Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Hvenær verður byltingin?

Bjarni Ármannsson fékk 90 miljónir fyrir fjögurra mánaða vinnu í bankanum.

Margir þræla alla ævi og fá þó aldrei svona mikla peninga fyrir ævistarfið.

Er vinna Bjarna svona meira virði en annarra?

Eða er þetta orðið geðveikt?

Jú, jú, það er víst bara öfund  að skrifa svona, segja sumir. 

Ég segi nei. Það er lágmarks réttlætiskennd.

Hvernig getur Bjarni yfirleitt bara látið sjá sig meðal fólks, brosandi og strokinn.

En hann er víst bara yfir sig ánægður.  

Hvenær verður blessuð byltingin?

Hvenær hrynur allt hrófatildrið?


Blaðamaðurinn farinn

Blaðamaðurinn var hér í góðu yfirlæti í hálfan annan tíma. 

Þetta var reyndar blaðakona, sérlega viðkunnanleg.

Við ræddum landsins gagn og nauðsynjar.  

Það kjaftaði á mér hver tuska.   

Og Mali malaði allan tímann.

Svo kemur þetta í blaðinu um helgina.

Hvaða blaði - það kemur bara í ljós.  

 


Blaðamaður í heimsókn

Í  dag klukkan þrjú, ef stór loftsteinn rekst ekki á jörðina, á ég von á blaðamanni í heimsókn.

Það mun vera háttur loftsteina að gera ekki boð á undan sér. Þeir skella bara. Og allt er búið. Risaeðlurnar, mannkynið og allt, jafnvel ég líka.

Blaðamaðurinn á víst eitthvað vantalað við mig.

Ég er helst farinn að halda að ég sé very important person!

 

  


Fordómar gegn geðsjúkdómum, Morgunblaðið og dómsmálaráðherrann

Þáttur Spaugstofunnar um Ólaf F. Magnússon borgarstjóra hefur vakið reiði margra. Ólína Þorvarðardóttir sagði að þar hefði borgarstjórnaum verið lýst sem vitfirringi og jafnframt hefði lýsingin verið fordómafull gagnvart geðsjúklingum almennt.

Umfjöllun Spaugstofunnar var þó alveg augljóslega ýkt og grótesk parodía

Fordómar eiga sér margar birtingarmyndir. Sú lúmskasta og skaðlegasta er tiltölulega "hógvær" og "fáguð" orðræða sem er full af skrauthvörfum og undanbrögðum frá því að nefna hlutina  sínum réttu nöfnum.

Það er einmitt eðli fordóma gegn geðsjúkdómum að veigra sér við að nefna hlutina réttum nöfnum. Jafnvel heitin "þunglyndi", "geðhvörf", "kvíðaröskun", "fælni"  og svo framvegis valda ótta og ranghugmyndum í augu þeirra sem eru fullir af villuhugmyndum, hræðslu og hleypidómum í garð þeirra fyrirbæra sem orðin lýsa.

Menn skammast sín þá svo mikið að þeir geta bara ekki nefnt neitt geð-rænt í heyranda hljóði þegar að þeim sjálfum eða þeirra nánustu kemur. Þess vegna tala þeir um að vera niðurdregnir eða hafa orðið fyrir andlegu mótlæti í stað þess að viðurkenna það hreinskilnislega og eðlilega að þeir hafi verið í slæmu þunglyndiskasti. Það er einmitt orðræða og undanfærsla af þessu tagi sem er lang hættulegasta gerð fordóma gegn geðrsökunum.

Eitt skulum við hafa á hreinu: Læknar gefa ekki út veikindavottorð nema læknisfræðilega skilgreindur sjúkdómur leynist þar að baki. Þeir gefa ekki út vottorð um andlegt mótlæti vegna þess að það hefur enga læknisfræðilega merkingu.

Margir eiga við ýmis konar mótlæti að stríða og eru býsna niðurdregnir en mæta þó til vinnu viku og mánuðum saman meðan það er að ganga yfir. Það segir sig hins vegar sjálft að átta mánaða fjarvera frá vinnu er eitthvað stærra í sniðum en bara þetta.

Svo er annað atriði sem við verðum að gera okkur grein fyrir.

Geðsjúkdómar eru með algengustu sjúkdómum. Aðeins lítill hluti þeirra veldur þó sturlunarástandi sem oftast gengur þó aftur til baka sem betur fer með viðeigandi læknishjálp og stundum án hennar. Kostnaðurinn við þessa sjúkdóma er óheyrilegur í peningum en er þó lítið mál miðað við þjáningar sjúklinganna og aðstandenda þeirra. Þess vegna ríður á að menn séu sæmilega upplýstir um geðsjúkdóma svo hægt verði að bæta ástandið. Og að sama skapi veldur það samfélagslegum skaða að ala á fordómum gegn geðsjúkdómum af því að það torveldar samfélaginu að ná valdi á  þeim.

Við verðum einnig að gæta að eftirfarandi: Starf borgarstjóra er mikilvægt opinbert embætti og því skiptir máli að sá sem gegnir því mæli af heilindum opinberlega og tali ekki merkingarleysu eins og hjalið um andlegt mótlæti sannarlega er. Skoðanir manna eru heldur ekki einkamál. Ekki heldur á sjúkdómum. Skoðun er ekki sama og það að hugsa eitthvað með sjálfum sér. Skoðun er eitthvað sem við deilum með öðrum og hefur margvísleg  áhrif á aðra og umhverfið. Þegar borgarstjóri fer í feluleik um geðræn vandkvæði sín er hann því á vissan og reyndar mjög áhrifamikinn hátt að dreifa út fordómafullum skoðunum úr sínu valdamikla og opinbera embætti.  

Í ljósi hinna vandræðalegu undanbragða borgarstjórans verður að skilja afkáralega paródíu Spaugstofunnar. Ef Ólafur hefði bara verið eðlilegur og ekki rokið í þessa vandræðalegu vörn hefði sú paródía ekki farið af stað.

Þáttur Morgunblaðsins í þessu máli er kapituli ut af fyrir sig. Áratugum saman hefur blaðið talið sér trú um að það standi í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn fordómum gegn geðsjúkdómum. En í þetta sinn gleymir blaðið sér algerlega í pólitískum átökum. Gott og vel! Blaðið telur að andstæðingar Ólafs hafi notað veikindi hans á fordómafullan hátt í ofsóknum gegn honum. Kannski er eitthvað hæft í því. Þá er ekkert athugunarvert við það  að Morgunblaðið atyrði þá sem þetta gerðu. En ef Morgunblaðið vill vera sjálfu sér samkvæmt í þessu efni getur það ekki látið sem fordómavekjandi skrauthvörf borgarstjórans um geðsýki sína hafi aldrei verið sögð. Ætli Morgunblaðið sér að minnast  aldrei á þann þátt málsins gerir það trúverðugleika þess að engu næst þegar það skrifar ritstjónargrein um nauðsyn þess að eyða fordómum gegn geðsjúkum á Íslandi. Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjórar eru það sem þykjast vera að vinna gegn fordómum í garð geðsjúkdóma sem geta látið í raun fordómahlaðnar málrósir um þá sem vind um eyru þjóta? Það er einmitt slíkt tal sem er viðsjárverðast.  

Það er svo enn þá furðulegra að blaðið skuli reyna að gera hetju úr borgarstjóranum en það skrifar í leiðara 27. janúar: " Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, talar  ... af hreinskipti um persónulega hagi sína. Hann gerir það opið og heiðarlega. Til þess þarf  ... kjark og hugrekki ... ."

Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjóri er það eiginlega sem verður sleginn annarri eins blindu?

Það er ekki eins og menn hafi verið að leyna því síðustu áratugi að þeir hafi þurft að glíma við geðræn vandkvæði og sú umræða hafi farið lágt. Það eru nú komin t.d. þrjátíu og fjögur ár frá því ég skýrði í bók  minni, Truntusól, frá dvöl minni á geðdeild. Sú frásögn fór ekki framhjá þjóðinni. Bókin "Kleppur í 100 ár" segir að Truntusól sé einhver frægasta bók á tuttugustu öld. Síðan hafa ýmsir aðrir sagt slíkar sögur sínar. Og  þeir hafa ekki talað neina tæpitungu.   

Flæmingur borgarstjórans þegar talið barst að geðrænum veikindum hans er hins vegar eins og ámáttlegt bergmál af tíðarandanum fyrir mörgum áratugum. Og hann hefur einnmitt beinlínis sært  marga sem átt hafa við þunglyndi að stríða eins og sést á skrifum þeirra á blogginu og á athugasemdum við færslur þeirra. Hér er eitt dæmi og hér er annað. Ég treysti vitnisburði þessa fólks betur en orðum ritsjóra Morgunblaðsins sem þiggur tvær miljónir í laun á mánuði fyrir að rugla í blaði sínu um alvarleg þjóðfélagvandamál.

Hlutur dómsmálaráðherrans, Björn Bjarnasonar, er þó enn þá einkennilegri en þáttur Morgunblaðsins.      

Í pistlinum Ofsi nýs meirihluta á  heimsíðu sinni sér hann ástæðu til að velta því fyrir sér varðandi það sem hann kallar einelti gegn Ólafi F. Magnússyni:

"Hvar er Öryrkjabandalagið, þegar veikindi eru höfð til marks um að einstaklingur sé ekki fær um að sinna því starfi, sem sá hinn sami hefur tekið að sér?  Hefur Öryrkjabandalagið engar athugasemdir fram að færa við fordómana og eineltið?"

Þetta er ekki atriði úr Spaugstofunni. Það er dómsmálaráðherra þjóðarinnar sem talar.

En hvað með Geðhjálp? Kannski veigrar ráðherrann sér við að nefna svo mikið sem á nafn eitthvað sem hefur orðið GEÐ í sér.

Því  miður á ég svo eftir að nefna mesta áhyggjuefnið í öllu þessu máli. Og það er þetta:

Hið pólitíska upphlaup mun hjaðna eins og önnur slík upphlaup. Eftir stendur þá hvernig það kom upp um virka fordóma gegn geðsjúkdómum, jafnvel þar sem síst skyldi, meira að segja hjá þeim sem telja sig  vera sérstaka málsvara geðsjúklinga.

Full ástæða er til að  þjóðin ræði þetta á málefnalegan hátt.

Það væri því sannarlega ómaksins virði  að einhver marktækur aðili, t.d. Geðhjálp, beitti sér fyrir almennum umræðufundi meðal borgaranna, ekki til að fjalla um atburðina í borgarstjórninni sérstaklega, heldur til að ræða almennt fordóma gegn geðsjúkdómum í upphafi 21. aldar í íslensku samfélagi.  Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Og nú virðist sem aldrei fyrr vera jarðvegur fyrir slíka umræðu.

Það er svo margt ef að gáð sem um er þörf  að ræða.   


Borgarstjórinn getur þá sjálfum sér um kennt

Þegar Sigmundur spurði Ólaf hvort það væri skammarlegt að fjalla um geðsjúkdóma sagðist hann ekki vilja nota orðið geðsjúkdómur um kvillann sem hrjáði hann. Hann hafi lent í ákveðnu andlegu mótlæti sem hann hefði leitað sér lækningar við. „Ég var niðurdreginn, ekki eins mikið og margir vilja halda og ég hef komið til baka."

Þetta er af vef Vísis þar sem sagt er frá tali Sigmundar Ernis Rúnarssonar við nýja borgarstjórann.

Þetta er auðskilið. Borgarstjórinn skammast sín fyrir að hafa átt við geðræn vandkvæði að stríða. Hann vill ekki kalla hlutina réttum nöfnum, eins og það sé eitthvað mál, heldur skal það heita andlegt mótlæti.

Skárra er það nú "mótlætið" sem heldur manni frá vinnu mánuðum saman. En þá veit maður það. Þunglyndi skal héðan í frá heita "andlegt mótlæti". Við skulum þá bara leggja niður orðið "þunglyndi" því það hefur alltaf verið flokkað undnir geðsjúkdóma og það er ekki hægt annað en skammast sín fyrir svoddan veiki alveg niður í tær. 

Það er hinn augljósi boðskapur læknisins og borgarstjórans Ólafs F. Magnússonar.

Þá held ég bara að hann geti sjálfum sér um kennt. Ég sé nú eftir færslu minni hér áður um það að hann hefði orðið fyrir barðinu á fordómunum. Hann er þar sjálfum sér verstur. Hann hefur skapað þá sjálfur eins og mér var reyndar bent á í athugasemd við bloggfærsluna mína.   

En það er ótrúlegt að annað eins pukur og fíflagangur skuli fara fram á tuttugustu og fyrstu öld þegar geðræn vandræði eru annars vegar.

Af hverju skrifar Morgunblaðið, sem allfaf þykist vera að berjast gegn fordómum gegn geðsjúkdómum,  ekki um þetta? Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.


Engir öðrum betri með fordómana

Nú reyna sumir að klína fordómum gegn geðræðnum vandkvæðum upp á vissa stjórnmálaflokka.

Ég er nú eldri en tvævetur í þessu bransa og gef nú ekki mikið fyrir slíkan vesaldóm. Því miður eru engir stjórnmálaflokkarnir öðrum betri í þessum efnum. Hins vegar hika þeir allir ekki við að notfæra sér fordómana til eigin nota í stjórnmálabaráttu sinni ef því er að skipta.

Það sýnir best staðfestu fordómanna og spillingu stjórnmálaflokana.

 


Hamingja og óhamingja

Mikil grein er um hamingjuna í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að kannanir segja að eftir að komið er yfir fátæktarmörk eykst hamingja manna ekki með betri efnum. Önnur könnun leiddi í ljós að Íslendingar séu með hamingjusömustu þjóðum. Í Moggagreininni kemur fram að hér sé efnishyggjan ríkjandi, eftirsókn eftir efnislegum gæðum í lífsgæðakapphlaupinu sé allsráðandi. Einnig er sagt frá könnunum sem sýna að mikil eftirsókn eftir slíkum gæðum "bæli hamingjuna", komi sem sagt í veg fyrir hana. 

Þá stöndum við frammi fyrir mótsögn: Mikil eftirsókn eftir efnalegum gæðum kemur í veg fyrir  hamingjuna. Íslendingar eru algerlega á valdi þess að sækjast eftir efnislegum gæðum. Íslendingar geta því ekki verið hamingjusamir.

Samt segir þessi gamla könnun að þeir séu einna hamingjusamastir þjóða.

Það hlýtur reyndar að vera erfitt að mæla hamingju heilla þjóða. Hamingjan er svo huglæg og einstaklingsbundin að hún er algjörlega ómælanleg. Í raun og veru er það ruglandi að tala um hamingju þjóða. Fremur ætti að tala um lífsgæði. Þau eru mælanleg samkvæmt stöðluðum kvörðum.  

Ekki ætla ég að reyna að svara þeirri spurningu í hverju hamingjan sé fólgin. Ég held þó að hún sé ekki endilega það að finna einhvern "tilgang í lífinu". Í greininni í Morgunblaðinu er mikið lagt upp út bók Viktors Frankl um tilgang lífsins sem mér hefur alltaf fundist ósannfærandi og slöpp bók.

Mér finnst bækurnar hans Eckhart Tolle meira áhugaverðar hvað hamingjuna varðar þó ég skilji ekki allt sem hann er að segja og efist um annað. Hann leggur áherslu á það að lifa í núinu og vera ekki að keppa að einhverju. Spurningin um tilgang vaknar þá ekki sem eitthvað afgerandi. Ég held líka að trúarjátningar auki ekki hamingju manna. En trúarleg upplifun gæti hugsanlega gert það. Samt hef ég grun um að margt það sem menn telja andlega eða trúarlega reynslu sé byggt á sandi, einhverju tilfinningaróti, og bresti þegar verulega reynir á. En ekki í öllum tilvikum.   

Annars finnst mér óhamingjan miklu merkilegri en hamingjan. Fyrst og fremst vegna þess að hún virðist svo algeng og áberandi hvar sem maður lítur í kringum sig. Samt er það svo einkennilegt að hún er hálfgert feimnismál. Enginn kemur fram og segir: Ég er óhamingjusamur og hef verið það mest alla ævina. Og er það þó hlutskipti æði margra. En menn veigra sér við að segja það beinum orðum en segjast kannski vera þunglyndir eða eitthvað vegna þess að ef þeir töluðu um óhamingju  yrði litið á þá með hálfgerðri óvirðingu. Jafnvel líkt og þeir væru að játa fíkniefnaneyslu eða eitthvað annað ámælisvert. Þess vegna þykir það sjálfsagt að blekkja í þessum efnum og segja: Ég er sáttur og hamingjusamur í lífinu. Oftast virkar það á mig eins og þegar menn segja: Ég ber ekki kala til nokkurs manns. Þegar menn segja það er nokkurn veginn víst að þeir eru að ljúga, oftast alveg meðvitað en stundum kannski ómeðvitað. Við höfum mjög sterka tilhneigingu  til að afneita hreinlega erfiðum tilfinningum, allri óhamingjunni. 

Ég efast stórlega um meinta hamingju minnar vesalings þjóðar.

Þjóð sem notar meira af geðlyfjum en flestar aðrar þjóðir er varla mjög hamingjusöm. Ekki heldur þjóð sem alltaf er blindfull um hverja helgi og er að springa af stressi. Þjóð sem hefur ekki tíma til að sinna börnum sínum almennilega eða njóta samvista við aðra og því um síður að kynnast sjálfri sér. Þjóð sem ærist upp í popprugli og laugardagslögum.

Jæja, það er best að setja sig ekki á hærri hest en þetta!

Allt sem hér er sagt er með fyrirvara og án ábyrgðar. Þetta er viðfangsefni sem krefst yfirlegu og umhugsunar.

Og ég er nú svo stressaður að ég nenni ekki að standa í því. 

En ég ætla þrátt fyrri allt að klykkja út með myndrænu spakmæli um hamingjuna.

Hamingjan felst í því að hver maður finni sinn Mala í sjálfum sér.

smile%20cat 

 

 

orpðum

Hérna!

Mér finnst að þeir sem eru alltaf að tala í fjölmiðlum eigi að vera mælandi og vitibornir.

Enginn getur tekið mark á ... hérna ...  manni sem segir "hérna" í hverri setningu eins og Villi viðutan fyrrum borgarstjóri gerir.

Já, mér finnst það ... hérna... ekki boðlegt af manni sem vill láta taka sig alvarlega hérna. 

En kannski eigum við ... hérna ... ekkert að taka hann alvarlega. Kannski er hann ... hérna ....bara fígúra ... hérna ... í  Spaugstofunni.    

 


Borgarbúar ættu að fá að kjósa aftur!

Katrín Jakobsdóttir tjáði í hnotskurtn í sjö fréttum RÚV það rót, reiði og vonbrigði sem ríkja nú í hugum borgarbúa vegna atburða síðustu daga þegar hún sagði að almenn reiði hafi farið úr böndunum  á áhorfendapöllum borgarstjórnarinnar. Framferði nýja meirihlutans væri kannski lögleg en algerlega ósiðleg og ylli því að fólk treysti ekki stjórnmálamönnum.

Það var svo alveg hörmulegt að horfa og hlusta á Vilhjálm og Geir Haarde sem hneyksluðust á unga fólkinu en ekki á því sem þeir ættu fremur að hneykslast á : Siðleysi og ósvífni nýja meirihlutans.

Orð Dags Eggertssonar á borgarstjórafundinum í dag bermála það sem maður heyrir meðal fólks í öllum flokkum hvar sem maður kemur: 

Borgarbúar ættu að fá að kjósa aftur af því að  misfarið hefur verið með vald og lýðræði.

Já, fólk á ekki að láta bjóða sér þetta og halda áfram mótmælunum á formlegan og skipulagðan hátt. 


Úr dagbókinni 23. janúar 1973

Klukkan hálf fjögur í nótt hringdi Yngvi bróðir hingað og sagði að Yngvi frændi hefði hringt og sagt að tekið væri að gjósa í Helgafelli í Vestmannaeyjum. Svo furðulegar fannst okkur þessar fréttir að við trúðum þeim ekki almennilega fyrr en við höfðum hringt í lögregluna og fengið þær staðfestar þar. Við kveiktum þá á útvarpinu. Það hófst um um kl. 4. Þar var útvarpað orðsendingu til allra Vestmannaeyinga að hraða sér til hafnarinnar. Síðan kom lýsing á þessum atburðum.

Gosið er sprungugos, 1500 m langt austan í Helgafelli Gýs á allri sprungunni þunnu flæðigosi. Frá Reykjavík voru þrjú flutningaskip send til Eyja en var brátt snúið við er í ljós kom að floti Eyjamanna, Þorlákshafnar og Grindvíkinga var þess megnugur að sinna öllum flutningum frá Eyjum. Um kl. 4 fóru fyrstu bátarnir og komu til Þorlákshafnar um klukkan hálf átta og um hádegið voru nær allir Vestmannaeyingar komnir til Reykjavíkur. Gekk allt björgunarstarfið að óskum og ótrúlega hratt og urðu engin slys á mönnum. Og í kvöld var búið að koma nær öllum fyrir á einkaheimilum í Reykjavík.

EldfellSjónvarpið hafði aukafréttir kl. 13 og kl. 23.30 auk þess sem rækilega var greint frá þessum atburðum kl. 20. Var sannarlega óhugnalegt og ægifagurt að sjá þessar villtu hamfarir við svo að segja bæjardyr Vestmannaeyinga. Gosið hefur færst í aukana og sprungan lengst í báða enda en gosið er nokkuð breytilegt. Þessir atburðir kunna að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Engin leið er til að sjá fyrir um hvernig það mun þróast né heldur hve lengi það stendur. Ég vona að forsjónin hlífi minni fögru fæðingarbyggð við tjóni og landsspjöllum.  ... Ég svaf ekki dúr í nótt en tókst að blunda í þrjá tíma í dag. 

Svo segir dagbókin mín 23. janúar 1973 þegar gosið hófst á Heimaey. Á þessum tíma bjó ég á Akranesi.  Ljósmyndin er eftir Svein Eiríksson og er víða að finna á netinu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband