Færsluflokkur: Menning og listir

Tuttugu stiga hiti í október

Tuttugu stiga hiti eða meira hefur mælst á nokkrum veðurstöðvum á Íslandi. Þær eru allar við sjóinn á svæðinu frá Vopnafirði til Reyðarfjarðar nema tvær, Reyðará á Siglunesi og Hallormsstaður.

Á þessu svæði voru fáar veðurstöðvar með hámarksmælingar fyrr en eftir miðja tuttugustu öld. 

Það var því ekki fyrr en  6. október 1959 að fyrst var skráður tuttugu stiga októberhiti á Íslandi, 20,9 stig á Seyðisfirði, en stöðin var þá nýbyrjuð með hámarksmælingar. Ekki er að efa að slíkur hiti hefði mælst áður ef stöðvar hefðu verið eins þéttar og nú er til dæmis.

Í október 1944 mældust til dæmis 19,4 stig á Húsavík þ. 4. og daginn eftir 19,0 á Sandi í Aðaldal en  mælingar voru þá ekki á hitavænustu stöðunum fyrir austan. 

Næst eftir 1959 mældist tuttugu stiga hiti, 20,0 stig slétt, þ. 20. 1962 á Seyðisfirði og á sama stað þ. 21. 1964, 20,9 stig. 

Í byrjun október 1973 dró heldur betur til tíðinda. Fyrstu tvo dagana mældist víðar tuttugu stiga hiti eða meira en á nokkrum öðrum dögum í mælingasögunni. Fyrsta daginn kom íslandsmetið í október, 23,5 stig á Dalatanga. Á miðnætti var hitinn aðeins 9,8 stig og svipað hafi verið um kvöldið 30. september en kl. 3 um  nóttina þann fyrsta var hitinn á athugunartíma 22,6 stig og 22,7 kl. 6 en þá var lesið 23,5 stig á hámarksmæli. Meðalhiti sólarhringsins varð 16,8 stig. Þennan sama dag fór hitinn í 20,2 stig á Reyðará við Siglunes en næsta dag í 22,0 stig á Seyðisfirði 20,6 á Vopnafirði og 20,0 á Hallormsstað. Klukkan 9 um morguninn þennan dag var hitinn á Seyðisfirði 21,0 stig, en 22,0 kl. 15 og enn 18,0 stig kl. 21. Fyrsta október hafði hitinn á staðnum ekki farið hærra en í 19,0 stig.  

Í október 1975 mældust 20,0 stig þ. 11. á  Seyðisfirði. 

Á Seyðisfirði fór hitinn í 22,0 stig þ. 14.  árið 1985 og 20,7 á Neskaupstað og daginn eftir voru skráð  20,9 stig á Kollaleiru sem komu þó líklega í raun kvöldið áður.  

Þann 7. október 1992 mældust 21,7 stig í Neskaupstað og á Dalatanga, 21,2 á Vopnafirði, 21,1 á Seyðisfirði og 20,4 stig á Kollaleiru.  

Mjög hlýtt var 22. október 2003. Þá fór hitinn í 22,1 stig á Dalatanga og sólarhringsmeðalhitinn var 16,7 stig. Þá mældist og 20,8 stig á Kollaleiru á kvikasilfri en 22,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Neskaupstað og 21,3 stig á þeirri sjálfvirku á Eskifirði. 

Árið 2007 mældust 20,2 á Sjaldþingsstöðum í Vopnafirði þ. 19. en 21,0 á þeirri sjálfvirku á Seyðisfirði.   

Loks mældust svo 20,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Kollaleiru þ. 10. í þessum mánuði, á fimmtudaginn. 

Á þessu sést að tuttugu stiga hiti í október er engan vegin sjaldgæfur á austurlandi.

Litlu munaði á Sauðanesvita 14. október 1999 en þar mældust þá 19,8 stig og þann 15. árið 1985 á Akureyri þegar mældust 19,5 stig. 

Í Reykjavík hefur mesti hiti í október mælst ekki nema 15,6 stig þ. 21. árið 2001 í glaða sólskini (opinbera októbermetið, 15,7 stig, er í rauninni mæling frá kl. 18 þ. 30.september 1958).

Mesti októberhiti sem mælst hefur á suður og suðvesturlandi (frá Mýrdal til Snæfellsness) er aðeins 16-17 stig. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólaveðrið

Jólaveðrið sér um sig  sjálft. 

En fylgiskjalið fylgist með.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við búum nefnilega á Íslandi!

Á þessu fréttamyndbandi sést hvar borgarstarfsmenn ryðja snjó af gangstéttum í Rómaborg. 

Þar snjóar nú ekki oft og mikið. En eigi að síður finnst mönnum þar sjálfsagt að hreinsa sjóinn af gangstéttunum þá sjaldan að hann sýnir sig.

En ekki hér, enda með orðum borgarstjórans þegar hann var að verja að ekki væru vel ruddar gangstéttir í Reykjavík í snjóakastinu:

Við búum á Íslandi! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hugsa fyrst - gjamma svo!

Í dag var lang besti dagurinn á suðurlandi það sem af er sumars. Hitinn komst í 15,7 stig í Reykjavík og notalegt var að ganga úti í kvöld í fyrsta sinn. Meðalhitinn var fyrir ofan meðallag eins og í gær en það gildir ekki enn um aðra landshluta en suður og suðvesturland.  Annars staðar er áfram kalt þó gærdagurinn hafi sums staðar verið sæmilegur.

Í dag komst hitinn á Árnesi í 18,8 stig sem er lúxus miðað við það sem verið hefur. 

Eftir spám að dæma virðist sem lítið breytist næstu daga, sumarið verði aðallega sunnanlands.

Það má því spyrja hvort enn sé nokkuð sumar komið.

Svo langar mig líka til að spyrja hvort vit sé í því, eins og  menn eru  nú sumir að gera  hvergi bangnir, að tengja hvarf sandsíla og hrun sjófuglastofna við hlýindi síðustu ára. Ég veit ekki betur en ástæður þessa séu óþekktar.

Ekkert svona gerðist þegar hlýnaði mjög hratt á þriðja áratug 20. aldar og þá stóðu hlýindin í 40 ár þó toppurinn hafi verið á fjórða áratugnum.

Menn mega nú alveg hugsa ofurlítið áður en þeir fara að gjamma. 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Niður með Listaháskólann!

Á Laugaveginum á ég við. Ég stend alveg með borgarstjóranum og Torfusamtökunum í andstöðu við þær verðlaunateikningar sem lagðar hafa verið fram. Þetta húsabákn drepur allt í kringum sig á stóru svæði.

Það eru skiptar skoðanir á málinu auðvitað. Hanna Birna, hin sexí, stendur með borgarstjóranum. En áðan var í hádegisfréttum vitnað í bloggsíðu sama sem bloggvinar míns, Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem lofar og prísar megamonstrið. Annars langar mig til að spyrja. Af hverju er alltaf verið að vitna í hann? Í þessu máli hafa orð hans ekkert meira vægi en mín gullvægu orð.

Hvers vegna í ósköpunum vitnar ekki fréttastofa RÚV í mína djúpvitru bloggsíðu í tíma og ótíma? Ég tala nú ekki um í spekinginn hann Mala.  

Ætli rektor Listaháskólans sé annars ekki fremur órótt. Hann á að halda uppi merki listarinnar en hluti af listinni er verndun gamalla byggða og umhverfis í borgum. Hvað finnst honum um það að fjöldi fólks telur að hús Listaháskólans vinni skemmdarverk að þessu leyti? Sópar hann þá bara öllum sjónarmiðum út af borðinu  nema sjónarmiðum eiginhagsmunanna. Hans skóli þarf lóð. Og lokar hann þá bara augunum fyrir öllum öðrum sjónarmiðum?

Prívatraus í rafrænum dagbókarstíl: Ég á annars blendnar minningar um þennan rektor. Einu sinni var ég tónlistargagnrýnandi árum saman. Sumir voru voðalega hrifnir af mér en aðrir ekki. Rektor Listaháskólans, sem þá var stjórnandi Háskólakórsins, gaf út eitthvað blað og sagði þar að ég væri bara að skrifa um sálarkreppur mínar í gagnrýni. Þetta fannst mér högg fyrir neðan beltisstað af því að ég skrifaði reyndar einu sinni bók um sálarkreppur sem sóttu á mig á yngri árum. Ég nefndi þetta einu sinni við hann og hann tók því bara vel. Svo var þessi ásökun líka óréttmæt. Ég fór stundum mínar eigin leiðir í tónlistargagnrýni og einmitt það truflaði suma en hún var yfirleitt ekki verr ígrunduð og rökstudd en gengur og gerist með gagnrýni annarra. Það áréttaði reyndar þekktur söngvari líka sem einu sinni gerði athugasemdir á þessari síðu. 

Skyldleiki er með mér og rektor Listaháskólans og vinur minn Leifur heitinn Þórarinsson tónskáld sagði að við værum líkir um margt. Við værum báðir miklir tilfinningamenn, ákaflyndir mjög og með stórar skoðanir. Annars fara skoðanir mínar hríðminnkandi með árunum. Ég er að breytast í mann með örskoðanir.  Algjör örskoðun: Ég lít á allar breytingar á götumynd Reykjavíkur frá the fabulous fifties mjög óhýru auga!

Einu sinni bað Leifur mig að skrifa lesmál á geisladisk sem hann var að gefa út með nokkrum verka sinna. Þá stóð svo á að ég þóttist með engu móti geta tekið þetta að mér og skrifaði einhver annar. Ég hef alltaf séð eftir því að hafa hafnað þessu. Leifur var snilldar tónskáld þegar hann var bestur en nokkuð var hann mistækur. Sinfónían hans sú síðasta er verk sem ég hlusta oftar á en flest íslensk tónverk og ég á hana líka á nótum.

 


Af íslensku menningarástandi

Ekkert skil ég eiginlega í því að Myrkir músikdagar skuli vera haldnir þegar skammdeginu er lokið. Annars tala forsvarsmenn þeirra stundum eins og það sé enn skammdegi og rugla þá saman skammdegi og vetrarríki.

En skítt með það! Í kvöld fór ég á tónleika Myrkra músikdaga þar sem Sinfónían frumflutti tvær geggjaðar sinfóníur eftir íslensk tónskáld.

Salurinn var eiginlega tómur, varla meira en 300 manns af þeim kringum 1000 sem hann getur rúmað. Þar var því ekki mikið af fólki séð og heyrt.

Fyrstan skal þó frægan telja frænda minn Helga Hjörvar. Hann er mælskari en andskotinn. Það er ég líka þegar ég nenni á annað borð að halda ræður. Sveinn Einarsson leikhúsvitringur var líka. Og tónsnillingarnir John Speight og Atli Heimir. Og Thor í eigin persónu eins og skáldjöfur.

Og þá er eiginlega upptalið fræga og fína fólkið sem ég sá á þessum tónleikum.

Ef þessi Lay Low hefði verið á sviðinu, söngkonan sem lægst hefur lagst í íslenskri tónlistarsögu, hefði húsið líklega verið alveg troðfullt. 

Aðeins einn bloggari (ásamt lífverði sínum) var á staðnum enda eru þeir upp til hópa, bæði karlar og kvinnur, kúltúrlausir hálfvitar.

Þetta var nú skýrsla dagsins af íslensku menningarástandi.

Þakka þeim er lásu og veriði sæl að sinni.

 

 


Þjóðskjölin á netið!

Í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi kom fram að Norðmenn geta skoðað þjóðskjölin sín á netinu. Þeir geta því m.a. grúskað í kirkjubókum og manntölum bara heima í stofu hjá sér.

Þessu er öðru vísi farið hér á landi. Menn verða að gjöra svo vel að arka á söfnin til að skoða manntölin en kirkjubækurnar sjálfar eru aðeins til á Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Ljósrit mormóna af þeim munu þó einnig vera til á einhverjum öðrum söfnum, en varla mörgum. Það er annars óþolandi að  eiga við þessar ljósmyndavélar. Helmingur tímans fer í vélavesen. Algjör martröð! Tvö íslensk manntöl er hægt að skoða á netinu á takmarkaðan hátt, árið 1703 og 1835. Menn verða að slá inn þröngum leitarorðum sem margir kunna áreiðanlega jafnvel engin skil á, svo sem mannanöfnum og nöfnum á hreppum árið 1703. Það er ekki hægt að fletta manntölunum síðu fyrir síðu eins og tímaritunum á Tímarit is. Þetta er þó nauðsynlegt því oft hafa mennn óljósar hugmyndir um það sem þeir eru að  leita að og verða að þreifa sig áfram, fletta fram og til baka í manntölunum. Það er með ólíkindum að safnið skuli ekki hafa áttað sig á þessu þegar það setti manntölin á netið. 

Ástæðan fyrir því að við getum ekki lesið þjóðskjölin okkar á netinu er sú að Þjóðskjalasafnið vantar mannafla sem kostar peninga til að vinna alla þá vinnu sem til þess þarf.

Hvernig væri þá að fjárveitingarvaldið bætti snarlega úr þessu? Það er sóað í annað eins.

Það er reyndar þjóðarskömm hvernig lengi hefur verið búið að Þjóðskjalasafninu. Oft hefur verið á það bent en enginn tekur við sér sem hefur vald til að bæta þar úr. Líklega þarf safnið að verða fyrir skemmdum, til dæmis að brenna til ösku, til að menn lyfti upp litla fingri til umbóta líkt og raunin varð með Náttúrugripasafnið.

Sú niðurníðsla sem Þjóðskjalasafnið er í lýsir auðvitað menningarástandi þjóðar sem á nóg af peningum og sukkar og svallar eins og henni væri borgað fyrir það, sem er víst tilfellið,  en skeytir lítið um undirstöður menningar sinnar.

Þetta nöldur minnir mig á það að Íslendingabók ætti að sjá sóma sinn í að opna aðganginn meira en raun er á. Hann er svo takmarkaður að það er óskiljanlegt, aðeins nánustu ættingja sína getur hver og einn skoðað. Það væri skárra að selja almennilegan aðgang í áskrift heldur en hafa þessa ómynd. Ekki þekki ég ástæðuna fyrir þessum hindrunum. Kannski Púkinn viti um þær!

Og þá kemur persónulega rúsínan í pylsuendanum.  Fyrir tíu árum rauk ég í það að rekja frændgarð minn, ættir frá öllum langalangöfum mínum og ömmum. (Dúkkuðu þar upp ýmsir furðulegir fuglar og kynjakvendi, sumir landsfrægir hálfvitar). Samtals átta ættbogum. Það var gaman en tók sinn tíma, nokkur ár og margar og þreytandi vinnustundir á þessu fáránlega Þjóðskjalasafni í  vélunum sem útheimta erfiðsvinnu til að snúa þeim með tilheyrandi vöðvabólgu. Einhver minni háttar atriði eru enn ófrágengin hjá mér, einkum með fólk sem fluttist til útlanda. Ég rakti líka framætt mína aftur til írskra konunga en þeygi þræla og ambátta.

Ég er sem sagt konungsborinn og hef blátt blóð í æðum. Framkoma fólks við mig, ekki síst hysterískra aðdáenda minna og kemmentara á blogginu, ætti að taka mið af því! 

Já, eitt nöldurefnið í viðbót: Þjóðskráin ætti endilega að setja íbúaskrár á netið. Ég skil ekki rökin fyrir því að hún hefur takmarkað aðgang að þeim á netinu frá því sem áður var en áfram er hægt að valsa um  þær allar í prentuðu útgáfunum. Rökin voru víst til að bægja frá auglýsendum eða eitthvað. En það væri hægt að opna með skilyrðum, t.d. fyrir þeim sem eru að rekja ættir manna. 

Þá hef ég loksins skrifað það sem mig hefur lengi langað til að koma á framfæri um Þjóðskjalasafnið, Íslendingabók og Þjóðskrána.  


Gleymdi einu

Um daginn þegar ég var að horfa á Kiljuna. Ég er sem sagt algjörlega ósammála Páli Baldvin um það að bækurnar um raunvísindin mættu missa sig, eða eitthvað í þá áttina,  í lærdómsritaflokki Bókmenntafélagsins. Mér finnst raunvísindabækurnar, Afstæðiskeningin eftir Einstein, Ljósið eftir Feynman, Ár vas alda eftir Weinberg og Saga tímans eftir Hawking, langbestu bækurnar, aðallega vegna þess að þær fjalla um eitthvað raunverulegt eftir bestu þekkingu eðlisfræðinnar.

Það sem segir í hugvísindabókunum, öll þessi hátimbraða heimspeki sem allir toga svo og teyga, finnst mér eiginlega annars flokks í eðli sínu.

Það má hins vegar ef til vill finna að því að gefa út með fárra ára millibili Uppruna tegundanna eftir Darwin og svo ágæta endursögn Þorvaldar Thoroddsen á þeirri bók. 

Dægilegt var svo að keppast við að skrifa um tónlist í gamla daga á DV undir menningaritstjórn Páls Baldvins. Enn þá dægilegra var þó að strita undir Tótu pönk eftir að hún varð menningarbossinn á blaðinu.

En þeir dagar eru liðnir og koma aldrei aldrei aptur.     


Þarfaþing

Á vefsíðu Landsbókasafnsins er hægt að skoða ýmis blöð og tímarit langt aftur í tímann. Nú er t.d. hægt að skoða Þjóðviljann frá upphafi og fram til 1992. Mánaðar-og ársrit Veðurstofunnar, Veðráttan, er þar líka frá upphafi 1924 til 1997.

Það væri mjög óskandi að forveri þessa rits, Íslenzk veðurfarsbók 1920-1923, yrði líka gerð aðgengileg á þessum vef og þá ekki síður íslenski hlutinn af dönsku veðurfarsbókinni sem kom út 1873-1919. Það er afar torfengið rit. Á Landsbókasafni eru ekki einu sinni til allir árgangarnir en þeir eru til á bókasafni Veðurstofunnar. Og væntanlega í Danmörku.

Mér dettur þetta í hug nú þegar ég er að taka saman efni um frostaveturinn mikla 1918. 

Og tímaritsvefurinn á Landsbókasafni er sannarlega mikið þarfaþing.  

Gleðileg viðbót: Nú hef ég frétt að það sé einmitt í undirbúningi að gera dönsku veðurbókina aðgengilega á tímaritsvefnum.


Gegn niðurrifi!

Mér finnst  skelfilegt að lesa þann hug sem sést á sumum bloggsíðum og athugasemdum á þeim til merkilegra gamalla húsa: kofar, hrófatildur, fúahjallar, drasl  og jafnvel brígls um nasisma ef menn vilja vernda þessi hús. Það er líka eins og eitthvað lostafullt hatur logi í þessum ummælum, hlægjandi fyrirlitning  sem minnir á ofsann í rétttrúuðum eða kvenhatara á jafnréttissíðum. Hvað veldur slíkum býsnum?

Ég held að það sé fyrst og fremst menningarleysi. Stefán Snævarr heimspekingur  kallar það fólk plebbakynslóðina sem skynjar ekkert af fortíð sinni og sögu en lifir bara í gapandi tómarúmi. Ég trúi því samt ekki að þannig fólk sé meirihluti borgarbúa.   

Auðvitað breytast borgir og þróast með tímanum og menn geta deilt um niðurrif einstakra húsa. En þegar fyrir liggur að rífa eitthvað um hundrað hús og gjörbreyta ásýnd gamla bæjaris og gera skurk í rótgrónum hverfum eins og Þingholtunum ættu borgararnir að rumska og hugsa sinn gang. Hvernig borg viljum við lifa í?!

Ég er uppalinn í þessari borg og þekki vel sögu hennar í heild og einstakra húsa. Ég finn sárt til þess hvernig peningaöfl eru að rústa ásýnd miðbæjarins með turnbyggingum og niðurrifi allt að því  heilla hverfa.

Ég get ekki á mér setið að lýsa þessu yfir og veita Torfusamtökunum og íbúum Þingholtanna og annarra gamalla hverfa fullan stuðning í baráttu þeirra.   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband