Sólskin á Íslandi

Sólskinsmælingar hófust á Íslandi á Vífilsstöðum síðast í janúar 1911. Veðurstofan tók til starfa 1920 og tók upp sólskinsmælingar árið 1923. Eyður eru í sólskinsmælingunum árin 1920-1922 en frá 1923 eru þær alveg samfelldar. Eyður eru líka á árunum 1912-1913 á Vífilsstöðum.

Á Akureyri byrjuðu sólskinsmælingar í ágúst 1925 en voru mjög stopular til 1930 og eftir það eru líka gloppur í þær og miklar eyður kringum miðja öldina og aftur 1988-1989.

Til eru mælingar frá Hólum í Hornafirði frá því desember 1957 til ársloka 2011 og vantar ekkert í þær.

Mælingar voru á Hallormsstað frá því í febrúar 1953 fram í janúar 1990 og vantar aðeins tvo mánuði.

Á Reykhólum var mælt sólskin frá júli 1957 en féllu að mestu niður í árslok 1987. Nokkra mánuði vantar inn í  hér og hvar.

Á Melrakkasléttu var lengi mælt. Fyrst á Höskuldsstöðum nokkrum kílómetrum fyrir norðan Raufarhöfn frá því snemma í júní 1957 til ársloka 1988 en frá janúar 1989 til ársloka 1999 á Sigurðarstöðum á norðurströnd sléttunar, nokkru austan við Rauðanúp. Aðeins þrjá mánuði vantar í þessar mælingar.

Á Sámsstöðum í Fljótshlíð hefur sól verið mæld frá því  í ágúst 1962 en nokkuð gloppótt síðustu árin.

Á Hveravöllum á  Kili var mælt frá júlí 1965 til apríl 2004 en nóvember 2003 vantar.

Á Reykjum í Ölfusi, skammt austan við Hveragerði, var sólskin  mælt alveg órofið frá því í ágúst 1972 til ársloka árið 2000.

Byrjað var að mæla sólskin á Haganesi við suðvesturströnd Mývatns í janúar 1990.

Á Leirubakka í Landssveit var mælt nokkra mánuði árið 1991.

Því er ekki að neita að afturför hefur orðið síðustu ár hvað sólskinsmælingar varðar á landinu. Nú er aðeins mælt í Reykjavík, Akureyri, Hólum og Haganesi. Meiri breytinga er að vænta í framtíðinni því sú aðferð sem notuð hefur verið við sólskinsmælingar frá upphafi mun verða lögð af.

Það er nokkuð misjafnt eftir staðháttum hvað fjöll og jafnvel byggingar skyggja á sólskinið. Menn verða að hafa það hugfast þegar töflurnar eru skoðaðar.

Samkvæmt mælingum er Reykjavik sólríkasti staðurinn á landinu þar sem sólskin hefur verið mælt. Næstir koma Sámsstaðir og Hólar í Hornafirði. Nokkru sólríkara er á Hallormsstað en á Akureyri en við Mývatn virðist vera sólríkara en á báðum þeim stöðum.

Hvað árstíðir varðar mælist mest sólskin í Reykjavík að sumri til, júní til september, en næst mest á Haganesi, miðað við þann tíma sem mælt hefur verið á báðum þessum stöðvum og á Akureyri. Á vorin, apríl til maí, sýnist aftur á móti vera mest sólskin á Hveravöllum en Reykjavík kemur næst. Á haustin, október til nóvember, og veturnar, desember til mars, er sólríkast á Hólum í Hornafirði og þar næst á Sámsstöðum.

Minnst mælist sólskin yfir árið er á Melrakkasléttu og einnig á öllum árstímum, nema á haustin, þá er minnst sól á Reykhólum. 

Ekki ætla ég að hafa um þetta fleiri orð. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað fylgiskjalið en á því er sýnt sólskinsmælingar fyrir hverja mælingarstöð frá upphafi. Leirubakka er þó sleppt.

Reykjavík er á blaði 1, Akureyri blaði 2, Reykhólar 3, Melrakkaslétta 4, Hallormsstaður 5, Hólar 6, Sámsstaðir 7, Reykir í Ölfusi 8, Hveravellir 9, Haganes. 10. Á blaði 11 er hægt að sjá meðaltal þessara stöðva 1961-1990 fyrir þær flestar en nokkrar hafa mælt styttri tíma og meðtölin fara þá eftir því. Á blaði 12 er fjöldi daga í Reykjavik og á Akureyri með tíu klukkustunda sólskini eða meira en á blaði 13 eru tíu sólsíkrustu sumur í Reykjvík, sundurliðað yrir hvern sumarmánuð    

Mánuðir með mest og minnst sólskin eru auðkenndir nema fyrir Reykjavík þar sem sértöflur eru fyrir 10 sólríkustu og 10 sólarminnstu mánuði. Vona nú að þær séu réttar! 

Sólskinsmælingar allra stöðva eftir samfelldum mánuðum og árum hafa aldrei birst áður opinberlega. 

Heimildir: Veðráttan til mars 2006, Veðurfarsyfirlit fyrir Reykjavík og Akureyri eftir þann tíma, meðaltalstöflur á Vefsíðu Veðurstofunnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband