Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Klám - eða er það guðlast

Ég las grein  Jóns Kaldals um Klám og kvenfrelsi. Mér finnst hún málefnarík, hófsöm og skynsamleg. Eitt atriði vakti sérstaka athygli mína. Hann segir að á Íslandi séu hópar sem berjist gegn klámi vegna þess að það brjóti í bága við almennt siðgæði og /eða sé niðurlægjandi fyrir konur.

Spyr sá sem ekkert veit: Telja þá þeir sem þetta halda að klám sé ekki niðurlægjandi fyrir karlmenn sem leika í klámmyndum svona nokkurn vegin til jafns við konur?  Ef það er ekki niðurlægjandi fyrir karlmenn en bara fyrir konur langar mig gríðarlega til að vita hvernig á því stendur. 

Ekki þori ég svo fyrir mitt litla líf að nefna guðlast í sambandi við þessa umræðu, en þegar ég var strákur var þessu ávallt spyrt saman. Klám og guðlast voru ætíð nefnd í sömu andrá. Litið var svo á að klám væri argasta guðlast og guðlast væri argasta klám. Þá var nú veröldin einföld og lund vor létt!  En er þessi skilningur ekki einmitt hinn eini rétti!  

Ég þori ekki að nefna svo mikið sem ... á nafn eða last á honum af því að þegar ég nefni bara orðið guð - hvað þá orðið guðlast - verður alltaf fjandinn laus og athugasemdasvarthalarnir verða svo langir að þeir  ná hálfa leið til tunglsins.

Ég er raggeit og þori ekkert að segja. 


Ég boða yður mikinn fögnuð!

Nú er hæg austanátt í Reykjavík, sól milli skýja  og 14 stiga hiti á hádegi.

Sem sagt: Bærilegasta sumarveður.

Hvað voru menn uppfullir með að blogga um að haustið væri komið þegar kom ein ágætis lægð sem hvessti af?

Svo má alveg minna á að þennan dag árið 1939 mældist hitinn í Reykjavík 21,4 stig og er það mesti hiti sem mælst hefur þar 31. ágúst síðan mælingar hófust.

Og nokkrum dögum seinna, 3. september, fór hitinn í bænum aftur yfir 20 stig.

Örvæntið því eigi! Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð!

Sumarið er ekki búið!. 

 


Umferðaglæpir

Menn urðu ekki svo lítið hneykslaðir þegar ökufantur á sportbíl lék listir sínar á leikvelli Austurbæjarskólans. Mér finnst það nú ekki nema von. Svona athæfi er hreinlega klikkað! Og menn hafa heimtað að ærlega verði tekið í lurginn á ökufantinum. Bíllinn helst gerður upptækur. 

En um sama leyti birtist í Morgunblaðinu sláandi mynd af lítilli telpu sem  var að fara í skólann í fyrsta sinn og stóð fyrir framan heila röð af bílum sem lagt hafði verið á gangstétt. Hún var því tilneydd til að fara út á akbrautina til að komast leiðar sinnar.

Svona aðstæður hafa verið hversdagslegar í bænum árum og áratugum saman en enginn sagt um það eitt  einasta orð. Mönnum hefur þótt þetta bara alveg sjálfsagt.

Ef telpan hefði orðið fyrir bíl þegar hún fór út á götuna, haldiði þá að einhver bílstjóranna á bílunum sem var lagt á gangstéttina hefðu verið látnir sæta ábyrgð? 

Börn og fólk með t.d. barnavagn verða iðulega að fara út á götur vegna frekju bílstjóra, stundum fínna og margra miljónakróna jeppa, sem einoka gangstéttirnar. Enginn hefur heimtað að tekið yrði í lurginn á ökuföntunum. Eða bílar þeirra yrðu gerðir upptækir. Ég skil ekki svona misræmi.

Mér finnst þetta alveg eins miklir umferðaglæpir og sá glannaskapur sem fór fram á lóð  Austurbæjarskólans. Það er því gleðilegt og tími til kominn að borgaryfirvöld hafa hafið herferð gegn lagningu bíla á gangstéttir.

En svo ég vippi mér í að verða persónulegur og fletji út egóið eins og allir eiga víst að gera á bloggsíðum þá var ég í tólf ára bekk í Austurbæjarskólanum.  Það er mér minnisstæðast frá skólalóðinni að í frímínútunum var alltaf að leika sér einhver stelpa með rosabrjóst og í pilsi sem sást oft uppundir. 

Á hana glápti ég eins og naut á nývirki og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

Nú veit ég hins vegar alltaf hvaðan á mig stendur veðrið og er löngu hættur að kíkja undir pilsin á stelpunum.

Nema náttúrlega þeim allra sætustu!

En ég bið siðprúða lesendur að fara ekki lengra með það!


Hópsálin heimtar það!

Mér finnst eins og þjóðin  - hópsálin!Tounge - sé búin að gleyma því að sé til eitthvað sem heitir síðsumar. Nú talar hún bara um haust ef hvessir smá eftir að verslunarmannahelgin er liðin með myndarlegum lægðum. Þá er altaf talað um "fyrstu haustlægðina". En djúp lægð síðsumars þarf ekki að vera nein haustlægð. 

Nú er töff lægð við landið og veldur hvassviðri og úrkomu. Ekki er það endilega haustmerki. Það getur hvesst um hásumar og heilu sumrin geta verið rigningarsumur. Það fylgja lægðinni engir kuldar og í kjölfar hennar kemur sæmilegasta síðsumarveður. Ég tregðast því með sjálfum mér að kalla þetta haustlægð. Það er sem betur fer ekki víst að svona veður verði að staðaldri næstu vikur. Í veðurfarslegu tilliti er september talinn til sumarmánaða enda er hann það oftar en ekki við  venjulegar aðstæður. 

Septembermánuðir hafa verið ansi góðir yfirleitt eftir að veðurfarsrenisansinn hófst en hann var reyndar sá mánuður sem kólnaði einna mest eftir að hinar myrku og köldu veðurfarsmiðaldir fóru í hönd eftir klassíska gullöld veðursins sem ríkti með glæsibrag fyrir og um miðja tuttugustu öld.

Ég er því að vona að haustið sé ekki alveg komið. Það er enn síðsumar. Oftast er það upp úr miðjum  september sem verulegur haustblær fer að koma. Eftir þann tíma hættir t.d. oft að vera tíu stiga hiti að deginum í Reykjavík að staðaldri. Á hinum veðurfarslegu myrku og köldu miðöldum var september samt ekki neinn sumarmánuður. Þá komu bara tveir októbermánuðir í röð.

Það væri sannarlega antiklímaks eftir þetta geggjaða sumar ef það verður endasleppt síðustu vikuna í ágúst. Slíkt var reyndar eitt af kennimörkum veðurfarsmiðaldanna. Þá hrundi sumarið í ágústlok nema bara stundum. Þá tóku við ískaldar norðanáttir eða lítið skárri suðvestanáttir með Kanadakulda. Þetta virðist ekki vera að gerast núna.

Síðustu tíu árin eða svo hefur sumarið oftast enst vel út september og stundum reyndar inn í okótber.

Við viljum hafa það líka svoleiðis núna.

Hópsálin heimtar það!


Að láta sér fátt um finnast

Ég neita því ekki að ég hreifst af frammistöðu íslenska landsliðsins á ólympíuleikunum í hita leiksins. Ég er ekki andsportisti og hef alltaf haft gaman af ólympíuleikunum. En æðið rennur af manni og nú er mér um og ó hvernig menn láta. 

Margir Kínverjar eiga um sárt að binda beinlínis vegna ólympíuleikanna ofan á þá kúgun sem þeir eru almennt beittir af stjórnarfarinu. Af því tilefni spurði ég þeirrar spurningar hér á blogginu fyrir leikana hvort Íslendingar gætu notið þess ef þeir fengju verðlaun á leikunum grunlaus um það að þeir myndu hljóta verðlaun.

Það fer ekki framhjá mér að menn vilja sem minnst um slíkt tala öðruvísi en að vera með sigurvímu og hrifningu. Ég býst ekki við að á þetta verði minnst einu orði þegar tekið verður á móti handboltaliðinu í dag.  

En þetta er ekki helsta ástæða þess að ég læt mér fátt um finnast þau læti sem nú eru kringum handboltaliðið. Það er fremur þetta ofurvægi sem lagt er á frammistöðu í íþróttakappleikjum. Þjóðin er að vinna ýmis konar afrek á mörgum sviðum menningar og annars konar starfsemi, eins og allar aðrar þjóðir, án þess að menn tryllist beinlínis. En þegar kemur að íþróttum er hreinlega eins og afrek á þeim sviðum séu það sem mestu skiptir í gæfu þjóðanna. Eins og þetta er nú hverfult fyrirbæri. Man einhver hvaða þjóð hlaut silfurverðlaun í einhverri hópíþrótt á ólympíuleikunum í Barcelona?

Fyrst og fremst fælir það mig frá þegar sú stemning ríkir að allir, heil þjóð, eigi að vera sammála og hugsa eins, vera beinlínis frá sér numin. Það eitt nægir nú til að ég láti mér fátt um finnast. Hópsál er hryllileg. 

Einhuga þjóð er hálf óhugnanlegt fyrirbæri í sjálfu sér. Ekki þarf það  alltaf að vera jákvætt. Hugsið ykkur þann hatursþunga frá heilli þjóð sem hvílir á einstaklingum á átakatímum sem skerast úr leik við að hugsa eins og múgsálin. Fátt er grimmara og blindara.

Þetta finnst mér nú en það er öðru nær að ég sé eitthvað heitur í því. Og ég áfellist engan þó hann hugsi öðruvísi en ég í þessum efnum.

Allra síst íþróttamennina sjálfa.  


Jæja þá

Við skulum bara ekkert vera að breyta nafninu á landinu.  Ísland skal það áfram heita. 

Það er mín hyggja að haust muni snemma að leggjast með frostum allmiklum og ofankomum, en vetur mun hinn harðasti verða til sjávar og sveita með kaföldum ógurlegum og jarðbönnum og alls konar öðrum bönnum og munu þá margir aðkrepptir verða og illir viðskiptis um allar sveitir. Um jafndægur munu hafísar leggjast að ströndum í hrönnum og grimmir hvítabirnir munu um landið eigra og eta upp menn suma alla sem á vegi þeirra verða, en ríða má yfir hvern fjörð og hverja vík sem á föstu bóli væri.  

Og það verður mikið riðið! 


Breytum nafni landsins!

Í skrifum The New York Times um handboltaliðið okkar kom fram að Íslendingar væru ekki góðir í vetraríþróttum þrátt fyrir það  að nafn landsins gefi til kynna að þar ættu aðstæður að vera góðar til slíkrar iðkunar. 

Nafn landsins fær útlendinga til að fá hroll og ekkert mun stuðla eins mikið að ranghugmyndum um veðurfar landsins eins og það. Jafnvel Norðurlandabúar spyrja hvort ekki sé óskaplega kalt á Íslandi þó veturnir séu þar miklu mildari en á Norðurlöndunum öðrum en Danmörku. Nafnið hefur jafnvel áhrif á viðhorf landsmanna sjálfra sem oft tala eins og hér sé miklu kaldara en það er.  

Ekki hefði verið hægt að gefa landinu kuldalegra nafn og reyndar meira óviðeigandi. Líklegasta ástæðan fyrir nafngiftinni er ekki sú sem lesa má í gömlum bókum um hafís á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem aldrei er hafís, en sagan er sennilega goðsögn eða eftiráskýring, heldur einfaldlega sú sjón sæfarenda að sjá Vatnajökul rísa fyrst úr sjó þegar siglt er til landsins úr austri og síðan Mýrdals- og Eyjafjallajökul.  

Hvað um það. Ekkert er eins mikill óvinur landsins eins og nafnið. Ekkert fælir eins mikið frá því. 

Það er vel þekkt að nöfnum landa sé breytt. Mér finnst í alvöru að eiga breyta nafni landsins. Af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki réttnefni.


Einfalt samhengi

Fátt er í rauninni jafn ógeðfellt eins og múgæsing heillar þjóðar. Hún birtist ekki alltaf í saklausum kappleikjum heldur oft í stríði og blóðsúthellingum. Múgsál er stór hákskalegt fyrirbrigði.

Gott að Íslendingar fá sjaldan tilefni til að vera "einhuga þjóð". 

Frábært að þessum vandræða ólympíuleikum er lokið. Sumir sem eru í íþróttavímu spyrja hvað stjórnarfyrirkomulagið í Kína komi ólympíuleikunum við. Þetta hafi verið glæsilegustu ólympíuleikar sögunnar - sem auðvitað mátti segja sér fyrir. 

Ólympíuleikarnir koma stjórnarfyrirkomulaginu í Kína við á þann hátt að þeir skilja eftir sig hörmungarslóð fyrir málfrelsi og mannréttindi í landinu og margir voru beittir ofbeldi í undirbúningi leikanna. 

Þeir  voru beinlínis notaðir til að herða tökin á þjóðinni sem er sú fjölmennasta í heiminum.  Ástandið er verra en ef engir leikar hefðu verið. 

Það er samhengið.

Er nokkuð erfitt að skilja það?   

Hugsar nokkur Íslendingur annars til kvennanna tveggja á áttræðisaldri sem dæmdar voru í árs þrælkunarvinnu fyrir það eitt að sækja um leyfi til að mótmæla.

 

 


Fallöxin

Frakkar  eru glæsileg menningarþjóð sem fundu meðal annars upp fallöxina til að láta hausana fjúka. 

Og þeir fjúka! 


Skiptir meira máli en ólympíugull

Þær hrollvekjandi fréttir sem hér má lesa finnst mér skipta meira máli en nokkurt ólympíugull.

Er eiginlega hægt að gleðjast yfir verðlaunum á ólympíuleikunum í skugga þessara atburða? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband