Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Orð guðs

Það er sagt að biblían sé orð guðs. Sumir vilja skilja þau orð alveg bókstaflega þó öll önnur orð, jafnvel hin hversdagslegasta umræða, séu alltaf tvíræð og  túlkunum háð, jafnvel eftir tónblæ raddarinnar í töluðum orðum.

Biblían er fjandi gömul, sum rit hennar eru meira en 2000 ára og mygluð eftir því en yngstu ritin eru frá því kringum 150 eftir Krist.

Hvers vegna í ósköpunum datt guði í hug að opinbera orð sitt fyrir svona ævalöngu síðan þegar öll tækni til að útbreiða orðið var á öðru og lægra stigi? Ekkert prent, ekkert útvarp, ekkert sjónvarp, ekkert blogg! Hefði ekki verið svo miklu praktískara fyrir guð að bíða með að opinbera öll sín mörgu orð - og náttúrlega þennan frelsara - þar til á okkar dögum. Hugsið ykkur ef allar sjónvarpsstöðvar heims myndu boða frumflutning á boðorðunum tíu í beinni útendingu um gjörvalla heimsbyggðina. Píslarganga Krists væri svo lýst á staðnum undir listrænni umsjá Mel Gibsons. Og annað eftir því.

Já, guð þjófstartaði heldur betur með sín orð, hver ég þori ekki fyrir mitt litla líf að draga í efa, en ég veit að margir nýjungagjarnir menn og glysgjarnar konur vísa þeim háðulega á bug sem forneskjulegu tauti. Hversu miklu skynsamlegra og notendavænna hefði það nú verið af guði að bíða með orðin sín  til okkar daga og nota alla nýjustu áróðurs-og fjölmiðlatækni til að koma þeim á framfæri.

 


Hitabylgjan búin

Síðustu átta daga hefur hitinn náð tuttugu stigum eða meira einhvers staðar á landinu og reyndar á mörgum stöðum inn til landsins. En þokan og hafáttin olli því að lítið varð úr hitanum við sjóinn, t.d. í okkar ástkæru höfuðborg. Það sem af er mánaðarins er meðalhitinn hér samt hálft annað stig fyrir ofan meðallag eða jafnvel meira. Nú er dýrðin búin því í dag varð hvergi hlýrra en 18 stig og varð það í Hrútafirðinum af öllum stöðum.  

Og spáin næstu daga er einstaklega ógeðsleg. Fyrst verða votviðri en svo snýr hann sér í norðrið.  Þá birtir auðvitað yfir hér syðra en hitanum verður kannski ekki fyrir að fara. Eftir það gæti ég svo trúað að komi eldgos og hallæri.


Dauðinn

Athyglisverð skoðanaskipti hafa farið fram í Morgunblaðinu um það atvik þegar ungmenni sem vinna í kirkjugörðum Reykjavíkur var leyft að skoða þar lík í líkhúsi.

Kristján Valur Ingólfsson hjá Biskupsstofu er harðorður: "Látinn maður á að njóta sömu virðingar og hann gerir meðan hann er á lífi. Þar af leiðandi getur látinn maður aldrei verið sýningargripur." Og hann bætir við:  

"Þarna er verið að fara með fólk sem á ekkert erindi inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna þeim lík [þegar ungmennin skoðuðu lík]. Þegar prestsefni eru þjálfuð fara slíkir nemar í líkhús og það er hluti af þeirra námi. Að mínu viti ætti það ekki að vera leyfilegt að fara með hóp inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna látið fólk. Í slíkum tilfellum er verið að sýna persónur og þessar persónur njóta friðhelgi, rétt eins og venjulegt fólk. "

Í blaðinu er einnig vitnað í bloggfærslu Karin Ernu Elmarsdóttir sem skoðaði lík í líkhúsum kirkjugarðanna Þegar hún vann þar sem unglingur. Hún segir:

"Á þessum tíma hafði ég aldrei farið í jarðarför, hvað þá séð látna manneskju og ákvað eftir nokkra umhugsun að fara í ferðina. Kvíðinn magnaðist upp er við komum að líkhúsinu, en ég fór samt inn. Þar sá ég látinn mann í fyrsta skipti. Þetta var allt öðruvísi en í bíómyndunum. Hann var nokkuð fallegur og undarlegur friður yfir manninum. Ég rétt þorði að koma við hann með einum putta. Hann var ískaldur. Mér var kalt á puttanum í langan tíma á eftir. Allir í hópnum sýndu hinum látna mikla virðingu og auðvitað var mér svolítið brugðið við þessa lífsreynslu, enda ung að árum. En með þessari ferð öðlaðist ég nýja sýn á dauðann og virðing mín fyrir þeim látnu og aðstandendum þeirra jókst til muna."

Morgunblaðið skrifar í dag leiðara um þetta mál. Það efast ekki um að starfsmenn kirkjugarðanna og unga fólkið sýni hinum látnu fyllstu virðingu og það held ég líka. En blaðið spyr hvort aðstandendur hinna látnu þurfi ekki að gefa samþykki sitt fyrir svona heimsóknum. 

Þó slík athugasemd sé eðlileg vil ég samt spyrja: Leita hópar presta, sem skoða lík í líkhúsum í námi, slíks samþykkis? Er nokkur munur á þeim heimsóknum og heimsóknum ungmennanna? Er ekki hægt að  rökstyðja heimsóknir þeirra síðarnefndu í líkhúsin með því að þau séu í vinnu sinni hjá kirkjugörðunum að kynnast raunveruleikanum í sambandi við dauðann og lík framliðinna, eins og Karin Erna lýsir einmitt svo fallega?

Nú á dögum er dauðinn sveipaður bannhelgi.  Við sjáum hann næstum því aldrei í raunveruleikanum en erum orðin háð falsmyndum kvikmyndanna. Og við erum hrædd við ásýnd dauðans. En það er ekkert að óttast. Oft er ótrúlegur friður yfir dánu fólki, þess eðlis að hann birtir einmitt þeim sem sjá hann aðra og huggunarríkari mynd af dauðanum en okkur er kannski tamt að halda að óreyndu. 

Mér finnst þetta mál ekki vera þess eðlis að hneykslast beri á því. Þvert á móti finnst mér þetta framtak kirkjugarðanna einföld og falleg leið til að kynna ungdómnum þá ófrávíkjanlegu staðreynd að við eigum öll eftir að verða liðið lík.

 

 

 


Ástin

Um ástina, þetta eldheita viðfangsefni sumra bloggara, hef ég aðeins þetta að segja:  

catsW

 


Árásirnar á Björn Bjarnason

Dómsmálaráðherra kvartar undan því að hafa orðið fyrir árásum vegna máls Páls Ramsesar. Hann skrifar á heimasíðu sinni:   

"Um nokkurra daga skeið hefur verið ráðist að mér, eins og ég hefði tekið þessa ákvörðun útlendingastofnunar. Er það jafnrakalaust og svo margt annað, sem um þetta mál hefur verið sagt á opinberum vettvangi. Ég hef ekki sagt neitt efnislega um málið og geri ekki, fyrr en í úrskurði ráðuneytisins, verði hans óskað. Ég kaus jafnframt að segja almennt sem minnst um málið að öðru leyti, þar til ég hefði haft tækifæri til að kynna sjónarmið mín á vettvangi ríkisstjórnarinnar."

Það liggur alveg í augum uppi hvers vegna menn hafa "ráðist á" Björn Bjarnason í þessu máli eins og hann væri meðábyrgur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi er sú stofnun undirdeild dómsmálaráðuneytisins. En í öðru lagi eru það orð Björns sjálfs sem  mestu hafa um þetta valdið. Hann sagði í svari við spurningum á Vísi is. varðandi umsókn Ramsesar um vinnureglur Útlendingastofnunar: 

„(H)vert mál er skoðað fyrir sig af útlendingastofnun, hún leggur mat á umsóknir og kemst að niðurstöðu um afgreiðslu þeirra. ... Réttarstaða útlendinga hér á landi er skýr og á síðasta þingi sameinaðist alþingi um breytingar á útlendingalögum til að skýra þessa stöðu enn betur. Dyflinarsamningurinn er einnig skýr og honum er beitt af aðildarríkjum hans. Að sjálfsögðu er ekkert ólögmætt eða athugavert að beita þeim samningi frekar en öðrum milliríkjasamningum."

Þessi yfirlýsing var birt eftir að Ramsesarmálið var komið á fullan blús. Það er því óhjákvæmilegt að fólk hafi skilið orð Björns um að ekkert væri "athugavert" að beita Dyflínarskamningum þannig að hann teldi að einnig í þessu tilfelli, sem öll umræðan hneig til, hefði heldur ekki verið neitt "athugavert" við að beita samningum sem auðvitað - vel að að merkja -er samt ekki skylda. Fólk stóð því eðlilega í þeirri meiningu að dómsmálaráðherra hafi verið að leggja beinlínis blessun sína yfir þessa tilgreindu framkvæmd Útlendingastofnunar en ekki að gefa yfirlýsingu um almennt lögmæti þess að beita milliríkjasamningum í afgreiðslu mála. Var nokkur leið að skilja þetta öðruvísi? Það sem enn frekar hefur stuðlað að þessum skilningi fólks eru orð Björn um það að Útlendingastofnun leggi mat á umsóknir sem hún afgreiðir. Menn hafa þá talið að hann hafi ekki séð neitt athugavert við hvernig þetta mál var "metið" og verið meðvitaður um þau ákvæði útlendingalaga að taka beri tillit til mannúðarsjónarmiða.  Og  í framhaldi af því hafa menn talið að Birni fyndist ekkert "athugavert" við það hvernig þeim sjónarmiðum var ýtt til hliðar í þessu máli þrátt fyrir skýr ákvæði. Já, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, er gert ráð fyrir "mati" eftir útlendingalögum. Það er bara grunnhyggni um raunveruleikann þegar menn halda því fram að lagareglur allar séu svo sjálflýsandi og sjálfvirkar að aldrei þurfi að meta eitt né neitt. Þannig er ekki lagaveruleikinn.  

Þetta sem ég hef rakið er einmitt orsök þess að menn töldu að Björn Bjarnason væri beinlínis að verja ákvörðum Útlendingastofnunar enda hefur hann hrósað settum forstöðumanni hennar og hvergi haft neins konar aðfinnslur í frammi um störf stofnunarinnar. Ef Birni finnst hart að sitja undir "árásum" vegna þessa máls getur hann aðeins við sjálfan sig sakast að hafa ekki kveðið skýrara að orði í fyrstu orðum sínum um máliðk  en fyrstu orð í máli ru oft þau sem mikilvægust eru fyrir framhald hverrar umræðu. Björn hefði átt að vanda málflutning sinn betur. Og ennfremur í framhaldi af þessu held ég að mörgum finnist að Björn hafi sagt ýmislegt "efnislega" um málið nú þegar þó hann vilji meina annað.  

Björn segir líka á heimasíðu sinni:

"Þegar ég lít yfir umræður undanfarna daga, kemur mér mest á óvart, hvers vegna þeir, sem telja sig vera að verja málstað Pauls Ramses kjósa að gera það með svo miklum og mörgum ósannindum. Ég hvet þá eindregið til að vanda málflutning sinn meira og hafa það, sem sannara reynist."

Ég hef fylgst nokkuð vel með þessu máli þó vitanlega hafi ég ekki haldið utan um allt sem fram hefur komið. Ekki fæ ég annað séð en málflutningur þeirra sem gagnrýnt hafa dómsmálaráðherra sé oftast sæmilega vandaður með undantekningum og ekki sé ástæða til að leggja hann þannig út að hann markist  svona yfirleitt af ósannindum.  En hann hefur oft verið harður enda ekki við öðru að búast vegna eðli málsins.      

Svo hélt ég að dómsmálaráðherra eins ríkis ætti nú að vera ýmsu vanur. En það er vissulega hart að verða fyrir "árásum" fyrir hvaða mann sem er. Það er samt enn harðara að vera varnarlaus flóttamaður sem er aðskilinn frá fjölskyldu sinni.

Það er aðalatriðið. Og ef Björn tekur upp málið af sanngirni og mannúð, sem ég held að svelli alveg í brjósti hans, er ekki  öll nótt úti um  happy end fyrir alla aðila. 


Rafræn dagbók um mótmæli og fleira

Það er sagt að bloggið sé "rafræn dagbók". Ég hef reyndar haldið handskrifaða dagbók síðan 3. maí 1962 en nú ætla ég að skrifa dagbók rafrænt fyrir þennan dag, so far.

Ég vaknaði hress og glaður og leit til veðurs. Það er alveg skítsæmilegt. Fór galvaskur að mótmæla í Skuggasundi í hádeginu. Þar voru ekki margir en það segir ekkert um hug þjóðarinnar til máls Páls Ramses. Mótmæli sem einstaklingar boða til eru alltaf fámenn. Það þarf félagasamtök eða einhverja hálf opinbera aðila til að fjölmenni fari að mótmæla. En þessi mótmæli hafa samt þýðingu langt framyfir fjöldann sem mætir á degi hverjum.

Stefán Pálsson flutti snjalla ræðu og sagði að Páll hafi átt í  höggi við atvinnumenn. Hugsa sér að hafa atvinnu af því að valda saklausu fólki þjáningum! Þráinn Bertelson talaði líka og sagðist hafa samvisku. Eva Hauksdóttir, norn, framdi að lokum magnaðan nornaseið.

Í dagókum eiga menn að vera persónulegir og hreinskilnir og helst ganga fram af lesendum. Þess vegna ætla ég að játa þann veikleika minn að hafa alltaf fundist Björn Bjarnason mjög áhugaverður maður. Það er eitthvað á bak við frontinn sem mér finnst merkilegt. Ég hef heldur aldrei vitað nokkurn mann sem horfir eins mikið á mig og hann. Meðan ég var að krítisera allt og alla sem tónlsitargagnrýnandi sá ég hann oft á tónleikum. Og hann horfði svo mikið á mig. Hvað var hann að pæla? Ég horfi á þá sem mér finnst vera eftirtektarverðir. Horfi framhjá hinum. Og ef einhver sýnir mér áhuga sýni ég honum áhuga. Þetta er alltaf gagnkvæmt. Spáðu í mig og ég spái í þig, sagði  Megas. 

Já, ég játa intressu mína í Birni Bjarnasyni. 

Well, en áfram með smérið og mótmælin. Þar voru ýmis stórmenni. Þar var Steingrímur J. Sigfússon og Mörður Árnason og Bjarni Harðarson. Allir voru þeir mjög alþingismannalegir. Bjarni er líka maður sem mér finnst eitthvað sjarmerandi við, þó ekki væri nema bókabúðin á Selfossi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var líka eins og drottning og var svo sjarmerandi að það leið næstum því yfir mig. En sú persóna sem sló alla aðra út í sjarmanum var tíkin Lúna sem var með húsbónda sínum, Stefáni Unnsteinssyni vini mínum.

Það er skítt hjá forsætisráðherra að segja það eitt að að í afgreiðslu máls Páls Rameses hafi í einu og öllu verið farið eftir lögum og reglum. Það er reyndar vafasamt af því að í lögunum er gert ráð fyrir mati á mannúðarsjónarmiðum. Það er ekki eithvað sem stendur utan við lögin. Afhverju átta menn sig ekki á þessu? Eru menn ekki læsir? En með þessum orðum er forsætisráðherra einfaldlega að leggja blessun sína yfir brottvísun Páls. Ekkert hafi verið athugavert við hana. Hvað æðstu ráðamenn eru alltaf sjálfum sér líkir.

Ég var að fá ímeil frá sjálfri Tótu pönkínu. Hún lætur vel af sér þó hún sé hætt að blögga. Hún kenndi mér að blogga og allt sem ég kann í blogstælum er stælt eftir henni og nú ég þykist sjálfur alltaf vera að hætta að blogga henni til samlætis en hætti samt aldrei. Ég held að bloggið sé uppfinning djöfulsins! Já, ég er að verða þæl trúaður í seinni tíð. Ég ætla að klára að blogga um veðrið í öllum mánuðum ársins. Svo hætti ég og sest í háhelgan stein.

Það skásta við bloggið er að það gefur hverjum bloggara færi á að sýna á sér ýmsar hliðar. Menn geta bloggað um alvarleg þjóðfélagsmál jafnt sem látið eins og fífl. 

Vel á minst. Frægur bloggari heimsótti mig í gær. Í dagbók eiga menn að vera hreinskilnir og ég vona að ég megi segja frá þessu. Þetta var hvorki meira né minna en hún Anna Karen. Hún var reyndar að skoða hann Mala fyrst og fremst. Enda er hann eitt af undrum veraldar. Frá því ég fékk Mala er hér stöðugt rennerí af aðdáendum og sumir koma með gæludýrin sín til að líta goðið augum. Áður kom hér aldrei nokkur maður eða nokkurt annað kvikindi.

Mjá, það held ég nú. 

Jæja, þá er þessari rafrænu dagbók lokið í bili og ég þarf að fara að undirbúa bloggfærslu um  sjóðheitustu júlímánuði.   

  


Félagsleg húsaleiga hækkar

Á Vísi is. er frétt um það að félagsleg húsaleiga hafi hækkað um hvorki meira né minna en 6% við síðustu vísitölubreytingu en þær verða ársfjórðungslega. Þess er einnig getið að Félagsbústaðir hafi sótt um að fá að hækka grunnleiguna um 10% en Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur ekki enn tekið afstöðu til þeirrar beiðni. Ástæðan fyrir hækkunarbeiðninni segja Félagasbústaðir að sé fjárhagserfiðleikar fyrirtækisins.

En hvað um fjárhagsstöðu leigjendanna sem vitað er að er fólk sem ekki hefur fjárhagsgetu til að kaupa sér íbúð eða leigja á frjálsum markaði? Nái grunnhækkunin sem Félagsbústaðir vilja fá fram hefur húsaleigan hækkað um 16%. 

Hvað ef leigan hækkar svo um 6% ársfjórðungslega vegna vísitölubreytinga. Það gerir 24% hækkun á ári. Þarf nú ekki að fara að vísitölubinda húsleigubætur svo fólk neyðist ekki til að hrekjast út úr félagslegu leiguhúsnæði?

Hætt hefur verið að niðurgreiða húsaleigu með fastri prósnetutölu af leiguupphæð en í staðinn hafa verið teknar upp sérstakar húsaleigubætur þar sem tekið er mið af fjárhagsstöðu hvers og eins við ákvörðun húsaleigu. Hjá flestum er sagt að leigan lækki en hún getur hafa hækkað hjá sumum.

Jórunn Frímannsdóttir forstöðumaður Velferðarsvið Reykjavíkurborgar skrifaði grein um þessar breytingar í Morgunblaðið. Hins vegar hefur ekki verið haft fyrir því að gera hverjum og einum leigjanda grein fyrir því hvernig húsaleigubætur hans eru reiknaðar. Leigjendurnir fá bara innheimtuseðil með nýrri upphæð án nokkurra skýringa á breyttri upphæð húsaleigubóta. Þetta er mikið tillitsleysi við leigjendur í máli sem snertir eins mikið afkomu þeirra eins og  húsaleigan er og þetta er ekki Reykjavíkurborg sem sveitarfélagi sæmandi. 

Það kostar kannski peninga að gera þetta. En það er enginn afsökun. Sumt er óhjákvæmilegt. 

Hið opinbera getur ekki verið þekkt fyrir að sýna skjólstæðingum sínum svona mikið tillitsleysi.      

 


Kælandi áhrif sjávarins

Í dag var loftið í háloftunum yfir landinu hlýrra en það hefur verið áður í sumar. Því miður ná þessi hlýindi sér óvíða á strik vegna þoku og skýja sem koma frá hafinu. Á svæðinu kringum Þingvelli, Borgarfjörð og sunnanverðu Snæfellsnesi, ásamt hálendinu milli Hofsjökuls og Vatnajökuls hafa hlýindin skilað sér. Á Þingvöllum og Hvanneyri fór hitinn í 24 stig, 22 í Stafholtsey í Borgarfirði, 21 á Mýrunum og í Húsafelli og 20 á Bláfeldi á suður Snæfellsnesi. Og 22 stig voru svo í Veiðivatnahrauni og 20 á Setri fyrir sunnan Hofsjökul.  

Í Reykjavík komst hitinn í 15 stig sem er auðvitað ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hins vegar var sami hiti á Skálafelli í yfir 700 metra hæð og í Bláfjöllum komst hitinn í 18 stig og 19 á Hellisheiði. Sýnir þetta vel kælandi áhrif sjávarins.

Þetta hægviðri er reyndar alveg vonlaust fyrir höfuðborgarbúa. Ekki er von um neitt skárra nema hreyfi vind af hagstæðri átt.

 


Því er ekki að leyna

Að ýmislegt er óljóst varðandi mál Paul Ramses.  Mér finnst til dæmis að þau hjá ABC, sem sagt er að hafi sönnungargögn um það að Ramses sé á dauðalista í Keníu, ættu að birta gögnin opinberlega. Gögnin hafa hvergi birst svo ég viti. Þessi líflátsógnun er sterkasta röksemdin fyrir því að Paul Ramses verði veitt hér hæli sem pólitískum flóttamanni.

Nú er ég ekki að draga trúverðugleika Paul Ramses í efa. Aðeins að benda á það að beinar staðreyndir eru grundvöllur allra mála.

Sitt hvað fleira sem mál hans varðar mætti vera stutt órækum gögnum frá hlutlausum aðila. Ekki treysti ég Útlendingastofnun og vitnisburður annarra þarf auðvitað líka traustra heimilda við.

Útvarpið var að skýra frá því að utanríkisráðherra vildi ekki gefa upp afstöðu sína til þess hvort hún vilji að reynt verði að fá Paul Ramses aftur til Íslands. Hvers vegna ekki? Hún hefur sagt að sér sé umhugað um málið. Afhverju getur ráðherran þá ekki gefið hug sinn upp til þjóðarinnar? Þjóðin hlýtur að eiga heimtingu á því miðað við fyrri yfirlýsingar utanríkisráðherra. 


Flóttamaður að gamni sínu?

Nýjasta útspil dómsmálaráðherra er þetta: 

"Ómar Valdimarsson, áður um árabil alþjóðastarfsmaður í Afríku, nú fréttamaður á Stöð 2, sagði frá því í kvöldfréttum, að pólitískir flóttamenn þekktust ekki frá Kenýa, fyrir utan einn, sem hefði afhjúpað opinbert hneykslismál og flúið fyrir nokkrum árum. Hvorki starfsmenn alþjóðastofnana né fjölmiðlamenn í Kenýa teldu nokkurn þurfa að flýja land vegna pólitískra ofsókna, eftir að stjórnmálafriður varð í landinu fyrr á þessu ári."

Ég játa að ég veit ekki hvernig á að bregðast við þessari frétt Ómars eða hvað hæft er í henni.  Ætli menn séu virkilega að fara um hálfan hnöttinn bara að gamni sínu til að sæta því öryggisleysi sem flóttamenn þurfa að búa við?

Á athugasemdum við ýmsar færslur á bloggsíðum eru hinar og þessar dylgjur um  það að Paul Ramses sé kannski grunsamlegur, sé jafnvel á flótta undan því að hafa framið voðaverk í heimalandi sínu. En sem svar við einni  hófsamri en nafnlausri athugasemd við bloggfærslu um það að Ramses þyrfti ekkert að óttast í Kenía sendi kona inn orð sem ég leyfi mér að birta hér.  

"Ég þekki Paul Ramses persónulega en ég, ásamt manninum mínum, sé um kirkjustarf fyrir útlendinga í Hvítasunnukirkjunni.

Ég fékk ásamt 2. öðrum að tala við hann kvöldið áður en hann var sendur úr landi. Það sem hann sagði okkur um ástandið í landinu passar við það sem ég hef síðan lesið mér til um. Hann sagði okkur einnig að hans stjórnmálaflokk og Odinga hefði tekist að knýja fram aðild að ríkisstjórn. Þrátt fyrir það hafði hann góða ástæðu til að ætla að hann væri enn í mikilli hættu, hann var raunverulega hræddur um hvað myndi gerast ef hann yrði sendur aftur til Kenýa og hafði miklar áhyggjur af konu sinni og syni. Ástæðan er m.a. sú að lögreglan í héraðinu hans var að leita hans, ekki aðeins vegna stjórnmála afskipta hans heldur einnig vegna þess að hann átti að hafa fengið 6. milljónir sendar frá Íslandi þegar hann stjórnaði ABC í Kenýa og falið þær einhversstaðar, þetta er bull og vitleysa eins og Þórunn Helgadóttir hjá ABC getur staðfest, vegna þessa leitaði lögreglan m.a. af honum í miðstöð ABC.

Áður en hann flúði úr landi, hafði hann verið handtekinn og beittur ofbeldi og pyntaður af lögreglunni ásamt 24. öðrum karlmönnum, þetta gerðist 3. janúar. Vegna þessa hafði hann liðið miklar kvalir, líkamlega og sálarlegar og var hjá sálfræðingi á vegum Rauða Krossins vegna þess.

Hann var raunverulega hræddur um að vera sendur til baka og hann hafði raunverulegar ástæður fyrir ótta sínum. Hann kom ekki til Íslands að gamni sínu eða til að liggja á kerfinu. Hann kom til að hann og kona hans og sonur gætu lifað við öryggi. Hann vann fyrir þeim á veitingastað í Rvk. og þau leigðu sér íbúð sem þau borguðu sjálf af. Þau eru ekki eitthvað hyski sem eru hingað komin af því það er svo gaman að vera hérna! (ekki að þú hafir sagt það nafnlaus, en ég hef séð marga segja það og það gerir mig bálreiða, það gæti ekki verið fjarri sannleikanum!)

Vonandi varpaði þetta einhverju ljósi á aðstæður þeirra.

Kv. Kristín Jóna"

Þetta finnst mér athyglisverð orð og ekki úr vegi að íhuga þau meðfram þeim boðskap sem  berst frá dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband