Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Sólarleysi syðra en hlýindi norðaustanlands

Í dag var mjög hlýtt á norðaustanverðu landinu en þó langt frá öllum metum. Hiti fór víða á þessu svæði yfir 20 stig og mest 23,0 á Hallormsstað en 22,9 á Egilsstaðaflugvelli. 

Í gær var svo yfir tuttugu stiga hiti um allan Borgarfjörð, alveg frá Hvanneyri til Húsafells  þar sem hitinn varð 21,1 stig en sama í Kolási við Munaðarnes. Hiti náði líka 20 stigum í Landsveit og á Þingvöllum.

Meðalhitinn færist hratt upp á við. Hann er nú 11,2 stig í Reykajvík sem 0,1 stigi kaldara en meðaltal fyrstu 20 daga mánaðarins síðustu 30 ár en hálfu stigi undir meðaltali þessar aldar. Sýnir  það nú hvað hún hefur verið hlý. Meðaltalið 1961-1990 er aðeins 10,5 stig fyrir þessa daga. 

Á Akureyri er meðalhitinn núna 12,2 stig og líka á Húsavík en 12,3  stig á Torfum og 12,1 á Möðruvöllum en þessir staðir voru þeir hlýjustu í júní. Á Egisstöðum er meðalhitinn  11,9 stig en 12,0 á Hallormsstað.

Úrkoman er nú orðin meiri en en í meðallagi alls mánaðarins 1971-2000 mjög víða. Sérstaklega er úrkoman mikil á norðvesturlandi þar sem hún er sums staðar orðin meiri en hún hefur nokkru sinni mælst í öllum júlí. Gildir það reyndar líka um fáeinar aðrar stöðvar annars staðar.

Í Reykjavík er úrkoman nú 77 mm og hefur aðeins meiri verið fyrstu 20 dagana í júlí árin 1926,  86,5 mm og 1921, 81,6 mm. Á Akurureyri er úrkoman 68 mm en 62 mm á Hallormsstað en meiri á Egilsstöðum., 83 mm, sem sagt meiri en í Reykjavík!

Blessuð sólin, sem elskar allt, hefur skinið í Reykjavík í svo mikið sem í 51 stund sem er minna en nokkru sinni fyrir utan 29 stundir í júlí 1926 og 32 stundir 1989. Engar upplýsingar er að hafa um sólskinsstundir á Akureyri eða annars staðar.

Þennan dag árið 1986 mældist mesti kuldi sem mælst hefur í byggð á Íslandi í júlí, -4,1  stig í Möðrudal.

Þetta gæti sem sagt verið verra!  

Fylgiskjalið er á sínum stað með Reykajvik og landið á blaði 1 en Akureyri á blaði 2.

Viðbót 29.7. Meðalhitinn á Akureyri er nú kominn í slétt 13 stig. Enginn almanaksmánuður hefur náð jafn hátt síðan í júí 1955. Á Torfum í Eyjafirði er meðalhitinn 13,1 stig. Því miður er að kólna og ekki víst að htinn verði í þessum tölum við mánaðarlok.  Í dag var sól á suðurlandi og fór hitinn víða yfir 20 stig, mest 22,6 á Sámsstöðum í Fljótshlíð.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mesti hiti á landinu í júlí

Þennan dag, 17. júlí, árið 1946 mældist hámarkshitinn á Hallormsstað 30,0 stig. Það er mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í júlí og viðurkenndur hefur verið.

Það er reyndar viss spurning um áreiðanleika þessarar mælingar á Hallormsstað. Hún var gerð í veggskýli en ekki sérstæðu hitamælaskýli eins og nú tíðkast en kl. 15 var hitinn 27,0 stig. Þrjátíu stiga hiti er ansi mikill hiti á Íslandi og hefur fyrir utan þessa mælingu aðeins fyrr og síðar mælst í júní 1939 á tveimur veðurathugunarstöðvum. Þá var methiti eða nálægt því víða um land eins og eiginlega liggur í augum uppi eða öllu heldur liggur í loftinu að hljóti að vera þegar einhvers staðar mælist 30 stiga hiti. En methiti mældist hvergi 1946 nema á Hallormsstað.

Óvenjulega hlýtt loft var þó yfir landinu, ekki síst fyrir austan og þar var glaðasólskin. Daginn áður var reyndar sett dagshitamet á landinu, 23,6 stig á Teigarhorni, sem stendur enn (reyndar lægsti landshámarkshiti fyrir nokkurn dag í júlí) og þann 18. varð hitinn 24,5 stig við Mývatn.

Þrjátíu stiga Hitinn á Hallormsstað stendur hvað sem öllu líður sem hitamet á landinu í júlí.

Hvergi annars staðar fór hiti þó í 26 stig þessa daga eða hærra en víða mældist 20-25 stiga hiti. 

Og þennan dag árið 1950 mældist hitinn í Reykjavík 23,4 stig sem þá var hitamet þar á 20.öldinni  en það hefur verið slegið nokkrum sinnum.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smá veðurspjall

Það er ekki hægt annað en að taka undir sumt af því sem þarna er sagt í fréttinni sem vísað er til.

Umfjöllun fjölmiðla um veður er mjög bundin suðvesturhorninu. Að nokkru leyti er það skiljanlegt því þar býr meirihluti landsmanna og þar eru flestir fjlömiðlarnir. 

Verst er þó hið sífellda rell fréttamanna ríkissjónvarpsins við veðurfræðingana um það hvort sólin fari ekki að sýna sig og þá vitanlega í Reykjavík. Hvers vegna þurfa þeir sífellt að beina spurningum að þeim? Af hverju ekki að segja bara einfaldlega að  nú sé komið að veðurfréttum án frekari bollalegginga með fussi og sveii.

Það er líka vont að matið á góðu veðri hjá æði mörgum virðist eingöngu lúta að sólskini. Samasemmerki er hiklaust sett milli góðs sumarveðurs og sólskins. Það sé bara sama fyrirbrigðið þó sumir sólardagar geti verið afskaplega kaldir í rokna norðanskotum en margir auðvitað sæmilega hlýir eða þaðan af betri.     

Ekki er einu sinni reynt að setja sig inn í annað ástand veðurfarsins en sólfarsins.

Júni er þar mjög gott dæmi. Hann er á landsvísu annar af tveimur hlýjustu júnímánuðum sem mældir hafa verið. Sums staðar var hann sá hlýjasti og alls ekki bara fyrir norðan og austan heldur líka fyrir sunnan og  vestan eins og ég hef drepið á í öðrum bloggpistli. Í Reykjavík var hann sá fjórði hlýjasti. Og hann var einhver hægviðrasamasti júni sem mældur hefur verið, sá hægviðrasamasti á sjálfvirku veðurstöðvunum, sem byrjuðu 1997 en á þeim mönnuðu frá 1963. Þá var nú ekki rokið og hryssingurinn! 

Oftast er þetta þó einskis metið í þeirri umfjöllun fjölmiðla sem ég hef séð og reyndar líka meðal fasbókara. Mánuðurinn hefur verið léttvægur fundinn þrátt fyrir afburða hlýindi og hægviðri af því að sólarstundir voru í færra lagi á suðvesturlandi og úrkoman þar var nokkuð mikil. Eigi að síðu komu nokkrir mjög góðir sólardagar í höfuðborginni snemma mánaðarins. Á Akureyri var þessi júní hins vegar í fínu lagi sólarlega (og væntanlega víðar fyrir norðan og austan), vel yfir hinu heðfbundna meðallagi 1961-1990 og nákvæmlega í meðallagi þessarar aldar sem er talsvert hærra.

Og þá komum við að einu merkilegu atriði. Sumrin á þessari öld þangað til í fyrra (og þá bara að nokkru leyti) hafa ekki aðeins verið óvenjulega hlý miðað við fyrri tíð heldur yfirleitt einnig afar sólrík, bæði fyrir sunnan og norðan. Sumarið 2012 er t.d. það sólríkasta á Akureyri og fjórða sólríkasta í Reykjavík. Mann langar til að telja það sólríkasta sumar á landinu sem við höfum lifað! Mörg önnur sumur aldarinanr hafa verið fyrsta flokks. Ekki síst á Reykjavíkursvæðinu. Lítil ástæða er til að vorkenna höfuðboegarbúum vegna sumranna mörg síðustu ár. Þau hefðu varla getað betri verið þangað til í fyrra. En sunnanáttin er rigningarsæl syðra þegar hún er þaulsetin ekki síður en norðaustanáttin, sem er miklu kaldari, er ekkert grín á austurlandi! 

Það er blátt áfram óraunsætt að ætla að álíka sumargæði haldi áfram endalaust og ekki komi bakslag á einhverjum sviðum og einhvers staðar. Og menn finna  auðvitað fyrir bakslaginu, ekki síst þar sem það er harkalegast. Bakslagið núna er líka ekkert smá harkalegt eftir að kom fram í júlí. En það ætti samt ekki að undra neinn að ráði.

Að mínu viti er samt ekki hægt að kalla júní annað en góðan mánuð, svona út af fyrir sig, jafnvel þar sem minnst var sólskinið og mest úrkoman. Hitinn og hægviðrið skiptir lika máli. Það er reyndar auðvitað hitinn sem gerir sumrin að sumrum. Án hans væri ekkert sumar. Og kuldaástand og raunverulegt sumarleysi hefur ríkt á landinu í heild og í einstökum landshlutum oftar en maður vill muna í andartakinu. .  

En svo kom júlí.

Mér finnst eiginlega ekki hægt að tala um júní og það sem af er júlí í sömu andrá. 

Júlí hefur ekki ekki aðeins verið fremur svalur víða nema á austurlandi en reyndar skánað mikið síðustu dagana heldur hefur hann verið alveg óvenjulega úrkomusamur, næstum því alls staðar. Og er ekki nema von að fólk finni fyrir því. Úrkoman er mjög víða orðinn meiri en í meðallagi alls júlímánaðar þó mánuðurinn sé ekki hálfnaður og eða þá og jafnframt meiri en nokkurn tíma áður fyrri helming mánaðarins. Það á líka við um Fljótsdalshérað. Þar hefur ekki rignt síðustu daga að ráði en fyrsta vikan var mjög úrkomusöm. Á Egilsstöðum hefur í heild þessa 15 daga sýnist mér fallið meiri úrkoma en í Reykjavík og dagar með mælanlegri úrkomu eru jafn margir á báðum stöðum. 

Það er því alveg ástæða til að taka túlkanir ferðaþjónustufólks á veðurlagi með nokkurri varúð ekki síður en fjölmiðla.

Þegar allt kemir til alls get ég annað en talið júní í heild góðan mánuð alls staðar en bestur fyrir norðan og á Fljótsdalshéraði og reyndar lika sums staðar á vesturlandi. Júlí hefur hins vegar verið mjög votviðrasamur nær alls staðar og fremur svalur nema á austurlandi en er allur að hlýna og koma til síðustu daga. Í uppsiglingu virðist vera gamaldags sunnanátt með rigningu syðra en miklum hlýindum fyrir norðan og austan í stað mikilla rigninga víðast hvar um landið. Gamla góða Ísland!

En vitaskuld er þetta sólarleysi að verða þreytandi á suðurlandi. 

Ekki er samt enn útséð með sumarið. Það er ekki búið. Hlýjasti tíminn að jafnaði er meira að segja eftir.


 


mbl.is Umfjöllun út frá einum landshluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvenjulegar rigningar

Það er ekki ofsögum sagt af rigningunni það sem af er mánaðarins.

Ótrúlega víða er úrkoman það sem af er (11 dagar) orðin meiri en hún var að meðaltali alls júlímánaðar  viðmiðunartímabilið 1961-1990 eða tímabilið 1971-2000 (lítill munur er á meðaltali þessara tímabila fyrir stöðvar sem mælt hafa þau bæði) eða þá meðaltöl jafn lengi og athugað hefur verið á þeim stöðvum sem ekki eru til meðaltöl fyrir þessi ár. Mjög víða hefur þá náttúrlega fallið meiri úrkoma þessa daga en nokkru sinni áður hefur mælst fyrstu 11 daga mánaðarins. 

Staðir þar sem úrkoman er þegar komin yfir meðallag alls mánaðarins eru svo margir og víða að fljótlegra er að geta um nokkra staði þar sem þetta hefur ekki gerst.

Þar er Reykjavík efst á blaði en einnig stöðvar á suðurlandsundurlendi og á suðausturlandi og þeirra á meðal virðist vera Kvísker (þar eru nú sjálfvirkar mælingar), úrkomusamasta stöð landsins, og einnig Hólar í Dýrafirði. En þarna hefur samt verið talsverð úrkoma þó hún hafi ekki enn slegið út meðaltal alls mánaðarins. 

Sem sagt: Við erum einfaldlega að lifa mesta úrkomutímabil fyrsta þriðjungs júlímánaðar næstum því alls staðar sem gengið hefur yfir í a.m.k. síðustu hálf öld eða svo. 

Ekki er hægt að kalla slíkt neitt dæmigert ástand. Það flokkast undir það óvenjulega. 

Hitinn er hins vegar á engan hátt óvenjulegur í heild þessa daga. Fremur í hlýrra lagi allvíða, annars staðar í kringum meðallag og hvergi neinir kuldar, allra síst á annesjum og útkjálkum.

En auðvitað verður lítið úr sæmilegum hitanum fyrir fólk í þessari vætutíð.

Það er þó bót í máli hvað hitinn heldur sér og vonandi að þegar skiptir um farið á veðrinu verði aftur sumar og sæla.

Það gæti samt dregist í nokkur ár!! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leiðinlegur öfugsnúningur

Veðrið hefur sannarlega breytt um takt.

Það er komið allt annað veður en ríkti í júní sem alls staðar var hægviðrasamur og hlýr en úrkomusamur sums staðar.

Þetta veður núna er ekki hægt að líta á sem órofa samfellu frá veðrinu í júní.

Það er nokkrum þrepum neðar á sumarkvarðanum. 

Og einhver leiðinlegasti öfugsnúningur sem hugsast getur.

Fylgiskjalið fylgist með eins og fyrri daginn.  Blað 1 fyrir Reykjavík og landið, blað 2 fyrir Akureyri.


mbl.is „Þetta er hálfgert skítviðri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Merkilegur júnímánuður liðinn

Sá júní sem var að liða var sannarlega óvenjulegur. Hann er líklega einn af tveimur hlýjustu júnímánuðum yfir landið í heild og á suðvesturlandi var hann með þeim allra úrkomusömustu en mjög hægviðrasamur.

Meðalhitinn á landinu í byggð var í kringum 10 og hálft stig sem er mjög svipað og 1933 sem hingað til hefur verið talinn hlýjasti júní síðan mælingar hófust. Kannski er einhver smávægilegur hitamunur á þessum mánuðum sem kemur þá í ljós síðar. Meðalhitinn er þá meira en tvö og hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990, um tvö stig yfir hlýja meðallaginu 1931-1960 og um það bil hálft annað stig yfir meðallagi þessarar aldar. Aðeins fjórir eða fimm aðrir júnímánuðir hafa náð tíu stiga landsmeðalhita í þessari röð frá þeim hlýjustu, 1933, hugsanlega 1871, 1909, 1941, 1953 og 1941.

Í Reykjavík var meðalhitinn 11,2 og mun vera sá fjórði hlýjasti en hlýrri voru 2010, 1871 og 2003. Það er athyglisvert að 11 stiga júnímánuðir hafa þrír komið í Reykjavík síðustu tólf ár en þar á undan komu aðeins tveir á um 135 árum.

Meðalhitinn á Akureyri er 12,2 stig. En árið 1933 var hann 12,3 stig og hefur sá júní verið talinn sá hlýjasti þar. Hins vegar er það óþægilegt að einhver óvissa mun vera um þá tölu. 

Hlýjasti júnímánuður á veðurstöð hefur hingað til verið talinn 12,7 stig á Húsavík árið 1953. Sú tala er þó álitin grunsamleg. En á Torfum í Eyjafjarðardal mældist meðalhitinn í okkar júní líka 12,7 stig og má þá kannski hefja þá tölu upp í þann virðingarsess að vera talinn hlýjasti júní á íslenskri veðurstöð. 

Meðalhitinn fór yfir tólf stig á tveimur öðrum veðurstöðvum, 12,2 í Ásbyrgi og 12,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Tólf stig júnímánuðir á veðurstöðvum eru auðvitað nauðasjaldgæfir, aðeins á Akureyri 1933, Húsavík 1953, sem áður segir, og svo 12,0 á Kirkjubæjarklaustri 1941.  

Okkar mánuður setti met að meðalhita júní víða um land. Líka á suður og vesturlandi þrátt fyrir úrkomuna. Þess verður þó að gæta að mannaðar stöðvar hafa víða lagst af og sjálfvirkar komið í staðinn og sumar þeirra eru ekki alveg á nákvæmlega sama blettinum og gömlu hitamælaskýlin voru. Samanburður er því ekki alltaf alveg einfaldur. En við spáum hér ekkert í þetta. Í staðinn verða nefnd nokkur spektakúlar met á veðurstöðvum er nokkuð lengi hafa athugað sem komið hafa í þessum mánuði. Innan sviga er gamla metið og hvenær athuganir hófust fyrir júnímánuð á viðkomandi stöð. 

Fyrstan ber að telja Stykkishólm þar sem júní hefur verið athugaður síðan 1846, 10,9 stig (10,8 2010). Þetta er mannaða stöðin.

Grímsey, sem hefur athugað frá 1874, 9,7 stig ( 8,6, 1953 og 1909). Ekkert smáræðis hlýindastökk á íshafseyjunni!

Hæll/Árnes 11,6 (11,5 2010; 1880).

Hvanneyri 11,8 (11,4 2010; 1924). Þetta er mesti meðalhiti sem mælst hefur í júní á veðurstöð á öllu suður-og vesturlandi vestan við Mýrdalsjökul og reyndar alveg norður og austur um til Möðruvalla.

Grímsstaðir 11,1 (10,8 1953; 1907).  Mestu hlýindin núna að tiltölu eru í héruðunum þarna í grennd.

Nautabú í Skagafirði 11,4 (10,7 2003; 1937).

Sámsstaðir í Fljótshlíð 11,5 (11,1 1933; 1928),

Hveravellir 8,8 (8,5 2010; 1963).    

Á mörgum stöðvum, þar sem ekki voru sett mánaðarmet, er mánuðurinn samt mjög nærri metinu. 

Úrkoman í Reykjavík var 116,9 mm. Það er er næst mesta úrkoma sem þar hefur mælst í júní og sú mesta frá því Veðurstofan var stofnuð 1920. Úrkoman var 129,0 mm árið 1887. Aðeins þessa tvo júnímánuði hefur hefur úrkoman mælst meiri en 100 mm. 

Úrkoman sem ég hef frétt af var tiltölulega einna mest einmitt í Reykjavík. Kemur þar vel á vonda! Vinir mínir á fasbók hafa sumir farið hamförum úrkomunnar vegna! Úrkoman var þó tiltölulega meiri á Grímsstöðum en í Reykjavík (en miklu minni í raunverulegu magni), merkilegt nokk, og í Borgarfirði og Dölunum. Hvergi nema í Reykjavík hefur úrkoman, svo ég viti, þó verið með því allra mesta sem mælst hefur á stöðvum sem lengi hafa mælt. Og það var fremur lítil úrkoma víða fyrir norðan og austan og á Vestfjörðum. Og í Vestmannaeyjum!

Ekki var sólinni fyrir að fara í höfuðstaðnum. Hún skein aðeins í 115,4 stundir sem er um 50 stundum minna en meðallagið og lítið eitt minna en í júní í fyrra. Minni sól var 1995, 1988, 1986,1969, 1925 og síðast en ekki síst 1914 þegar sólinni þóknaðist að láta sjá sig í 61 stund. Fáeinir góðir sólardagar komu þó fyrstu vikuna í júní núna.

Hvergi mældist frost í byggð í þessum mánuði.  

Hér hefur verið drepið á fáeinar veðurfarslegar staðreyndir um þennan merkilega mánuð. Þeim verður ekki haggað hvernig sem menn meta þennan mánuð huglægt að öðru leyti. Frekara uppgjör er að finna á vef Veðurstofunnar. Og þar sést að þessi illræmdi júní að sumra mati var alveg einstaklega hægvirðasamur! Þó sums staðar hafi verið rigning var þó fráleitt "rok og rigning"!

Það eru alltaf merkileg tíðindi veðurfarslega þegar einhver mánuður mælist sá hlýjasti eða næst hlýjasti á landinu í heild og allvíða sá hlýjasti sem mælst hefur á einstökum stöðvum og annars staðar nærri því.

Og það skyldi þó ekki vera að norðlendingar fái sitt besta sumar eins og gerðist í kjölfar júní 1933!

Þá mega sunnlendingar víst biðja fyrir sér!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband