Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Áfram Ögmundur

Nú eru rukkararnir við Geysi búnir að viðurkenna að þeir flúðu undan Ögmundi í gær eins og hræddir hérar. Svo lugu þeir upp svo vandræðalegri skýringu að menn fóru bara hjá sér.

Ekki gætu þeir svo hafa valið sér ógæfulegri talsmann en þennan Garðar Eiríksson sem er að gera landeigendur að algerum fíflum. Það nýjasta hjá honum er að Ögmundur sé alltaf að efna til ófriðar. Segja þeir sem eru að brjóta lög og beita vegfarendur ofbeldi í raun.  

Ögmundur segist ætla að snúa aftur og muni hiklaust kæra rukkarana fyrir lögreglu ef hann verður fyrir áreiti.

Og það ættu allir aðrir líka að gera. 

Áfram Ögmundur! 


Handrukkarar

Hve nær fara íslenskir hrokagikkir að rukka fyrir veðrið?
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óþægilegt

Ég veit auðvitað ekki hvort atburðir í þessu máli voru eins og Pistoríus segir. En jafnvel þó svo væri er erfitt að fallast á það að innbrotsþjófur bak við læsta hurð sé bara umhugsunarlaust réttdræpur og maður sem skýtur að honum mörgum skotum sé alsaklaus eins og ekkert sé. Það hlýtur í það minnnsta að vera ógætileg meðferð á skotvopnum. 

Annars kom ég einmitt að óboðnum ókunnum gesti í svefnherberginu mínu fyrir nokkrum dögum. Hefði ég átt að drepa hann? Lögreglan kom svo og fór með manninn.

Það dó reyndar kona sem á sína ættingja og vini sem eru eflaust alveg niðurbrotnir. Í endurteknum fréttaflutningi Morgunblaðsins og reyndar fleiri fjölmiðla af skoðunum þessarar konu er eins og sú hlið mála varði alls engu máli.

Réttarhöldin eiga að leiða sannleikann í ljós. Skipta skoðanir þessarar íslensku konu sem telur sig vita sannleikan fyrirfram virkilega einhverju sérstöku máli? Og á þetta að ganga  svona öll réttarhöldin og jafnvel eftir þau? 

Mætti ekki líka til dæmis kynna sjónarmið ættingja þeirrar konu sem alveg óumdeilanlega var skotin til bana. - En bara í misgripum fyrir aðra lifandi manneskju að sögn skotmannsins.  

Mér finnst þessi fréttaflutningur af einhliða skoðunum íslensku konunar beinlínis óþægilegur.

Mjög óþægilegur. 

 


 


mbl.is Ebba segir Pistorius niðurbrotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti vetrarmánuðurinn

Hvað skyldi svo mars, síðasti vetarmánuðurinn, bera í skauti sér.

Fylgiskjalið nósnar um það. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sjaldgæfir febrúardagar

Síðasti dagurinn í febrúar var óvenjulegur í Reykjavík. Þá skein sólin í 7,9 klukkustundir og hitinn fór í 7,5 stig en meðalhitinn var 4,2 stig en lágmarkið 2,4. 

Það mun vera afar sjaldgæfur atburður á þessum árstíma að svona mikill sólskinsdagur sé jafnframt þetta hlýr. Oftast nær er frost í mikilli sól á febrúardögum, stundum hörkufrost.   

Langtíma meðalhiti þessa dags er um hálft stig en meðalhiti alls febrúarmánaðar 1961-1990 er 0,3  stig en á þessari öld 1,1 stig, með þessum. 

Hér fara á eftir nokkrar vangaveltur um hlýja sólskinsdaga í febrúar.

Daglegar sólskinsmælingar eru til frá 1924. Mesta sólskin sem mælst hefur 1. febrúar er 6,5 stundir en 9,5 stundir þann 28. Meðaltal sólskins í febrúarmánuði öllum í Reykjavík síðustu 30 ár eru 58,3 stundir eða tvær stundir á dag að jafnaði. 

Sólargangur er auðvitað ekki langur í febrúar þó hann lengist eftir því sem á líður. Mér datt í hug að miða við að fimm stundir af sólskini eða meira til að ákvarða sólskinsdag í febrúar. Ég hef þær ekki fleiri til þess að ná öllum mánuðinum og vegna þess hve sólargangur er skammur held ég að menn upplifi slíka daga sem sólardaga miðað við árstímann. 

Síðan 1924 hefir sól mælst 5 klukkustundir eða meira í 446 daga í febrúar en það eru um 17% allra febrúardaga á þessum tíma. Meðalhiti þessara sólardaga er -2,8 stig frá 1949 að telja en meðaltal lágmarks og hámarkshita á sama tíma er um fimm stiga frost og hiti um frostmark. Sólskinsdagar í febrúar eru því yfirleitt kaldir og oftast miklu kaldari en dagsmeðaltal viðkomandi dags, hvað þá hlýrra hlákudaga. Af 325 sólardögum frá 1949 hefur meðalhitinn verið yfir frostmarki í kringum 22% þeirra daga en frá 1949 eru til sólarhringsmeðaltöl hita. Meðalhitinn hefur sem sagt verð undir frostmarki í nær 80% þessara sólskinsdaga. Lágmarks og hámarkshiti hvers dags liggur fyrir alveg frá 1924. Frá því ári hefur verið algjörlega frostlaust í um 9% allra daga (446) með fimm klukkustunda sól eða meira. Hámarkshitinn komst í 5 stig eða meira í 28 daga af þessum 446 dögum, þar af 4 daga 2014, yfir 6 stig í 17 daga en yfir 7 stig í 8 daga og einn af þeim var síðasti dagurinn í þeim febrúar sem var að líða. Allra allra mestu sólskinsdagar, þeir sem eru nærri sólskinsmetum viðkomandi dags, ná ekki að verða hlýir.

En þetta er sem sagt alveg nauða sjaldgæft ástand í veðrinu sem við höfum verið að lifa núna í febrúar í Reykjavík. Að á miklum sólardögum í febrúar sé líka tiltöulega hlýtt en ekki hörkufrost. 

Nokkrir af þessum mildu sólríku dögum síðustu 91 ár skera sig úr. 

Fyrstan skal telja 26. febrúar 1932, langhlýjsta febrúar sem mælst hefur, en þann dag komst hitinn í 9,9 stig (var 9,1° á hádegi) en sólin skein í 5,6 stundir og meðalhitinn hefur líklega slagað nokkuð eða jafnvel hátt upp í 7 stig. Þennan dag fór hitinn á Hvanneyri upp í 11,4 stig.

Hinn 24. árið 1963 var merkilegur dagur. Þá skein sólin í 5,3 stundir, hámarkið var 7,9 stig (7,4 kl. 15) en sólarhringsmeðaltalið var svo hátt sem 6,4 stig.

Mér er minnisstæður 14. febrúar árið 1991. Þá komst hitinn i 7,7 stig (kl. 15) en meðalhitinn var 6,3 stig og sólin skein í 6,3 stundir. Gestir í sundlaug vesturbæjar tóku fram sólbekkina þennan dag! 

Sólin skein í 5,3 stundir þann 24. árið 2003 en hitinn fór í 7,1 stig en meðalhitinn var 5,1 stig.

Allir þessir dagar voru alveg frostlausir. 

Og svo er það okkar dagur, líka frostlaus, síðasti dagur febrúarmánaðar 2014, með sól upp á 7,9 stundir, 7,5 stiga hámarkshita og meðalhitann upp á 4,2 stig.

Mig langar til að láta okkar dag hreppa gullið á vetarólympíuleikunum fyrir milda sólskinsdaga í Reykjavík í febrúar en 1932 daginn silfrið og 1991 daginn bronsið! Það er listrænn elegans  gærdagsins á svellinu sem gerir útslagið með gullið!

Hvað sem um þennan veðurleik má segja hefur veðurfarið vægast sagt verið óvenjulegt í þessum febrúar og ekki bara vegna þurrkanna og austanáttarinnar. Litlu munaði að mánuðurinn kæmist líka inn á topp tíu listann fyrir sólríki og samt svona hlýr og hann skartar óvenjulega mörgum tiltölulega hlýjum sólskinsdögum miðað við árstíma. Loftið yfir landinu hefur ekki komið norðan af heimskauti með svellköldum sævi.

 

 

  

 

 

 

         


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

 

Sigurður Þór Guðjónsson
Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Þór Guðjónsson


Hér er skrifað sjálfum mér til dálítillar skemmtunar. Þetta er líka síða áhugamanns um veðurfar. Veðurefnið er í flokkunum Íslensk veðurmet og Veðurfar, að ógleymdum annála-bálkinum. Vek sérstaka athygli á EFNISYFIRLITI UM VEÐUR í flokkunum hér fyrir neðan, MÁNAÐARVÖTKUN VEÐURSVEÐUR UM ALLAN HEIM

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband