Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Að vera dauður í viku

Já, nú koma systur mínar, sem komu til mín í gær, ekki í heimsókn á næstunni. Og ég ekki til þeirra. Það er heldur ekkert víst að við tölum saman í síma fyrir jól. Þó ég eigi góða vini sem ég hitti eða tala við reglulega getur hæglega liðið vika á milli og meira en það.

Það að enginn vitji mín eða ég þeirra í viku er allaf að gerast.

En ef ég hefði nú dottið dauður niður um leið og systur mínar fóru út úr dyrunum yrði ég örugglega ansi rotinn þegar einhver færi að pæla í því hvað eiginlega hefði orðið um mig. Svo myndi ég finnast eftir hálfan mánuð eða þrjár vikur svona líka steindauður. Það þyrfti ekki að sýna að ég hefði verið svo einn og yfirgefinn að ástæða væri til að væla yfir því. Það væri bara tilviljun.

Þegar við búum í jafn miklu fjölmenni og við gerum í Reykjavík er eiginlega óhjákvæmilegt að það gerist annað slagið að maður finnist vikudauður á heimili sínu. Það er ekkert til að gera veður út af. Þar fyrir getur vel verið að til sé einmana fólk. Margir eru reyndar einmana þó fullt af fólki sé í kringum þá. Ástæður einmanaleika eru ekki í sjálfu sér einvera. Og sá sem getur ekki verið einn með sjálfum sér er verri en dauður.

Ekkert er eins ógeðslegt eins og innantómt væmnishjal um skort á kærleika og samkennd í þjóðfélaginu þegar uppvíst verður um það að einhver finnist dáinn án þess að hafa haft fyrir því að tilkynna það.

Íslenskt samfélag hefur aldrei verið jafn gott og mannúðlegt eins og núna. Var það betra á dögum niðursetninganna?

Tilviljanir mannlífsins eru samar við sig eftir sem áður.

En hvað yrði nú samt um aumingja Mala ef ég dytti í þessum skrifuðu orðum dauður niður?    

 

 


Bloggað um frétt

Já, ég held að ætti að koma helvítis tíkinni fyrir kattarnef - þó ekki hans Mala.   
mbl.is Forríkri hundstík hótað lífláti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangur í lífinu

Systur mínar heimsóttu mig í dag. Nei annars, ekki mig, heldur hann Mala minn. Þær dáðust að honum óskaplega og kjössuðu hann smjaðurslega. En mig forsmáðu þær gjörsamliga. Virtu mig ekki viðlits.

Hann Mali minn er nú ekkert smádýr lengur. Hann er orðinn stór og stæðilegur köttur og malar og malar hærra og snjallara með degi hverjum.

Og ég sem aldrei hef greint nokkurn tilgang með lífinu er nú loksins búinn að öðlast göfugan tilgang í því.

Tilgangurinn í lífi mínu er einfaldlega sá að mala nótt sem nýtan dag með honum Mala.  


Í fátækralandi

Í Kiljunni um daginn sagði Egill Helgason einu sinni Í fátækralandi í staðinn fyrir Í fátæktarlandi þegar hann talaði um bókina hans Péturs Gunnarssonar um Þórberg.

Í menningarþættinum Víðsjá í gær kynntu þáttastjórnendur bókina sem Í fátækralandi. Konan sem fjallaði um hana tönnlaðist síðan alltaf á Í fátækralandi.

Ég held að þetta nafn muni festast við bókina - Í fátækralandi.

 


Nú er mér öllum lokið

Í Morgunblaðinu í dag eys Soffía Auður Birgisdóttir lofi yfir bók Péturs Gunnarssonar ÞÞ í fátæktarlandi. Virðist hún, sjálfur bókmenntafræðingurinn, vera á þeirri skoðun að skáldin segi meiri sannleika með skáldskap sínum um fræðin en fræðimennirnir sjálfir með fræðimennsku sinni. Þetta er ískyggileg skoðun sem ég nenni ekki að fara nánar út í enda þýðir það ekkert. 

Og áðan horfði ég upp á það í Kastljósi að búið er að tilnefna bók Péturs til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis. Samt viðurkenna menn að um skáldverk sé að ræða!

Hvað á svona fíflagangur að þýða?

Hins vegar er alveg augljóst að ég tala fyrir daufum eyrum hvað þessa bók varðar og líklega um allt annað. 


Hugo Chavez

Þessi Hugo Chavez minnir mig alltaf á Mússolíni en um hann skrifaði Þórbergur í gamla daga að hann reigði sig eins og graður kalkúnhani. 

Það má vel vera að Chavez hafi gert eitthvað gott fyrir alþýðuna í landi sínu en ef fram fer sem horfir ætlar hann að verða einn af þessum andstyggilegu einræðisherrum sem einskis svífast.

Ég á ekki orð yfir því að einhverjir svonefndir vinstri menn á Íslandi skuli vera svag fyrir þessu gerpi sem vill sölsa undir sig öll öll völd og þurrka út rétt manna til að hugsa upp á eigin spýtur.

Læra þessir aumingjar aldrei neitt af reynslunni? 

Gott var að Chavez tapaði kosningunum. En hvað gerir hann nú?


Vandræðagemsinn

Gemsinn er mesta ógnunin við mannleg samskipti nú á dögum.

Hann er alls staðar gjammandi. Á tónleikum, í leikhúsinu, í jarðarförum, á AA-fundum. Það er ekki haldinn svo AA-fundur að svo og svo margir gemsar glymji ekki í miðjum klíðum. Og ekki nóg með það. Flestir standa þá upp og yfirgefa fundinn meðan þeir eru að blaðra í hann.

Sitjir þú með vini þínum á kaffihúsi máttu bóka að samtalið verður rofið og truflað margsinnis af gemsanum. Engin einbeiting né athygli fæst í spjallið. Það verður bara pirringur.

Gamall vinur þinn sem þú hefur ekki séð í nokkur ár kallar á þig úti á götu og það verða fagnaðarfundir. Það er mikið spurt af högum hvors annars og feikna áhugi látinn í ljósi. En viti menn! Hringir ekki óláns gemsinn og þér er samstundis og afsökunarlaust ýtt til hliðar eins og þú sért hver annar skítur á priki. 

Annar vinur kemur í heimsókn og býður þér með ofbeldi upp á það að hann svari oft og tíðum í gemsann meðan hann staldrar við. Engu breytir hvert umræðuefnið er, það gæti verið eitthvað hjartnæmt, sorglegt eða viðkvæmt. Þú gætir jafnvel verið að trúa vini þínum fyrir því að nú sé illt í efni því í gær hafi þeir verið að greina krabbamein í endagörninni á þér. En vinur þinn hlustar ekki. Hann valtar algjörlega yfir þig og allt sem þú hefur að segja þegar gemsinn gjallar. Og ég hef ekki enn lifað það að þráðurinn í samtalinu sé tekinn upp þar sem hann var slitinn. Gemsinn tvístrar athyglinni og einbeitingunni og sá sem hringt var í veit ekkert hvað hann sjálfur var að tala um og því um síður viðmælandinn. Það er af sem áður var að vinir komist nærri hverjum öðrum, að hugir þeirra og sálir snertist á viðverustundum og komist þá inn á einhverjar dýpri lendur mannlífsins. Til þess að það gerist þarf næði og alúð.

Þá er það algengt að einhver hringi í annan úr heimasíma sínum og tali lengi með kurt og pí og ekki ógáfulega. En loks glamrar gemsinn og þá breytist hringjarinn þegar í stað í dónalegt fífl og segir: Jæja, ég verð að svara í símann. En hann er í símanum!! Á þennan hátt gefur hann  fullkomlega skít í þann sem hann er að tala við, stjakar honum beinlínis í burtu með fyrirlitningu og í gemsaákefðinni gefur hann ekki einu sinni færi á að kveðja. Gemsinn fær hann til að skella bara á.  

Ég þekki einn og aðeins einn vin sem kann með gemsann sinn að fara. Hann tekur hann úr sambandi þegar hann situr með mér á kaffihúsi eða kemur í heimsókn. Þetta kalla ég tillitsemi og nærgætni í mannlegum samskiptum. Eðlilega kurteisi.

Allir aðrir vinir mínir eru barbarar í mannlegum samskiptum þegar gemsinn er annars vegar. En þeir eru þó hvorki verri né betri en gengur og gerist með aðra. 

Fólk ímyndar sér að það geti ekki án gemsans verið. Ég hef samt enn ekki verið með vinum mínum sem svara kalli gemsans á eins óhagstæðum stað í samtali og hugsast getur að gemsaútkallið hafi verið eitthvað annað og meira en ómerkilegasta blaður. 

Og nú mætti segja mér að þeir verði svo reiðir út í mig fyrir sannleikann að þeir tali ekki við mig í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. En ég segi: Ágætu vinir! Setjist nú niður og lærið lágmarks samskiptareglur áður en þið farið að setja ykkur á háan hest. Gjörist voldugir herrar yfir gemsunum ykkar í stað þess að vera auðmjúkir þrælar þeirra.

Verðið frjáls og gleðjist yfir frelsi ykkar!

 


Bleikt og blátt

Er það ekki nafn á bersöglistímariti sem Kolbrún Halldórsdóttir vill láta banna? 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband