Hlýjasti júlí í sögu mælinga í Reykjavík

Eins og fram hefur komið í fréttum var júlí sem var að líða sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík, 13,4 stig. Hann var líka fremur sólríkur en úrkoman nærri meðallagi. Mánuðurinn var ekki aðeins hlýjasti júlí heldur hlýjasti sumarmánuður sem mælst hefur í borginni. Næstir koma júlímánuðir 1991 og 2010, 13,0 stig.

Í fylgiskjalinu má sjá "innviði" mánaðarins. Þar sést hiti á hverri klukkustund, hámarks og lágmarkshiti á kvikasilfursmæla (einn dagur skáletraður lítllega "lagfærður"), sólarhringsúrkoma og daglegar sólskinsstundir. Auk þess sést meðalhiti hvers dags síðustu tíu ára til samanburðar. Og einnig má sjá hámarks og lágmárkshita og meðaltal þeirra fyrir sjálfvirku stöðvarnar í Reykjavik, svonefnda Búveðurstöð þar, Reykjavikurflugvöll, Korpu og Víðidal. Meðaltal hámarks og lágmarkshita er ofurlítið frábrugðið reiknuðum meðalhita allra mælinga sem er þessi: Reykjavík, Búveðurstöð og Reykjavíkurflugvöllur 13,4, Korpa 13,3 og Víðidalur 13,0 stig. Skemmtilegt er að veita því athygli að meðaltal hámarkshita í Víðidal, sem er mikill kuldapollur á vetrum eins og mælingar sýndu nánast glamnalega í vetur, er nokkuð hærra en á Reykjavíkurstöðinni en meðaltal lágmarkshita aftur nokkru lægra

Fylgiskjalið talar annars sínu máli.

Það skal rifjað upp að apríl var einnig sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík og júní var sá fimmti sólríkasti og vel hlýr og maí var einnig í hlýrra lagi og fremur sólríkur. Þetta hefur ekki framhjá fólki og víða heyrir maður menn segja að þeir hafi ekki lifað annað eins gæðasumar. Slíit mat er kannski líka huglægt og persónubundið fyrir hvern og einn en veðurstaðreyndirnar vitna ótvírætt um óvenjulega gósentíð frá því í vor í Reykjavik. Sumarið er hins vegar ekki búið.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband