suðaustanvindar voru tíðastir og logn var sjaldan. Kortið sýnir hlýja tungu í átt til landsins í um 5 km hæð.

Haldið var upp á 85 ára afmæli meistara Þórbergs hinn 12. og var þá farinn blysför að heimili hans.

2003 (3,2) Einstaklega úrkomumikill mars á suðausturlandi. Mánaðarúrkoma á Kvískerjum var 566,8 mm og er sú mesta sem mælst hefur á veðurstöð á landinu í mars. Á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti mars frá 1873 (mest 301,5 mm 1918) og  einnig á Hólum í Hornafirði frá 1931, 242,4 mm (mest 357,0 mm 1933). Tiltölulega úrkomusamt var einnig á Vestfjörðum en þurrast var inn til landsins á norðurlandi og norðausturlandi. Hlýjast varð um miðjan mánuðinn og komst hitinn á mannaðri stöð mest í 14,5 stig á Akureyri þ. 14. en á sjálfvirkri stöð 14,7 stig á Neskaupstað þ. 16. Aðeins var verulega kalt tvo daga kringum hinn 10. og svo þann 29. Kaldast varð -19,8 stig á Hveravöllum þ. 11. og -17,0 stig sama dag í Reykjahlíð en á sjálfvirku stöðinni í Sandbúðum voru -19,7 stig. Snjólag var 21%. Á Reykhólum, Hala í Suðursveit og Eyrarbakka var alautt allan mánuðinn og mjög víða var alautt alveg í þrjár vikur. Mestur var snjórinn í kringum vestanvert Ísafjarðardjúp, alhvítir dagar 11-17. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru algengastar. Hæðarsvæði voru ofast yfir Bretlandseyjum eða suður af landinu en  lægðir vestan við. Eftir þessum mánuði kom þriðji hlýjasti apríl á landinu og á undan honum sjöundi hlýjasti febrúar. Árið varð svo það hlýjasta í sögu mælinga  á suður og vesturlandi.

Þann 19. gerðu Bandaríkjamenn og Bretar innrás í Írak.  

1945 (3,1) Úrkomusamt var á suðurlandi en þurrvirðasamt fyrir norðan. Í Vestmannaeyjum var þetta meira að segja úrkomusamasti mars sem þar hefur mælst og næst úrkomusamasti í Vík í Mýrdal. Á landinu er þetta fjórði úrkomumesti mars eftir mínu kerfi. Suðvestanátt var ríkjandi. Lítið fór þá fyrir sólinni syðra og er þetta þriðji sólarminnsti mars í Reykjavík. Snjólag var 48% á landinu. Munaði mest um það að talsverður snjór var frá fyrra mánuði. Þann fyrsta var snjódýpt t.d. 20 cm í Reykjavík en 49 cm á Grímsstöðum. Næstu nótt mældist mesti kuldinn í mánuðinum, -15,5 stig á Grímsstöðum. Eftir þetta dró til hlýinda með hæð yfir Bretlandseyjum og komst hitinn í 14,8 stig í Fagradal þ. 9. og þá um morguninn mældist mesta sólarhringsúrkoman, 46,8 mm í Kvígyndisdal. Þetta veðurlag hélst í stórum dráttum til mánaðarloka. Mikil hlýindi voru líka þ. 24. þegar hitinn fór yfir tíu stig sums staðar syðra og vestra og í 12,8 stig á Hallormsstað. Vegna hlýindanna snemma í mánuðinum voru miklir vatnavextir víða. Hvítá og Norðurá í Borgarfirði flæddu yfir bakka sína og einnig Héraðasvötn og Laxá í Þingeyjarsýslu. Sums staðar skemmdust brýr og vegir.

Lokahnykkur styrjaldarinnar stóð svo auðvitað sem hæst og bandamenn fóru yfir Rín og hertóku vesturhluta Þýskalands.

1959 (3,1) Á undan þessum mánuði kom tíundi hlýjasti febrúar. En þessi mars var kaldur fyrstu vikuna með talsverðu frosti, allt niður í tuttugu stig í Reykjahlíð þ. 7. og 19,5 stig á Grímsstöðum sama dag. Frá hinum áttunda til mánaðarloka voru samfelld hlýindi en fremur var þá vindasamt án þess að nokkur veruleg illvirði væru og voru sunnan og suðaustanáttir ríkjandi eftir að hlýindin hófust. Hlýjast varð 14,2 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 19. Hlýjasti dagurinn á öllu landinu var þó sá 22. og var hitinn þá víðast hvar yfir tíu stigum og gildir það reyndar um ýmsa fleiri daga síðari hluta mánaðarins. Sá 22. er hlýjasti 22. mars í Reykajvík, 8,3 stig. Snjólag á landinu var 41%.

Undir lok mánaðarins gerðu Tíbetar uppreisn gegn Kínverjum og Dalai Lama flúði land. 

Skýringar. 

Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðrnir nánar en á því síðara er smá um mars 1929. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu febrúarmánuðir

Eins og áður er meðalhiti stöðvanna níu, sem við er miðað, í sviga aftan við ártalið en árin 1961-1990 var meðalhiti þeirra -0,2 stig.  

1866 (-7,1) Þessi febrúar, sem kemur á eftir fjórða kaldasta janúar, er talinn kaldasti febrúar sem mælst hefur í Reykjavík. Og miðað við meðalhitann þar og í Stykkishólmi saman er  hægt að telja hann kaldasta febrúar sem mælst hefur á landinu og er eiginlega sárt að taka þann heiður af febrúar í frostavetrinum mikla 1881.Í Reykjavík var febrúar 1866 hins vegar næstum því þremur stigum kaldari en 1881. Reyndar voru mælingarnar á þessum árum í Reykjavík ekkert sérstaklega góðar. Í Stykkishólmi er þetta næst kaldasti febrúar, á eftir 1881. Mælingar voru líka á Akureyri og hefur þar enginn febrúar verið eins kaldur en þar var ekki athugað árið 1881. Samt sem áður er líklegt að febrúar 1881 hafi verið nokkru kaldari fyrir norðan en 1866. Við setjum þó febrúar 1866 hér fremstan í röðina. Aðeins hlánaði lítillega þrjá daga í Stykkishólmi, þ. 17. þegar hitinn mældist 3,3 stig og svo tvo síðustu dagana þegar hitinn var núll til þrjú stig. Annars voru oftast mjög hörð frost, oft fimmtán til sautján stig og tvisvar yfir tuttugu, -22,0 þ. 12. og slétt -20 stig þ. 24. Úrkoman  í Stykkishólmi var 45,2 mm en úrkomudagar voru 11. Það snjóaði nokkuð fyrstu þrjá dagana en var síðan þurrt fram að þeim 17. en eftir það var úrkoma flesta daga. Mánaðarloftvægi var 1007,2 hPa. Á eftir þessum kuldalega mánuði kom svo einhver kaldasti mars sem mælst hefur. Og veturinn í  heild gengur að kulda næstur vetrinum 1881. Síðasta dag mánaðarins birtist á forsíðu Þjóðólfs hið fræga kvæði Kristjáns Jónssonar, Þorraþrællinn 1866, sem hefst á þessum alkunnu orðum: Nú er frost á Fróni. Hafís var mikill fyrir norðurlandi og lagnaðarís var svo mikill að ganga mátti yfir flesta firði á Breiðafirði á ís og frá Langanesströnd til Skutulsfjarðar.

1881 (-6,2) Veturinn 1880-1881 var ekki aðeins allra kaldasti vetur sem mælst hefur í heild á landinu heldur voru bæði desember og mars óumdeilanlega þeir köldustu sem hafa mælst og janúar sá næst kaldasti og febrúar tel ég hér einnig vera þann næst kaldasta. Kuldinn var tiltölulega minni á suðurlandi en fyrir norðan og vestan. Kaldast var -13,2 stig á Siglufirði sem er lægsti meðalhiti stöðvar í febrúar á Íslandi. Hugsanlega var eitthvað bogið við mælingarnar á Siglufirði. Á Valþjófsdal í Fljótsdal var meðalhitinn -9,0. Framundir miðjan mánuð var mikil frostakafli. Hæð var þá yfr Grænandi en grunnar lægðir suður í hafi og um norðanverðar Bretlandseyjar. Þann þriðja varð frostið -22,5 stig í Stykkishólmi en -26 stig á Siglufirði og -25 í Grímsey þ. 11. Í Reykjavík varð kaldast í lok kuldakaflans, -17,9 stig þ. 14. og daginn áður -16,7 stig. Hiti var reyndar athugaður á mjög fáum stöðum á landinu. Upp úr miðjum mánuðinum kom asahláka og svo umhleypingar sem stóðu í fáeina daga og var þá stundum hvasst á vesturlandi. Varð þá mikið flóð í Reykjavíkurtjörn og Lækurinn flæddi yfir bakka sína. Komst hitinn í Reykjavík í 7,4 stig og varð hvergi hlýrra á landinu. Síðasta þriðjung mánaðarins var loftþrýstingur hár og kólnaði á ný en ekki jafn mikið og áður. Síðasta daginn var þó tuttugu stiga frost í Grímsey. Mikill snjór var. Jónassen lýsti veðrinu í Þjóðólfi 26. mars:   

Framan af þessum mánuði hélzt sama frostharkan eins og verið hafði allan síðari hluta fyrra mánaðar; flóinn varð þó auður 6. og 7. með austangolu, en eigi leysti ísinn algjörlega hér af skipalegunni fyrr en 15., en frostharkan hefir verið svo mikil í sjónum, að hafi logn verið, hefir hann óðar lagt. Fyrstu 4 dagana var hér ýmist logn eða hæg austangola; 5.-10. optast logn eða landnorðan og þá stundum hvass; 11. úts. hroði með talsverðri snjókomu, en að kveldi hvass á austan með blindbyl; 12, aptur genginn til útsuðurs; 13. norðanrok til djúpanna, hægur hér með ofanhríð; 14. hægur á austan, en hvass að kveldi með byl; 15. landsunnan hægur með nokkurri rigningu; 16. logn með brimsúg; 17. austan, en að kveldi útsunnan með talsverðri ofanhríð; 18. útsunnan með hriðjum, en genginn í landsuður að kveldi með rigningu og 19. hvass mjög á lands. með fjarskalegri rigningu ; 20.-24. ýmist logn, austanátt, stundum með regni, eða snjókomu; 24.-28. logn hér, en optast norðanveður til djúpanna.

1885 (-5,9) Í Hreppunum hefur aldrei mælst eins kaldur febrúar, í Grímsey er þetta næst kaldasti febrúar, eftir 1881 og í Reykjavík sá næst kaldasti eftir 1866. Þar hlánaði varla allan mánuðinn. Aðeins þann 19. var hámarkshiti skráður 0,2 stig. Ekki hlánaði heldur í Stykkishólmi og Grímsey. Hlýtt loft var alltaf langt undan en stundum komu lægðir sunnan eða suðaustan að landinu með smá blota á suður og suðausturlandi í aðeins nokkrar klukkustundir. Hlýjast á landinu varð 4,4 stig í Vestmannaeyjum síðdegis þ. 6. en þá var hiti þar yfir frostsmarki í um það bil sólarhring og aldrei lengur þó hámarkshiti færi stöku sinnum yfir frostmarkið aðra daga. Norðaustanáttin mátti heita algjörlega einráð og stundum voru mikil hvassviðri. Á Reykjavíkurhöfn urðu til dæmis menn veðurtepptir á póstskipi i þrjá daga af því að ófært var milli skips og lands. Framan af mánuðinum var svo mikið sandfok á suðurlandi að því var jafnað við fokið mikla sumarið 1882. Frostið í Reykjavík var yfirleitt svona þrjú til sex stig fram undir miðjan mánuð og mjög jafn kuldi eins og annars staðar. Fyrsta þriðjung mánaðarins snjóaði víða. Á suður og vesturlandi var mikið til bjart veður annan þriðjung mánaðarins þegar loftþrýstingur var hár en áfram snjóaði meira og minna á austurlandi allan mánuðinn.1885-2-500_1063597.png Þann 14.  og 15. var mikið frost á landinu. Eftir það fór aftur að snjóa víða og mildaðist nokkuð frostið þegar lægðir nálguðust landið. Þann 18. varð voðalegt snjóflóð á Seyðisfirði klukkan átta um morguninn. Það eyðilagði fimmtán íbúðarhús og fjölda úthýsa og urðu um 80 manns fyrir flóðinu. Létust 24 en margir fleiri meiddust. Mikið kólnaði þ. 23. og var lágmarkshitinn yfir 14 stiga frost fjóra af þeim sex dögum sem eftir voru mánaðar í Reykjavík. Kaldast á landinu varð -21,2 stig á Eyrarbakka. Annað snjóflóð féll á austfjörðum þ. 26. og tók það bæinn Naustahvamm í Norðfirði. Fórust þar þrír menn en sex náðust úr fönninni eftir sjö klukkustundir. Úrkoma á landinu var minni en einn þriðji af meðallaginu og í Stykkishólmi er þetta fjórði þurrasti febrúar, 10,4 mm. Þurrara var þar 1977 (1,0 mm), 1900 (6,0) og 1947 (6,2). Í Reykjavík voru fjórir úrkomudagar og aldrei meira en 3,2 mm. Á norðurlandi þóttust menn aftur á móti ekki muna annað eins fannfergi og var þennan mánuð og fennti þar bæi á kaf. Á austurlandi voru líka fádæma snjóþyngsli. Á kortinu sést kuldaloppa yfir landinu eins og hún hefur verið áætluð. Jónassen lýsti veðurfarinu svo í nokkrum tölublöðum Ísafoldar: 

Umliðna viku hvass siðan 30. blásið af norðri, opt rokhvass síðan 30. f.m. Frostharka hefir eigi verið mikil, en þar jörð er hjer ber, kemur hún illa við; h. 2. var hjer kafaldsfjúk meira eða minna allan daginn. (4.febr). - Alla þessa viku hefir verið norðanveður með talsverðum kulda; hefir opt verið rokhvass.  Norðanáttin er nú búin að vera síðan 29. f. m og er ekkert útlit enn fyrir að nokkur breyting sje á veðri. Enginu snjór hefir fallið hjer, en efra hefir stundum verið kafaldsbylur hjeðan að sjá. í dag 10. sama norðanbálið og frostharkan að aukast tvo síðustu dagana. (11.febr.)  - Alla vikuna befir verið norðanbál með nokkru frosti; síðustu dagana hefir sjóinn lagt, og hefir ísinn náð út undir skipalegu hjer á höfninni; sjóharkan hefir verið tiltölulega meiri. Hjer er alveg auð jörð. Í dag 17. er Norðanveðrið heldur vægara, þó mjög hvass til djúpanna. (18.febr.) - Meiri part vikunnar hjelzt sama norðanbálið eins og að undanförnu, þangað til seint um kvöldið h. 22., að þá lygndi. Þannig hefir hjer verið norðanveður stanslaust síðan aðfaranótt h. 30. janúar. Þótt stöku sinnum hafi verið logn stundarkorn hjer í bænum eða brugðið til annarar áttar, þá hefir verið hvassveður til djúpanna allt til 22. Jörð hjer alveg auð. Í dag 24. blæja logn um allan sjó og bjart sólskin. (25.febr.) - Umliðna viku hefir fremur verið stilling á veðri einkum síðari partinn; h. 25. var austan kafaldsbilur hjer allan daginn; síðan hefir verið bjart og heiðskírt veður og síðustu dagana logn; til djúpanna hefir opt verið norðanveður, en þó eigi mjög hvass að sjá. Í dag 3. bjart sólskinsveður, logn hjer en hvass á norðan til djúpanna; sjóharkan hefir verið mikil þessa vikuna. Snjór er hjer svo að kalla enginn nema stöku skaflar, sem rak saman h. 25.  (4.mars.).

1892 (-5,3) Þessi kaldi febrúar var beint framhald af mjög köldum janúar. Veðráttan var óstöðug, ýmist snjókoma með frosti eða hvassir blotar. Snjór var mikill og ísalög. Á Vestfjörðum kom hafís seint í mánuðinum. Allhvítt var allan mánuðinn í Reykjavík að sögn Þorvaldar Thoroddsen í Lýsingu Íslands en þetta var hlaupár. Mjög köld norðanátt var fyrstu dagana og þ. 6. komst frostið í 16 stig í Reykjavík og Stykkishólmi. Þann 8. kom hláka, sem stóð í um það bil sólarhring og komst hitinn þá í 4,4 stig í Reykjavík en 5 í Stykkishólmi. Sólarhringsúrkoma í Reykjavík að morgni þess 9. var 48,8, mm og hefur ekki mælst þar meiri í febrúar. Úrkoman hefur líklega verið bæði regn og snjór. Þann dag mældist mesti hiti á landinu, 8,5 stig í Vestmannaeyjum þó sá hiti sé reyndar skráður á næsta dag. Hámarks og lágmarkshiti á þessum tíma var lesinn kl. 8 að morgni. Næstu daga voru umhleypingar. Um miðjan mánuð byggðist upp geysimikil hæð yfir landinu og voru eftir það kuldar í norðaustanátt nema sex síðustu dagana syðst á landinu. Loftvægi þ. 14. var 1048 í Stykkishólmi en 1049,7 í Grímsey samkvæmt skráningum í Meteorologisk Aarbok sem eru ekki alveg fullkomlega leiðréttar eftir öllum kúnstarinnar reglum. Einkanlega var kalt dagana 18.-25. en þá var lágmarkshiti 11 til 16 stiga frost í Reykjavík og svipað í Stykkishólmi en heldur mildara var á austurlandi. Frost fór yfir tíu stig í Reykjavík 16 daga í þessum mánuði. Kaldast varð - 27,7 stig þ. 22. í Möðrudal. Þar var mánaðarmeðalhitinn -12,0 stig en Borðeyri, niður við sjávarmál, -9,3 stig. Jónassen lýsti svo tíðinni í nokkrum Ísafoldarblöðum: 

... hvass á norðan h. l.,með ofanfjúki um kvöldið; logn og fagurt veður (norður til djúpa hvass) hjer allan daginn h. 2. Í morgun (3.) landnorðan-gola, bjart veður. (3.febr.) - Undanfarna viku optast verið við útsuður en þó hægur; mikill snjór hjer á jörðu. Logn og fagurt veður með miklu frosti h. 6.; hægur á austan með ofanhríð h. 7. fór að rigna af austri, hvass fyrri part dags og dimmur, gekk svo í landsuður og rigndi mikið aðfaranótt h. 9. og svo í útsuðrið með brimróti og jeljum. (10. febr.) - Hinn 3. var hjer útsynningur með svörtum allt fram að kveldi er hann gekk til austurs, svo í vestanátt h. 11. og síðan útnorðan; hinn 12. var hjer austankafald fyrri part dags, hvessti síðari partinn á austan. Í morgun (13.) landsynningur nokkuð hvass með þíðu. (13.febr.) - Fyrri part dags h. 13. var hjer hvasst á austan landsunnan með regni gekk svo til útsuðurs með jeljum; hvass á norðan h. 14., hvínandi rok með köflum, logn hjer og bjart veður h. 15. en norðan til djúpa framan af degi. Logn h. 16. fram að kveldi er kom austankaldi. I morgun (16.) logn bjartur, austanvari. Loptþyngdarmælir komzt óvenjuloga hátt h. 14. og hefir í mörg ár eigi komist hærra; hann hefir komizt eins hátt 6/3 1883, 10/3 18S7 og 26/2 1890. (17. febr.) - Logn hjer um morguninn h. 17., en hvessti á norðan, er á daginn leið; hvass á norðan allan daginn h. 18., en lygndi síðast um kveldið, og var hjer logn og bjart veður h. 19., en þó hvessti eptir hádegið, á norðan, hægur hjer, en hvass fyrir utan eyjar. Í dag (20.) logn hjer og bjart sólskin, bálhvass á norðan fyrir utan eyjar. Óvenjulegur jökull hjer um alla jörð. 20. febr. - Undanfarna daga má heita að hafi verið blæja logn hjer, þótt nokkur gola af norðri hafi opt verið til djúpa. Frostharka mikil. ... Í dag (24.) logn, bjartur. (24.febr.)  - Blæja logn alla undanfarna daga og frostlítið veður. Í morgun (27.) enn logn, en dimmur og snjóýringur.  (27. febr.).

1868 (-4,8) Með þorrakomu dundu yfir harðindi með einu af hinu mesta og jafnasta fannfergi sem menn hafa af að segja á suðurlandi og hélst svo alla mánuðinn, segir Þjóðólfur 29. febrúar.  Dagana 11.-14. var þó að mestu frostlaust í Stykkishólmi og fór hitinn þá mest i 5,8 stig en annars voru nær látlaus frost allan mánuðinn. Kaldast var fyrstu og síðustu vikuna, lágmarkshiti 10-15 stiga frost í Stykkishólmi. Loftvægi var þar óvenjulega lágt, 988 hPa. Úrkoman var 88,1 mm. sem er í meira lagi. Þann 18. mars segir Þjóðólfur frá því að mestur hiti á mælinum að Landakoti við Reykjavík í mánuðinum hafi verið 0,5 stig (Reamur er hér snúið yfir í Celsíus) en mest frost -15,6 þ. 8. Minnstur vikuhiti hafi verið -11,8 stig dagana 11.-18. en mestur -2,8 stig þ. 2.-8.             

1935 (-4,1) Þessi umhleypingasami febrúar var sá kaldasti á tuttugustu öld. Hann hafði það samt af að færa Reykjavík mesta hámarkshita sem þar hefur mælst í febrúar. Fyrstu fimm dagana var frost um allt land en asahláka dagana 6.-7. og komst hitinn fyrri daginn í 14,0 í Fagradal en þann seinni í 13,2 stig á Akureyri. Vindur snérist svo í vestrið með éljagangi vestanlands. Djúp og kröpp lægð kom svo úr suðvestri þ. 8. og fór norðaustur yfir landið. Olli hún fyrst miklu sunnanveðri með hellirigningu og fór hitinn þá í 10,1 stig í Reykjavík um kvöldið en  hitinn stóð stutt við og snérist vindur til vesturs og var áfram mjög hvass. Morguninn eftir mældist úrkoman þar 13,0 mm, sú mesta í mánuðinum en 52,3 mm mældust á Vattarnesi sem var mesta sólarhringsúrkoma mánaðarins. Í þessu óveðri strandaði enskur togari á Sléttanesi við Dýrafjörð og varð engu bjargað. Talsverðar skemmdir urðu víða á landi. Kirkjan í Úthlíð í Biskupstungum fauk og ýmis útihús og skúrar og þök af húsum, símastaurar brotnuðu og heyskaðar urðu. Loftnet útvarpsstöðvarinnar og loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík slitnuðu. Eftir þetta brá aftur til norðlægra átta með frostum og fór harnandi er á leið. Kaldast varð á Grímsstöðum -24,1 stig þ. 27. Snjólag var 84% en meðaltalið 1924-2007 er 67%. Snjór var mestur á vesturlandi en minnstur fyrir austan. Í hlákunni sem byrjaði hinn sjötta tók snjó að miklu leyti upp og var jörð auð eða flekkótt nokkra daga úr því en eftir það var yfirleitt alhvítt. Í Reykjavík var alhvítt í 25 daga og 23 á Akureyri en 13 á Seyðisfirði. Úrkoma var lítil nema á suðausturlandi. Á kortinu sést meðalhiti þessa kaldasta febrúar sem komið hefur síðan á 19. öld en menn ættu að hafa í huga að köldustu febrúar sem mælst hafa voru tveimur til þremur stigum kaldari.   

Heilmikið var að gerast i heiminum. Þann fyrsta hófst hér sala á sterkum vínum sem bönnuð hafði verið um árabil. Daginn eftir var lygamælirinn fyrst prófaður í heiminum. Þsð er engin lygi! Þann 11. mældist mesta frost sem mælst hefur í Afríku, -23 stig í Ifrane í Atlasfjöllum í Marakkó. Tveimur dögum síðar var morðingi sonar flugkappans Charles Lindberghs dæmdur til dauða en morðið hafði vakið  heimsathygli. Og þ. 27. varð Shirley Temple yngsti Óskarsverðlaunahafinn. 

feb-1935_1063580.gif

1907 (-3,8) Nokkur ís var skammt undan norðurlandi i þessum umhleypingasama og úrkomusama mánuði sem kom í kjölfar úrkomusamasta janúar í Reykjavík. Óvenjulega kalt var á Vestfjörðum. Meðalhiti á Holti í Önundarfirði var -7,0 stig, kringum fimm stig undir meðallaginu 1961-1990. Norðaustanátt var ríkjandi nema hvað eins dags sunnanhláka kom þ. 5. Um þann 20. varð kaldast og komst frostið í 26,2 stig í Möðrudal. Það brá til sunnanáttar þ. 23. með talsverðri hláku og daginn eftir komst hitinn á Seyðisfirði í 10,5 stig en 10,4 á Teigarhorni.  Eftir það var að mestu frostlaust í Vestmannaeyjum en kólnaði fljótlega annars staðar en síðasta daginn var þó sunnanhláka um allt land. Snjór var mikill á landinu. Jónassen segir svo um tíðarfarið i Reykjavík í þessum mánuði í Þjóðólfi 8. mars:
 
 
Eins og vant er í febr. hefur suðvestanvindur (útsuður) verið langoptast, með svörtum éljum á milli; eptir miðjan mánuðinn (18.) norðanveður með blindbyl og hvass mjög með köflum (19.-20.). Til sjávarins hefur optast verið foráttubrim. Óvenju mikill snjór hefur legið hér i jörðu, sem nú um lok þessa mánaðar hefur tekið mikið upp í landsynnings rigningu tvo síðustu dagana.
 

1882 (-3,6) Mánuðurinn hófst með útsynningi í kjölfar óvenjulega hlýrrar  sunnanáttar í lok janúar. Aftur náði sunnanáttin sér vel á strik dagana 6.-9. með hvassvirði og rigningu en þá komst hitinn í Stykkishólmi i 8,9 stig sem telst mikið þar í febrúar. Á Akureyri fór hitinn í 9,0 stig. Eftir þetta tók við köld norðanátt. Einstaklega kalt var dagana 13.-16. þegar fimmtán til sextán stiga frost var í Reykjavík og Stykkishólmi. Upp úr miðjum mánuði sló í útsynning og hrakvirði en eins dags almennilega hláku gerði þann 21. en óðara brá aftur til vestanáttar og síðan norðaustanáttar til mánaðarloka og keyrðu þá kuldarnir úr hófi fram. Komst frostið á Grímsstöðum -25,1 stig þ. 27. Sama dag mældist mesta frost sem mælst hefur á Akureyri í febrúar, 24,0 stig. Á Hrísum inni í Eyjafjarðardal fór frostið í -24,8 stig.  Jónassen lýsti tíðarfarinu svo í Þjóðólfi 20. mars.  

Eins og undanfarinn mánuð hefir veður verið mjög óstöðugt þennan mánuð, og hefir útsynningur verið tíður. 1.-5. útsyningur með biljum (2. var hér ofsaveður af landsuðri síðari hluta dags); 5. genginn til norðurs, hægur, bjart veður; 6. landnorðan með bil; 7. 8. 9. hvass á landsunnan með mikilli rigningu; 10. hvass á útsunnan; 11. landnorðan að morgni, að kveldi genginn í útsuður með biljum; 12. 13. norðan með snjókomu; 14. 15. hægur á austan; 16. bjart veður, norðangola; 17. bjart veður, austankaldi; 18. vestangola með brimhroða; 19. hægur á útsunnan með svækju; 20. logn og þoka allan daginn; 21. sunnangola, dimmur; 22. hvass á útsunnan með jeljum; 23. norðangola (norðan til djúpanna) bjartur að morgni, síðari hluta dags blindbilur; 24. hægur á sunnan að morgni með regni, gekk svo bráðlega til útsuðurs og að kveldi kominn í norður; 25. 26. norðan 27. 28. við austur. Talsverður snjór hefir fallið með köflum.

1969 (-3,6) Kaldasti febrúar á landinu frá 1935 til okkar daga. Að sumu leyti voru febrúar og mars þetta ár glansnúmer hafísáranna, ef svo má að orði komast, ásamt nokkrum mánuðum 1968. Það komu þrjú stórkostleg kuldaköst. Fyrsti dagurinn, þegar Halldóri Laxness var veitt Sonninngverðlaunin, er að meðalhita kaldasti febrúardagar sem komið hefur á Akureyri frá og með a.m.k. 1949, -17,7 stig, ásamt þeim öðrum árið 1968. Sá fyrsti var einnig með dagsmeðalhitamet í Reykjavík, -12,0 stig frá sama tíma. Þessa dagana stóð reyndar yfir ráðstefna um hafís í Reykjavík. Erindin voru síðar gefin út í merki bók sem heitir einfaldlega Hafísinn. Annað kuldakasat var dagana 6.-8. Alla þá daga var sett dagsmet fyrir meðalhitakulda í Reykjavík. Og sá sjötti hefur lægsta meðalhita í borginni allra febrúardaga, a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð. Hann var -15,6 stig og daginn eftir -14,5 stig, sá næst kaldasti. Dagarnir 6.-7, eru einnig þeir köldustu sem komið hafa þá daga á Akureyri frá 1949, -15,8 og -16,3 stig og koma þessir dagar þar að kulda næstir fyrstu tveimur dögunum fyrir alla febrúardaga. Mest frost á landinu, -27,2 stig, mældist á  Hveravöllum þ. 6.  Daginn eftir voru -23,9 í Búðardal, -23,0 í Síðumúla, -23,8 á Jaðri í Biskupstungum og víða var frostið 20-21 á suðurlandsundirlendi. Í Reykjavík fór það í -17,6 stig og var það þá mesti kuldi sem mælst hafði þar síðan 1918. Þessa daga var meðalhitinn á landinu allt að 15 stigum undir meðallagi og var sá sjötti kaldasti dagur mánaðarins að meðaltali og er kaldasti febrúardagur á landinu síðan a.m.k. 1949 og reyndar líklega frá stofnun Veðurstofunnar 1020, -16,0 stig. Meðalhiti á landinu kl. 18 var sautján stiga frost. Daginn eftir var svo næst kaldasti febrúardagurinn frá sama tíma, -13,8 stig. 1969-02-06_12_1062698.gifÍ þessum kuldum var víða þurrt og bjart veður. Þann 16. var norðan stórviðri um land allt. Þá kólnaði með ólíkindum snögglega. Á Hornbjargsvita var hitinn sex stig á hádegi en tuttugu mínútum seinna var frostið orðið fjögur stig. Í kjölfarið kom enn eitt kuldakastið,  dagana 18.-20. og varð hitinn þá allt að 9 stigum undir meðallagi. Þann 20. mældust -26,6, í Reykjahlíð, -20,3 á Raufarhöfn og á Þingvöllum -24, 8 stig. Inn á milli frostanna komu dálitlar hlákur 3.-4. og 8.-9. Seinni hlákan olli víða miklum flóðum suðvestanlands því mikill snjór hafði verið á jörð en talsverð rigning var á suðurlandi. Í Keflavík flæddi vatn inn í hús og ollum miklum skaða og hús í Þorlákshöfn voru umflotin vatni. Sums staðar flæddi yfir vegi. Síðustu fjóra dagana var fremur hlýtt og komst hitinn á Reyðará við Siglufjörð í 10,9 stig síðasta daga mánaðarins.

Úrkoma var mikil norðaustanlands en kringum meðallag á suðvesturlandi. Á Vestfjörðum, suðausturlandi og einkum á austurlandi var lítil úrkoma. Afar mikill lagnaðarís var á Breiðafirði og um tíma lokaði hann höfninni í Stykkishólmi. Allur Hvammsfjörður var á ísi og var á honum ekið á bíl. Hrútafjörður var einnig lagður út að Hrútey. Jafnvel á Elliðaártanga í Reykjavík reyndist erfitt að koma sementsferju á flot vegna lagnaðarísa. Hafís sást við Hornstrandir 24 daga í mánuðinum og 16 við norðausturland en sjaldan annars staðar. Í nokkra daga var sigling erfið við Hornbjarg. Snjólag var 76% og er ekki með því mesta. 

Þann þriðja varð Jasser Arafat leiðtogi PLO-samtakanna.    

1931 (-3,6) Fyrir utan kuldann var stormasamt mjög og mikill snjór. Skiptust á útsynningur og norðangarðar með stórhríð. Þetta er ekki aðeins talinn snjóþyngsti febrúar frá 1924 með snjólag á landinu upp á 96% heldur er þetta sá mánuður á landinu yfirleitt sem reiknast með mesta snjóhulu, ásamt janúar 1976. Á öllu svæðinu frá Snæfellsnesi norður og austur um að Fljótsdalshéraði var alhvítt allan mánuðinn. Mjög snjóþungt var líka í Reykjavík þar sem alhvítt var alla daga nema einn. Fremur milt var fyrstu níu daganna og þ. 9. var alautt á níu stöðvum og víða var jörð flekkótt en annars var víðast hvar alhvítt flesta daga. Minnstur var snjórinn á suðausturlandi og við sjóinn á suðurlandi en snjólag var þó hvergi minna en 64%. Það var á Hólum í Hornafirði þar sem alhvítir dagar voru aðeins 9. Á Eyrarbakka voru tveir dagar alauðir og einn á fáeinum stöðvun á suðaustur og suðurlandi. Síðasta daginn mældist snjódýptin 140 cm á Grímsstöðum. Einkennilegt er að næsti febrúar, 1932, var sá snjóléttasti í sögu mælinga og auðvitað einnig sá hlýjasti. Dagana 8.-9. var hið  versta óveður um allt land í kjölfar djúprar lægðar er fór norðaustur yfir landið. Þann 14. fór önnur lægð austur yfir landið. Olli hún fyrst vestan ofsaveðri á suðurlandi en síðan norðanroki um allt land með stórhríð fyrir norðan og austan. En þ. 17. hlýnaði mjög og hvessti og komst hitinn þá í Fagradal í 9,5 stig. Lægðin sem færði hlýindin fór svo austur fyrir landið og olli fyrst hvössum útsynningi en síðan kaldri norðanátt. Þann 21. komst frostið í 15-19 stig á suður og suðvesturlandi. Gerði síðan hægvirði og mældist þá mesta frost mánaðarins, -23,9 á Grímsstöðum þ. 24. Úrkoma var mikil fyrir norðan, 62,9 mm á Akureyri, og einnig norðvestanlands en var annars fremur lítil.   

2002 (-3,3) Þetta er kaldasti febrúar seinni áratuga og er sá 15. kaldasti síðan 1866 og er hann jafnfram kaldastur allra mánaða ársins eftir mars 1979. Muna eflaust margir eftir kuldunum þennan tíma.

Fyrr á nítjándu öldinni komu tveir mjög kaldir febrúarmánuðir, 1810 og 1811, og er meðalhitinn í Stykkishólmi þá áætlaður -8,2 og -8,4 stig eftir mælingum sem gerðar voru á Akureyri þar sem mánuðurinn virtist hafa vera undir tíu stiga frosti að meðaltali, en samt kringum þremur stigum mildari en janúar 1918. Febrúar 1812, 1807 og 1848 voru einnig afar kaldir en nokkru mildari en þessir. Ekki er samt hægt að taka hinar elstu mælingar jafn alvarlega og þær sem gerðar voru síðar.  Þann 8. febrúar 1808 mældist frostið á Akureyri -32,0 stig svo langt sem þær mælingar ná.  

Nánari tölur um mánuðina á stöðvunum eru í fylgiskjalinu fyrra en hitt er um febrúar 1885 og 1935 í Reykjavík.  

Skýringar.

Veðrið I, 1969, Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur, 1941, Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýjustu febrúarmánuðir

Meðalhiti stöðvanna níu 1961-1900 var -0,2 stig. Í fylgiskjalinu má sjá tölur fyrir hverja stöð. 

1932 (4,4) Þetta er langhlýjasti febrúar sem mælst hefur á Íslandi, hálfu öðru stigi hlýrri en sá sem næstur kemur sem var eigi að síður afar hlýr. Mánuðurinn var eiginlega mikið undur. Hitinn var 5-6 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Í Vík í Mýrdal og Suðureyri við Súgandafjörð var meðalhitinn 5,9 stig, sá mesti á veðurstöðvum í febrúar, en það er meðalhiti sem myndi sóma sér alveg skammlaust sem maíhiti víðast hvar á landinu. Veðráttan lýsir mánuðinum á þessa leið: "Einmuna veðurblíða um allt land, snjólaust að kalla í bygð, jörð víða farin að grænka í mánaðarlokin, fénaður gekk sjálfala eða honum var lítið gefið." Loftþrýstingur hafði aldrei mælst eins hár í febrúar síðan samfelldar mælingar á honum hófust á landinu upp úr 1820. Hann var hæstur að meðaltali í Vestmannaeyjum 1029,5 hPa en lægstur á Ísafirði 1023,3, hPa. Loftvægi fór mest í 1047,3 hPa kl. 21 þ. 10. á Teigarhorni og var það þá og er enn með hæri loftvogsmælingum hér á landi. Hægviðri með vægu frosti var hinn 19. Næstu nótt mældist mesta frost mánaðarins -9,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum en í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,2 stig. Eftir þetta var óslitið blíðviðri það sem eftir var mánaðarins, oftast hæg sunnan eða suðvestanátt og hlýindi eins og á vordegi. Hitinn fór í  15 stig á Fagradal í Vopnafirði þ. 22. og 23. og 13,0 stig á Hrauni í Fljótum þ. 24. Í Reykjavík var enginn sólarhringur undir frostmarki að meðaltali en frost mældist í þrjá daga. Hlýjast varð þar 9,9 stig þ. 26. Þann dag mældist sólin tæpar sex klukkustundir sem verður að teljast harla merkilegt og óvenjulegt í þvílíkum hita um hávetur í Reykjavík. Hámarkshiti var flesta daga 6-8 stig í bænum og aldrei lægri en 2,5 stig.     

1932-2-500-60-nh.gifSnjóalög líktust því sem gerist í maímánuði fremur en febrúar og er þetta snjóléttasti febrúarmánuður sem mælst hefur frá 1924 þegar snjólagsmælingar hófust. Snjólagsprósentan var 19% en meðallagið 1924-2007 er 67%. Í Reykjavík var jörð flekkótt þrjá daga en var annars alauð en þetta var hlaupársmánuður. Hins vegar var algjörlega snjólaust á Hvanneyri, Papey, Teigarhorni, Hólum í Hornafirði, Fagurhólsmýri, Stórhöfða og Eyrarbakka. Jafnvel á Grímsstöðum á Fjöllum var alauð jörð í 20 daga og þar var meðalhitinn 1,1 stig og er þetta eini febrúar sem þar hefur verið mældur ofan við frostmarkið frá því mælingar hófust árið 1907. Úrkoma var fremur lítil, sérstaklega á norðausturlandi, rúmlega helmingur af meðallagi yfir allt landið. Í Bakkafirði féll úrkoma í einn dag, 2,0 mm. Mest úrkoma var auðvitað á suður og vesturlandi, 176,9 mm í Vík í Mýrdal. Mánuðurinn var venju fremur hægviðrasamur, stormdagar fáir og logn var oft. Sól var lítil á suðurlandi og er þetta sjötti sólarminnsti febrúar í Reykjavík. Á Akureyri var þetta hins vegar fimmti sólríkasti febrúar frá 1927. Sunnan og suðvestanátt var ríkjandi  með miklum hlýindum en annað slagið kom skammvinn vestanátt þegar lægðir fóru um Grænlandshaf norður fyrir landið. Mikil háloftahæð, hlýr hóll, var viðloðandi þennan mánuð suðaustur af landinu og var loftþrýstignur hár á stóru svæði umhverfis landið. Engu var líkara en hlý kryppa sunnan að hrekti kalda loftið, sem venjulega ríkir á þessum árstíma, norður á heimsenda. Og fengum við einna hlýjasta loftið. Sést þetta ljóslega á litkortinu. Hitt kortið sýnir meðallhita á landinu.   

Fyrstu vetrarólympíuleikarnir fóru fram í Lake Placid. 

feb-1932_1062972.gif
  

1965-2-500-60.png1965 (2,9) Þessi næst hlýjasti febrúar var þó hálfu öðru stigi kaldari en 1932. Meðalloftvægi var svipað og 1932, mest 1029,3 hPa á Kirkjubæjarklaustri en minnst 1023,6 hPa á Hornbjargsvita. Hæst stóð loftvog 1046,8 hPa þ. 21. í Vopnafirði. Mikið háþrýstisvæði var í grennd við Bretlandseyjar alveg fram að þeim 20. og loftþrýstingur var einnig mikill á landinu. Þó veðrið væri milt gerði tvö stórviðri og urðu þá miklar skemmdir víða um land en þó mestar á austurlandi. Þann 8. var vestan stórviðri og snjókoma víða um land og ofsaveður og  stórhríð  var þ. 12. á norðurlandi og daginn eftir mældist mesta frost mánaðarins -19,5 stig á á Þingvöllum. Voru dagarnir 12.-13. þeir einu sem voru verulega kaldir um land allt. Mestu hlýindin voru dagana 15.-20. og fór hitinn í 14,7 stig á Seyðisfirði þ. 17. Eftir þann 20. voru væg frost á norður og austurlandi en áfram milt annars staðar. Snjólag á landinu var 29%. Alautt var í Vestmannaeyjum og nokkrum öðrum stöðum á suðurlandi. Allvíða á austfjörðum, suður og vesturlandi var aldrei alhvít jörð, þar með talið í Reykjavík. Mjög sólríkt var austan til á landinu í suðvestanáttinni. Þetta er sólríkasti febrúar á Hólum í Hornafirði frá 1958 117,1 klst og á Hallormsstað meðan mælt var 1953-1989, 63 klst. Það er þá ekki að undra að þetta er þurrasti febrúar sem mælst hefur á Fagurhólsmýri frá 1922 og þriðji þurrasti á Kvískerjum frá 1962 (þurrara var 1966 og 2010). Háloftahæð var oft beint suður af landinu.

Vegna hinna eindregnu suðvestanáttar var nokkur hafís fyrir norðurlandi og þ. 29. var ísbreiða á öllu hafinu frá Húnaflóa til Melrakkasléttu í 8-12 mílna fjarlægð frá Grímsey. Þessi mánuður má kalla síðasta hlýja mánuðinn sem tilheyrði hlýindatímabilinu sem hófst á árunum upp úr 1920, kannski nánar tiltekið í febrúar 1921, ef miðað er við vetrarmánuði. Í mars 1965 var mikill hafís og var það upphafið á hafísárunum svokölluðu sem stóðu til 1971 en áframhaldandi kuldar, en þó með minni hafís, má segja að hafi haldist fram á miðjan níunda áratuginn og kannski lengur, fer eftir því hvernig metið er.

Enginn annar en Louis Armstrong kom til landsins þ. 8. en söngvarinn Nat King Cole dó þ. 15. 

1929-2-850.gif1929 (2,6) Veturinn 1928-1929 í heild er sá næst hlýjasti  frá því mælingar hófust. Á Grímsstöðum var þessi febrúar hinn næst hlýjasti, -0,2 stig.  Mér telst svo til að þetta sé þriðji til fjórði úrkomusamasti febrúar á landinu. Sérstaklega var vott á suðausturlandi. Á Teigarhorni og Fagurhólsmýri hefur aldrei mælst meiri úrkoma í febrúar. Dagana 8.-10. var norðanátt og snjóaði fyrir norðan og komst frostið í -19,0 á Grænavatni, sunnan við Mývatn þ. 11. Annars var sunnan eða suðaustanátt ríkjandi og komst hitinn á Hraunum í Fljótum í 12,0 stig þ. 20. Síðustu dagana voru heiðríkjur á norðurlandi. Sól var þá líka talsverð í Reykjavík en frostlaust þrátt fyrir það og síðdegishiti um fimm stig.  Snjólag var 35% á landinu. Hvergi var alautt allan mánuðinn en alhvítir dagar aðeins einn til fimm sunnanlands og vestan og alls staðar færri en tíu nema á Ísafirði. Enda var talin einmuna tíð um allt land, jörð var víða klakalaus og vottaði sums staðar fyrir gróðri. Að þessu sinni var oft mikið háþrýstisvæði yfir Norðurlöndum en lægðir suðvestur af Grænlandi með sunnanátt og mikilli úrkomu. Kalt var í Evrópu. Kortið er meðaltalstaða í 850 hPa fletinum. 

Þann 11. varð Páfagarður sjálfstætt ríki. Þann 14. var dagur sem kallaður hefur verið St. Valentine´s Day Massacre.       

2006 (2,5) Það má teljast einkennilegt að  norðanáttir voru venju fremur tíðar í þessum fjórða hlýjasta febrúar en sunnanáttir voru einnig tíðar. Mánuðurinn er sá næst hlýjasti á Hæli og Fagurhólsmýri, hlýrri en bæði 1965 og 1929. Snjólag var aðeins um 23% og telst það næst minnsta í febrúar. Óvenjulega snjólétt var fyrir norðan og voru alhvítir dagar aðeins þrír á Akureyri en enginn á Raufarhöfn. Í Mýrdal og grennd og á Hala í Suðursveit var alautt allan mánuðinn. Hlýjast á mannaðri veðurstöð varð á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 14,6 stig þ. 21 en 16,2 stig á sjálfvirku stöðinni á Seyðisfirði sama dag en mikil hlýindi voru líka næsta dag. Kaldast varð -23,7 stig í Möðrudal þ. 9. Daginn eftir gerði aftakaveður á Flateyri sem ollu miklu tjóni og skriður féllu úr Steinafjalli undir Eyjafjöllum. All hvöss suðaustanátt var þennan dag á landinu með rigningu sunnanlands og vestan. 

1964 (2,5) Þessi febrúar var hluti af hlýjasta vetri sem komið hefur á landinu. Tiltölulega hlýjast var á Vestfjörðum og á Reykjavíkursvæðinu. Fyrstu fimm dagana var norðanátt og mikill kuldi og fór frostið í -21,6 stig þ. 5. á Grímsstöðum. Yfir tuttugu stiga frost kom þá líka í Borgarfirði. Frá og með þeim 6. ríktu hlýjar sunnanáttir og þann 7. fór hitinn í 15,1 stig á Seyðisfirði. Þessi skyndilega hláka olli miklum vatnavöxtum vegna leysinga víða um land. Síðasta þriðjung mánaðarins var hægviðrasamt og fremur lítil úrkoma. Snjólag var 29% eins og 1965 og hefur aðeins tvisvar verið minna. Mestur var snjórinn fyrstu dagana en snjólítið var eftir það. Ekki fór mikið fyrir snjómokstri.  Úrkoma var sérlega lítil fyrir norðan, til dæmis aðeins 2,8 mm á Grímsstöðum. Suðvestanstrengur var yfir landinu.

Bítlarnir komu fyrst fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum þ. 9. en Cassíus Clay varð heimsmestari í hnefaleikum þ. 24. og sama dag birtist fyrsta teikning Sigmunds í Morgunblaðinu. 

1956-2-thick-ev.png1956 (2,3) Þessi mánuður er alræmdur fyrir kulda á meginlandi Evrópu. Sums staðar er hann kaldasti mánuður sem mælst hefur, t.d. í Marseilles við Miðjarðarhafsströnd Frakklands en þar er hann eini mánuður  ársins sem hefur mælst undir frostmarki. Mikill ís var á Eystrasalti sem torveldaði siglingar. Mánuðurinn byrjaði hér með sunnan ofsaveðri fyrstu tvo dagana sem ollu margvíslegu tjóni víða; bryggjur skemmdust, brýr tók af, staurar brotnuðu, skriður féllu á vegi, þök fuku og fénaður fórst. Veðrið gekk niður þann þriðja en áfram voru hlýjar sunnanáttir og komst hitinn  13,2 stig þ. 8 á Hallormsstað. Eftir þ. 9 var einmuna veðurblíða  og vindur var yfirleitt fremur hægur. Upp úr miðjum mánuði kom þó stutt en ekki hart kuldakast og fór frostið þá í 18,9 stig þ. 17. í Möðrudal. Á Akureyri var mánuðurinn hlýrri en bæði 1964 og 1929, sem sé  þriðji hlýjasti febrúar. Snjólag var býsna mikið miðað við hlýindin, 51%.

Teiknimyndahetjan Denni dæmalausi birtist fyrst í dagblaðinu Tímanum þ. 15. en þ. 25. hélt Khrústsjov fræga ræðu þar sem hann afhjúpaði glæpi Stalíns.  

2003-2_1062349.jpg2003 (2,2) Ég tel þetta úrkomusamasta febrúar á landinu, úrkoma meira en 200% miðað við meðallagið 1931-2000. Hann er út af fyrir sig sá næst úrkomusamasti á Teigarhorni og þriðji í Vestmanaeyjum. Í rigningarbælinu í Vik í Mýrdal hefur aldrei mælst meiri úrkoma í febrúar, 322,2 mm (engar mælingar 1929). Mest mánaðarúrkoma var 553,2 mm á Kvískerjum, sú næst mesta þar í febrúar, en minnst 15,9 mm í Svartárkoti. Í Grímsey er þetta næst hlýjasti febrúar.  Kalt var fyrstu fjóra dagana, það gerði norðanbyl þ. 2. og aðfaranótt þ. 5. fór frostið í Möðrudal í 21,0 stig. Síðan voru hlýindi til mánaðarloka. Hlýjast varð á mannaðri stöð á Sauðanesvita 14,1 stig þ. 18. í sunnan ofsaveðri á  austfjörðum sem olli miklu tjóni á íbúðarhúsum á Seyðisfirði en þar komst hitinn þennan dag í 11,7 stig en vindhviða upp í 52,9 m/s. Daginn áður fór hitinn á sjálfvirku stöðinni á Siglufirði í 14,4 stig. Snjólag var 42%. Á Eyrarbakka vara alautt allan mánuðinn. Kortið sýnir úrkomu í prósentum frá meðallaginu 1961-1990 og er úr Veðráttunni.  

1926 (2,2) Talin einmuna veðurblíða um allt land, bæði til lands og sjávar en þó nokkuð óstöðugra síðari hlutann. Merkilegt nokk er þetta hlýjasti febrúar sem mælst hefur á  Teigarhorni, 0,1 stigi hlýrri en sjálfur 1932, og þar mældist mesti hiti mánaðarins, sem var reyndar aðeins 9,0 stig, þ. 27. Hiti var afar jafn alla daga, engin stórkostleg hlýindi en heldur ekki kuldar að heitið getið. Frost var bara fimm morgna í Stykkishólmi og aldrei meira en tvö stig en hiti líka aldrei meiri en fjögur stig. Lágmarkshiti á Stórhöfða var aðeins -0,7 stig, þ. 25. og er það hæsti lágmarkshiti veðurstöðvar í febrúar. Í Reykjavík mældist einnig hæsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst í febrúar, -2,2 stig þ. 26. og var þá vestanátt. Frost mældist þar þó í tíu daga en voru afskaplega væg og sólarhringsmeðaltal mun hafa verið eitthvað í kringum frostmark þegar kaldast var. Glettilega sólríkt var í höfuðstaðnum miðað við það sem gerist í hlýjum febrúarmánuðum. Snjólag var 26%. Alautt var meiri hluta mánaðarins frá Papey suður og vestur um til Vestfjarða. Seinni hluta mánaðarins var oft alhvítt norðanlands og stundum víða annars staðar. Alautt var alla daga í Papey og alla daga nema tvo á Teigarhorni, Hólum í Hornafirði, Stórhöfða og Eyrarbakka. Í Reykjavík var hins vegar alhvítt í  7 daga. Talsverður snjór var fyrir norðan fyrst í mánuðinum, 75 cm  á Húsavík þ. 1. og 50 cm á Grímsstöðum.  Suðaustanátt var mjög algeng fyrri hluta mánaðar vegna lægða suður eða suðvestur í hafi en síðar komu þær stundum nær landinu og ollu útsynningi og jafnvel smávegis norðaustanátt af hlýjasta tagi upp úr miðjum mánuði þegar hvasst var en víðast frostlaust. Alvöru norðankast kom hins vegar aldrei. Átti það ekki síst þátt í því hve mildur mánuðurinn var og hitinn jafn.  

Skopblaðið Spegillinn hóf göngu sína í þessum mánuði.  

1948 (2,1) Þetta var þegar síldin var vaðandi í Hvalfirði. Tíðarfarið var fremur óstillt og umhleypingasamt. Fyrstu dagana var veður oft rysjótt, stormur þ. 1. og hlaust tjón af og úrkomusamt, milt fyrst, en síðan kalt og þ. 8. fór frostið í 16,6 stig i Reykjahlíð við Mývatn. Frost voru þó aldrei mikil í þessum mánuði. Eftir miðjan mánuð var hæð fyrir austan land og mikil hlýindi, mest í Fagradal 12,0 stig þ. 29. Um það leyti voru miklir vatnavextir í Varmá í Ölfusi. Snjólag var það mesta í þessum tíu hlýjustu mánuðum, 58%. Á Grímsstöðum var alhvítt allan mánuðinn en á suður og vesturlandi voru um það bil helmingur daga alauður. Úrkoma var mikil á suður og vesturlandi, mest 230,5 mm í Kvígindisdal en lítil fyrir norðan og austan. Eftir þennan febrúar kom merkilegur mars, einn af þeim úrkomumestu en þá mældist líka mesti marshiti víða um land og mikil flóð voru í Ölfusá.  

Árni Þórarinsson prófastur, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um margrómaða ævisögu, lést þann fjórða. Kvikmyndagerðamaðurinn frægi Sergei Eisenstein dó þann 11. en þann 13. varð Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík og átti eftir að vera það lengi. Kommúnistar tóku völdin í Tékkóslóvakíu þ. 24. 

feb18-1959.jpg1959 (2,1) Eftir næst kaldasta janúar frá 1918 kom þessi úrkomusami og afar illviðrasami en hlýi febrúar. Í Stykkishólmi var úrkoma 219,5 mm, sú næst mesta, en mest var 227,4 mm árið 1930. Á Teigarhorni er þetta þriðji úrkomusamasti febrúar. Ég tel þetta næst úrkomusamasta febrúar yfir landið en úrkomusamastur er þá árið 2003. Bæði úrkomumagn og úrkomutíðni var mikil. Sums staðar á  suður og suðvesturlandi var úrkoma alla daga. Sólinni var þá ekki fyrir að fara og er þetta t.d. sólarminnsti febrúar á Akureyri. Þrumuveður voru óvenjulega tíð. Sérlega mikið þrumuveður var að morgni  þess 15. um vestan og sunnanvert landið og var þá vestan stórviðri og snjókoma um allt land. Þennan dag og daginn áður varð rafmagnslaust í Reykjavík og var talið að eldingu hafi slegið í línuna frá Sogsvirkjun og valdið skammhlaupi. Minnisstæðastur er þessi mánuður fyrir þá miklu mannskaða á sjó er þá urðu. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 30 mönnum, á Nýfundnalandsmiðum þ. 8. eða 9. í stórviðri og mikilli ísingu en nokkrir aðrir togarar náðu til hafnar við illan leik. Aðfaranótt þ. 18. (sjá kortið), daginn eftir að Júlí var opinberlega talinn af, fórst vitaskipið Hermóður með allri áhöfn, 12 manns, undan Höfnum á Suðurnesjum í stormi og stórsjó og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum í því veðri. Um daginn (þ. 17.) hafði hitinn á Seyðisfirði komist í 13,7 stig. Flesta daga í mánuðinum var hlýtt en stutt kuldakast kom í kringum þann 20. og daginn eftir mældist frostið -22,0 stig á Grímsstöðum. Snjólag var 54%. Það var mun minna en venjulega á norðausturlandi en í meira lagi á suðvesturlandi. Bæði alauðir og alhvítir dagar voru víða fremur fáir. Flekkótt jörð var einkenni  mánaðarins ásamt ilviðrunum. Kortið er úr Veðrinu 1959. 

Þann annan var fyrsti togarinn í landhelgisstríðinu við Breta tekinn og færður til hafnar. Daginn eftir fórust Buddy Holly, Richie Valens og The Bib Bopper í flugslysi og segja sumir að þá hafi lokið fyrstu rokkbylgjunni.      

1921 (2,1) Þetta er ellefti hlýjasti febrúar. Hann er hér nefndur vegna þess að hann er úrkomusamasti febrúar sem mælst hefur í Reykjavík, 242,3 mm. Mælanleg úrkoma féll alla daga nema einn og níu daga yfir 10 mm. Þessi mánuður er jafnframt næst sólarminnsti febrúar í bænum. Í Vestmannaeyjum var þetta líka einhver hinn úrkomusamasti febrúar. Mikill suðvestanstrengur var í lofti. Þegar þessi mánuður kom var hann áberandi hlýjasti vetrarmánuður síðan 1875. Á fyrra hlýindatímabilinu á tuttugustu öld var veturinn skjótari til að hlýna en aðrar árstíðir. Kannski má líta á þennan mánuð sem upphaf hlýindatímabilsins mikla sem hélst fram á hafísárin í mars 1965. 

Páll Bergþórsson: Tvenns konar veðurlag, Veðrið, 1, 1959. 

Skýringar.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu janúarmánuðir

Janúar 1918 (-9,6) er langkaldasti janúar síðan hitamælingar hófust hér á landi. Um þennan mánuð er fjallað á öðrum stað hér á bloggsíðunni. En hér verður drepið á þá janúarmánuði sem næstir eru í röðinni hvað lágan meðalhita varðar. 

1881 (-8,2) Næst kaldasti janúar virðist vera árið 1881. Hann var hluti af kaldasta vetri sem um getur í sögu mælinga, frá desember 1880 til mars 1881, en síðast taldi mánuðurinn var aðeins lítillega hlýrri en janúar 1918 en enginn mánuður ársins hefur nokkru sinni verið kaldari en hann. Janúar 1881 var hins vegar einni gráðu mildari að meðaltali en 1918 á þeim sex stöðvum sem mældu bæði árin, Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Hreppunum og Vestmannaeyjum. Á Teigarhorni var þessi mánuður hins vegar kaldari en 1918 og kaldasti janúar sem þar hefur mælst frá 1873. Einnig í Hreppunum er þetta kaldasti janúarmánuðurinn en þetta ár var þar mælt á Hrepphólum en 1918 á Stóranúpi.  Í Grímsey var lítill munur á mánuðunum en á vesturlandi var janúar 1881 til muna mildari en 1918.  

Veðurathuganastöðvar í janúar 1881 voru aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Siglufirði, Grímsey, Saurbæ í Eyjafjarðardal, Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði, Teigarhorni, Papey, Vestmannakaupstað, Hrepphólum og Eyrarbakka. Lægstur var meðalhitinn í Grímsey -13,1 stig en ekki var þetta ár mælt á þeim stöðvum sem vetrarkaldastir eru í byggð á Íslandi, Grímsstöðum og Möðrudal.

1881-1_11-500.gifMánuðurinn byrjaði vel og var víðast hvar frostlaust fyrstu níu dagana og á þrettándanum komst hitinn í 8,2 stig á Teigarhorni þegar hæð var suðaustur af landinu og dró yfir það milda sunnan og suðvestanátt. Eftir þetta kólnaði mjög og var 10-20 stiga frost næstu vikuna  nema syðst á landinu. Kuldakastið byrjaði með mikilli hríð fyrir norðan að kvöldi hins 9. Þegar hana lægði var oft stillt og gott veður nema hvað á austfjörðum voru stundum hríðar. Háloftahæð mjakaðist vestur fyrir land og hreiðraði um sig yfir suður Grænlandi. Það er einna verst staða fyrir slíkar hæðir fyrir okkur og draga þær þá yfir landið loft frá því norðan og norðvestan við Grænland. Gefur kortið kannski einhverja hugmynd um ástand mála. Loftþrýstingur í mánuðinum yfir landinu var líka nokkuð hár. Þann. 19. gerði vestanátt en nokkrum dögum síðar var veðrið undir áhrifum lægðasvæða sem þokaðist í átt að Bretlandseyjum en hæð var yfir Grænlandi. Heldur betur dró svo til tíðinda þann 28. Þá hvessti af norðaustri og fór að snjóa á suðuaustur og austurlandi. Daginn eftir var ofviðri og sums staðar var snjókoma og frostið var 20-30 stig. Næsta dag hvessti enn þó frostið mildaðist ofurlítið og var þá snjókoma víðast hvar. Mikil hæð var yfir austanverðu Grænlandi en lægð beint suður af landinu. Um kvöldið hlýnaði upp undir frostmark suðaustanlands með suðaustanátt og var hláka syðst á landinu síðasta dag mánaðarins og veðrið að ganga niður. Veður þetta er talið með þeim verstu sem yfirleitt gerast hér á landi og urðu víða miklir skaðar, ekki síst á Vestfjörðum. Kirkjan á Núpi í Dýrafirði fauk til dæmis út í hafsauga. Frægast er veðrið þó fyrir það að þá fórst póstskipið Phönix við Skógarnes á Snæfellsnesi vegna vinds og ísíngar en flestir sem um borð voru björguðust. Er veðrið oft kennt við þennan skaða og nefnt Fönixarbylur. Mesta frostið í þessu kasti mældist slétt 30 stig þ. 29. í Grímsey en -29,8 á Hrepphólum -29,4 á Siglufirði og -28,6 á Valþjófsstað í Fljótsdal. Í Reykjavík fór frostið niður í 20-21 stig alla dagana frá þeim 26.til 29. Fyrir norðan var ekki mikill snjór fyrr en undir lok mánaðarins. Allur Eyjafjörður var lagður  út undir Hrísey og mátti aka og ríða eftir honum endilöngum. Jónas Jónassen, sem þá hafði með höndum veðurathuganir í Reykjavik, lýsti tíðarfarinu í þessum eftirminnalega mánuði svo í Þjóðólfi 12. mars 1881. Mánaðarlegar veðurlýsingar Jónasar Jónassen fyrir Reykajvík í blöðunum ná alveg frá 1880  til 1907 og eru hinar merkustu veðurheimildir  

Bati sá, sem kom hinn síðasta dag hins umliðna árs stóð  eigi lengi, því brátt hófst norðanrok það, sem hélst við nálega allan mánuðinn með þeirri grimmdarhörku, að elztu núlifandi muna eigi slíkt. 3 fyrstu dagana var hægur útsynningur og síðan í 2 daga hægur landsynningur með nokkurri rigningu, en upp frá því og til hins 21. stöðugt norðanrok til djúpanna, þótt hér væri optastnær logn í bænum; 21.-23. var hér logn með talsverðri þoku og nokkrum brimsúg; 24. útnorðanhroði og uppfrá því stórvirði á  norðan, það sem eptir var mánaðarins með aftaka frosthörku; opt var hér logn i bænum þótt rokið næði heim að eyrum; aðfaranótt sunnudagsins, hins 30. var fjarskalegt ofsaveður á norðan með blindbyl; 30. nokkuð vægari en dimmur og gekk alt í einu um kveldið til austurs með frostleysu, en daginn eptir genginn í sama illviðrahaminn. Hinn 9. fór sjóinn hér að leggja og 18. var hann lagður langt út í flóa; 20. fór hann að losna og var að mestu horfinn 23. en 25. lagði sjóinn þegar aptur með helluís hér á milli allra eyja og lands og hélzt það út mánuðinn, svo síðasta dag mánaðarins sást eigi út fyrir ísinn hér í flóanum. Svo að kalla engin snjór hefir fallið.

1874 (-8,0) Í Árferði á Íslandi í þúsund ár, og er mest haft eftir Fréttum frá Íslandi 1874, segir um tíðarfarið: "Hina fyrstu viku ársins var skaplegt veður, þó býsna hart væri, en svo brá til hríða og illviðra og kyngdi niður miklum snjó víða og voru frosthörkurnar ákaflega miklar, og var vetur þessi einn hinn kaldasti og harðasti. Voru í janúarmánuði ofsalegar stórhríðir víða um land. Um miðjan janúar lagðist hafís að landinu og varð brátt samfrosta við lagnaðarísa á fjörðum; þegar ísinn var að reka að landi, 11.-12. janúar gerði stórhríðar nálega um alt land með ofsalegum stormum, einkum á Norðulandi og Austfjörðum; á Austurlandi var hríðin svo dimm og hörð, að menn á sumum bæjum komust ekki í fjárhús, sem í túninu voru, og reif stormurinn og skarinn heilar og hálfar þúfur, svo flögin voru eftir. Urðu þá víða skaðar á skipum, hjöllum og heyjum og 2 timburkirkjur (í Berunesi og Berufirði) tók upp og braut í spón. Þessa daga voru grimmdarfrost um allt land. 18° R (-22,5 C) í Reykjavík, 19° (-24 C) í Dalasýslu, 24-26° (-30 -32,5 C) víða norðanlands. Til mánaðarloka voru sífeldar kólgur og kafaldsbyljir, frost og fannkomur um alt land og jarðbönn fyrir hverja skepnu... Síðustu dagana í janúar og fyrstu dagana í febrúar gjörðu hláku ... '' Árbækur Reykjavíkur segja  svo: ''Vetur frá nýári var einhver hinn harðasti og kaldasti. Var hann því af sumum kallaður "svellaveturinn mikli" en af öðrum "Hreggviður stóri". Viku af nýári brá til hríða og illviðra. Kyngdi niður miklum snjó og voru frosthörkur ákaflega miklar. Dagana 11.-12. janúar gengu stórhríðar með ofsalegum stormum og grimmdargaddi (-18° R. [-22.5°C] í Rvík!).'' Frost mátti heita samfellt á þeim stöðum þar sem athugað var fram að hinum 25. en þá gerði smáblota og aftur þann 27. og fór hitinn þá á Teigarhorni í 7,4 stig. Enginn sólarhringur var alveg frostlaus í Stykkishólmi, Grímsey og Teigarhorni. Þrisvar fór frostið yfir 20 stig í Stykkishólmi, -20,4 þ. 14., -22,4 þ. 19. og -20,4 þ. 24. Þann 3. og 11. fór frostið rétt undir 20 stig í Grímsey og 17.-24. var mesta frost sólarhringsins þar 18-19 stig. Ljóst er að mjög miklar frosthörkur hafa ríkt á landinu dagana 7.-23. Loftþrýstingur var lágur og  stundum virðist sem  háloftakuldapollur hafi  beinlínis yfir landinu eða nálægt því. Oft snjóaði. Bjarndýr komu á land í mánaðarlok, bæði á Austfjörðum og fyrir norðan og vestur á Ströndum. Voru tvö unnin á Brekku í Mjóafirði og nokkur annarstaðar. Úrkoman í öllum mánuðinum var 86 mm í Stykkishólmi, 51 mm í Grímsey en aðeins 36 mm á Teigarhorni. Einungis  á þessum stöðum var úrkoma athuguð þennan mánuð. 

Konungur staðfesti stjórnarskrá fyrir Íslendinga þann fimmta janúar.

1866 (-6,0) Ef miðað er við Reykjavík og Stykkishólm, sem lengst hafa athugað, virðast janúar 1867 og 1866 koma næstir í röðinni hvað kulda varðar í janúar en þá var eingöngu athugað á þessum stöðum og var 1867 kannski ívið kaldari. Árið 1866 var talið eitt mesta harðindaár nítjándu aldarinnar. Lágu þá hafþök af ísi fyrir vestfjörðum, norðurlandi og austfjörðum, og kom ísinn þegar 14. janúar að Sléttu og Langanesi. Á Akureyri virðist meðalhitinn hafa verið -8,8 stig sem er þó heilu stigi mildara en 1886 sem telst næst kaldasti janúar á Akureyri frá og með 1882. Ekki hlánaði allan mánuðinn í Stykkishólmi en aðeins einu sinni fór frostið niður fyrir 20 stig, -20,3 þ. 29. Úrkoma var 38 mm sem er lítið en eitthvað kom þó úr loftinu í 14 daga. Veðurathuganir Jóns Þorsteinssonar voru löngu aflagðar á þessum tíma í Reykjavík en Þórður Jónassen dómsstjóri, faðir Jónasar, hafði um hönd einhvers konar athuganir. Í Þjóðólfi birtist 28. febrúar yfirlit yfir hitann að Landakoti í Reykjavík í mánuðinum. Hér er frá þessu sagt því ekki er svo sem um auðugan garð að gresja hvað veðurupplýsingar varðar frá þessum tíma í Reykjavík. Hitinn er tilgreindur í R gráðum í blaðinu en verður hér færður yfir í C stig eins og við erum vön. Fram kemur að mestur hiti hafi orðið 2,9 stig þ. 4. og 7. en mest frost -18,0 stig þ. 11. Hlýjasta vikan hafi verið 4.-10. að meðaltali 5 stiga frost en kaldasta vikan vae 17.-23. þegar frostið var að meðaltali -9,2 stig. Á suðurlandi voru stórhríðar og blotar í byrjun ársins að því er helst má ráða eftir Árferði á Íslandi í Þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen. Af þeirri merku bók er þó næsta lítið að græða oft og tíðum um veðurfar einstakra mánaða en meira hvað heilu árstíðirnar varðar. Árbækur Reykjavíkur segja að í ársbyrjun hafi verið meiri háttar snjókoma í bænum. Loftþrýstingur í Stykkishómi var lágur í þessum mánuði.

Ísafjörður fékk kaupstðaréttindi þ. 24.

1867 (-6,2) Úrkoman í Stykkishólmi var enn minni í janúar 1867 en janúar 1866, aðeins 12,5 mm. Ekki hlánaði þar nema dagana 25.-27. Kaldast varð -17,8 stig þ. 8. en hitinn fór í 2,8 stig þ. 27. Þann 22. janúar lýsti Þjóðólfur svo tíðarfarinu í Reykjavík: ''Síðan um jól hafa gengið einstök staðviðri hreinviðri (svo skrifað) og lignur fram á þennan dag; frosthart nokkuð fyrra helming mánaðarins, og þó aldrei meira hér en rúmar 14 R (-17,5 C). Varla munu elztu menn muna jafn lángar stillur og logn í Janúarmánuði eða jafnlítil ísskrið á sjó með slíku frosti, er þó hefir verið, eins og nú. Faxaflói fjær og nær hefir verið eins og rjómatrog, og varla nokkurn dag matað í fuglsbríngu, en himinn optast heiður og skýalaus; hafi skýagráða dregið upp, þá hefir hann verið farlaus og svo mildur og gagnsær einsog þegar bezt viðrar hér í Maí og Júní; loptþýngdarmælirinn hefir og haldizt stöðugt á ''fögru og og góðu veðri'' allan mánuðinn, fram til þessa dags. Eptir þessu hafa gæftirnar verið yfir allt, og fiskiaflinn einstakur hér syðra um Garðsjó og Miðnes.'' Þjóðólfur segir svo frá því 8. febrúar að hlýjast hafi orðið í mánuðinum 0,6 stig þ. 26. (hér breyti ég aftur R gráðum yfir í C stig) en kaldast -15 stig þ. 12. Hlýjast var vikuna 23.-29. -2,1 stig að meðaltali en kaldast vikuna 7.-13. -13,5 stig. Virðist þessi janúar hefur verið fremur hægviðrasamur frostamánuður með ríkjandi norðaustanátt yfir landinu.

1886 (-5,6) Á Akureyri er þetta næst kaldasti janúar frá því samfelldar athuganir hófust þar 1882 en á sama tímabili var kaldara í Grímsey í janúar 1902. Mesta frost mánaðarins mældist einnig á Akureyri, -22,0 stig. Á Hrísum inni í Eyjafjarðardal var meðalhitinn -10,3 stig og var hvergi kaldara á landinu en ekki var mælt í Möðrudal. Eyjafjörður var lagður út fyrir Hjalteyri. Snjór var mikill á Akureyri en þó enn meiri Skagafirði og Þingeyjarsýslum að sögn blaðanna. Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi: ''Þegar með nýári hófust harðindi með snjógangi og allmiklu frosti og hjelzt sú veðrátta allan janúar og mestan febrúar, og var þá farið að skera af heyjum sumstaðar á Suðurlandi. Hinn 3. og 4. janúar var mikil hríð um Norðurland og fórust þá nokkrir sauðir á fáeinum bæjum í Suður-Þingeyjarsýslu, er úti höfðu legið til þess tíma, en hinn 7. jan. tók út yfir, var þá snjóbylur með afspyrnuroki, sem einkum gerði skaða á  Austurlandi, kirkja nýsmíðuð á Kálfafellsstað fauk og brotnaði, hjallar og skip skemdust víða og um þúsund fjár fórst þar i því veðri. Snjókoma var afarmikil i hríðum þessum, og i Húnavatns og Skagafjarðarsýslum var fannfergjan svo mikil, að sætti fádæmum.'' Eftir þennan illviðriskafla var veðurlag mjög óstöðugt og hljóp úr einni áttinni í aðra um um tíma. Upp  úr miðjum mánuði kom hins vegar um það bil tíu daga kafli með lítilli úrkomu og háum loftþrýstingi og hægum vindum. Kuldar ríktu áfram en fóru þó minnkandi og var bjart yfir á suðvesturlandi enda var áttin oft austlæg eða norðaustlæg. Smá blotar komu syðst á landinu 9.-13. og 23.-24. en loks barst ofurlítið hlýrra loft að um land allt þ. 27. og nokkru síðar komsts hitinn í 6,7 stig á Sandfelli í Öræfum en um það leyti rigndi mikið í Reykjavík. Úrkoma var þar um meðallag en annars staðar vel undir því.

Jónassen lýsti tíðarfarinu svo í nokkrum tölublöðum Ísafoldar: 

´´... Nýársdag snjóaði hjer talsvert að kveldi, og aðfaranótt h. 2. fjell hjer talsverðnr snjór og um kveldið h. 2. var hjer um tíma blindöskubylur af austri og það hvass; gekk svo sunnudaginn (3.) til norðurs, bráðhvass og snjóaði hjer talsvert; allan þann dag var hjer moldviðrisbylur. Aðfaranótt mánudags (4.) var hann bráðhvass á norðan, lygndi um miðjan dag Og varð rjett að kalla frostlaust, austanlandnyrðingsgola; í dag 5. nokkuð hvass á austan, bjart veður fyrir hádegi, síðan dimmur með byl. (6.jan.) - Umliðna viku hefir verið hin mesta óstilling á veðri, hlaupið úr einni áttinni í aðra sama sólarhringinn; h. 6. var hjer bráðviðri á úts. (Sv) að kveldi; rauk aðfaranótt h. 7. á norðan með moldöskubyl með gaddi. Snjór hefir fallið hjer mjög mikill þessa vikuna ; í gærkveldi (11.) fór að rigna hjer af landsuðri eptir undangangandi moldöskubyl af austri, frá því um miðjan dag, en um miðnætti var hann genginn til útsuðurs. Í dag (12.) hvass og dimmur á úts. (Sv.) með haglhryðjum og blindbyljum; allbjart þess á milli. Loptþyngdarmælir er á einlægu iði allan sólarhringinn. (13.jan) - Fyrra miðvikudag (13.) var hjer logn og fagurt veður fram yfir miðjan dag; síðan gekk hann til austurs með blindbyl og svo til landsuðurs seinna um kveldið og var hvass, gekk aðfaranótt h. 14. til úts. (Sv.) með byljum og miklu brimróti til sjáfarins; rauk svo á norðan og hefir síðan verið á þeirri átt, opt rokhvass; þessa síðustu dagana hefir hjeðan að sjá verið blindbylur allan daginn efra til sveita. Í  fyrradag fór sjóinn að leggja hjer fram á víkina (hroði). í dag (19.) fagurt veður, logn, en hvass til djúpanna. Loptþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið lágt, þangað til í fyrradag, að hann fór óðum að hækka og er nú mjög hátt í dag og sækir enn hærra, svo útlit er fyrir betra veður. 20.jan. – Viku vantar hér inn í frá Jónassen. - En Ísafold segir þ 27.: ´´Enn er sama hellan yfir allt af snjókyngi og klaka; fær varla fugl í nefn sitt, hvað þá nokkur ferfætt skepna. Er sömu tíð að frétta af norðan með vermönnum. En staðvirðri hafa nú verið í vikutíma.´´ Jónassen aftur: Framan af þessari viku brá til landsynnings með talsverðri rigningu; hjer var húðarigning um kveldið h. 28., en aðfaranótt h. 29. fór að snjóa aptur og kyngdi hjer ákaflega miklum snjó niður þá nótt; síðan hefir verið hægviðri og má heita að verið hafi logn daglega og fagurt veður. …´´ (3. febr.)

Hilmar Finsen fyrrverandi landshöfðingi dó þann 15. 

1902 (-4,2) Hafís var við Siglufjörð og víðar fyrir norðan og í mánaðarlokin varð vart við ís fyrir austurlandi. Í Grísmey er þetta fjórði kaldasti janúar eftir 1918, 1881 og 1874. Talsvert snjóaði fyrir norðan. Fyrstu dagana var norðanátt.  Yfir suðurland gekk hins vegar suðvestan ofsaveður á þrettándanum og olli skemmdum í Reykjavík og Hafnarfirði. Var talsveður snjór í Reykjavík þegar veðrið skall á og framundir miðjan mánuð. Oftast var kalt en þó kom dágóð hláka í tvo til fjóra daga eftir landshlutum um miðjan mánuðinn. Á Teigarhorni fór hitinn 13,2 stig þ. 15. og var það reyndar mesti hiti sem þá hafði mælst á landinu í janúar þó það segi samt ekki mikið vegna fæðar athuganastöðva. Mikil rigning var þá sunnanlands. Tvö mikil kuldaköst komu. Það fyrra 9.-13. þegar lágmarkshitinn í Reykjavík var 11 til 16 stiga frost hvern dag en hið síðar var 25.-28. og var enn kaldara en hægviðrasamt var þá. Lágmarkshitinn var þá 10 til 18 stiga frost í bænum og tvo daga, 26. og 27., fór hámarkið ekki yfir -10 stig. Kaldast varð á aftur á móti á Möðrudal,  -28,2 stig. Á Möðruvöllum fór frostið í -25 stig og -21 á Akureyri. Milli kastanna var oft útsynningur með éljum suðvestanlands. Síðustu tvo dagana var hláka í suðaustan átt með 7-8 stiga hita í Reykjavík. Úrkoma var um eða yfir meðallag nema á austfjörðum þar sem hún var aðeins um helmingur þess og á Eyrarbakka þar sem hún var nokkuð mikil. Jónassen segir um veðrið í Þjóðólfi 7. febr.: ´´Fyrstu daga mánaðarins var norðanátt, gekk svo til norðurs, hægur með miklu frosti frá 9. til 14., er hann gekk til sunnanáttar og svo til útsuðurs með éljum og var ofsaveður h. 22., hefur síðan verið við austan- sunnanátt með regni, svo hér er nú alauð jörð.´´

1979 (-4,1) Eftir 1918 er janúar 1979 sá kaldasti á öllu landinu. Og hann er hér talinn sá áttundi kaldasti frá 1866. Þó mönnum hafi þótt þessi mánuður erfiður var hann samt barnaleikur í samanburði við köldustu janúarmánuði á fyrri tíð. Hann var til dæmis um sex stigum mildari en janúar 1918. Hins vegar var hann á öllu landinu 3,7 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Meðalþykkt mánaðarins, milli 1000 og 500 hPa flatanna,  sem mælir í raun meðalhitann í öllum lofhjúpnum þar á milli, var aðeins kringum 5180 metrar yfir Keflavik en er venjulega kringum 5250 metrar. Lægstur var meðalhitinn á veðurstöð -10,3 stig á Möðrudal en hæstur -1,9 stig í Vík í Mýrdal og á Stórhöfða. Hláka var dagana 17.-20 og smábloti þ. 5. og 23. en annars voru frostin linnulaus í stöðugri norðanátt. rrea00119790126_1059342.gifEkki er algengt, þó um hávetur sé, að hiti fari hvergi yfir frostmark á landinu nokkra daga í röð. Það gerðist þó dagana 9.-12. Sex aðra staka daga komst hámarkshiti hvergi yfir frostmark. Kaldast var þ. 11. þegar dagsmeðalhiti var talinn 11 stig undir þágildandi meðallagi á öllu landinu en í sveitunum fyrir norðan var sums staðar 17-18 stiga frost að meðaltali. Þann 13. mældust hins vegar mestu einstöku frostin, -30,7 stig í Möðrudal (-30,4 daginn áður), -27,7 á Grímsstöðum og -26,6 stig á Brú á Jökuldal. Frost fór víða um land yfir 20 stig í mánuðinum. Síðasta daginn var t.d. 25 stiga frost á Búrfelli og 21-22 stiga frost í Borgarfirði, á Hellu og Þingvöllum. Meðaltal lægsta dagshita á landinu öllu var -17,3 stig. Bjart var oft yfir á suðurlandi og er þetta fjórði sólríkasti janúar í Reykjavík. Kortið sýnir stöðu sem ekki var óalgeng við jörð og hærra uppi, hæð yfir Grænlandi og hæðarhryggur um Ísland en lægðir austan við land. Úrkoman var aðeins rúmlega helmingur af meðalúrkomu á landinu. Hún var lítil á vesturlandi, aðeins 4,3 mm á Reykhólum, en mikil á norðausturlandi. Mest mánaðarúrkoma mældist 210 mm á Kvískerjum. Snjólag var 87%. Mátti víða heita vetrarríki. Á norðausturlandi og austurlandi var jörð yfirleitt alhvít og jafnvel sums staðar í uppsveitum sunnanlands. Alauðir dagar voru nokkrir sums staðar á vesturlandi en hvergi annars staðar. Þann 5. var vestan stormur og rok á suðvestur og  vesturlandi og varð þar þá gífurlegt tjón á rafmagns og símalínum vegna ísingar. Víða varð rafmagnslaust.

Þann 16. var Íranskeisara steypt af stóli og Khómení æðsti klerkur tók við valdataumunum. 

1936 (-3,9) Á hlýindatímabilinu sem hófst á þriðja áratug 20. aldar og stóð í 40 ár var enginn janúar eins kaldur og þessi. Norðan og norðaustanátt var nær óslitinn allan mánuðinn en yfirleitt ekki hvöss og logn voru algeng. Í Reykjavík hlánaði ekki samfleytt í tíu daga frá 4. -13.  og tveir aðrir fjögurra daga samfelldir frostakaflar komu síðar. Það var ekki fyrr en allra síðustu dagana að hlýnaði að ráði þegar áttin varð austlægari og komst hitinn í 7,0 þ. 28. á Sámsstöðum í Fljótshlíð og daginn eftir á Kirkjubæjarklaustri. Rétt áður, í lok langvarandi norðanáttarinnar, varð kaldast á landinu, -25,0 stig á Grímsstöðum þ. 26. og 27. 1936-1_19-500_1059338.gifMerkilegastur er mánuðurinn fyrir það hve þurrviðrasamur hann var. Að mínu tali er hann þurrasti janúar á landinu, aðeins 24% af meðalúrkomunni 1931-2000. Á öllu svæðinu frá Fagurhólsmýri í austri og  vestur og norður um allt til sunnanverðra Vestfjarða hefur aldrei mæst eins lítil úrkoma í janúar á stöðvum sem þá mældu og enn mæla, Reykjavík, Stykkishólmi,  Vestmanneyjum, Hæli, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustri (9,4 mm), Vík i Mýrdal (26,6), Sámsstöðum (1,6), Þingvöllum (3,8), Hvanneyri (1,5), Arnarstapa (7,6), Hellissandi (5,9),  Lambavatni (3,1) og Kvígindisdal (4,8 mm). Úrkomudagar voru aðeins einn til tveir á suðurlandsundirlendi og alls staðar færri en tíu á suður og suðvesturlandi en á norðurlandi var einhver úrkoma kringum helming allra daga en yfir 20 við austurströndina. Á þurrkasvæðunum var vatnsskortur til vandræða og gerði sums staðar rafveitum erfitt fyrir. Hægt var að ganga yfir Skerjafjörð á ísi um miðjan mánuðinn. Snjólag var 79% á landinu. Á Fagurhólsmýri og Kirkjubæjarklaustri var alautt allan mánuðinn en víða var alhvítt alveg frá norðanverðum Vestfjörðum til norðausturlands og einnig sums staðar á vesturlandi. Á suðurlandsundirlendi var alhvítt þrjá til tíu daga. Mest snjódýpt mældist 109 cm á Grímsstöðum þ. 28. en 101 cm á Skriðulandi í Kolbeinsdal. Á þessum árum var svona mikil snjódýpt sjaldgæf þar sem hún var mæld á annað borð sem var reyndar óvíða. Á suður og vesturlandi var mest snjódýpt aðeins 1-5 cm. 

Þann fjórða birtist fyrsti vinsældalistinn í ameríska poppmúsikblaðinu Billboard.          

1892 (-3,7) Loftþrýstingur var óvenjulega lágur í þessum mánuði sem minnir reyndar nokkuð á janúar 1920. Veðráttan var mjög óstöðug, ýmist snjókoma með frosti eða blotar með hvassviðri. Hafís var að flækjast fyrir norðurlandi. Fyrri hluti mánaðarins var talsvert kaldari en sá síðari sem aftur var úrkomusamari og snjóaði þá iðulega á suðurlandi. Á nýársdag var útsynningur með brimróti suðvestanlands en daginn eftir gekk í bálhvassa norðanátt. Sérlega kalt var dagana 5.-7. og komst frostið í -25,2 á Möðrudal. Lagði Skerjafjörð allan og höfnina í Reykjavík í þessum kuldum. Veðráttan var síðan afar umhleypingasöm. Í landsynningi miklum og hvössum fór hitinn í 7,9 stig í Vestmannaeyjum þ. 26. og mældist ekki meiri á landinu. Sama morgun var úrkoman 55,7 mm í Reykjavík. Er það mesta sólarhringsúrkoma sem nokkurn tíma hefur mælst í höfuðstaðnum í janúar. Úrkoman var í meira lagi á landinu nema á austfjörum og sérstaklega var hún tiltölulega mikil i Reykjavík. Munaði þar mikið um metúrkomudaginn. Svo lýsir Jónassen tíðarfarinu í Ísafoldarblöðum: 

... hljóp svo í útsuður með jeljum síðari hluta h. 1. með brimróti; í dag (2.) bálhvass á norðan með gaddi. (2.jan.) - Hinn 2. hvass allan daginn á norðan svo logn og bjart veður. 3. hægur austankaldi síðast um kveldið: útsynningur með slyddurigningu fram undir kveld h. 4., er hann gekk til útnorðurs og svo í norður, hvass og kaldur h. 5. Í dag (6.) bálhvass á norðan. 6. jan. - Norðanveður mikið h. 6. og 7. en gekk þá ofan síðari part dags og gekk til austurs með hægð, rjett logn; hinn 8. var hjer logn allan daginn og drö úr kuldanum og fór að snjóa lítið eitt að kveldi. Í dag (9.) logn og fagurt vcður. (9. jan.)  - Hinn 9. var hjer bjart og fagurt veður, logn; svækjurigning en logn næsta dag (10.), gekk svo til norðurs, hvass útifyrir, en fjell úr áttinni fljótt aptur, hjer logn; aðfaranótt hins 12. gekk veður til landnorðurs með kafaldsbyl allan daginn. Í dag (13.) genginn aptur til norðurs, nokkuð hvass. (13. jan.) - Sama norðanveðrið með skafrenningsbyl h. 13. og 14. með miklum gaddi, að morgni hinn 15. hægur á norðan síðan hægur austankaldi fram yfir miðjan dag en svo genginn aptur til norðanáttar hvass um kveldið en frostvægur. Í morgun (17.) kominn á austan með slyddubyl (kl. 9 morgun 0°) koldimmur. (16. jan.) - Síðari part h. 16. fór að rigna rigndi mikið um kveldið; næsta dag hvass á austan-landsunnan með mikilli rigningu, logn að kveldi. hinn 18. hægur á sunnan og regn, gekk til útsuðurs með jeljum siðast um kveldið; rokhvass um tíma af útsuðri (Sv) aðfaranótt h. 19., en eigi hvass. í dag (20.) sami útsynningur með jeljum. (20. jan.) - Hinn 20. útsynningur, hvass í jeljunum; um kveldið gekk hann allt í einu til austurs með slyddubyl og gjörði ákaflegt öskurok, sem stóð fram undir morgun, er hann gekk í útsuður með jeljum; 22. hægur á útsunnan með ofanhríð. Í  dag (23.) hægur á austan með snjókomu. Loptþyngdarmælir fjell óvanalega lágt síðari part nætur (aðfaranótt h. 21.) allt niður í 705 millimetra. (23. jan.)  - Hægur á austan h. 23.; gekk svo til útsuðurs með jeljum h. 24. Hægur á austan fyrst um morguninn h. 25., en fór að hvessa fyrir hádegi á austan-landsunnan, hvass með úrhellis-rigningu og hjelt því þangað til kl. 4 5 e. m., er hann lygndi og gekk í útnorðrið. Síðan við útsynning annað veifið, á sama sðlarhringnum allar áttir. Í dag (27.) vestanhroði í morgun með ofanhríð. (27. jan.) - Hinn 27. var hjer svo að kalla logn allan daginn, gekk til útsuðurs um kvöldið hægur með jeljum, hægur austankaldi h. 28. Að morgni h. 29. var hjer austankafald, koldimmur, gekk svo fyrir hádegi til suðurs með krapaslettíng svo í útsuður og litla stund aptur til austurs og svo allt í einu i útnorður eptir miðjan dag hvass með brimhroða miklum í sjónum.  Í dag (30.) logn og bjart veður í morgun. (30.jan.) - Hinn 30. var hjer logn og fagurt veður allan fyrri part dags, hægur austankaldi síðari partinn; h. 31. á landnorðan með moldviðrisbyl, gekk til norðus og birti upp eptir hádegið, nokkuð hvass ...) 3.febr.).  

Tveir aðrir janúarmánuðir voru svipaðar að  hita og 1892.    

1959-1-t-an_1059324.png1959 (-3,7) Þetta var kaldasti janúar á landinu frá 1936 og kom ekki annar kaldari fyrr en 1979 og enginn jafn kaldur eftir það. Tíð var talin hagstæð um sunnanvert landið og um meginhluta vesturlands, en hörð á norður- og norðausturlandi. Hæð var þá yfir Grænlandi og var landið undir áhrifum hennar en lægðir voru yfirleitt langt í burtu, norðaustan við land eða yfir sunnanverðum Norðurlnöndum,  þar til undir lok mánaðarins. Kuldaloppa var yfir landinu eins og sést á kortinu er sýnir frávik frá meðalhita 1968-1996. Fyrstu þrjár vikurnar var óvenju kalt. Hámarkshiti fór yfirleitt ekki yfir frostmark og nokkra daga um miðjan mánuðinn komst lágmarkshiti niður fyrir 20 stiga frost í innsveitum á Norðausturlandi, mest -28,0 stig í Reykjahlíð þ. 11. og daginn eftir á Grímsstöðum.  Þar fór frostið svo í 20 stig eða meira hvern dag þ. 12.-17. Meðaltal lægsta dagshita á landinu var -14,7 stig. Sunnan lands  var þurrt að mestu og oft heiðskírt en snjóaði fyrir norðan. Þetta er sólríkasti janúar sem mælst hefur í Hornafirði en þriðji sólríkasti í Reykjavík þar sem enginn úrkoma mældist fyrr en þ. 23. Þar hlánaði ekki frá þ. 3.-23. nema lítillega þ. 11. Síðustu vikuna hlýnaði mjög og fór hitinn í 12,3 í Fagradal þ. 27. og aftur 31. á Siglunesi. Urðu þá víða vatnavextir.    

Fidel Castró hélt inn í Havana þ. 3. og tók völdin sama dag og Alaska varð 49. ríki Bandríkjanna. Þann 8. varð De Gaulle forseti Frakklands en þ. 10. var söngleikurinn geysisvinsæli Delirum Bubonis frumsýndur í Reykjavík. 

1920 (-3,6) Veðurstofan tók formlega til starfa fyrsta dag þessa mánaðar en Þ. 17. var þar fyrsta veðurkortið teiknað. Umhleypinga og snjóasamt var. Í heild hefur þessi vetur verið talin allra vetra snjóamestur á suðurlandi þó snjóamælingar hafi ekki verið byrjaðar. Er þetta byggt á lýsingum samtíðarmanna á snjóalögum. Mesti snjórinn var þó í febrúar og mars þó mikill hafi hann líka verið í janúar. Svo segir i Búnaðarritinu Freyr um þennan vetur: ''Eftir nýár gerði harðindi, frost og hríðar. Var veturinn eftir það einn samfelldur harðindabálkur, og því meir, sem lengra leið fram á hann. Ýmist norðanhríðar og frost eða vestanátt og útsynningur með feiknar snjókomu''. Kuldi ættaður úr heimskautasvæðinum í vestri var oft yfir landinu. Ekki voru lágmarksmælingar á Grímsstöðum  þennan mánuð en á athugunartímum varð þar aldrei frostlaust sem er sjaldgæft þó um vetur sé. Kaldast var þar lesið á mæli -19,9 stig kl. 21 að íslenskum miðtíma þ. 3. og varð hvergi kaldara á landinu. Daginn eftir á sama tíma mældist reyndar mesti hitinn á Grímsstöðum í mánuðinum -0,7 stig! Og næsta dag mældist svo mesti hiti mánaðarins á landinu, 8,2 stig á Teigarhorni.     

Áfengisbann var sett í Bandaríkjunum þ. 16.   

1956 (-3,2) Þetta er sextándi kaldasti janúar frá 1866 en sjöundi kaldasti frá aldamótunum 1900 og 1901. Hans er hér getið fyrir það hve lengi hiti fór ekki upp fyrir frostmarkið í Reykjavík en það var alveg frá 6.-25. eða í 21 dag og þekkjast ekki dæmi um annað eins. Fór frostið í bænum undir lok kuldakastsins niður í 17,1 stig. Reykjavíkurhöfn var farið að leggja. Á ftir þessum mánuði kom einn af hlýjustu febrúarmánuðum hér á landi en þá voru einhverjir mestu kuldar sem um getur á tuttugustu öld í Evrópu.  

Friðrik Ólafsson sigraði á skákmótinu í Hastings þ. 6. ásamt Korsnoj og þ. 17. hófst sögufrægt einvígi milli hans og Bent Larsens í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Little Richard birtist fyrst á vinsældlagalista í Bandarikjunum.   

Fram eftir nítjándu öldinni voru ýmsir mjög kaldir janúarmánuðir. Eftir mælingum hér og hvar á landinu sem áætlaðir hafi verið til Stykkishólms var 1814 kaldastur en 1808 var litlu mildari. Voru þessir mánuðir svipaðir og 1881, sem sagt kaldari eftir mælingunum en allir janúarmánuðir nema 1918. Og Það hafa þeir líklega verið þrátt fyrir ýmsa annmarka á mælingunum sem gera mælingarnar illa samanburðarhæfar við mælingar frá því um miðja 19. öld og síðar. Janúarmánuðirnir 1835 og 1856 voru í ætt við 1866 og 1867, en nokkru mildari, svipaðir og 1886 voru svo mánuðirnir 1809, 1816, 1817, 1839, 1840, 1843, og 1853. Allt eru þetta mánuðir sem voru kaldari eða þá svipaðir þeim allra köldustu sem við þekkjum frá hlýindaskeiði okkar aldar og þeirrar síðustu, að 1918 frátöldum sem er sér á paarti. Sýnir þetta vel hve miklu harðari veðráttan var á 19. öld en okkar tímum. 

Á fylgiskjali má sjá hitann í köldustu janúarmánuðunum frá 1866 á þeim níu stöðvum sem lengst hafa athugað og einnig úrkomuna.Einnig er skjal þar sem sjá má lágmarkshita hvern sólarhring á landinu í janúar 1959 og 1979.

Skýringar.

Trausti Jónsson: Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn 46. 1977.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýjustu og köldustu mánuðir á Íslandi - Skýringar

Nú verður hleypt af stokkunum hér á síðunni nýjum flokki pistla um hlýustu og köldustu mánuði á Íslandi. Farið verður yfir alla mánuði ársins. Janúar birtist mjög bráðlega en síðan er ætlunin  að pistlar birtist mánaðarlega um viðkomandi mánuð, einn um tíu hlýjustu mánuði, annar um tíu köldustu. Eldri og ágripskenndari pistlar um efnið standa þangað til nýir leysa þá af hólmi en  þá verður þeim gömlu eytt. Hér á eftir er skýrt út  hvernig ég hef að þessu staðið.      

Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því hverjir eru hlýjastir eða kaldastir mánaða á öllu landinu. Framan af voru mælingar á mjög fáum veðurstöðvum og þó þeim hafi síðan fjölgað var dreifing þeirra lengi misjöfn um landið. Flutningar veðurstöðva  hafa einnig verið algengar jafnvel þó á sama stað sé og umhverfi þeirra hefur tekið breytingum vegna bygginga og trjágróðurs. Auk þess hefur mælitækni breyst, sérstæð hitamælaskýli hafa til dæmis leyst gömlu veggskýlin af hólmi. Allt hefur þetta áhrif á mælingarnar. Ekki er því víst að allir síðari mánuðir séu í rauninni hiklaust sambærilegir við eldri mánuði í samanburði. Þar við bætist að hitamunur milli mánaða á sumrin er oftast litill  og munur milli eldri og yngri mánaða getur stafað af breyttum mæliaðstæðum fremur en raunverulegum hitamun en á vetrum er mismunur milli mánaða meiri.

Í þessum bloggpistlum verður  samt reynt að finna hlýjustu og köldustu mánuði yfir allt landið.  

Miðað er við þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað. Þær eru Reykjavík, Stykkishólmur, Teigarhorn, Grímsey, Vestmannaeyjar, Hrepparnir, Akureyri, Bolungarvík og Fagurhólsmýri. Þær sjást hér á kortinu.9stodvar_1056102.gif Ef smellt er á það stækkar það og skýrist. Í Hreppunum var athugað á Hrepphólum 1880 til 1882, Stóra-Núpi 1883-1929 en síðan á Hæli. Tölurnar frá Bolungarvík eru bræðingur frá nokkrum stöðvum þar í grennd og Bolungarvík sjálfri sem mældi ekki alltaf en eru allar miðaðar við hana. Ekki hef  ég þó gert bræðinginn sjálfur fremur en aðrar bræðslur í allri þessari samsuðu nema hvað ég færði meðalhitann 1954-1993 til Bolungarvíkur frá Æðey eftir föstum mismun milli staðanna. Í Vestmannaeyjum var athugað í kaupstaðnum fram í september 1921 en eftir það á Stórhöfða og hitinn miðaður við hann fram til þess tíma. Mismunur stöðvanna er talinn 0,75 stig í öllum mánuðum. Vilji menn finna raunverulegan meðalhita eins og hann var mældur í kaupstaðnum er þá bara að hækka sem þessu nemur.  Árin 1898 til 1902 var athugað á Sandfelli í Öræfum en tölurnar yfirfærðar á Fagurhólsmýri sem byrjaði 1903. Mannaða stöðin í Grímsey var lögð niður í árslok árið 2000 og Fagurhólsmýri í maí 2008 og hér hefur eftir það verið miðað við meðalhita sjálfvirku stöðvanna þar.  Á hinum stöðvunum var mælt allan tímann á sama stað (þó oft hafi veðurathuganastöðin samt verið flutt um set) nema hvað tölurnar fyrir Reykjavík hafa talsvert verið ''lagfærðar'' vegna tíðra flutninga veðurstöðvarinnar en eru allar miðaðar við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar. 

Frá 1898 hefur verið athugað samtímis á öllum ofantöldum stöðvum. Frá 1882 til 1897 var athugað á fyrstu sjö stöðvunum sem að ofan eru nefndar. Meðalhiti þessara sjö stöðva 1961-1990 er nánast sá sami og allra stöðvanna níu. Það hefði alveg verið hægt að miða við meðalhita sjö stöðva en það er meira gaman að hafa þær níu. Frá 1866 til 1872 voru aðeins tvær stöðvar, Reykjavík og Stykkishólmur. Teigarhorn bættist við árið 1873 en Grímsey árið eftir. Í júlí 1877 byrjuðu  Vestmannaeyjar. Hrepphólar bættust við í júní 1880 og Akureyri í ársbyrjun 1882. Loks byrjuðu Bolungarvík og Fagurhólsmýri 1898.  

Frá 1898 er hér einfaldlega reiknaður meðalhiti allra 9 stöðvanna sem mældu. Til að finna  meðalhita fyrir 1898, alveg frá 1866, var meðalhiti þeirra stöðva sem  mældu viðkomandi ár reiknaður og tekið meðaltal af honum og gert ráð fyrir því að frávik þeirra stöðva sem vantaði væri það sama og samanlagt frávik þeirra sem mældu, sem sagt alltaf miðað við frávik mælandi stöðva. Og var þá miðað við meðalhitann 1961-1990. Eins og áður segir er langtímameðaltal sjö stöðvanna sem  mældu 1882-1897 nær það sama og allra níu stöðvanna frá 1898 svo segja má að  litlu sem engu breyti  þó tvær vanti þá upp á þennan tíma. Síðan flækist málið nokkuð fyrir 1882. Og fyrstu árin í röðinni, frá 1866, eru þarna eflaust tæpari en árin frá og með 1873 og 1874 því aðeins er þá miðað við tvær stöðvar á vesturlandi og mælingarnar í Reykjavík voru ekki eins góðar og í Stykkishólmi. En ekki er annað að hafa.

Miðað er sem sagt við árið 1866 sem upphafspunkt. En hér verður þó líka fjallað lítillega, svona eins og utan dagskrár, um mánuði fyrir 1866 ef ástæða er til, það er  að segja ef þar eru mjög afbrigðilegir mánuðir að hita eða kulda. Oftast eru það kuldamánuðir.

Málfarið í þessum pistlum er aðallega í veðráttustílnum en það er sá stílsmáti sem mótast hefur í tímans rás í Veðráttunni, mánaðarriti Veðurstofunnar. Þegar fjallað er um veðurfar í mánuðum fyrir daga Veðráttunar gægist stundum fram málfar þeirra gömlu heimilda sem fyrir hendi eru.

Veðurathuganir hófust í Stykkishólmi í nóvember 1845 og hafa haldist þar síðan. En í Reykjavík voru gerðar athuganir frá 1820 og fram í febrúar 1854. Saman var því fyrir 1866 athugað á báðum stöðum í sjö ár en einungis í Reykjavík frá 1820 þar til Stykkishólmur byrjaði, fyrir utan árin 1846-1854 þegar athugað var á Akureyri og 1855 til 1866 þegar athugað var á Siglufirði. Fyrir einstaka mjög afbrigðilega mánuði fyrir 1866 er hér stundum drepið á þessar mælingar en alltaf bara miðað við Stykkishólm og Reykjavík þegar reynt er að finna meðalhitann fyrir einhverja mjög hlýja eða mjög kalda mánuði á landinu fyrir 1866 að undanteknum fáeinum mánuðum sem voru svo sterkir í hita eða kulda að ekki er hægt að ganga framhjá þeim. Auk þess var athugað snemma á 19. öld á ýmsum stöðvum en mælingarnar hafa verið yfirfærðar til Stykkishólms. Þær koma hér við sögu utan dagskrár eins og áður segir.

Meðalhitatölur mánaðanna fyrir hverja stöð sem hér birtast eru ekki alltaf þær sömu og standa í prentuðum ritum, þá fyrst og fremst Veðráttunni, mánaðar og ársriti Veðurstofu Íslands, eða  hinni dönsku Meteorologiske aarbok, heldur þær sem endurskoðaðar hafa verið á Veðurstofunni. Stundum vantar inn í mánuði á einhverri stöð og hefur hitinn í þeim þá verið áætlaðir á Veðurstofunni. Ekki eru þeir mánuðir þó auðkenndir hér. Og því um síður er skeytt um hin og þessi álitamál sem vera munu í gagnaröðunum. Tölur fyrir hámarks og lágmarkshita, svo og úrkomu og snjódýpt og sólskin, sem hér verður stundum sagt frá,  eru hins vegar alveg þær sömu og eru í prentuðu ritunum því þetta hefur vitaskuld aldrei verið endurskoðað.   

Í fylgiskjali við hvern mánaðarpistil er meðalhiti hverrar stöðvar tilgreindur í tíu hlýjustu og tíu köldustu mánuðum frá og með 1866 og er raðað eftir þeim hlýjustu og köldustu nema í júlí þar sem röðin er í tímaröð og mánuðirnir fleiri en venjulega. Sumum kann að finnast þetta nokkuð margir mánuðir. En oft leynast merkilegir hlutir í mánuðum sem ekki eru þó alveg meðal þeirra allra hlýjustu og köldustu. Þegar lítill munur er á hita mánaða má ekki taka röðina alltof bókstaflega. Þess ber líka að gæta að ef fleiri stöðvar væru í dæminu mundi röð mánaðanna kannski breytast eitthvað og jafnvel einhverjir mánuðir neðst á topp tíu listanum detta út en aðrir koma í staðinn. Þess ber að gæta að yfirleitt eru ekki í textanum tilgreindar hitatölurnar fyrir hverja stöð um sig, menn verða að opna fylgiskjalið til að sjá þær. Hins vegar er meðalhiti þeirra allra hafður innan sviga í textanum á eftir ártalinu. Nokkra afbrigðilega mánuði fyrir 1866 má sjá fyrir þær stöðvar sem þá mældu lengst til hægri í töflunum og með smærra letri. Einnig sést í megintöflunni í fylgiskjalinu úrkoma stöðvanna þegar hún hefur verið mæld. Til þess að hægt sé að átta sig að einhverju leyti á því hvort hún hefur verið mikil eða lítil miðað við það sem yfirleitt er fylgir með meðaltalsfrávik  í prósentum frá úrkomunni 1931 til 2000 fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað úrkomu, Reykjavík, Stykkishólm, Teigarhorn og Vestmannaeyjar og svo Akureyrar sem ekki byrjaði þó að mæla fyrr en 1927, einnar stöðvar í hverjum landshluta. Meðaltal útkomu 1961-1990 er reyndar mjög líkt en meira gaman er að hafa  svona lítt tilvísað meðaltal. Þetta eru fáar stöðvar, stundum ekki nema tvær, og ekki jafn dreifðar um landið. Úrkomumælingar hafa tekið breytingum gegnum tíðina og einnig mælingarstöðvarnar jafnvel enn fremur en hitamælingarnar. Úrkomuhlutfallið er  aðeins ábending um landsúrkomu til þess að hafa einhverja viðmiðun. Þegar talað er um í texta að úrkoma hafi verið svo og svo mikið yfir eða undir meðallagi er þá alltaf miðað við meðallagið 1931-2000 á þessum fáu stöðvum nema annað sé tekið fram. Það er svo kannski svolítið svindl að ég hef líka sett inn úrkomu frá Möðruvöllum árin 1913 til 1926 og látið hana gilda fyrir Akureyri einfaldlega vegna þess að á þeim tíma voru nánast engar aðrar nýtilegar úrkomumælingar fyrir norðan. Í Reykjavík var ekki mæld úrkoma 1911 til 1919 (hitamælingar voru gerðar) en hins vegar á Vífilsstöðum. Þau ár er Reykjavík samt ekki inni í hlutfallsreikningnum en úrkoman á Vífilsstöðum þó tilgreind sem slík ef einhverjir Vífilsstaðamánuðir eru með þeim hlýjustu eða köldustu í Reykjavík. Úrkoman í Bolungarvík, Fagurhólsmýri og Hæli er heldur aldrei inni í hlutfallsreikningnum þó hún birtist í töflunum til fróðleiks og skemmtunar. Í töflunum eru met fyrir viðkomandi stöð auðkennd sérstaklega, á plús veginn með rauðu en mínus veginn með bláu.    

Hlutfall úrkomu af meðaltalinu 1931 til 2000 er sem sagt einungis miðað við Stykkishólm og Teigarhorn frá 1873 en líka Vestmannaeyjar frá 1881 og auk þess Reykjavik frá 1885-1907 og frá 1920 og svo bætist þá norðurland við 1913 með Möðruvöllum fyrst í stað en  svo Akureyri sem byrjar 1927 fyrir alvöru. Í Vestmannaeyjum var mælt í kaupstaðnum til september 1921 þegar flutt var á Stórhöfða. Úrkoma er nokkru minni að jafnaði í kaupstaðnum en á höfðanum, 97% af úrkomunni á honum. Loks má í fylgiskjölunum sjá fjölda sólskinsstunda í Reykjavík og á Akureyri í þeim mánuðum sem fyrir koma eftir að byrjað bar að mæla þær á þessum stöðum. 

Ættu þá að vera nokkuð ljósar leikreglurnar sem farið er eftir í þessum veðurleik.    

Búast má villum ýmis konar í þessu. Verst er nú ef manni yfirsést kannski heill mánuður! Svo getur maður nú kannski klúðrað einhverju! Satt að segja hef ég slæmar aðstæður til að leiðrétta villur ef þær koma á annað borð en þær sem ég finn verða leiðréttar strax og upp um þær kemst.   

Loks skal upplýst að þessir pistlar eru fyrst og fremst skrifaðir fyrir sjálfan mig til að átta mig nokkru betur á íslensku veðurfari, en  það er kannski í lagi að leyfa þessum tíu réttlátu veðuráhugamönnum sem mér skilst að séu til á landinu að lesa þá líka! Ekki er þó gert ráð fyrir að þessir pistlar séu neinn skemmtilestur. Það segir sig sjálft að einlægar veðurlýsingar eru oft  argasta stagl og ekki fyrir aðra en innmúraða og innvígða! Já, og svo eru pistlarnir auðvitað ''alltof'' langir.   

Ekki þori ég nú að fara langt út í það, þó stundum örli á því, að reyna að skýra út ástæður hlýinda og kulda hvers mánaðar eða ýmis konar blæbrigðamun sem vitastuld er á þeim, þó þetta sé einmitt sérstaklega áhugavert. En stundum verða birt kort sem eiga að benda dálítið í skýringarátt  og eru vonandi ekki alltof mikið út í hött. Eigi að síður er það textinn sem er aðalatriðið í þessum pistlum.  Þá verður annað slagið vísað beint á fréttir eða aðra umfjöllun um veður, skaða og slys til dæmis, sem hægt er að nálgast á netinu um ýmsa þá atburði sem sagt er frá í pistlunum en þar er reyndar ekki um auðugan garð að gresja. Bloggsíða er eins konar fjölmiðill og kannski má líta á þessa pistla sem eins konar veðurfarsblaðamennsku! 

Tekið skal fram að kortagrunnurinn fyrir Ísland er tekinn traustataki af vef Veðurstofunnar!

Aðalheimildirnar fyrir færslunum,  fyrir utan endurskoðaðar mánaðarhitatöflur frá Veðurstofunni, eru þessar: Meteorologiske Aarbog 1873-1919, 2. hluti, gefið út af dönsku veðurstofunni; Íslenzk veðurfarsbók 1920-1923, útgefandi Löggildingarstofan í Reykjavík; Veðráttan, mánaðarrit Veðurstofu Íslands, 1924- ; Veðurfarsyfirlit,gefið út af Veðurstofu Íslands; Þorvaldur Thoroddsen: Árferði á Íslandi í þúsund ár, 1916-17, gefið út í Kaupmannahöfn; Trausti Jónsson: Veður á Íslandi í 100 ár, 1993, gefið út í Reykjavík, sami: Langtímasveiflur I, snjóhula og snjókoma, greinargerð Veðurstofu Íslands 02035, 2002.  Fyrir allra síðustu ár eru stundum notaðar meðaltalstöflur Veðurstofunnar og einstaka sinnum óútgefnar upplýsingar frá Veðurstofunni. Þessar heimildir sem hér hafa verið nefndar eru ekki taldar upp með hverjum pistli um sig en hins vegar aðrar heimildir eftir því sem við á. 

Helstu myndaveitur með kortum eru: NOAA  20 Century Reanalysis,  Wetterzentrale, http://www.wetterzentrale.de/topkarten/fsreaeur.html, Veðurstofa Íslands, http://andvari.vedur.is/athuganir/vedurkort/eldra/.

 


Hlýjustu janúarmánuðir

Innan sviga við hvert ár er meðalhiti mánaðarins fyrir allar níu stöðvarnar sem miðað er við. Í fylgiskjalinu má hins vegar að sjá hita hverrar stöðvar um sig og auk þess úrkomu og sólskin. Sjá skýringar.

Óvenjulega hlýir hávetrarmánuðir stafa vitaskuld oft af miklu aðstreymi af suðrænu loft. Oft eru þá hæðir yfir Norðurlöndum, Bretlandi eða Norður-Evrópu en lægðir suðvestur og suður í hafi.            

Meðalhiti stöðvanna níu var -0,8 stig árin 1961-1990. 

1847 (3,8) Hlýjasti janúar síðan mælingar hófust virðist vera 1847. Þá voru  gerðar mælingar í  Stykkishólmi, Akureyri og í Reykjavík. Í Reykjavík og Stykkishólmi hefur síðan ekki komið jafn hlýr janúar en janúar 1947 var svipaður á Akureyri. Svo segir Þorvaldur Thoroddsen um þessi hlýindi í riti sínu Árferði á Íslandi í þúsund ár:  "Framan af árinu voru frostleysur og blíðviðri, svo sóley og baldursbrá voru sums staðar syðra komnar í blóm á þorra. Yfirleitt mundu menn eigi jafngóða vetrarveðráttu.'' Alla morgna var frostlaust í Stykkishólmi nema þá síðustu tvo. Á nýársdag sveiflaðist hitinn í Reykjavík kringum frostmarkið en síðan voru nær látlaus hlýindi þar til síðustu dagana að kólnaði nokkuð og voru tveir síðustu dagarnir í Reykjavík þeir einu sem hitinn fór ekki yfir frostmark. Mest frost mældist þar -5,0 stig þ. 31. Einna hlýjast var í annarri vikunni og fór hitinn í 8,8 stig bæði þ. 8. og 10. Úrkoma var 162 mm og kemst auðveldlega inn á lista yfir tíu úrkomusömustu janúarmánuði sem einhverjarw tölur eru um í Reykjavík.

1947 (3,4) Næst hlýjasti janúar á landinu kom nákvæmlega hundrað árum síðar. Í Veðráttunni segir: "Tíðarfarið var óvenju milt um allt land. Blóm sprungu út sem á vori væri og grænum lit sló á tún. Umhleypingasamt og stormasamt var með köflum." Meðalhitinn var mestur í Vík í Mýrdal, 4,7 stig og er það mesti meðalhiti á veðurstöð á Íslandi í janúar. Kaldast var -0,5 stig á Möðrudal. Á Grímsstöðum var meðalhitinn 0,2 stig og er þetta eini janúar sem þar hefur verið yfir frostmarki. Þetta er alls staðar hlýjasti janúar sem mælst hefur eftir 1847 nema á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi, vesturlandi, Vestfjörðum og inni i Skagafirði. Áberandi er hvað hitinn var jafn um allt land. Sjá kort. Lágmarkshiti mánaðarins í Reykjavik, -3,7 stig, hefur aldrei verið hærri í janúar en í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,3 stig. Kaldast á landinu varð -12,4 stig þ. 18. á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði í kjölfar skammvinnrar norðanáttar, þeirrar einu í mánuðinum. Mesti hiti mánaðarins var furðu lágur miðað við meðalhitann, 11, 4 stig á Kjörvogi á Ströndum sem er vægast sagt einkennilegur staður til að hrifsa til sín landshámark í janúar. Þetta var hinn 20. en sama dag mældust 10,5 stig á Akureyri. Að morgni hins 24. mældist hitinn 8,0  stig i Stykkishólmi sem er mesti morgunhitinn sem þar hefur mælst þann mánaðardag. Alla dagana 19.-25 mældist tíu stiga hiti eða meira einhvers staðar á landinu. Daganrnir 19.-21. mældust þeir hlýjusteu í Reykjavík að meðaltali þá mánaðardaga, 7,5; 8,4, og 7.7 stig og dagshitamet að meðalhita var einnig þ.25, 8.0 stig.   Þetta er einn snjóléttasti janúar sem komið hefur á landinu síðan farið var að mæla snjólag árið 1924. Snjóhula í byggð var aðeins 37% en var að meðaltali 67% 1924 til 2007. Ekki var þetta þó hinn snjóléttasti af öllum janúarmánuðum. Það var janúar 1998, 30 %. Snjóléttara var líka árin 2001 og 2002. Í Reykjavík var snjólagið 27% og alhvítt í 6 daga en í janúar 1940 var alauð jörð allan mánuðinn. Snjódýpt í borginni var mest 15 cm. þ. 7. og var það reyndar einhver mesta snjódýpt sem mæld var í mánuðinum en fáar stöðvar mældu snjódýpt á þessum tíma. Í Papey var alautt í 30 daga en alhvítt í einn en flestir voru alhvítir dagar 17 í Bolungarvík en jafnvel á norðurlandi voru alhvítir dagar alls staðar færri en 15 og innan við tíu annars staðar. 

Kort af meðalhita í mánuðinum.  

jan-1947.gif

Úrkoma var mikil, yfir 50 prósent meiri en meðalúrkoman 1931 til 2000. Í Reykjavík var þetta þriðji úrkomusamasti janúar frá því mælingar hófust 1885 (eyða 1908-1920) en tuttugasti í Stykkishólmi frá 1857. Á Hamraendum í Dölum var úrkoman sú mesta sem þar var mæld í janúar 1937-1999, 164,5 mm,  og einnig á Þingvöllum 1935-1983, 256,0 mm Mest var úrkoman 302,1 mm á Ljósafossi en minnst 8,2 mm á Siglunesi og er það fremur óvenjulegur staður til að hafa minnsta úrkomu í janúar. Úrkoman var mest sunnan og vestanlands og á suðausturlandi en lítil um miðbik norðurlands og á norðausturlandi. Mest sólarhringsúrkoma mældist 107,5 mm á Eyrarbakka sem er þar met fyrir janúar.    

Veðurlag mánaðarins einkenndist af þrálátum fyrirstöðuhæðum yfir Norðurlöndum eða Bretlandseyjum en lægðir voru oft fyrir vestan og sunnan land en einstaka sinnum komu þær nær. Suðrænt loft átti því greiðan aðgang að landinu og allt norður til Svalbarða þar sem ekki hefur mælst hlýrri janúar. Mjög kalt var í Norður- og Mið-Evrópu sem voru kuldamegin við fyrirstöðuhæðirnar. Enn kaldara varð þar í febrúar og mars. Þeir mánuðir voru einnig mjög sérstakir á Íslandi þó ekki væru þeir hlýir en einkenndust af stillum og voru bæði febrúar og mars þeir sólríkustu sem mælst hafa í Reykajvík og febrúar með mesta meðallloftvægi sem mælst hefur í honum.     

Guðmundur S. Guðmundsson var þriðji á jólaskákmótinu í Hastings. Glæpaforinginn alræmdi Al Capone dó þ. 25. 

1973 (2,7) Sunnanlands var umhleypingasamt og votviðrasamt en alls staðar var hlýtt. Ekki hefur komið hlýrri janúar á Hveravöllum síðan mælingar hófust þar 1965. Í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,2 stig og er það hæsti lágmarkshiti nokkurrar veðurstöðvar í janúar á Íslandi. Fyrstu tveir dagarnir voru fremur kaldir en síðan voru nær því látlaus hlýindi næstu þrjár vikurnar en þó mest dagana 3.-12. þegar hiti komst í tíu stig eða meira alla dagana einhvers staðar á landinu. Sá sjötti var að mealhita hlýjasti sá dagur á landinu frá a.m.k. 1949, 7,2°. Aftur komu landsdagshitamet dagana 8.-10. 6,6°;8,0° og 8,0°. Aðeins einn dagur í öllum janúarmánuðum frá 1949 hefur verið hlýrri en síðast töldu tveir dagarnir. Það er 4. janúar 2006 þegar landsmeðalhitinn var 8,3°. Þann 9. var meðalhiti sólarhringsins í Reykjavík 9,0 stig, sá mesti frá og með a.m.k. 1936. Hlýjast varð á landinu 15,7 stig þ. 5. á Dalatanga. Sama dag mældist sólarhringsúrkoman á Reykhólum 45,2 mm og varð aldrei meiri meðan mælt var 1950-2000. Á Lambavatni á Rauðasandi sló mánaðarúrkoman hins vegar met fyrir mánuðinn, 179,1 mm. Síðustu vikuna kólnaði nokkuð, einkum norðanlands, án þess að um nokkrar hörkur væri að ræða. Mesta frost í byggð mældist -14,5 stig þ. 27. á Brú á Jökuldal. Snjólag var 41%. Sérstaklega var snjólétt á austanverðu landinu og alautt var alla daga á Seyðisfirði. Þetta var enda næst hlýjasti janúar á Grímsstöðum, Hallormsstað, Teigarhorni og  í Hornafirði. Mánuðurinn kemst annars fyrst  og fremst á spjöld Íslandssögunnar fyrir það að aðfaranótt hins 23. hófst eldgosið á Heimaey.  en daginn áður dó Johnson, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Sunnanátt var langtíðust en suðaustanátt var einnig algeng. Lægðir voru á Grænlandshafi en hæðarsvæði yfir A-Evrópu.     

1987-500-nh_1057520.png1987 (2,6) Þessi mánuður er sá hlýjasti sem mælst hefur í Borgarfirði, við norðvestanverðan Breiðafjörð, syðst á Vestfjörðum og á Nautabúi í Skagafirði. Fyrstu fimm dagana voru væg frost norðanlands og þ. 5 fór frostið í Möðrudal í -19,1 stig, en froslítið eða frostlaust var annars staðar en eftir þetta ríktu hlýindi nema dag og dag fyrir norðan og austan. Hlýjast varð 13,9 stig á Dalatanga þ. 23. Sá dagur er og með dagshitamet á landinu frá 1949, 6,9 stig. Loftvægi var óvenjulega hátt 13,1 hPa yfir meðallaginu, en ekki alveg í topp tíu metaflokki en samt nærri því. Úrkoma var líka af skornum skammti, aðeins um helmingur af meðalúrkomu á landsvísu og nálgaðist hvergi  meðallag nema á Lambavatni á Rauðasandi. Úrkoman var einstaklega lítil alveg frá Ísafjarðardjúpi austur og suður um til Reyðarfjarðar. Á Blönduósi var hún aðeins 2,4 mm og aldrei verið jafn lítil í janúar. Snjólag á landinu var þó 43%, tíunda minnsta (2010 ekki talið með). Þykktin yfir landinu var sérlega mikil, um 533 dekametrar yfir Keflavík og nokkru meiri heldur  en 1973. Um miðnætti aðfaranótt þ. 18. náði vindur 11 vindstigum í Reykjavik í vestanátt en slík ofsaveður  eru nú orðin næsta fátíð í borginni. En dagana 16.-18. gengu hvassviðri yfir landið. Þá brotnaði elsta tré Reykjavíkur í Fógetagarðinum. Í heild var mánuðurinn samt ekki illviðrasamur. Háloftahæð var ríkjandi um Bretland og suður undan og teygði oft anga sína hingað til lands eða milli Íslands og Noregs. Þetta má sjá á kortinu sem stækkar við smellingar. Hin hliðin á þessu ástandi voru fádæma kuldar í Evrópu. Það snjóaði jafnvel á Majorku. Í Finnlandi var þetta þeirra 1918. Meðalhitinn í Helsinki var -17,9 stig eða 11,1 stig undir meðallaginu 1931-1960. Í Kanada voru svo enn aðrir öfgar. Þar var meðalhiti allt upp í 10 stig yfir meðallagi. Sem sagt: Mjög afbrigðilegur janúar.

1987-jan.jpg

Kortið er úr yfirliti Die Witterung in Ubersee fyrir janúar 1987.

1946 (2,6) Nýjársdagurinn er sá hlýjasti sem mælset hefur að meðalhita í Reykjavík,7.7 stig og einnig hámarkshitinn. 9.5 stig. Dögum saman ríktu hvassar suðlægar áttir í þessum mánuði með mikilli úrkomu, einkum á suður og vesturlandi. Þetta er enda blautasti mánuðurinn meðal þeirra tíu hlýjustu. Ég tel hann reyndar vera sjöunda úrkomusamasta janúar frá upphafi mælinga svo langt sem sá samanburður nær út frá örfáum stöðvum (sjá skýringar). Úrkomutíðni var líka mikil, víða um eða yfir 25 dagar á suður-og vesturlandi. Að morgni þ. 14. mældist mesta sólarhringsúrkoma í janúar í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar, 42,4 mm. Einnig var janúarmet á rafstöðinni við Elliðaár (frá 1923) bæði hvað varðar mánaðarúrkomu og sólarhringsúrkomu, 224,6 og 41,0 mm. Aldrei hefur fallið eins mikil sólarhringsúrkoma í Stykkishólmi, 68,0 mm sama dag og Reykjavíkurmetið var sett. Vegna mikilla rigninga féllu skriður beggja vegna Hvalfjarar þ. 13. og var vegurinn ófær í nokkra daga. Sums staðar fyrir norðan og austan var þetta næst hlýjasti janúar sem mælingar ná yfir, t.d. við Mývatn og á Dalatanga, austast á landinu. Nýársdagur var einstaklega hlýr, sá hlýjasti sem komið hefur í Reykjavík í sögu mælinga, meðalhitinn var 7.7 stig en hámarkshitinn fór i 9,5 stig en sums staðar tíu á vesturlandi. Var þá hæð yfir sunnanverðum Norðurlöndum en lægðir bæði vestan við land og suður í hafi sem beindu suðrænum loftstraumum yfir landið. Þann 15, var einnig dagshitamet í Reykjavík að meðahita, 6.5 stig. Mestur hiti á landinu í mánuðinum mældist hins vegar 11,5 stig þ. 16. á Akureyri en mestur kuldi, -13,0 stig í Núpsdalstungu í Miðfirði þ. 7. Snjólag var 44%. Hvergi var alautt en hvítir dagar voru undir tíu á suðaustur, suður og vesturlandi en 10-15 annars staðar nema á stöku stað fyrir norðan þar sem þeir voru fleiri en tuttugu. Hæðir voru oft yfir N-Evrópu þennan mánuð eins og í janúar árið eftir. 

Fyrsta þing Sameinuðu þjóðanna var haldið þann 10. og Öryggisráið hélt sinn fyrsta fund þ. 17.      

1972 (2,6) Nýársdagurinn var sá hlýjasti á landsvísu sem mælst hefur frá og með 1949, 5,8 stig en mesti hiti á landinu var 10.2 stig. Stormasamt var með köflum í mánuðinum, einkum á vesturlandi og við suðurströndina. Þetta er hlýjasti janúar í Stykkishólmi frá 1947, 0,1° hlýrri en 1973. Hlýindi mikil voru nær óslitin fyrri hluta mánaðarins. Síðari  hluta mánaðarins var tíðin blandaðri og mældist í stuttu og fremur vægu kuldakasti mesti kuldi mánaðarins, -18,5 stig á Hveravöllum þ. 26. en daginn eftir mesta frost í byggð -16,6 stig á Brú í Jökuldal. Eftir kuldakastið hlýnaði á ný og þ. 29. mældist hitinn á Seyðisfirði 12,0 stig þ. 29. Þann 19. gekk  sjór á land á austfjörðum og urðu þar mestu flóð síðan 1930. Stórtjón varð á hafnarmannvirkjum og verksmiðjum. Snjólag var 41% eins og í janúar 1973. Og þessir mánuðir voru glettilega líkir að loftvægi, hitafari og úrkomu, komandi hver á eftir öðrum rétt eins og hinir hlýju janúarmánuðir 1946 og 1947. Hæð var ríkjandi þennan mánuð yfir Norður-Evrópu en lægðir voru suðuastur af Grænlandi eða gengu austur fyrir sunnan land. Fyrir neðan má sjá gang hitans yfir Keflavík í 500 og 1500 metra hæð í janúar 1972 og 1973.

jan-72_1057554.jpg 

jan-73.jpg 

Þann 12. varð ríkið Bangladess til. Fyrsta nýrnaígræðsla í heiminum var gerð þ. 25. en þ. 30. var svonefndur Blóðsunnudagur í Belfast í N-Írlandi.    

1950 (2,4) Mjög stormasamt og mikil úrkoma en þó heldur minni en 1946 yfir allt landið. En sums staðar á austurlandi, suður og vesturlandi sló úrkoman öll met fyrir mánuðinn. Á Dalatanga hefur aldrei mælst meiri úrkoma í janúar (frá 1938), 341,2 mm og heldur ekki sólarhringsúrkoman 69,6 mm þ. 27. Mánaðaramet úrkomu voru einnig sett í Stóra-Botni í Hvalfirði, 430,5 mm, Kirkjubæjarklaustri, 359,0 mm (mælingar frá 1931), Vík í Mýrdal, 395,3 mm (1926), Ljósafossi, 310,3 mm (1938-1972,) og Eyrarbakka með sína löngu en þó ekki alveg samfelldu mælingasögu, 247,3 mm ((1881-1991, frá 1926). Eins og að líkum lætur voru austan og suðaustanáttir algengastar. Loftþrýstingur var oft hár norðan við landið en lægðir voru sunnan við það, uppi í landsteinum eða á Grænlandshafi. Mjög stormasamt var og getið um storm í 25 daga einhvers staðar á landinu. Aftakaveður af austri var við suðurströndina dagana 7.-8. Fyrri daginn fórst vélbáturinn Helgi  við Faxasker við Vestmannaeyjar milli klukkan tvö og þrjú síðdegis og með honum tíu manns. Komust tveir menn lifandi upp á skerið en urðu úti af vosbúð en enginn möguleiki var til að koma þeim til bjargar og ekkert skipsbrotsmannaskýli var á skerinu. Næstu nótt varð stórbruni í fárviðrinu í  hraðfrystistöðinni í bænum og var þá vindhraði á Stórhöfða kringum 50 m/s. Ekki var þetta hlý austanátt, hiti um frostmark í Eyjum þegar Helgi fórst og daginn eftir mældist mesti kuldi mánaðarins -17,5 stig á Möðrudal. Snjólag var 46%. Í Reykjavík var alautt í 26 daga og 29 í Vestmannaeyjum en á norðausturlandi, þar sem mestur var snjórinn, voru alhvítir dagar óvíða fleiri en 15. Austan og suðaustanátt voru algengastar vindátta sem áður segir en stundum snérist til sunnanátta og í einni slíkri mældist mesti hiti mánaðarins, 12,7 stig á Seyðisfirði þ. 19 og dagshitamet að landsmeðalhita var þá sett,6,7°. Á Raufarhöfn var þetta næst  hlýjasti janúar.

jan-64.jpg1964 (2,4) Þessi mánuður var hluti af hlýjasta vetri (des-mars) sem mælst hefur á landinu og  hefur þá sérstöðu að vera hlýjasti janúarmánuður á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi og einnig á Eyrarbakka. Á suður og vesturlandi má segja að aldrei hafi verið kalt, nema þ. 23., næstum því til mánaðarloka en kringum miðjan mánuð komu fáeinir kaldir og bjartir dagar fyrir norðan.  Hiti fór tíu daga yfir 10 stig einhvers staðar á landinu og hlýjast varð 14,9 á Seyðisfirði þ. 7. og 10. Dagana 5. og 7. kom landshitameta í meðalhita,6,6 og 6,5 stig og  einngig þ. 18, 6,2 stig. Alla dagana 16.-18 kom daggamet fyrir meðalhita í Reykjavik, 7,7, 8,0 og 9,0 stig. Síðast talda daginn var einnig dagshita meða að landameðalhita, 6,4 stig. Loks kólnaði  rækilega síðustu tvo dagana og síðasta daginn komst frostið í -27,1 stig á Grímsstöðum. Úrkoman var um 44% umfram meðallag en lítil á norðausturlandi. Á Kvískerjum mældist úrkoman 676,9 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í janúar og að morgni þ. 6. mældist sólarhringsúrkoman þar 104,8 mm. Á Skaftafelli í Öræfum var einnig met mánaðarúrkoma og síðast en ekki síst á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þar mældist líka met sólarhringsúrkoma fyrir janúar, 60,6 mm þ. 26. Þetta er næst snjóléttasti janúar og lengst af var snjólaust í byggð og allir vegir færir sem að sumri. Snjólag var aðeins 33%. Á Bjólu í Djúpárhreppi var alautt allan mánuðinn og nokkuð víða á suður-og vesturlandi var aldrei alhvítt en um helmingur daga var hvítur þar sem mest var á norður og austurlandi. Í Reykjavík voru tveir dagar alhvítir en fimm á Akureyri. Þrumur voru óvenjulega tíðar og hlaust tjón af í miklum útsynningi þ. 7. Sunnanátt var algengasta vindáttin. Loftþrýstingur var hár yfir Bretlandseyjum  og Mið-Evrópu en lægðir voru oft sunnan við Grænland úti á Atlantshafi en komu stundum nær landi og einstaka sinnum fór þær norður um Grænlandshaf og ollu skammvinnum útsynningi. Loftvægi var fremur hátt. Á kortinu er meðallag loftvægis dregið með heilun línum en frávik hitans frá meðallaginu 1931-1960 með strikalínum. Tekið úr Veðrinu 1964.

Þann 12. lýsti landlæknir Bandaríkjanna yfir skaðsemi reykinga. Fyrsta Reykjavíkurskákmótið hófst þ. 14. og lauk því með sigri Mikaels Tal.

1992 (2,3) Fyrsta vikan var köld og komst frostið í 23,0 stig þ. 4. á Möðrudal en eftir þ. 9. voru hlýindi. Og þegar upp var staðið reyndist þetta  næst hlýjasti janúar á Akureyri (mælingar frá 1882) og var hitinn þar 2,9 stig. 1992-1-14-500.gifOg þetta var einmitt mánuðurinn þegar mældist mesti hiti á landinu á mannaðri veðurstöð í janúar, 18,8 stig á Dalatanga þ. 14. og sama dag 17,5 stig á Akureyri. Meðalhitinn á Akureyri var þennan sólarhring sá hæsti sem mælst hefur síðan a.m.k. eftir 1948, 11,6 stig. Dagshitamet að meðalhita kom einnig í Reykjavik þennan dag, 7.2 stig. Í 500 hPa fletinumn, nokkurn vegin í miðjum veðurlofthjúpinum, sem þá var í 5530 m hæð en þykktin var 5502 m, var frostið aðeins 14,9 stig kl. 00 þ. 13. en er þar vanalega kringum 31-32 stig í janúar. Frostlaut var upp fyrir 2000 m hæð. Þessi hiti var meðan ríkti samfelld suðvestanátt dagana 12.-14. með metúrkomu víða sunnanlands og vestan og einnig austur eftir norðurlandi og var hitinn þessa daga 7-9 stig yfir meðallagi á landinu. Á Skógum undir Eyjafjöllum mældist sólarhringsúrkoman 141,2 mm þ. 13 og var þá Íslandsmet fyrir janúar en hefur síðan verið slegið. Sama dag mældust 90,0 mm í Vík í Mýrdal sem er þar janúarmet (frá 1926) og önnur met voru sett á Hæli, 44,5 mm  (1928), Sámsstöðum 79,1 mm (1929) mm og Hellu, 68,8, mm (1958-2005). Daginn eftir kom svo sólarhringsmet fyrir janúar á Hlaðhamri í Hrútafirði, 57,2 mm (1941). Fleiri sólarhringsmet voru sett. Talsverð flóð voru um þetta leyti í Hvítá í Borgarfirði. Og mánuðurinn gerði það heldur ekki endasleppt í hitamálunum. Sautján daga fór hiti yfir tíu stig á landinu sem er einsdæmi. Á Sandi í Aðaldal mældust 16,0 stig þ. 19. og á Seyðisfirði 17,5 stig þ. 26. sem mun vera þriðji mesti hiti á landinu í janúar. Dagshitamet að landsmeðalhita komu dagana 13. og 14., 8,1 og 7,6 stig og enn þann 17. 6,9 stig og þann 29. 7.4 stig. Enginn janúar frá 1949 á fleiri dagshitamet að meðalhita, fjóra daga.Í úrkomunni voru sett mánaðarmet sums staðar á úrkomusvæðinu, t.d. á Lambavatni 169,1 mm mælingar frá 1939),Kvígindisdal við Patreksfjörð, 403,9 mm (1928-2004), Þórustöðum í Önundarfirði, 423,4 mm  (1955-1996)  og á Hlaðhamri, 157,1 mm (1941). Var úrkoman á þessu svæði gríðarlega mikið yfir meðallagi. Snjólag var 43% en snjólaust var að mestu eftir þ. 9. Ekki var sólinni fyrir að fara. Í Reykjavík mældist sólskin í kringum 20 mínútur og hefur aldrei verið minna í janúar og ekki heldur á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem sólin skein i tvær og hálfa klukkustund.  

Fríða Á. Sigurðardóttir hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs þ. 24. en síðasta daginn kom dagblaðið Þjóðviljinn út í síðasta sinn.    

2010-1-thick.png2010 (1,9) Janúar þessi er einstakur fyrir það hve lítil úrkoma var fyrir norðan. Hún var aðeins 0,8 mm á Akureyri og hefur ekki verið jafn lítil í þessum mánuði frá því mælingar þar hófust 1928. Mánaðar þurrkamet voru sett alveg frá Ströndum í vestri til Vopnafjarðar í austri á stöðvum með mislanga mælingasögu. Má þar nefna Hraun á Skaga 7,4 mm (frá 1949), Mýri í Bárðardal 0,7 mm (1957), Grímsstaði 1,6 mm (1936), Mánárbakka 6,0 mm (1957) og líklega einnig Raufarhöfn (1934-2009) en þar var mannaða stöðin nýlega aflögð en sjálfvirk tekin við. Á suðurlandi var hins vegar úrkomusamt. Í Reykjavík er þetta samt sólríkasti janúar af þeim tíu hlýjustu. Einstaklega veðragott var og er þetta hægviðrasamasti janúar síðan 1963. Tiltölulega hlýjast var á vesturlandi. Í Reykjavík fór hitinn ekki niður fyrir frostmark 21 dag í röð, frá þeim 8. til þess 28. og er þetta met fyrir frostlausa daga þar i janúar. Mesti hiti á mannaðri stöð mældist 16,9 stig þ. 26. á Skjaldþingsstöðum en sama dag 17,6 á sjálfvirku stöðinni þar. Snjór var lítill á landinu. Snjóalag á öllu landinu var 36%, sú sjötta minnsta frá 1924. Í Reykjavík varð jörð aldrei alhvít en flekkótt í  sex daga. Þetta er því einn allra snjóléttasti janúar í borginni. Í Stykkishólmi og á Eyrarbakka var alautt allan mánuðinn. Á suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði var lítill sem enginn snjór. Aldrei snjóaði á Akureyri en þar var þó alhvítt í 19 daga vegna snjóalaga frá fyrra mánuði. Óvíða var reyndar meiri snjór á landinu en einmitt á Akureyri. Á kortinu sést þykktin yfir landinu sem var um 534 dekametrar yfir Keflavík eða kringum 90 metrum þykkari en venjulega. Enginn janúar frá 1949 á eins mörg dagshitamet að mealhita fyir landið, sex daga, 19.-21 og 24.-26, 6,7, 6,8, 6,1,6.4, 7,6 og 7,4 stig. Þann 25. fór hitinn í Reykjavík í 10,1 stig.         

Forsetinn hafnaði að skrifa undir lög um Icesavemálið þ. 5. en þ. 13. varð jarðskjálfinn skæði á Haiti og síðasta daginn fengu Íslendinga brons á Evrópumóti karlaliða í handbolta.  

Á nítjándu öld komst enginn janúar í hálfkvisti við undramánuðinn 1847. Hlýjastur virðist hafa verið janúar 1805, kannski eitthvað svipaður og 1950 ef dæma má eftir nokkuð ófullkomnum mælingum í Sveins Pálssonar í Fljótshlíð sem snúið hefur verið upp á Stykkishólm og janúar 1830 sem eftir mælingum Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík að dæma var svipaður og 1992 eða 2010.   

Í fylgiskjalinu má sjá tölur um 22 hlýjustu mánuði. Gat ekki hætt nema taka 1960 með! 

Ásgeir Sigurðsson, Hinn hlýi vetur 1963-1964 og baksvið hans, Veðrið II, 1964, Jónas Jakobsson: Lofthiti yfir Reykjanesskaga, Veðrið I, 1972, I, 1973, Janúar 2010.   


      

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband