Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Eintal eða samræður um gróðurhúsaáhrifin?

Nú er það nýjasta nýtt samkvæmt rannsóknum í útlöndunum að engir hafi vit á því hvort jörðin sé að hitna af mannavöldum nema loftslagsfræðingar enda séu þeir allir sammála.

Ekki láta ykkur detta í hug að venjulegir veðurfræðingar hafi hundsvit á þessu. Nei, þeir eru svo þröngsýnir í skammtímaspám sínum að á orðum þeirra er ekki minnsta mark á takandi þegar þeir láta ljós sitt skína um aukningu gróðurhúsaáhrifanna segja djúpíhugulir menn um niðurstöðu rannsóknarinnar. 

Samt eru veðurspámenn alltaf að láta villuljós sitt skína um þetta mál.

Við tökum náttúrlega ekkert mark á þeim. 

Hvað þá að við leggjum eyrun við því sem aðrir segja um loftslagsmálin en um þau eru allir  mjög óðamála þó ekki séu þeir loftslagsfræðingar; stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, náttúruverndarsinnar og umhverfisspekingar, spesjalistar í hinum og þessum greinum jarðvísinda, já, og  óbreyttir veðurfræðingar og veðurspámenn af öllum sortum og margir aðrir.

Jafnvel Al Gore. 

En við hlustum nú ekki á þá bara. 

Einingis löglegir loftslagsfræðinga sem eru þekktir af víðsýni sinni og framsýni.  Þeir sjá ekki aðeins aftur í tímann um hundruð þúsundir ára, jafnvel miljónir og skriljónir ára, heldur líka fram um allar aldir. 

Einn íslenskur loftslagsfræðingur - eða er það sá eini- segir á einum stað: ''Gagnrýni á loftslagsvísindi er af tvennum toga spunnin. Annarsvegar er það raunveruleg vísindaleg álitamál en hinn flokkurinn sem er fyrirferðameiri almennri umræðu er hreinn spuni sem á sér takmarkaða stoð í raunveruleikanum.''

Eftir þessu er það ljóst að ekki er mark takandi á almennri ''gagnrýni'' á það sem loftslagsvísindi eru að færa fram nema hún komi frá harðsvíruðum vísindamönnum, því annars er ekki um ''vísindaleg'' álitamál að ræða og í ljósi hinnar afar merku rannsóknar sem að ofan er getið, liggur líka í augum uppi að einungis geta þar lagt vitræn orð í belg hinir einu og sönnu loftslagsfræðingar - en náttúrlega alls ekki veðurfræðingar eða umhverfissinnar eða bara hver sem er - bara klímatólógar.

Hvað eru annars margir loftslagsfræðingar á Íslandi?

Eigum við ekki bara að leggja niður alla samræðu um gróðurhúsaáhrifin en taka upp eintal í staðinn?

 

 


Strætó

Fyrirhugaður er mikill niðurskurður á ferðum strætisvagna 1. febrúar. Sumum finnst það skjóta skökku við á þessum krepputímum.

Ekki nenni ég að leggjast djúpt í strætóspeki. En mig langar þó til að segja þetta:

Mér finnst oft óskaplega leiðinlegt að keyra einkabíl innan bæjar. Miklu þægilegra var að taka bara strætó meðan leiðakerfið var sæmilegt.

Síðustu ár hefur það hins  vegar gersamlega hrunið. Það er líka alltaf verið að breyta því svo fólk fær aldrei ráðrúm til að læra á það. 

Strætisvagnaskýlin eru líka fyrst og fremst orðin til að selja auglýsingar en ekki til að skýla fólki fyrir veðri og vindum. Það gerðu hins vegar gömlu járnskýlin.

Það getur vel verið að erfitt sé að reka strætó. En eins og málin eru núna er kerfið hreinlega orðið gagnslaust fyrir þá sem þurftu að treysta á það. Menn neyðast til að taka leigubíla. 

Ég veit að margir líta víst niður á strætó og þá sem ferðast með þeim. Það er svona flottræfilsháttur sem skapaðist í góðærisbólunni.

Nú ætti að vera lag að reyna að breyta þessu viðhorfi þannig að enginn sé talinn maður með mönnum nema hann taki strætó. En þá verður að gera einhverjar jákvæðar breytingar í stað þess að leggja stærisvagnaferðir nánast niður.

Eftirmáli: Ég lærði mjög seint á bíl enda óvenjulega seinþroska. En mér finnst alltaf svo svakalega gaman að keyra í snjó og láta bílinn skransa!


Kosningar verði fremur seinna en fyrr

Stjórnmálaflokkarnir verða að fá ráðrúm til að hreinsa til í eigin ranni.  Þar er enginn undanskilinn.  Þeir verða að bjóða fram traustvekjandi fólk og ekki bara stilla upp gömlum refum í örugg sæti. Fólk treystir yfirleitt ekki þessum gömlu pólitísku andlitum.

Af því hvernig stjórnmálaflokkarnir tala um hverja aðra, og ekki síður hvernig bloggarar skrifa sem eru harðir stuðningsmenn einhverra flokka og þá hatursmenn annarra, virðist allt vera að síga í gamla skotgrafafarið. 

Það lofar ekki góðu. 

Ég er ekki bjartsýnn um að nýir og ferskir vindar eigi eftir að að leika um íslenska pólitík eftir kosningarnar.

Flokksræðið er enn allsráðandi og skammur tími til stefnu fyrir ný sjónarmið að komast á framfæri,að ekki sé talað um ný framboð sem eitthvert raunverulegt vit væri í.

Að kosningum loknum verðum við líklega bara í gömlu súpunni eftir kosningabaráttu með öllum gömlu töktunum. 


Íslendingar ættu að taka við föngum úr Guantánamo

Þegar menn eru hnepptir í fangelsi og haldið föngnum árum saman án ákæru og réttarhalda hlýtur óbrengluð réttlætishugsun að líta á þá sem saklausa menn.

Yfirmaður herafla NATO í Evrópu segir að óvíst sé að að sum lönd vilji taka við föngunum í Guantánamo jafnvel þótt þeir eigi þar ríkisborgararétt.

Það er óhugnanlegt ranglæti að það nægi að öflugasta herveldi heims taki menn höndum án þess að lögsækja þá til að hafa það í för með sér að hinir saklausu menn verði útlagar í heiminum það sem eftir er ævinnar.

Það er svívirðilegt. 

Íslendingar ættu að bjóða einhverjum þessara manna að koma hingað.


mbl.is Ekki auðvelt að loka Guantánamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðlaun

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eiga víst rétt á 12 miljóna biðlaunum sem ráðherrar næsta hálfa árið þó þeir sitji líka áfram á þingi fáum til gagns. Og allir ætla þeir að þiggja þau  með græðgisglampa í augum. Ekki verða þeir alveg á kúpunni.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins fær 20 miljónir í biðlaun fyrir það að vera rekinn með skömm.

Og alltaf heyrum við sögur af hinum og þessum stertimennum sem eru að fá himinhá biðlaun.

Nú er verið að segja upp mörgum þúsundum verkafólks í ýmsum greinum. Hvað ætli margt af því fái biðlaun?

Hverjir komu eiginlega á þessari þjóðarplágu sem nefnast biðlaun fyrir fáa útvalda? 

Má ekki leggja af þennan ósóma?

Er eftir nokkru að bíða?  


Til hvers?

Er verið að draga menn eins og Kristján Loftsson hvalfangara í Kastljós?

Hann er gjörsamlega ófær um að ræða eitt né neitt á málefnalegan hátt. Hann hrópar bara skammaryrði. Hann virðist heldur ekki skilja að nú snýst málið ekki bara um réttmæti eða skynsamleika þess að leyfa hvalveiðar eða ekki heldur líka um réttmæta eða óréttmæta stjórnunarhætti. 

Nú hef ég enga heita skoðun á hvalamálinu en mér finnst að í umræðuþætti eigi að velja menn sem geta rætt málin af sæmilega skynsamlegu viti.

 

 


Karlmenn og krabbamein

Nú er uppi rosalegt átak með karla og krabbamein. Þeir eru hvattir til að skoða á sér skrokkinn til að vita hvort þeir séu nú ekki komnir með krabbamein.

Ég segi nú bara fyrir mig: 

Fái ég krabbamein þá vona ég að ég drepist sem allra fyrst. Ég mundi ekki berjast af ótrúlegu æðruleysi og allt hvað það nú heitir í minningargreinum. Ég vildi bara að það tæki af sem fyrst. 

Það veður uppi lygi eða að minnsta kosti hálfsannleikur um krabbamein. Yfirleitt er látið eins og það sé nánast í fínu lagi að fá krabba því hægt sé annað hvort að lækna hann með glans eða treina líf sjúklinganna von úr viti og þeir lifi happily ever after.

Þannig virðist það vera eftir viðtölum við krabbameinssjúklinga sem birtast á almannafæri. Í  minningargreinum er undantekningarlaust sagt hvað þeir sem deyja úr krabba hafi verið æðrulausir og látið engan bilbug á sér finna. Allt getur þetta svo sem verið satt um viðkomandi fólk.

En af hverju er aldrei sagt frá hinum? 

Það vita allir af lífsleynslu sinni, þó það sé þegjandi samkomulag um að ræða það ekki opinberlega, að mjög margir þeirra sem fá krabbamein hrynja hreinlega saman og deyja með harmkvælum á stuttum tíma. Og margir taka örlögum sínum ''illa'', óttast þjáninguna og ekki síst dauðann.

Ég held reyndar að stór hluti meints æðruleysis sem kemur yfir krabbameinssjúklinga felist í því að krafa samfélagsins gagnvart deyjandi fólki er sú að það sýni ''æðruleysi''. Ef einhver gerir það ekki en lætur uppi kvíða, sorg og ég tala nú ekki um reiði, á hann á hættu að fólk hreinlega yfirgefi hann og hann tærist upp einn og yfirgefinn. Menn sýna ''æðruleysi'' af því að samfélagið neyðir þá til. 

Við þolum ekki deyjandi fólk sem er hrætt og erfitt í umgengni.

Ég held þó að til sé raunverulegt æðruleysi, sem jafnvel kemur helst fram þegar á reynir, en það sé samt sjaldgæfara en við höldum.

Það er víst ljótt að segja allt þetta svona svartsýnislega en ég held  að svona sé þetta nokkurn vegin. 

Varðandi banvæna sjúkdóma er fátt sem sýnist. 

Besti vinur minn í aldarfjórðung fékk krabbamein sem hann dó af innann tveggja ára við harmkvæli.

Fyrstu vikuna eftir að hann greindist af einhverju hættulegasta krabbameini sem til er lét hann uppi kvíða og sagði að þessi greining væri eins og að vera settur út á hafísjaka á rúmsjó sem síðan myndi bráðna undan honum. 

Eftir að þessa vika leið sýndi vinur minn mikið æðruleysi til hinstu stundar í orði og æði. Samt hefur honum liðið eins og hægt og bítandi væri ísjakinn að bráðna undan honum. 

Hins vegar var hann gjörbreyttur maður. Við höfðum verið í daglegu sambandi í aldarfjórðung. En nú  var alveg ómögulegt að ná sambandi við hann. Þó hann væri með mér eða að tala við mig í síma. Hann var þarna ekki lengur. Bara veggur sem var reistur úr þögn og kvöl. Aldrei var minnst á veikindin, aldrei minnst á dauðann sem við vissu þó að var tímaspursmál.  Ég hefði heldur aldrei  trúað því að óreyndu ð hægt væri að breytast eins geigvænlega í útliti og þessi vinur minn gerði.  Undir lokin var hann eins og dauðinn holdi klæddur. Og svo kom dauðinn og hann var ekki friðsæll og góður. 

Fyrir mér dó vinur minn í raun og veru þegar hann greindist með krabbameinið. Ég þekki marga sem hafa svipaða sögu að segja af reynslu sinni af krabbameini.

Og þannig held ég að þetta sé  einmitt oftar en ekki. Fólk deyr bara inni í sér þegar það greinist með illvígt krabbamein þó líkaminn haldi áfram enn um sinn.

Af hverju látum við svo í nánast öllum umræðum um krabbamein að svo sé ekki! 

 


Spörum

Prestkvinna ein er sögð eiga rétt á 15 miljóna skaðabótum fyrir það að hafa ekki fengið brauð sem hana langaði voða mikið í.

Þjóðkirkjan á að borga bæturnar. 

En þjóðkirkjan nær í peningana beint í vasa skattgreiðenda. 

Má ekki fara að leggja þessa þjóðkirkju niður og láta hana spjara sig bara á eigin spýtum?

Þar mætti aldeilis spara á þessum erfiðu tímum. 

 


Börn og dómarar

Mé finnst allt í lagi að flengja börn -ef mönnum fyndist líka allt í lagi að flengja dómara.

Ítrekað.

 


mbl.is Barnaheill harma sýknudóminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólánsama Fagurhólsmýri

Það á ekki af veðurstöðinni á Fagurhólsmýri að ganga, einni af níu elstu veðurstöðvum landsins og einni af þeim sem ég hef notað til að finna  hlýjustu og köldustu mánuði sem komið hafa á Íslandi síðan mælingar hófust.

Í vor var hún lögð niður sem mönnuð veðurathugunarstöð en við tók sjálfvirk stöð

Í vetur var sú stöð flutt af jörðinni Fagurhólsmýri að flugvellinum.

Eftir 20. janúar hefur ekkert heyrst frá henni.

Það er greinilega kreppa á hinni ólánsömu Fagurhólsmýri!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband