Færsluflokkur: Mannlífið
31.7.2008 | 13:44
Nauðganir og fyllirí
Ég þarf varla að taka það fram að ég hef andstyggð á nauðgunum og öllu kynferðislegu ofbeldi. Um það hef ég skrifað meira og byrjaði á því fyrr en flestir aðrir. En ég hef líka verið án áfengis í 28 ár. Ruglheiminn þekkti ég vel og þekki enn að vissu marki.
Um hverja verslunarmannahelgi kemur upp umræða um stelpur sem drekka sig út úr fullar og eru þá auðveld bráð fyrir nauðgara. Það er hamrað á því án nokkurra tilbrigða ár eftir ár að nauðgun sé alltaf á ábyrgð nauðgarans en aldrei á ábyrgð þolandans.
Það er auðvitað alveg rétt. Að nauðga stelpu sem er í áfengisdái er óafsakanlegt, níðingslegt og löðurmannlegt framferði.
Samt sem áður finst mér að það eigi líka að hamra á því að enginn eigi að drekka sig ofurölvi. Og ég held því ákveðið fram að hver einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og þá ábyrgð megi aldrei frá honum taka. Þess vegna ber sú manneskja (karl eða klona) sem kemur sér í varnarlaust ástand vegna neyslu áfengis eða annarra vímuefna vissa ábyrgð á því sem yfir hana dynur í því ástandi, hvort sem það er stolið frá henni, henni er nauðgað eða það er hreinlega mígið yfir hana sem sumir hafa gaman af að gera við fólk í áfengisdauða í háðungarskyni.
Ástand ofurölvi manneskju tekur ekki ábyrgðina frá nauðgaranum og þjófnum. En ég er yfir mig hneykslaður yfir þeim lélega áfengismórall sem ríkir í landinu og kemur fram í því að margir hálfpartinn sætta sig við það að þeir sem drekka frá sér vit og rænu beri EKKI LÍKA vissa ábyrgð á því sem yfir þá gengur í því ástandi. Hún hefur ekki gát á sjálfri sér. Og þeir sem hafa ekki gát á sjálfum sér kalla yfir sig ógæfu. Þetta ætti að vera einfalt mál. En á dögum rétttrúnaðar er það allt í einu gert flókið.
Við eigum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og aldrei koma okkur í það ástand sem býður niðurlægingu heim. Það á að hamra á því fyrir hverja verslunarmannahelgi.
Það er uppgjöf fyrir vímuefnunum ef svo er litið á að öfurölvi manneskja beri ekki ábyrgð á sjálfri sér og geti ekki að vissu leyti sjálfri sér um kennt hvað yfir hana gengur.
En það tekur ekki ábyrgðina og vanvirðuna af þeim sem nýta sér slíkt ástand.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.7.2008 | 14:51
Dauðinn
Athyglisverð skoðanaskipti hafa farið fram í Morgunblaðinu um það atvik þegar ungmenni sem vinna í kirkjugörðum Reykjavíkur var leyft að skoða þar lík í líkhúsi.
Kristján Valur Ingólfsson hjá Biskupsstofu er harðorður: "Látinn maður á að njóta sömu virðingar og hann gerir meðan hann er á lífi. Þar af leiðandi getur látinn maður aldrei verið sýningargripur." Og hann bætir við:
"Þarna er verið að fara með fólk sem á ekkert erindi inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna þeim lík [þegar ungmennin skoðuðu lík]. Þegar prestsefni eru þjálfuð fara slíkir nemar í líkhús og það er hluti af þeirra námi. Að mínu viti ætti það ekki að vera leyfilegt að fara með hóp inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna látið fólk. Í slíkum tilfellum er verið að sýna persónur og þessar persónur njóta friðhelgi, rétt eins og venjulegt fólk. "
Í blaðinu er einnig vitnað í bloggfærslu Karin Ernu Elmarsdóttir sem skoðaði lík í líkhúsum kirkjugarðanna Þegar hún vann þar sem unglingur. Hún segir:
"Á þessum tíma hafði ég aldrei farið í jarðarför, hvað þá séð látna manneskju og ákvað eftir nokkra umhugsun að fara í ferðina. Kvíðinn magnaðist upp er við komum að líkhúsinu, en ég fór samt inn. Þar sá ég látinn mann í fyrsta skipti. Þetta var allt öðruvísi en í bíómyndunum. Hann var nokkuð fallegur og undarlegur friður yfir manninum. Ég rétt þorði að koma við hann með einum putta. Hann var ískaldur. Mér var kalt á puttanum í langan tíma á eftir. Allir í hópnum sýndu hinum látna mikla virðingu og auðvitað var mér svolítið brugðið við þessa lífsreynslu, enda ung að árum. En með þessari ferð öðlaðist ég nýja sýn á dauðann og virðing mín fyrir þeim látnu og aðstandendum þeirra jókst til muna."
Morgunblaðið skrifar í dag leiðara um þetta mál. Það efast ekki um að starfsmenn kirkjugarðanna og unga fólkið sýni hinum látnu fyllstu virðingu og það held ég líka. En blaðið spyr hvort aðstandendur hinna látnu þurfi ekki að gefa samþykki sitt fyrir svona heimsóknum.
Þó slík athugasemd sé eðlileg vil ég samt spyrja: Leita hópar presta, sem skoða lík í líkhúsum í námi, slíks samþykkis? Er nokkur munur á þeim heimsóknum og heimsóknum ungmennanna? Er ekki hægt að rökstyðja heimsóknir þeirra síðarnefndu í líkhúsin með því að þau séu í vinnu sinni hjá kirkjugörðunum að kynnast raunveruleikanum í sambandi við dauðann og lík framliðinna, eins og Karin Erna lýsir einmitt svo fallega?
Nú á dögum er dauðinn sveipaður bannhelgi. Við sjáum hann næstum því aldrei í raunveruleikanum en erum orðin háð falsmyndum kvikmyndanna. Og við erum hrædd við ásýnd dauðans. En það er ekkert að óttast. Oft er ótrúlegur friður yfir dánu fólki, þess eðlis að hann birtir einmitt þeim sem sjá hann aðra og huggunarríkari mynd af dauðanum en okkur er kannski tamt að halda að óreyndu.
Mér finnst þetta mál ekki vera þess eðlis að hneykslast beri á því. Þvert á móti finnst mér þetta framtak kirkjugarðanna einföld og falleg leið til að kynna ungdómnum þá ófrávíkjanlegu staðreynd að við eigum öll eftir að verða liðið lík.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.7.2008 | 01:16
Ástin
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.4.2008 | 23:23
Hvað skiptir máli?
Nú dreymir mig um það að vera í friði og af engum þekktur. Þó ég sé stundum að þenja mig á almannafæri er ég afskaplega hlédrægur og mikið fyrir að lifa í mínu eigin heimi, eiginlega utan við skarkala mannlífsins. Mér finnst ég aldrei hafa tilheyrt mannlífinu í raun og veru. Samt á ég auðvelt með að eignast vini og er í góðu sambandi við fólk þegar ég vill það viðhafa. Ég fann það vel á fordómafundinum í dag, sem heppnaðist afar vel í alla staði, hvað það er mér auðvelt að tala til fólks.
Mér finnst ég samt alltaf standa utan við.
Og mér líður bara vel með það.
Undanfarið hef ég verið með bloggógeð sem kemur alltaf og fer annars slagið. Best finnst mér þá að láta sem minnst á mér bera. En af því að ég er líka félagslyndur er mér orðið hlýtt til marga þeirra sem gera athugasemdir hér á síðunni. Og þó ég hafi sagt um daginn að ég sé búinn að fá mig fullsaddan af hysterískum aðdáendum mínum er þar ekki átt við einstaklingana heldur bara að ég hef ekki verið í bloggstuði og vildi vera einn með sjálfum mér.
Þegar fer að vora eflist alltaf þessi tilfinning mín fram eftir sumri að vera einn með sjálfum mér og njóta vorsins.
Það er aldrei að vita nema það sé síðasta vorið.
Hvað skiptir máli í lífinu? Að þenja sig á bloggi og standa upp fyrir haus í dægurmálunum eða reyna að skilja lífið einhverjum alvöru skilningi meðan enn er tími til? Útivera, góðar bækur, mikil tónlist, einhver dýpt og innileiki utan við argaþrasið sækir þá að.
Allt sem máli skiptir kemur að innan en ekki utanfrá.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.2.2008 | 10:23
Að niðurlægja aðra
Ekki get ég ímyndað mér lítilmannlegri iðju en þá að niðurlægja aðra með orðum og athöfnum. Ég tala nú ekki um þegar menn hreykja sér svo af því með yfirlæti. Þá er t.d. talað digurbarkalega um það að menn verði nú að hafa harðan skráp til að geta tekið þátt í opinberum málum. Það er sem sagt undirskilið að opinber umræða eigi ekki að vera málefnaleg heldur eigi að svíða persónulega undan henni. Af því að það sé svo gaman.
Að mínum dómi er það eigi að síður meira niðurlægjandi athæfi fyrir þann sem gerir í því að særa og niðurlægja aðra bara til þess að særa þá og niðurlægja heldur en fyrir þann sem fyrir því verður.
Ég hef reyndar oft undrast það hvað vanþroskaðir menn geta komist hátt í metorðastiganum hér á landi. Menn fljúgja upp í ráðherrastöður þó þeir hafi ekkert til brunns að bera annað en stórkarlalegan talanda og þroskaheft tillitsleysi gagnvart öllu og öllum.
Það er ekkert flott við það að geta ekki sett sig í annarra spor. Það er ekkert manndómslegt við það að fella menn með bolabrögðum og líta svo hróðugur í kringum sig og segja sigri hrósandi: Sjáiði, hvernig ég tók hann piltar!
Það er bara fumstæður plebbaskapur.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.1.2008 | 14:42
Hamingja og óhamingja
Mikil grein er um hamingjuna í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að kannanir segja að eftir að komið er yfir fátæktarmörk eykst hamingja manna ekki með betri efnum. Önnur könnun leiddi í ljós að Íslendingar séu með hamingjusömustu þjóðum. Í Moggagreininni kemur fram að hér sé efnishyggjan ríkjandi, eftirsókn eftir efnislegum gæðum í lífsgæðakapphlaupinu sé allsráðandi. Einnig er sagt frá könnunum sem sýna að mikil eftirsókn eftir slíkum gæðum "bæli hamingjuna", komi sem sagt í veg fyrir hana.
Þá stöndum við frammi fyrir mótsögn: Mikil eftirsókn eftir efnalegum gæðum kemur í veg fyrir hamingjuna. Íslendingar eru algerlega á valdi þess að sækjast eftir efnislegum gæðum. Íslendingar geta því ekki verið hamingjusamir.
Samt segir þessi gamla könnun að þeir séu einna hamingjusamastir þjóða.
Það hlýtur reyndar að vera erfitt að mæla hamingju heilla þjóða. Hamingjan er svo huglæg og einstaklingsbundin að hún er algjörlega ómælanleg. Í raun og veru er það ruglandi að tala um hamingju þjóða. Fremur ætti að tala um lífsgæði. Þau eru mælanleg samkvæmt stöðluðum kvörðum.
Ekki ætla ég að reyna að svara þeirri spurningu í hverju hamingjan sé fólgin. Ég held þó að hún sé ekki endilega það að finna einhvern "tilgang í lífinu". Í greininni í Morgunblaðinu er mikið lagt upp út bók Viktors Frankl um tilgang lífsins sem mér hefur alltaf fundist ósannfærandi og slöpp bók.
Mér finnst bækurnar hans Eckhart Tolle meira áhugaverðar hvað hamingjuna varðar þó ég skilji ekki allt sem hann er að segja og efist um annað. Hann leggur áherslu á það að lifa í núinu og vera ekki að keppa að einhverju. Spurningin um tilgang vaknar þá ekki sem eitthvað afgerandi. Ég held líka að trúarjátningar auki ekki hamingju manna. En trúarleg upplifun gæti hugsanlega gert það. Samt hef ég grun um að margt það sem menn telja andlega eða trúarlega reynslu sé byggt á sandi, einhverju tilfinningaróti, og bresti þegar verulega reynir á. En ekki í öllum tilvikum.
Annars finnst mér óhamingjan miklu merkilegri en hamingjan. Fyrst og fremst vegna þess að hún virðist svo algeng og áberandi hvar sem maður lítur í kringum sig. Samt er það svo einkennilegt að hún er hálfgert feimnismál. Enginn kemur fram og segir: Ég er óhamingjusamur og hef verið það mest alla ævina. Og er það þó hlutskipti æði margra. En menn veigra sér við að segja það beinum orðum en segjast kannski vera þunglyndir eða eitthvað vegna þess að ef þeir töluðu um óhamingju yrði litið á þá með hálfgerðri óvirðingu. Jafnvel líkt og þeir væru að játa fíkniefnaneyslu eða eitthvað annað ámælisvert. Þess vegna þykir það sjálfsagt að blekkja í þessum efnum og segja: Ég er sáttur og hamingjusamur í lífinu. Oftast virkar það á mig eins og þegar menn segja: Ég ber ekki kala til nokkurs manns. Þegar menn segja það er nokkurn veginn víst að þeir eru að ljúga, oftast alveg meðvitað en stundum kannski ómeðvitað. Við höfum mjög sterka tilhneigingu til að afneita hreinlega erfiðum tilfinningum, allri óhamingjunni.
Ég efast stórlega um meinta hamingju minnar vesalings þjóðar.
Þjóð sem notar meira af geðlyfjum en flestar aðrar þjóðir er varla mjög hamingjusöm. Ekki heldur þjóð sem alltaf er blindfull um hverja helgi og er að springa af stressi. Þjóð sem hefur ekki tíma til að sinna börnum sínum almennilega eða njóta samvista við aðra og því um síður að kynnast sjálfri sér. Þjóð sem ærist upp í popprugli og laugardagslögum.
Jæja, það er best að setja sig ekki á hærri hest en þetta!
Allt sem hér er sagt er með fyrirvara og án ábyrgðar. Þetta er viðfangsefni sem krefst yfirlegu og umhugsunar.
Og ég er nú svo stressaður að ég nenni ekki að standa í því.
En ég ætla þrátt fyrri allt að klykkja út með myndrænu spakmæli um hamingjuna.
Hamingjan felst í því að hver maður finni sinn Mala í sjálfum sér.
orpðum
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2008 | 11:06
Vinsamleg tilmæli
Jæja, þá eru allir búnir að taka niður jólaljósin. Fínt er! En þá er að tendra kærleiksljósin í hjartanu (hélduði að þið slyppuð svona billega) í einum grænum og láta þau skíðloga hvað sem tautar og raular allt þetta herrans ár.
Ætlar einhver að mótmæla þessu? Ætlar einhver að lifa hortugu og kærleikssnauðu lífi það sem eftir er ársins?
Mannlífið | Breytt 5.12.2008 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.1.2008 | 20:13
Hranaleg tilmæli
Í guðana bænum fariði svo að taka niður jólaljósin eins og skot þegar þrettándanum er lokið. Ekki láta þau loga fram á vor. Það er andlegur subbuskapur, óklárleiki á réttum kategóríum í lífinu, að vera að halda upp á hátíðarljós löngu eftir að hátíðin er búin. Það er svona álíka hallærislegt og að vera með blöðrur og blása í 17. júní ýlur fram að verslunarmannahelgi eða kveikja í áramótabrennu á jafndægrum.
Er nokkur sem vill mótmæla því? Er nokkur sem heldur að myrkrið verði eitthvað minna þó þessi úreltu ljós logi áfram?
Þau eru þá bara villuljós.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
5.1.2008 | 11:18
Hversdsagsleikinn
Það er undarlegt að mér finnst alltaf svo gaman fyrstu daganna eftir áramótin en einkanlega fyrstu dagana eftir þrettándann. En þó því aðeins að snjólaust sé og sæmilega lyngt veður.
Þetta hefur byrjað þannig að ég hef einhvern tíma á þessum dögum verið á rölti um bæinn einmitt í svipuðum aðstæðum og eru í dag, kyrru veðri og snjólausu - og svo aftur seinna og enn þá aftur. Og þá hefur smám saman skapast einhver stemmning, einhverjar kenndir og minningar sem síðan hafa loðað við þetta.
Mest finnst mér gaman eftir þrettándann þegar búið er að taka niður jólaskreytingarnar og hversdagsleikinn er orðinn alsráðandi. Hann á vel við mig. Það venjulega. Það fábreytta. Það kyrrláta og hlédræga.
Sá sem ekki kann að meta hversdagsleikann kann ekki að meta lífið sjálft.
Þetta er kannski ófrumleg og hversdagsleg staðhæfing er hún er samt alltaf jafn sönn.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.1.2008 | 17:36
Nýjársdagur
Hann hefur alltaf sérsaka stöðu í mínum huga. Á nýjársdag 1980 hætti ég að drekka áfengi. Þegar ég vaknaði þann dag vissi ég að ég myndi aldrei drekka meira. Mig hefur aldrei langað í vín og aldrei átt í neinni baráttu.
Það var eins konar frelsun.
Það er aldrei að vita hvort maður lifir til ársloka. Mér er alveg sama. Fyrir nokkrum árum gerðist undarlegur atburður í lífi mínu sem kenndi mér að það er ekkert að óttast hvað dauðann varðar.
Á síðasta ári dó besti vinur minn sem ég hafði nær dagleg samskipti við í aldarfjórðung.
Þannig er lífið. Það hverfur að lokum. Allt hverfur að lokum.
Nema eitt.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006