Færsluflokkur: Ég

Bolla, bolla bolla!

Á bolludaginn í fyrra var ég svo utan við mig að ég mundi ekkert eftir deginum fyrr en á öskudag og þá voru allar bollur bæjarins uppétnar. Ég hef síðan ekki tekið á heilum mér fyrir bollulhungri. En í dag ætla ég að bæta mér það upp. Ég er þegar búinn að kaupa extra margar og extra large bollur sem ég ætla að úða í mig klukkan fjögur með ilmandi kaffidrukk.  Svo keypti ég líka eina sannkallaða kanónbollu fyrir hann Mala.

Ég fer alltaf í Sandholtsbakarí á Laugavegi til að kaupa bollur og annað bakkelsi. Það hef ég gert í tuttugu ár. Margar sætustu stelpur bæjarins hafa afgreitt mig á þessum tíma. Sumar voru reyndar hálgerðar feitabollur. Og ekki eru þær minna sætar nú. Þær eru eru nefnilegar allar orðnar útlendar og framandi fínar og lekkert. Miklu sætari en þær íslensku.

Er það nokkuð andfeminískt og andþjóðernislegt að skrifa svona?

Íslenskar stelpur eru orðnar svo fínar með sig að þær vilja ekki vinna í bakaríi. Það hefur nú  komið á daginn að Íslendingar nenna ekki lengur að vinna öll þau störf sem nauðsynleg eru til að halda uppi einu þjóðfélagi.

Nú láta þeir útlendinga vinna skítverkin fyrir skítakaup meðan þeir græða sjálfir peningana.

Bráðum verður risin hér upp láglaunastétt útlendinga. Og þá verður tímaspursmál að komi til átaka milli þeirra og innfæddra. Þá mun brjótast út heiftarlegt útlendinga- og kynþáttahatur. Fínt fyrir margan landann að geta hefnt persónulegra og  félagslegra ófara sinna í lífinu á "hinum" - helvítis  útlendingunum.

Þegar þar að kemur ætla ég skilyrðislaust að standa með útlendingunum. 


Blaðamaðurinn farinn

Blaðamaðurinn var hér í góðu yfirlæti í hálfan annan tíma. 

Þetta var reyndar blaðakona, sérlega viðkunnanleg.

Við ræddum landsins gagn og nauðsynjar.  

Það kjaftaði á mér hver tuska.   

Og Mali malaði allan tímann.

Svo kemur þetta í blaðinu um helgina.

Hvaða blaði - það kemur bara í ljós.  

 


Blaðamaður í heimsókn

Í  dag klukkan þrjú, ef stór loftsteinn rekst ekki á jörðina, á ég von á blaðamanni í heimsókn.

Það mun vera háttur loftsteina að gera ekki boð á undan sér. Þeir skella bara. Og allt er búið. Risaeðlurnar, mannkynið og allt, jafnvel ég líka.

Blaðamaðurinn á víst eitthvað vantalað við mig.

Ég er helst farinn að halda að ég sé very important person!

 

  


Úr dagbókinni 23. janúar 1973

Klukkan hálf fjögur í nótt hringdi Yngvi bróðir hingað og sagði að Yngvi frændi hefði hringt og sagt að tekið væri að gjósa í Helgafelli í Vestmannaeyjum. Svo furðulegar fannst okkur þessar fréttir að við trúðum þeim ekki almennilega fyrr en við höfðum hringt í lögregluna og fengið þær staðfestar þar. Við kveiktum þá á útvarpinu. Það hófst um um kl. 4. Þar var útvarpað orðsendingu til allra Vestmannaeyinga að hraða sér til hafnarinnar. Síðan kom lýsing á þessum atburðum.

Gosið er sprungugos, 1500 m langt austan í Helgafelli Gýs á allri sprungunni þunnu flæðigosi. Frá Reykjavík voru þrjú flutningaskip send til Eyja en var brátt snúið við er í ljós kom að floti Eyjamanna, Þorlákshafnar og Grindvíkinga var þess megnugur að sinna öllum flutningum frá Eyjum. Um kl. 4 fóru fyrstu bátarnir og komu til Þorlákshafnar um klukkan hálf átta og um hádegið voru nær allir Vestmannaeyingar komnir til Reykjavíkur. Gekk allt björgunarstarfið að óskum og ótrúlega hratt og urðu engin slys á mönnum. Og í kvöld var búið að koma nær öllum fyrir á einkaheimilum í Reykjavík.

EldfellSjónvarpið hafði aukafréttir kl. 13 og kl. 23.30 auk þess sem rækilega var greint frá þessum atburðum kl. 20. Var sannarlega óhugnalegt og ægifagurt að sjá þessar villtu hamfarir við svo að segja bæjardyr Vestmannaeyinga. Gosið hefur færst í aukana og sprungan lengst í báða enda en gosið er nokkuð breytilegt. Þessir atburðir kunna að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Engin leið er til að sjá fyrir um hvernig það mun þróast né heldur hve lengi það stendur. Ég vona að forsjónin hlífi minni fögru fæðingarbyggð við tjóni og landsspjöllum.  ... Ég svaf ekki dúr í nótt en tókst að blunda í þrjá tíma í dag. 

Svo segir dagbókin mín 23. janúar 1973 þegar gosið hófst á Heimaey. Á þessum tíma bjó ég á Akranesi.  Ljósmyndin er eftir Svein Eiríksson og er víða að finna á netinu. 


Hversdsagsleikinn

Það er undarlegt að mér finnst alltaf svo gaman fyrstu daganna eftir áramótin en einkanlega fyrstu dagana eftir þrettándann. En þó því aðeins að snjólaust sé og sæmilega lyngt veður.

Þetta hefur byrjað þannig að ég hef einhvern tíma á þessum dögum verið á rölti um bæinn einmitt í svipuðum aðstæðum og eru í dag, kyrru veðri og snjólausu - og svo aftur seinna og enn þá aftur. Og þá hefur smám saman skapast einhver stemmning, einhverjar kenndir og minningar sem síðan hafa loðað við þetta. 

Mest finnst mér gaman eftir þrettándann þegar búið er að taka niður jólaskreytingarnar og hversdagsleikinn er orðinn alsráðandi. Hann á vel við mig. Það venjulega. Það fábreytta. Það kyrrláta og hlédræga.

Sá sem ekki kann að meta hversdagsleikann kann ekki að meta lífið sjálft.

Þetta er kannski ófrumleg og hversdagsleg staðhæfing er hún er samt alltaf jafn sönn.   


Nýjársdagur

Hann hefur alltaf sérsaka stöðu í mínum huga. Á nýjársdag 1980 hætti ég að drekka áfengi. Þegar ég vaknaði þann dag vissi ég að ég myndi aldrei drekka meira. Mig hefur aldrei langað í vín og aldrei átt í neinni baráttu.

Það var eins konar frelsun.

Það er aldrei að vita hvort maður lifir til ársloka. Mér er alveg sama. Fyrir nokkrum árum gerðist undarlegur atburður í lífi mínu sem kenndi mér að það er ekkert að óttast hvað dauðann varðar.   

Á síðasta ári dó besti vinur minn sem ég hafði nær dagleg samskipti við í aldarfjórðung.

Þannig er lífið. Það hverfur að lokum. Allt hverfur að lokum.

Nema eitt.

 


Yfirborðslegt jólasnakk

Jú, jú, það fór eins og ég spáði að  það yrðu hvít jól í Reykjavík.  Nú eru að skapast vandræði víða um land á vegum vegna ófærðar og hálku. Í dag var hríðarbylur í borginni og ekki sérlega langt frá því veðri sem ég var að spá að yrði á jóladag!

Spá mín var ekki bara grís. Á langtíma veðurspám um miðjan desember mátti sjá að kaldur loftmassi úr vestri átti að koma yfir landið um jólin og þá má einmitt búast við svona veðri. Og ég var alltaf viss um að yrðu hvít jól.

Já, börnin mín! Þið megið alveg taka mark á honum Sigga sanasól þegar langtíma veðurspár  eru annars vegar. Hann sér oft furðu drjúgt fram í tímann! Flottasta spáin hans var þegar hann sat í bíl með vini sínum 2. júlí 1991 og varð að orði þegar hann leit til Esjunnar og sá óvenjuleg litbrigði hennar: Noh, nú fáum við þrettán stiga júlí! Og auðvitað fengum við þrettán stiga júlí sem síðan hefur ekki komið og aðeins sjaldan þar á undan. 

Maður á víst annars að vera hógvær á jólunum og ekki stæra sig af framsýni sinni og heldur ekki tala illa um aðra. En ég get bara ekki á mér setið en allt samt í jólagóðu:

Hvernig í ósköpunum stendur á því að margt fólk vill heldur fá þennan viðbjóðslega blauta snjó og þær samgöngutruflanir sem honum fylgja með tilheyrandi skaflahraukum og slabbi heldur en þá tandurhreinu og auðförnu jörð sem verið hefur víðast hvar á landinu allan þennan mánuð? Svo kólnar og snjórinn breytist í skítuga sterkju. Það er bara eitthvað að þessu fólki! Hins vegar er ég áhugamaður um veður og tek svo sem öllu veðri sem hverri annari guðsgjöf.

Annars hef ég haft það óvenju náðugt um jólin. Ég var hjá Helgu systir á aðfangadagskvöld ásamt dætrum hennar Sigurrósu og Evu. Þar var líka hún Perla sem er hvorki meira né minna en mamma hans Mala. 

Við átum og tókum upp jólagjafir. Ég kom með jólabúðinginn sem ég útbjó á Þorláksmessu og hefur fylgt fjölskyldunni frá því við systkinin munum eftir okkur. Mamma kenndi mér að búa hann til og er ég nú eina manneskjan á jörðunni sem kann að búa hann til. Búðingur þessi er svo góður að allir verða miklu betri menn sem borða hann alveg fram að næstu jólum. Þannig stuðla einstæðir hæfileikar mínir í búðingagerð að velferð mannkynsins. Aldrei þessu vant fékk ég flestar gjafirnar ef með eru taldar gjafirnar til monsjörs Mala sem ég tók upp fyrir hans loppu. Hann fékk sex gervilegar mýs og  kisunammi.

Eva ók mér heim og kom upp til að dást að honum Mala. Það gera allir enda er hann fallegasti og gáfaðasti köttur sem nú er uppi. Á eftir hlustaði ég á Jólasöguna hans  Heinrichs Schutz og það var hápunktur jólanna eins og alltaf. Þeir sem ekki þekkja þessa músik vita ekki hvað jól eru!

Í dag át ég það besta hangikjet sem mér hefur tekist að elda. Fyrir nokkrum árum tók ég upp þann sið að vera bara heima á jóladag í friði og mikilli spekt og afþakka öll utanaðkomandi jólaboð frá mínu slekti. Eftir matinn lá ég um stund á meltunni og malaði honum Mala til samlætis en hlustaði svo á alla Jólaóratóríu Bachs. Síðan las ég í Nútímastjörnufæði, bók sem ég fékk í jólagjöf frá Mala og við héldum áfram að mala saman. Það eru aldeilis víðátturnar í þessari bók, mörg miljón ljósár alveg. Ég hef haft áhuga fyrir stjörnunum síðan ég var unglingur. Hann er eldri en veðuráhuginn!

Ég stend í  nokkru stríði við monsjör Mala út af jólatrénu sem  hann uppástendur að sé leikfang honum til skemmtunar. En það leysist allt í góðu.

"Jólunum á eru allir vinir og við syngjum fagnaðarsöng."

  


mbl.is Þæfingsfærð í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum nú upp léttara hjal

Í dag lét ég klippa mig hjá sama rakaranum og ég hef  farið til í ein tuttugu ár. Hann er frábær. Ég kemst alltaf á hörkusjens i viku eftir að hann hefur klippt mig. Ég gekk heim frá honum alveg vestast úr vesturbænum og til móts við Norðurmýrina. Það var gaman að ganga þessar gamalgrónu vesturbæjargötur. Hjarn var á jörðu og jólaljós við hvert hús. Oft mátti sjá inn um glugga á bækur og gömul húsgögn. Saga í hverju skoti. Gamli bærinn er eiginlega tímalaus.

Mikil gersemi er diskurinn hennar Ingibjargar Þorbergs. Lagið hennar Hin fyrstu jól er eitthvert besta jólalagið. Það nær alveg blænum sem var yfir kyrrlátum vesturbænum um jólin þegar ég var að alast þar upp. Veturinn 1957 til 1958 kenndi Ingibjörg mér söng í Miðbæjarskólanum. Ég fékk að syngja Óla rokkara hjá henni í tíma. Þið hefðuð átt að sjá mig þá! Ég var rosalega töff!

Það var bernskujólalegt að ganga niður á Vesturgötuna og sjá Raforkujólabjölluna birtast fyrir enda götunnar. Þarna hefur hún verið á sínum stað um jólin frá því ég man eftir mér. Okkur krökkunum fannst alltaf vera komin alvöru jólastemning þegar bjallan var sett upp. 

Í Eymundsson gekk ég fram á vin minn Trausta Jónsson sem kom nálægt útgáfu disksins hennar Ingibjargar. Hann spáir í veðrið fram í tímann. Ég spái hins vegar í veðrið aftur í tímann og er bara nokkuð glúrinn í  því.

Jú, jú, jólin eru kristin hátíð. Menn eru að segja að saga okkar og menning sé samofin kristnum sið. En ekki hvað. Við höfum ekki haft neitt val um annað. Þetta er bara það sem við meðtökum með móðurmjólkinni. En er þetta nokkuð betri siður en annar siður? Kannski bara ósiður? Það sem okkur finnst  mest um vert í menningu vesturlanda, frelsið og mannréttindin, vísindin og velmegunin, hefur að vísu sprottið fram í kristnum löndum en á sér mjög veraldlegar forsendur, jafnvel efnahagslegar, er ýttu undir breytingar í hugsun sem oft voru  í fyrstu bornar fram af frjálshuga einstaklingum í andstöðu við alla trúarlærdóma eða að minnsta kosti ótengt þeim.  

Annars leiðist mér ekkert eins mikið og deilur um trúmál. Þær eru hreinlega að drepa bloggið. Ekki veit ég til að nokkrum manni, til eða frá, hafi verið talið hughvarf um  trú sína í öllu því ólukkans tuði.

Bloggum frekar um eitthvað  skemmtilegt.    

 


Fimmtíu tonna þunglyndi

Fyrir ári síðan lenti ég í þrjátíu tonna þunglyndi sem ég skrifaði um á blogginu.

En undanfarnar vikur hef ég verið að berjast við þunglyndi sem hefur verið að minnsta kosti fimmtíu tonn að þyngd. Ég læt samt á engu bera. Þó ég hafi aldrei litið glaðan dag í lífinu er ég alltaf hress og upprifinn út á við.

En ég nenni ekki lengur að fara út í búð að kaupa í matinn enda et ég ekki neitt og dagsbirtan sker svo í augun. Ég verð líka að hafa tappa í eyrunum því öll hljóð eru alveg að æra mig.

Ég er sannfærður um að mín bíður ekkert nema gröfin köld.

Svo fer ég beina leið til helvítis.

Og enginn fær gert við því.

 


Ef ég fengi slag

Þá vildi ég drepast sem allra fyrst. Á því eru mjög góðar líkur. Ég bý einn og væri líklega búinn að liggja marga daga áður en einhver kæmi að mér. Ef ég væri þá enn á lífi væru mögulerikarnir til að ná sæmilegum bata líklega að engu orðnir.

Og ekki vildi ég vera lamaður hálfviti  það sem eftir væri ævinnar.

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að ég væri enn þokkalega með lífsmarki eftir að ég fyndist en kannski lamaður og mállaus myndi mér ekki finnast taka því að fara í einhverja endurhæfingu. Miklu nær væri að fyrirfara sér.

Ég veit líka að ég myndi ekki fá neinn stuðning "fjölskyldunnar" því hún fyrirfinnst ekki.

Mikið eru svo þessi eilífu heilsufarsátök orðin óþolandi. Það er ekki hægt að opna Morgunblaðið án þess að þar sé ekki heilaslagsdagur, alzheimersdagur, hjartadagur, blöðrudagur, beinþynningardagur, endaþarmsdagur, krabbameinsdagur, gigtardagur eða ég veit ekki hvaða andskotans dagur.

En allir daga taka enda, Og þetta endar allt á einn veg: Við deyjum. Og hvað er svona voðalegt við það?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband