Hret og snjóar í ágúst

Ágúst 1943 var í heild afar kaldur, sá 9. kaldasti á landinu eftir 1870. Eftir nær látlausa norðanátt gerði hægviðri síðustu daga mánaðarins með miklum kuldum. Frostið fór í -5,5 stig þ. 28. á Grímsstöðum á Fjöllum og  þ. 31. á Núpsdalstungu í Miðfirði. Litlar upplýsingar er að hafa um daglegan gang hitans þennan mánuð nema í Reykjavík, Stykkishólmi, Hallormsstað, Teigarhorni og Kirkjubæjarklaustri. Á síðast talda staðnum, einhverjum þeim sumarhlýjasta á landinu, var meðalhiti allra síðustu fimm daganna undir sex stigum, en meðalhiti kaldasta dagsins, þ. 29. var 4,8 stig sem er minnsti meðalhiti ágústdags á Kirkjubæjarklaustri allt frá 1932. Á Hallormsstað var meðalhiti allra þessara daga undir fimm stigum og kaldasti dagurinn, sá 27., var 2,8 stig og er hann kaldasti dagurinn í ágúst sem þar mældist á árunum 1937-1990. Talsvert mildara var í Reykjavík þessa daga en þ. 30. var meðalhitinn 6,4 stig sem er reyndar með kaldara móti.

Eftir þeim gögnum sem ég hef aðgang að held ég að þetta kuldakast sé það mesta sem komið hefur nokkra daga í röð í ágúst a.m.k. síðustu 70 ár eða svo ásamt kuldakastinu í ágúst 1956.

Það ár var hæð vestan við land þ. 25. sem þokaðist svo austur á bóginn. Jafnframt hafði lægð gengið í austur fyrir sunnan land og for til Englands og Skandinavíu. Hæðin færðist næstu daga mjög í aukana og var yfir Grænlandi og langt suður í haf. Saman drógu þessi veðrakerfið mjög kalt loft yfir landið en það var þurrt og þegar mestu kuldarnir voru var léttskýjað víða. Dálítil úrkoma var um land allt þ. 25. en daginn eftir var aðeins lítils háttar úrkoma um norðan-og austanvert landið en mjög víða sólskin. Meðalhitinn þ. 26. var aðeins 4-7 stig víðast hvar og er dagurinn með allra köldustu ágústdögum. Í Reykjavík var þennan dag næst minnst meðalhiti á ágústdegi síðan a.m.k. 1936, 5,3 stig. Það var mikið sólskin, 14 klst, en hitinn fór ekki hærra en í 9,2 stig. Klukkan 24  var hann fallinn niður í 2,2. stig og 0,6 kl. 3 um nóttina en 0,3 stig kl. 6. Bjart var og vindur hægur. Klukkan níu að morgni þ. 27. sýndi lágmarkshitamælir -0,2 stig og er þetta eina skiptið sem vitað er til að frost hafi gert í Reykjavík í ágúst síðan mælingar hófust. Veðurstöðin var þá á Reykjavíkurflugvelli. Á Barkárstöðum í Miðfirði mældist frostið -6,1 stig og er það minnsti hiti sem mældur hefur verið á landinu í ágúst í byggð. Á Möðrudal á Fjöllum var frostið -6,0 stig, -5,5 á Grímsstöðum, sem er met þar frá 1907, og -4,5 stig í Reykjahlíð við Mývatn og  Þingvöllum var frostið -3,7 stig. Vísir hafði það 29. ágúst eftir skógarverðinum í Vaglaskógi að aðfaranótt þ. 28. hefði frostið þar farið niður í sjö og hálft stig. Þó þarna hafi ekki verið veðurstöð fyrr en nokkrum árum síðar er þessi tala hreint ekki ótrúleg á þeim stað við þessar aðstæður. Tveimur dögum áður hafði blaðið skýrt frá því að fjallahringurinn við Eyjafjörð væri alhvítur. Í heild var þessi mánuður mjög kaldur og þurr alveg eins og ágúst 1943.  

Mikið kuldakast kom árið 1974. Sá dagur sem lægstan hefur meðalhitann í Reykjavík í ágúst a.m.k. frá og með 1936 var sá. 27., 5,1 stig. Norðanstorm hafði gert þ. 25. með snjókomu eða slyddu sums staðar og miklu vatnsveðri á norður og austurlandi en síðan lægði. Þann 27. var sólarlítið í borginni, næturhitinn hafði farið niður í 1,0 stig en mestur varð hitinn síðdegis 7,4 stig. Alla dagana 24.-27. komst hámarkshitinn aldrei í 10 stig í Reykjavík og náði reyndar ekki  8 stigum nema síðasta daginn. Á Akureyri var sá 26. kaldasti ágústdagurinn þar frá 1949, 3,5 stig.  

Kuldaköstin 1943, 1956, 1974, og reyndar líka það sem kom síðustu dagana í ágúst 1965, sem var þó talsvert mildara en þessi fyrr töldu, stóðu í nokkra daga, en til eru dagar jafnvel enn kaldari en þeir sem komu í þessum köstum en þeir hafa verið stakir, það er að segja ekki með sérlega köldum dögum á undan sér og eftir miðað við það sem kaldast getur orðið í ágúst. Nefna má dag sem kom tiltölulega snemma í mánuðinum, þ. 21. árið 1964. Kom þá mikið norðanskot með snjókomu fyrir norðan. Daginn eftir féll snjóflóð á Siglufjarðarskarði og var það  á veginum þriggja mannhæða djúpt. Mesta snjódýpt á veðurstöð mældist þá 7 cm þ. 21. á Hólum í Hjaltadal.  Á hádegi þennan dag var meðalhiti þeirra stöðva sem hægt er að sjá á kortum Veðurstofunnar á vefsíðu hennar um fjögur stig sem ég held að sé það lægsta sem hægt er að finna á þeim kortum nokkurn dag í ágúst frá 1949.  

Annar  mjög kaldur dagur var sá 27. 1982. Næstu nótt mældist frostið á Staðarhóli í Aðaldal -5,6 stig og mun það vera þriðja mesta frost sem mælst hefur í byggð á Íslandi í ágústmánuði.

Meðaltal lægsta hita á landinu í ágúst frá 1949 er -2,6 stig. Sjaldan er getið um alveg frostlausa ágústmánuði frá 1880 en þó árin 1880, 1884, 1914, 1933, 1934, 1935, 1936, 1947, 1949 og  1950. Hæsta gildi er 2,9 stig árið 1949. Ekki er kannski alveg að marka þetta frostleysi vegna þess að á seinni árum eru veðurstöðvar miklu fleiri en fram að miðri tuttugustu öld og líkurnar á að frost mælist því meiri en fyrr á öldinni.   

Mesta frost í ágúst á Íslandi öllu hefur mælst -7,5 stig á Sandbúðum á Sprengisandi þ. 27. árið 1974 og á Hveravöllum 1971 mældust -6,3 stig þ. 28. Daginn áður var sólarhringsmeðaltalið þar -1,4 stig, það lægsta sem þar var mælt  í ágúst 1965-2003. En þetta eru óbyggðar hálendisstöðvar og sú fyrrnefnda starfaði aðeins í fá ár.  

Það sýnir kannski best hve 19. öldin og fyrstu ár þeirrar 20. voru köld að á þeim tveimur stöðum sem lágmarksmælingar eru til frá þeim tíma á suðurlandsundirlendi, í Hreppunum og á Eyrarbakka, mældist meira frost á þessum tíma í ágúst en bæði 1943 og 1956, -4,2 stig á fyrrnefnda staðnum 1885 og -3,4 á þeim síðari 1903. Og metið í Vestmannaeyjum (kaupstaðnum) er frá 1889, -0,3 stig.  Á Teigarhorni mældust -2,9 stig árið 1887, en -4,6 á Raufarhöfn og -3,8 á Skeggjastöðum við Bakkaflóa Síðasta daginn í ágúst árið 1864 kom metið í Stykkishólmi, -2,3 stig. Hins vegar er kuldametið á Akureyri (frá 1882) í ágúst frá því 1956, -2,6 stig, þ. 28. 

Árið 1891 kom mikið kuldakast í lok mánaðarins. Þá féll hitinn í Reykjavík í 0,0 stig þ. 29. en -5,9 á Möðruvöllum í Hörgárdal sem er þá næst mesta frost sem vitað er um í byggð á landinu í ágúst. Á Raufarhöfn mældust -3,4 stig sem er mesta frost þar í ágúst. Í Reykjavík var hámarkshitinn þ. 27. aðeins 4,7 stig og veit ég ekki um lægri hámarkshita þar á ágústdegi, en lágmarkið um nóttina var 2,2 stig.   

Lægsta landshámark  á ágústdegi frá og með 1949 er þ. 30. 1983, 10,6 stig  á Kollaleiru í Reyðarfirði. Jafnvel enn kuldalegri eru þó 11,6 stigin á Hólum í Hjaltadal svo snemma sem þ. 12. árið 1970. Þá var lægð rétt fyrir sunnan land og rigning mjög víða. Árið 1974 í kuldakastinu þ. 25. mældust 11,0 stig á Seyðisfirði og 11,9 á Vatnsskarðshólum í kuldakastinu þ. 28. árið 1965.  Síðastnefnda daginn var lægð uppi í landsteinum við austurland með hryssingslgri norðanátt.

Snjór í ágúst

Snjólagsprósenta allra veðurstöðva 1924-2003 er talin 0 í ágúst.  Það þýðir þó ekki, fremur en í júlí, að ekki  geti orðið alhvít jörð stöku sinnum á einstaka stað. Reyndar festir sjaldnar snjó í ágúst en í júlí samkvæmt  upplýsingum úr Veðráttunni frá 1924.

1912 Í byrjun mánaðarins snjóaði sums staðar fyrir norðan og líka á vesturlandi (Veður á Íslandi í 100 ár).

1938 Alhvítt einn dag á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 21. og Reykjahlíð við Mývatn þ. 29.   

1940 Alhvítt á sömu stöðum einn dag og var snjódýptin 2. cm þ. 26. á Grímsstöðum.

1942 Á Grímsstöðum var alhvítt þ. 28.

1952 Þá var talið alhvítt fjóra daga í Möðrudal og tvo á Grímsstöðum en ekki er getið um dagsetningar en þetta mun hafa verið mjög seint í mánuðinum.   

1955 Einn dagur á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði í mánaðarlok.

1962 Einn dagur í Möðrudal.

1963 Einn dagur á Grímsstöðum

1964 Á Grímsstöðum voru hvorki meira né minna en fimm dagar alhvítir en tveir á Hólum í Hjaltadal og einn á Vöglum í Vaglaskógi og Reykjahlíð.

1965 Í kuldakastinu í lok mánaðarins voru fjórir dagar alhvítir á Grímsstöðum, mest 5 cm þ. 27., tveir á Hólum og einn  í Reykjahlíð og á Barkarstöðum í Miðfirði.  

1971 Mest snjódýpt á veðurstöð í ágúst er 10 cm var í þessum mánuði og mældist að morgni þ. 26. og 27. á Grímsstöðum. Alhvítt var þar í fimm daga en þrjá í Reykjahlíð, tvo á Vöglum, Hólum í Hjaltadal og Brú á Jökuldal og einn á Hveravöllum.   

1972 Svo snemma sem þ. 5. var alhvítt á Grímsstöðum í vondu kuldakasti.

1973  Á Brú á Jökuldal mældist snjódýptin 4 cm þ. 18. Sama dag var alhvítt á Grímsstöðum og á hálendisstöðinni í Nýabæ. 

1974 Á Grímsstöðum var alhvítt í tvo daga og mest snjódýpt 10 cm þ. 26. Einnig var hvít jörð á Mýri í Bárðardal. Á hálendisstöðinni Sandbúðum á Sprengisandi var snjódýptin 21 cm þennan dag!   

1977 Síðasta daginn var snjóföl á Mýri.

1979 Á Grímsstöðum var föl þ. 30.

1983 Alhvítt á Möðrudal þ. 16.

1992 Á Möðrudal var alhvítt 27. og 28. og á nokkrum stöðvum var jörð flekkótt dagana 26.-30.

2005 Í Svartárkoti upp af Bárðardal var snjódýptin 7 cm síðasta daginn.

Frá fyrri tíð má finna þessar upplýsingar um snjóalög í ágúst í riti  Þorvaldar Thoroddsens Árferði á Íslandi í þúsund ár.

1700 Hinn 20. ágúst að áliðnum degi kom snögglega ofsaveður með illskuhríð, fjúki og sjávargangi fyrir norðan, braut þá mörg skip og urðu nokkrir mannskaðar.

1809 Þá kom minnisstæð hríð um miðja hundadaga með frosti og fönnum, sem gjörðu mikinn skaða, einkum í Þingeyjarsýslu; um sama leyti kom 4 daga norðangarður í Strandasýslu með snjó og frosti. 

1818 Kafli af köldum norðanstormum var um engjaslátt, enda komu þá á óvanalegum tíma hafþök af ísi inn á Húnaflóa 23. ágúst, og rak hann aftur burt 9. sept. Frá 27. ágúst og fram undir Mikaelsmessu linti sjaldan norðangörðum með ofsaveðrum og kaföldum í fjöllum og snjókomu niður í flæðarmál. 

1868 9.-12. ágúst gerði íhlaup syðra og vestra í Dala-og Hnappadalssýslum, svo snjóaði ofan í bygð.  

Hafís sem getið er um í ágúst í riti Þorvaldar: 

1741 Rak hafísa frá norðurlandi seint í ágúst.

1796 Lá út allan ágúst fyrir norðan og austan, kom á fardögum.

1802 Lá hafís allt fram á höfuðdag. Hafði umkringt landið frá Vestfjörðum til Austfjarða frá því í janúar.

1807 Við norðausturströndina í september og fór  2. ágúst af Húnaflóa.

1811 Ís að flækjast við land fram í miðjan ágúst.

1818 Hinn 23. ágúst rak mikinn is inn á Húnaflóa og Skagafjörð og daginn eftir kom hann að  vestan  á Ólafsfjörð og Eyjafjörð. Rak loks frá landi 9. september.

1829 Allt sagt fullt af ísi frá Skaga til Grímseyjar 23. ágúst.

1837 Ís lá við Vatnsnes til 4. ágúst. Ís í grennd við Siglufjörð fór að lóna sundur snemma í ágúst og hvarf seint í mánuðinum. 

1887 Lá ís við Raufarhöfn fram í ágúst.

Hér fyrir neðan má sjá ófullkomið þrýstikort af norðanáttinni í ágústlok 1943 og kort á hádegi yfir veðrið á Íslandi og háloftkort fyrir 500 hPa og 850 hPa þrýstifletinum fyrir nokkra þessa köldu daga.

Rslp19430827

1956-08-26_12

1956-08-27_12

Rrea00119560826

Rrea00219560827

1964-08-21_12

1974-08-27_12

Rrea00119740826

Rrea00219740827

1970-08-12_12

1983-08-30_12


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband