Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Botnhreinsun

Þessi bloggsíða er nú í botnhreinsun.

Bloggsiðir

Í gær skrifaði einn vinsæll bloggari um vel afmarkaðan hóp manna að þeir væru vitleysingjar. Ég kom með athugasemd um það hvort þeir væru  nokkuð meiri vitleysingjar en hann sjálfur.

Hann tók út athugasemdina.

Það þykir sem sagt sjálfsagt á bloggi að kalla aðra þeim lítilsvirðingarorðum sem menn þola ekki um sjálfa sig.


Skáldað liðugt

Það vellur alveg vitleysan út úr skáldum vorum þessa dagana. Í Lesbók Moggans er langt og gott viðtal við Einar Má Guðmundsson um síðustu skáldsögu hans, Rimla hugans. En ekki er þar allt sem sýnist.

Einar er að tala um lausn frá áfengisfíkn. Hann segir að bindiefni þeirrar hjálpar sem Einar Þór og Eva, sögupersónur bókarinnar, nái að að nýta sér sé ástin. "Það er er ástin sem gefur Einari Þór og Evu tilgang og styrk til þess að þrauka þessa göngu."

Þetta gengur kannski upp í skáldsögu. En í raunveruleikanum verða menn ekki edrú vegna ástarinnar. Fjöldi fólks er edrú árum og áratugum saman án þess að ástin komi þar nokkuð við sögu.

Engum þeim sem hefur haft einhver kynni af alkóhólisma dettur í hug að ástin geri menn edrú.

En það er víst allt hægt í skáldskap.

 


ÞÞ í fátæktarlandi- vonbrigði aldarinnar

Aldrei á ævi minni hef ég orðið fyrir öðrum eins vonbrigðum með nokkra bók.

Þessi bók er sögð þroskasaga Þórbergs. En hún er það ekki, Hún er hvorki þroskasaga né ævisaga. Hún er skáldsaga um Þórberg til 45 ára aldurs. Þórbergi er lýst sem hverri annarri skálskaparpersónu og það eru sett upp heilu leikritin (sem reyndar eru skemmtilegustu kaflar bókarinnar), tímatalið er óljóst, spurningar spurðar sem ekkert er skeytt um að svara; allt hefur yfirbragð skáldskaparins,  sveipað mósku og fjarlægð.  torb

Þetta eru skelfileg vonbrigði.

Ævisaga Þórbergs, unnin  af sagnfræðilegri rýni og bókmenntafræðilegri innsýn, er óskrifuð eftir sem áður. Það sem einna lengst kemst í þá átt eru Þórbergsþættirnir í Skáldalífi Halldórs Guðmundssonar, þeirri ágætu bók.

ÞÞ í fátæktarlandi eftir Pétur Gunnarsson hefur hins vegar nánast ekkert gildi frá sagnfræðilegu-og bókmenntafræðilegu sjónarmiði. Flest af því sem í bókinni stendur hefur komið fram annars staðar, á skýran og skilmerkilegan hátt, að undanteknum nokkrum upplýsingum um kvennamál Þórbergs en þau eru samt hulin sömu dulúð og annað í bókinni.  

Ég skil bara ekki hvað menn eru að fara með svona bók. En ég skil vel að það var ætlun höfundarins að svona yrði bókin og ekki öðru vísi. Saga skálds um skáld. En geta skáld ekki skrifað eðlilega og upplýsandi um önnur skáld?      

Þetta er skáldsaga eftir Pétur Gunnarsson. Og sem slík er hún veigaminnsta skádsaga hans.


Hvernig bjargaðist Hannes lóðs?

Einstaka sinnum gerast atburðir í lífi manna sem engir fá skilið og eru þá stundum kallaðir kraftaverk. Slíkt gerðist í lífi Hannesar lóðs í Vestmannaeyjum þegar hann var unglingur. Hannes var lóðs í Vestmannaeyjum í hálfa öld en þar á undan nafntogaður formaður á opnum skipum, lengst 37 vertíðir á Gideon. Hann var fiskisælasti formaður Eyjanna og afburða sjómaður. Hannes fæddist 21. nóvember 1852 en andaðist 1. júlí 1937 á 85. aldursári og hélt öllum andlegum og líkamlegum kröftum. Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson, sem út kom 1938-1939 en var endurútgefin 1966, segir svo frá ótrúlegum atburði í lífi Hannesar eftir sögn hans sjálfs og fleiri heimildum:

bjarnarey „Sumar eitt fór hann til lundaveiða í Bjarnarey með fleiri mönnum. Það mun hafa verið árið 1865 og var Hannes þá 13 ára gamall. Dag nokkurn fór hann einsamall með 15 faðma langt lagnet suður á eyjuna og ætlaði að leggja það þar í lundabyggðina. Upp af Hrútaskorunefinu varð honum fótaskortur í brekkunni, og hrapaði hann fram af hamarsbrúninni. Vissi hann það næst af sér, að hann hékk í lausu lofti með höfuðið niður og annan fótinn flæktan í netinu sem í fallinu hafði festst á snös, og var hann úr öklaliðnum á þeim fæti, sem hann hékk á. Með erfiðismunum tókst Hannesi að ná með höndunum í netið og rétta sig við. Í þeim svifum hrökk öklinn aftur í liðinn.

Spölkorn fyrir ofan Hannes, þar sem hann hékk í netinu, var sylla í berginu. Þangað tókst honum að lesa sig upp netið en af syllunni sýndist honum ókleift standberg á alla vegu, og slútti það fram yfir sig víðast hvar. Syðst á syllunni var krókur inn í bergið, og virtist honum líklegast þar til uppgöngu. Hann vissi, að árangurslaust var að kalla á hjálp, því að félagar hans voru allir fjarri. Mjakaði hann sér suður hilluna, með því að hoppa á öðrum fæti og styðja sig við bergið með hendinni. En þegar hann kom í krókinn syðst á hillunni, sá hann að bergið var einnig ókleift þar. Varð honum nú ekki um sel, og sagðist muna það síðast eftir sér þarna á hillunni, að hann hefði haft það eitt í huganum: „Hér verð ég að komast upp." Hugur hann hafi verið fullur af þessu einu, og þá missti hann meðvitundina. Vissi hann síðan ekki af sér fyrri en uppi í grösum á eynni, langt frá brúninni, og var hann þá lamaður og ósjálfbjarga. Þar fundu félagar hans hann nokkru síðar.

hannes_2Hann vissi aldrei með hverjum hætti hann hafði farið upp, og eru menn í engum vafa um, að björgun hans hefur farið fram með aðstoð einhverra dularafla eða verndarvætta. Magnús Guðmundsson, bóndi á Vesturhúsum, tengdasonur Hannesar, athugaði nákvæmlega alla staðhætti þarma, og fullyrðir hann, að uppganga af syllunni sé algerlega óhugsandi og ómöguleg á venjulegan hátt, enda þótt fimasti fjallamaður ætti í hlut, hvað þá lamaður 13 vetra drengur. Þar sem hann hrapaði heita síðan Hannesarstaðir.

Eftir áfall þetta lá Hannes rúmfastur nær eitt ár og var búizt við, að hann yrði örkumlamaður alla ævi. Reyndin varð önnur. Náði hann fullri heilsu, en varð upp frá þessu svo sjálfhentur, að hann átti erfitt með að drekka úr kaffibolla. Og nafn sitt skrifaði hann þannig, að hann lá ofan á handleggnum á meðan. Þrátt fyrir skjálftann var Hannes góð skytta og skaut fugl á flugi, og hæfði vel. Lék hann þetta fram á gamals aldur, en skjót handtök hafði hann við, því að ekki tjáði að tefja lengi við miðanir." (1966, bls. 205-6).

(Á myndinni hér að ofan er Bjarnarey til hægri). Þetta er merkileg frásögn. Hannes var auðvitað alþekktur í Vestmannaeyjum og fór það ekki framhjá neinum hvað hann var skjálfhentur. Frásögnin öll og sú staðreynd að Hannes var skjálfhentur og hin árslanga sjúkralega eftir atburðinn ber með sér að gangan upp bergið hefur verið honum andlega og líkamlega geysileg þolraun sem hann á vissan hátt beið aldrei bætur. En hann hefur verið andlega sterkur. Mér sýnist samt ljóst að hann hefur verið skelfingu lostinn en jafnframt haldinn ótrúlegum lífsvilja og þori sem hefur gefið honum afl og lagni til að klifra upp bergið en kannski eins og í hálfgerðri leiðslu eða jafnvel svefni, að því er virðist. Ég spurði einu sinni sálfræðing um útskýringar á þessu atviki en hann hafði aldrei heyrt söguna og hafði  takmarkaðan áhuga á henni og varð fátt um svör. Þetta er reyndar erfitt að skýra en samt ekki óhugsandi. Ekki er hægt að taka alvarlega þá skýringu að dularöfl eða verndarvættir hafi hjálpað Hannesi upp bergið. Hann komst auðvitað upp af eigin rammleik. En hvernig og af hvaða líkamlegu ástæðum varð hann svona skjálfhentur það sem eftir var ævinnar? 


Hrópandi ranglæti

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað beiðni Lúðvíks Gizurarsonar um opinber skipti á dánarbúi Hermanns Jónassonar.

Samt er talið sannað að Lúðvík sé sonur Hermanns. Og börn eru lögerfingjar foreldra sinna.

Í lögum um skipti á dánarbúum segir að sá sem telji að gengið hafi verið fram hjá sér við skipti á dánarbúi geti krafið þá sem nutu arfs um endurgreiðslu. Héraðsdómur beitir fyrir sig þeim orðum í lögunum að gera verði þessa kröfu innan tíu ára frá lokum skiptanna. Héraðsdómur hafnaði því kröfu Lúðvíks.

En ágætu dómarar! Hvernig á barn að geta gert kröfu til arfs þegar það er ekki viðurkennt af föður sínum og steinar lagðar í götu þess til að fá úrskurðað um rétt faðerni sitt?

Mér finnst þetta hróplegt ranglæti.

Eflaust hefur dómarinn talið sig bundinn af lögunum en hver veit nema einhver úrræði hafi samt leynst í stöðunni sem hann hefur annað hvort ekki nennt að grennslast fyrir um eða ekki haft þekkingu eða hugmyndaflug til að nýta sér. Aldrei að vita.

En hafi ekki verið neinar smugur er eftir að vita hvort dómarinn muni rétta upp litla fingur til að beita áhrifum sínum til að breyta þessum lögum svo þau nái til svona tilvika.

Eftir stendur ranglæti sem hrópar.


Ekki sama hverjir skrifa bréfin

Fréttaskýringarþátturinn Spegillinn í Ríkisútvarpinu hefur undanfarið gert nafnlaust bréf að umtalsefni sem nokkrir læknar skrifuðu og lýsa áhyggjum sínum yfir því að bráðdeild Landsspítalans sé óhæf um að gegna starfi sínu svo vel sé. Sagt er að læknarnir vilji ekki láta nafna sinna getið af ótta við að starfsöryggi þeirra verði þá ógnað

Fyrir skemmstu urðu nokkrir bloggarar æfir vegna bréfs sem var nafnlaust og einhverjir skrifuðu um það að einn yfirlæknir spítalans væri ekki lengur með hreint sakavottorð í skilningi reglna spítalans vegna þess að hann hefur hlotið dóm. Hneykslun bloggaranna beindist eingöngu að nafnleysi bréfsins en þeir véku ekki að efni þess.

Nú spyr ég: Afhverju hneykslast bloggarar ekki á þessu nafnlausa bréfi læknanna um bráðadeildina sem eru þó með alvarlegar ásakanir?

Er skýringin sú að bréfið var skrifað af læknum? Það er þá greinilega ekki sama hverjir bréfin skrifa.

En getur ekki verið að nafnleysingjarnir sem skrifuðu gegn yfirlækninum sem hlotið hefur dóm hafi ekki viljað setja nafn sitt við bréfið af sömu ástæðu og yfirlæknarnir sem gagnrýna bráðadeildina: Að þeir óttist um atvinnuöryggi sitt?

Þessi ótti manna við að láta í ljós gagnrýni undir nafni ætti að vera mönnum áhyggjuefni.

 


Bloggað af botninum

Ég ætla endilega að láta Íslenska erfðagreiningu komast að því hver er uppruni minn.

Til þess þarf ég ekkert að gera nema reka út úr mér tunguna og borga skitinn sextíu þúsund kall.

Ég tel víst að útkoman eigi eftir að koma öllum á óvart.

Eftir allt saman er ég örugglega ekki kominn af móður minni og því síður föður mínum. 

 


Botninn

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, sem ætti reyndar að liggja í augum uppi, að bloggið er botnfall mannlífsins.

Skáldlegur dagur íslenskrar tungu

Í Morgunblaðinu í dag lýsa "fjórar kynslóðir" Íslendinga veðrinu í gær með sínum orðum. Þetta er víst eitthvað í sambandi við dag íslenskrar tungu. 

Það er eftirtektarvert að allir reyna að lýsa veðrinu á hálfvegis skáldlegan hátt. Af lýsingu þessa fólks er hægt að sjá að veðrið hafi verið "gott" og þykkt og ekki mikill vindur. Að öðru leyti er ekki hægt að gera sér neina grein fyrir því hvernig veðrið var. Ekki er getið um stefnu vindsins, skyggni eða ský og ekki hitastig. Það er aldeilis munur hvort hitinn í veðri eins og var í gær er tvö stig eða þau níu sem voru. Í þessu tilfelli er það hitastigið sem mest segir um það hvers konar veður var í rauninni.

En það má ekki nefna tölur á degi íslenskrar tungu í veðurlýsingum. Það er svo óskáldlegt. 

Afleiðingin verður sú að þrátt fyrir mörg orð verða menn engu nær um veðrið sem verið er að lýsa.

Þetta er háttur Íslendinga.

Þó þeir hafi búið í landinu alla sína hundstíð geta þeir yfirleitt ekki lýst veðrinu þannig að menn verði einhvers vísari um það. Allt leysist upp í sjálfhverfum skáldlegheitum.

Dagur Eggertsson borgarstjóri er með bjánalegasta en dæmigerðasta svarið. "Það er alltaf bjart yfir hjá mér", byrjar hann. Hvað segir svona vitleysa um veðrið? "Alltaf sól á Akureyri", - einhver þannig aulaháttur í þessu. Gjörsamlega sneitt öllum veðursans. Í gær var einmitt sérlega dimmt yfir. Svo segir Dagur: "Svo getur skipast veður í lofti og staðan björbreytt eftir hálftíma." No way! Ekki í veðurlagi eins og var í gær.  Veðrið var sérlega stöðugt eins og vænta má þegar geiri hlýs lofts er yfir landinu og fer hægt yfir. Hitinn var t.d. næstum því nákvæmlega níu stig í Reykjavík allan liðlangan daginn. En það er íslenskur frasi að tala um breytilegt veður jafnvel þó engra breytinga sé að vænta á þeim degi sem verið er að lýsa. Og stjórnmálamenn geta víst ekki talað í öðru en innantómum frösum.  

Æ já, svona eru yfirleitt veðurlýsingar Íslendinga. Tómt bull og kjaftæði. Með engu móti er hægt að gera sér skynsamlega grein fyrir því  hvernig veðri þeir eru að lýsa. 

Íslendingar eru of bókmenntlega sinnaðir til að geta sagt orð af viti um veðrið. Svo er alltaf líka þessi sama skáldlega þoka í hausnum á þeim.

Er ég annars nokkuð að setja mig á háan hest?! 

 Tounge   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband