Hasar í bænum

Síðustu viku og lengur þó hefur allt bilað sem bilað getur á þessu heimili. Fyrst fór tölvan og þegar hún komst í lag eftir óratíma kom dularfullt sambandsleysi á netinu sem nú hefur verið lagað til bráðabirgða. Hvað skyldi nú gerast næst?. Ætli ég bili bara ekki sjálfur.

Samt sem áður hef ég verið glaður og kátur enda yfir miklu að gleðjast. Kaninn er farinn og búið er að hleypa vatni á ég man ekki hvað. Ekkert skil ég  í þessum mótmælendum að vera að þramma þessa skemmtigöngu þúsundum saman í henni Reykjavík. Hefði ekki verið miklu áhrifameira að tíu til fimmtán þúsund sálir væru að príla í gljúfrunum sem á að drekkja. Það væru alvöru mótmæli. Eða bara gera eins og ég sem læt ekkert raska minni himnesku ró.

Ekki heldur þetta fíflalega stjörnufans. Það  er út í hött að ákveða svoleiðis með margra mánaða fyrirvara. Slíkt á að gera á skemri tíma með hliðsjón af veðurspá. Í gær var sól og blíða og í dag er líka sól og blíða og stjörnurnar verða flottar í kvöld. Sannleikurinn er auðvitað sá að Reykvíkingar hafa engan áhuga á því að hefja huga sinn upp til stjarnanna. Þetta var bara auglýsingabrella fyrir kvikmyndahátíð.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú þori ég ekki út úr húsi af ótta við að hryðjuverkammenn taki mig í gíslingu og  skeri mig á háls eyrna á milli. Við erum núna vopnlaus og varnarlaus smáþjóð.

Stærstu fréttirnar síðan tölvufjandinn bilaði eru hins vegar þær að um daginn var ég passa tvö börn, þriggja og fimm ára, eina kvöldstund. Og þá var nú hasar í bænum. Og mörg hryðjuverk framin. Þegar svo gestirnir áttu að fara heim til sín að sofa í hausinn á sér fóru þeir í alveg svakalega fýlu yfir því að fá ekki að gista til að geta framið nokkur enn þá skelfilegri næturhryðjuverk. Það var grenjað og orgað alveg ógurlega. Þurfti loks að beita gestina talsverðu ofbeldi til að fjarlægja þá úr húsinu og til síns heima.

<!--[if !supportEmptyParas]-->

Þetta var nú samt með betri heimsóknum. Mikið væri annars gaman ef vinir mínir fyndist ég svo skemmtilegur að þeir væru að hágrenja og sparka ef þeir fengju ekki að gista þegar þeir koma í heimsókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband