Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Þögn

Styrmir Gunnarsson er með pistil í Morgunblaðinu á laugardaginn. En mikið undrar mig að þessi maður sem er sískrifandi og fengið hefur það orð á sig að vera sérstakur málsvara geðsjúkra skuli ekki hafa vikið opinberlega einu orði að því atviki þegar lögreglan drap geðveikan mann í desember. Ekki eitt orð fremur en atvikið hafi ekki  átt sér stað.

Hið sama má reyndar segja um næstum því alla þá sem leggja það í vana sinn að láta álit sitt í ljós í fjölmiðlum eða fara með völd af einhverju tagi, ráðherrar, alþingismenn, heilbrigðisstarfsmenn og framámenn af öllu tagi. Innanríkisráðherra hrósaði þó störfum Lögreglunnar fyrir vandaða vinnu. Og í leiðara Fréttablaðsins var lokið lofsyrði á Lögregluna fyrir yfirvegun og gott starf. 

Það dó maður.  

Ýmislegt bendir þó þvert á móti til að aðgerðir Lögreglunnar hafi verið ómarkvissar og flausturslegar og ekki tekið mið af aðstæðum. Það er kannski einna sorglegast og alvarlegast við þetta atvik að maðurinn sem var drepinn, sumir segja reyndar myrtur, var alvarlega geðveikur fíkill sem hefði átt að reyna að nálgast með þeim faglega hætti er við á í slíkum tilfellum. En allra sorglegast var  að lesa furðu víða á netinu að það hafi bara verið alveg sjálfsagt að skjóta manninn einmitt vegna þess hvernig hann var. Um það atriði að minnsta kosti hefði Styrmir Gunnarsson og margir fleiri nú alveg mátt tjá sig í ljósi þess að helstu valdamenn hafa um áramótin kvartað um ógætilega umræðu á netmiðlum.

Menn eru sammála um það að þetta atvik marki tímamót í sögu löggæslu í landinu og þá jafnframt í   sögu þjóðarinnar í vissum skilningi. Þetta hlýtur því að hafa verið einhver afdrifaríkasti atburður  nýliðins árs.  Samt er alveg augljóst að menn forðast að ræða hann. 

Atburðurinn mun vera til rannsóknar hjá Ríkissaksóknara. Sama yfirvaldi og tekið hefur á móti tugum  kæra frá borgurunum vegna starfshátta Lögreglunnar án þess að gefa út eina einustu ákæru!

Maðurinn hefur nú verið grafinn í kyrrþey og hefur ekki fengið um sig nein eftirmæli svo ég viti.  

Og þó hann hafi verið geðsjúklingur og öryrki til margra áratuga var hann fyrst og fremst  manneskja sem þrátt fyrir veikindin átti sína tilfinninga og samskiptasögu eins og annað fólk, alls kyns óteljandi blæbrigði skynjana, hugsana, minninga og tilfinninga sem fylgja því að vera manneskja.

Sagt hefur verið að heill alheimur farist þegar einhver deyr.

Það gerðist líka þegar ríkisvaldið drap þennan mann. 


 

Sigurður Þór Guðjónsson
Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Þór Guðjónsson


Hér er skrifað sjálfum mér til dálítillar skemmtunar. Þetta er líka síða áhugamanns um veðurfar. Veðurefnið er í flokkunum Íslensk veðurmet og Veðurfar, að ógleymdum annála-bálkinum. Vek sérstaka athygli á EFNISYFIRLITI UM VEÐUR í flokkunum hér fyrir neðan, MÁNAÐARVÖTKUN VEÐURSVEÐUR UM ALLAN HEIM

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband