Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Köldustu nóvembermánuðir

Líta verður fyrst á nokkra ískalda nóvembermánuði fyrir 1866 sem þó er okkar helsta viðmuðunarár. Meðalhiti veðurstöðvanna níu, sem hér er miðað við í öllum þessum pistlum, var 0,8 stig árin 1961-1990.         

1824 Þennan mánuð var eingöngu athugað á Nesi á Seltjarnarnesi og aðeins ein hitamæling gerð og var það að morgni. Það er samt alveg ljóst að þetta er alkaldasti nóvember sem mælingar ná yfir á Íslandi. Meðalhitinn er talinn vera hvorki meira né minna en -5,6 stig. Þann 6. var hitinn um frostmark og hláka var dagana 20. og 21. og var hitinn 5,0 stig fyrri daginn. Annars voru stöðug frost, mest -12,5 stig þ. 19. thorv_thoroddsen_1123523.jpgOftast var 5-7 stiga frost en yfir tíu stig þ. 15. og 17.-19. Frostin hófust reyndar 23. október og hugsanlega var október þetta ár kaldasti október sem mælst hefur í Reykjavík en „frá septemberlokum til nýárs var einlæg og óslitin kuldaveðrátta með miklum snjóþunga", segir í Árbók Reykjavíkur. Þorvaldur Thoroddsen skrifar í Árferði á Íslandi í þúsund ár að lagt hafi firði og flóa vestra. Ætla má að um allt land hafi verið mikill kuldi. Hvar stæðum við annars með eldri tíðarfarslýsingar ef ekki væri Þorvaldur Thoroddsen?  Myndinni hér af honum er nappað af vef Veðurstofunnar en birtist fyrst í bók Boga Th Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf, sem kom út 1923 í Kaupmannahöfn.

Árin 1779 til 1785 gerði Rasmus Lievog veðurathuganir á Bessastöðum og var nóvember 1781 óskaplega kaldur en þó um það bil hálfu stigi mildari en 1824 að því er menn ætla eftir  nokkuð ófullkomnum mælingum. Það var væg hláka fyrstu tvo dagana en síðan stöðug frost og hörkufrost dagana 21. til 27., oftast yfir tíu stig og allt niður í fimmtán. Síðustu tvo daga mánaðarins hlýnaði loks og var hitinn þá tvö til fimm stig. Að kvöldi hins 14. fórust tvö skip við landið og með þeim níu manns.

Samkvæmt mælingum sem gerðar voru á Akureyri var nóvember 1807 í álíka kuldaflokki þar og nóvember 1910, 1973 og 1996.  

1841 Aðeins var athugað með mælitækjum í Reykjavík. Þar er þetta næst kaldasti  nóvember sem mælst hefur, meðalhitinn -3,3 stig. Snjóasamt og frosthart var víða í þessum mánuði. Milt var þó fyrstu vikuna en síðan látlaus frost. Samkvæmt Brandsannál var samt stillt veður í Húnavatnssýslum 3.-13. en eftir það gerði landnyrðings hörkukafla. Hlánaði þá ekki í Reykjavík til mánaðarloka. Og fór frostið þar í tíu stig eða meira alla dagana frá 14. til 19. Síðan var nokkru mildara þó kalt væri. 

1861 Árbók Reykjavíkur segir að í hálfan mánuð  hafi gert harðan frostakafla, svo að ganga mátti á ís yfir Skerjafjörð, milli Skildinganess og Bessastaðaness. Þetta var í síðasta þriðjungi mánaðarins. Fyrstu dagana var frostlaust um hádaginn í Stykkishólmi en næturfrost. Eftir fyrstu vikuna voru þar frost nema hvað smá hláka var 16.til 18. Undir mánaðarlok voru hörkufrost allt niður í 18 stig þ. 26. og -15,5 daginn áður. Meðalhitinn var -2,8 stig sem gerir mánuðinn þann kaldasta í Stykkishólmi síðan athuganir þar hófust í nóvember 1845.

1837 Þetta var frostamánuður mikill í Reykjavík, en aðeins þar var athugað á landinu, en dálitlar hlákur komu dagana 6. og 7. og 13. til 16. og einnig hlánaði brot úr degi þ. 25. Hiti fór í 4 stig þann 14. en frostið í 12 stig þann 21. Af Árferði á Íslandi má ráða að hafi verið snjólétt á suðurlandi en Brandsannáll talar um kaföld og hríðarbylji í Húnavatnssýslum. 

Eins og áður segir er í þessum pistlum reynt að meta meðalhita landsins frá 1866. En hér er til viðmiðunar, en þó helst til skemmtunar, tillaga að röð allra köldustu nóvembermánaða alveg frá aldamótunum 1800: 1824, 1841, 1861, 1837, 1807, 1821, 1869, 1816, 1973, 1880, 1887, 1825, 1836, 1838, 1866, 1996. Eftir allra köldustu mánuðina fer þessi röð líklega að verða ónákvæm og vafasöm miðað við kalda síðari mánuði þegar veðurstöðvar voru orðnar fleiri en þetta er hér sett fram til að árétta hvað nóvemberkuldar voru algengir frameftir nítjándu öldinni.          

1869 (-2,9) Þetta er þá kaldasti nóvember sem mælst hefur frá 1866 ef einungis er miðað við Reykjavík og Stykkishólm saman, en þetta voru þá einu stöðvarnar sem mældu, og reynt að láta þessa staði vera fulltrúa fyrir allt landið. Hláka var fyrstu þrjá dagana en síðan var kuldakafli alveg til hins 19. að undanskildum hinum 12. og 15. Dagana 20. og 21. var líka dálítil hláka með rigningu en síðan var mjög kalt síðustu daga mánaðarins og að morgni þess 28. var 11 stiga frost í Stykkishólmi. Hlýjast var þar 4,8 stig þ. 12. Seinast í mánuðinum var hafís kominn að Melrakkasléttu. Af Árbók Reykjavíkur virðist mega ráða að mikill snjór hafi verið í Reykjavík og hann var einnig mikill á suðurlandi að sögn Þjóðólfs 9. desember. Blaðið skýrir frá því 26. janúar 1870 að í nóvember hafi mestur hiti í bænum orðið um 8 stig þ. 2. en mest frost um 14 stig þ. 28.

Vísindatímaritið Nature hóf göngu sína þann fjórða í Lundúnum en í Bandaríkjunum fóru í þessum mánuði að birtast daglegar fréttatilkynningar um veður.

1973_11_500.png1973 (-2,4) Mánuðurinn er sá kaldasti sem komið hefur síðan 1869 en var líklega víða svipaður honum að hitastigi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, Vatnsskarðshólum í Dyrhólahreppi og Reykjanesvita var meðalhitinn 0,0 stig en -8,3 stig á Grímsstöðum, -8,2  á Brú á Jökuldal og -8,0 á Hveravöllum. Á Vöglum í Fnjóskadal var meðalhitinn -7,8 stig og er það minnsti meðalhiti í nóvember á laglendi á Íslandi. Allra kaldast var þó í Sandbúðum á Sprengisandi, -10,0 stig. Norðanátt var vitskuld ríkjandi. Á norðausturlandi var sums staðar gríðarleg úrkoma og það var líka úrkomusamt á suðurlandsundirlendi en úrkoma í minna lagi á austfjörðum, suðausturlandi, við Faxaflóa og víðar á vestanverðu landinu. Í Grímsey hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember 182,2 mm. Snjólag á landinu var 68%, það fimmta mesta. Í Reykjavík, þar sem alauðir dagar voru sex, var jörð þó aldrei talin alhvít og sömu sögu er að segja um einstaka staði á suðurlandsundirlendi og við Faxaflóa. Í byggðum á norðanverðu landinu voru alhvítir dagar 20-26. Einna mestur snjór var á norðvestanverðum Vestfjörðum, sunnan Djúps, og í Fljótum. Hláka var víða fyrstu þrjá daga mánaðarins og aftur dagana 6. til 9. en annars voru nær stöðug frost þó örstuttir hlákublotar kæmu stundum inn á milli. Hiti komst aðeins einu sinni yfir tíu stig á landinu, 10,6  á Kambanesi þ. 7. Miklir kuldar voru dagana 13. til 19. og  eftir  tveggja daga smáhláku eftir það kom annað kuldakast og enn þá harðara. Stóð það til mánaðarloka fyrir norðan og austan en síðustu fjórir dagarnir voru mildari á suðvesturhorninu. 1973_11_850t_an.pngÍ fyrra kastinu fór frostið við Mývatn þ. 17. í  -26,0 stig í bjartviðri og 24 stig á Grímsstöðum. Sólarhringsmeðaltalið á Grímsstöðum hefur verið vel yfir 20 stiga frost. En þennan dag var meðaltal sólarhringsins -15,5 stig á Akureyri og hefur ekki mælst lægra nokkurn nóvemberdag, a.m.k. eftir 1948. Á hádegi var frostið þar 17 stig í glaðasólskini. Dagurinn á undan og dagarnir 25. til 27. settu einnig sólarhringsmet í kulda á Akureyri. Mesta frost, -27,1 stig, sem mælst hefur á mannaðri veðurstöð í nóvember, varð í seinna kuldakastinu, á Staðarhóli, skráð að  morgni þess 24. en hefur i raun komið kvöldið áður því kl. 21 var frostið þar -24,8 stig en níu stig kl. 9 næsta morgun. Á Grímsstöðum fór frostið i -26,5 stig. Mun sá 23. vera kaldasti nóvemberdagur á landinu eftir a.m.k. 1948 og líklega miklu lengur. Nokkrir aðrir dagar teljast með allra köldustu nóvemberdögum sem komið hafa. Það er samt merkilegt nokk að þessi kaldi mánuður setti aðeins eitt kuldamet í Reykjavík fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita, þ. 25. þegar meðalhitinn var -9,5 stig. Auk stöðva á norðausturlandi komu mánaðarkuldamet lágmarkshita á Hveravöllum (-22,1°), sums staðar á Vestfjörðum, Skagafirði og Kirkjubæjarklaustri. Á Klaustri mældist líka mesta snjódýpt þar í nóvember, 56 cm þ. 20. Hæð var oftast í mánuði þessum yfir norðaustur Grænlandi en lágþrýystisvæði gróf um sig yfir norðanverðum Norðurlöndum. Loftið yfir landinu var oft komið frá heimskautasvæðum Kanada norðvestan við Grænland (sjá kort af 500 hPa fletinum). Þykktin var 70-100 metra undir meðallagi en þó líklega ekki eins lág sem í kalda nóvember 1996. Kuldinn í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m var aftur á móti einstaklega mikill við landið eins og kortið sýnir. Kalt var einnig yfir Evrópu en hlýtt vestan við Grænland og á hafinu suðvestur af Íslandi. Á eftir þessum kuldalega nóvember kom svo þriðji kaldasti desember.  Fyrir neðan sést meðalhiti stöðva í þessum kalda nóvember.

nov_1973.gif

1880 (-2,3) Veturinn (des-mars) 1880-1881 er sá kaldasti sem mælst hefur á Íslandi. Auk þess eru desember og mars þeir köldustu sem mælst hafa, janúar sá næst kaldasti og febrúar sá kaldasti eftir 1866. Nóvember þetta ár er síðan sá þriðji kaldasti eftir 1865 og kom á eftir sjötta kaldasta október. Aldrei hefur mælst kaldari nóvember í Grímsey, -3,8 stig. Fyrstu dagana var hláka sunnanlands en síðan látlausar norðlægar áttir til 21. en ekki var hvasst. 1880_11_slp_1123520.pngOft snjóaði. Í Reykjavík fór að snjóa aðfaranótt þess 15. Mestu kuldarnir voru þ. 13. og 14. Síðari daginn fór frostið í -13,5 stig í Reykjavík. En dagana 13.-15 mældist þar meira frost en þá daga hefur nokkru sinni mælst þar í nóvember. Mest frost á landinu varð -24,0 stig á í Saurbæ í Eyjafjarðardal og -20,5 stig á Valþjófsstað i Fljótsdal en ekki var byrjað að mæla á Hólsfjöllum eða Möðrudal. Eftir þann 21. kom viku kafli með hlýrra veðri en kólnaði svo aftur tvo síðustu daga. Mestur hiti á landinu varð 8,6 stig á Eyrarbakka, líklega fyrstu dagana í mánuðinum. Úrkoma var mjög lítil í Stykkishólmi, í minna lagi í Vestmannaeyjum en yfir meðallagi á Teigarhorni. Það var alla jafna hæð yfir Grænlandi en lægðasvæði ekki aðeins við Noreg heldur einnig suðvestur af landinu. Kortið sýnir meðallag loftþrýsting við sjávarmál paskölum. Ef slegin eru á þessu korti af síðustu tvö núllin kemur hann út í hektópaskölum eða millibörum eins og við erum vönust. Jónas Jónassen lýsti svo veðurfarinu þennan mánuð í Þjóðólfi 11. desember:

Veðurátta hefir verið þennan mánuð fremur óstöðug og um tíma (frá 13.-18.) mjög köld; 2 fyrstu dagana var veður bjart, austankaldi; 3. hvass á sunnan með mikilli rigningu, en lygn að kveldi og sama veður 4. en 5. var logn að morgni og dimmviðri en síðara hluta dags hvass á landnorðan með krapaslettingi og urðu öll fjöll héðan að sjá alhvít; 6. hægur á austan með nokkurri snjókomu, að kveldi rokinn á norðan; 7. hvass á norðan; 8. blindbylur og hvass á landnorðan að morgni, að kveldi genginn í landnorður með rigningu og síðan á vestan; 9. vestanútnorðan með brimhroða, en hægur allan daginn;10. og 11. hæg austangola með rigningu; 12. aptur hvass á norðan með blindbyl; 13. hvass á norðan; 14.-20. hægur við austanátt, optast bjart veður; 21. hvass mjög á landnorðan með rigningu, að kveldi genginn í útsuður, hægur; 22.-27. hæg austanátt, opt logn; 28. -29. nokkuð hvass á  norðan (með byl til sveita); 30. logn og fagurt veður.

1887_11_slp_1123519.png1887 (-2,3) Þetta er kaldasti nóvember sem mælst hefur í Hreppunum, -4,7 stig á Stóranúpi og mældist þar frost alla dagana. Í Vestmannaeyjum hefur aðeins orðið kaldara 1919 og á Teigarhorni 1973. Frostið fór í -20,2 stig í Möðrudal en hlýjast varð 9,5 stig í stuttri hláku þann 23. á Teigarhorni en hitatalan var skráð á næsta dag. Norðan eða norðaustanátt var flesta daga, en stundum  vestlæg átt, og oft var bjart á suðurlandi vel fram eftir mánuðinum en síðan var meira skýjað. Úrkoma var afar lítil og hefur sjaldan verið minni í nóvember. Í Stykkishólmi var nokkur úrkoma 13.-26. en aðra daga alveg þurrt. Er þetta næst þurrasti nóvember á Teigarhorni, aðeins 9,3 mm sem féllu á átta dögum. Í Reykjavík var hæglætis veður allan fyrri helming mánaðarins með frosti um nætur nema hvað hann rauk upp þann annan með norðan skafrenningi en snjór var fyrir og þann 13. hvessti aftur um stund. Kaldast í bænum varð -10 stig þ. 18. Hæð var yfir Grænlandi þennan mánuð og hæðaarhryggur frá henni yfir Ísland en í Barentshafi var lægðasvæði og lægðardrag þaðan alveg suður um Bretlandseyjar. Eftir þessum mánuði kom fimmti kaldasti desember. Kortið sýnir meðallag loftþrýstings í paskölum. Jónassen lýsti tíðarfarinu í höfuðstaðnum í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:     

[Fyrsti snjór haustsins, ökladjúpur, hafði fallið að morgni 31. okt.] ... Í dag 1. nóv. hægur austanvari, rjett logn, bjartur fyrir hádegi. (2. nóv.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn allan daginn, en seint um kveldið rauk hann (kl. 10 -11) allt í einu á norðan með skafrenningi og var hvass á norðan daginn eptir (3.). Síðan hefir optast verið logn eða hægur austankaldi og bjart veður optast nær. Nokkurt frost var alla vikuna, þar til hann að kveldi h. 6. gekk til linunar og ýrði regn úr lopti, svo mest allur sá snjór, sem var á jörðu, tók af, svo nú er hjer aptur auð jörð. Í dag 8. blæja logn og fegursta veður; loptþyngdarmælir stendur mjög hátt og hreyfir sig ekki í dag. (9. nóv.) - Mestalla vikuna má heita að verið hafi logn dag og nótt þangað til um miðjan dag h. 13. að hann gekk til norðurs og var hvass úti fyrir; en eigi hjelzt það lengur en til kvelds sama dags (kl. 8-9) og var þá komið logn aptur. Daginn eptir (14.) var hjer hægur austankaldi og gekk síðari part dags til landsuðurs (Sa) og rigndi litið eitt. Í dag hæg austanátt með hægri rigningu. Sunnudagskveldið 13. þ. m. kl. 9,35 mínútur var hjer í bænum vart viö einn snöggan jaröskjálptakipp. Jörð er hjer nú hjer um bil al-auð. (16. nóv.). - Fyrsta dag viku þessarar var hjer hægur sunnankaldi, dimmar í lopti með rigningu við og við, og daginn eptir (17.) var hjer logn til kl. 2 e. m., er hann gekk til norðurs og varð bálhvass eptir kl. 4, og hjelzt sama veðrið næsta dag; á laugardaginn var komin austanátt hæg með ofanhríð og gerði blindbyl með kveldinu, síðan hvass á austan en bjartur; síðan (21.) logn og bezta veður allan daginn, þar til hann aðfaranótt h. 22. gekk til suðurs, dimmur með nokkurri rigningu í dag (22.), og er heldur að hvessa er á daginn líður, mjög dimmur í lopti. Loptþyngdamælir benti í gærkveldi seint, rjett um miðnætti, á bezta veður (30,5) og skyldu menn því hafa ætlað, að veðrið yrði hið bezta með morgninum og í dag (22.). Almenningur fór á sjó, en eins og opt er, gjörði hvassveður, dimmviðri með versta útliti, svo allir urðu að fara þegar í land; - enn ljósasti vottur þess að sjómenn mega með engu móti treysta loptþyngdarmælinum. (23. nóv.). - Umliðna viku hefir optast verið hæg norðanátt hjer, en hvass til djúpa, bjart veður, með talsverðu frosti. Enginn snjór hefir fallið, svo hjer er alauð jörð. Í dag 29. hægur að morgni á austan og dimmur i lopti ; hvesti er á daginn leið af landnorðri. (30.nóv.).

1866 (-2,0) Nóvember þessi var ekkert óskaplega kaldur í Stykkishólmi, -0,7 stig,  en í Reykjavík er hann talinn kaldastur allra nóvembermánaða eftir 1841, -2,9 stig. Mælingarnar voru þar ekki fyrsta flokks á þessum árum og mér finnst einkennilegt að mánuðurinn hafi verið meira en tveimur stigum kaldari en í Stykkishólmi. Er þetta fremur vandræðalegt. Í Stykkishólmi gerði frostið sig reyndar oft heimakomið en inn á milli voru dálitlar hlákur, mestar 20.-23. og 10.-14. og svo í mánaðarlok. Frost voru því aldrei stöðug og langvinn í þessum mánuði. Það gekk mikið á með útsynnings umhleypingum með éljagangi og blotum á víxl. Hlýjast varð í Stykkishólmi 8,0 stig þ. 21. en kaldast -12,3 stig þ. 15. Meðalhitinn á Siglufirði var kringum -3,1 stig og talinn svipaður á Akureyri. Þar var þó nóvember 1861 enn þá kaldari en 1866 svo munar heilli gráðu. Úrkoma var reyndar mæld á Akureyri í þessum nóvember 1866 og reyndist 63 mm. Í Reykjavík sáust mikil stjörnuhröp að kvöldi þ. 13. og skrifaði Páll Melsted um þau í Þjóðólf þann 27. Þá var frost nokkuð og föl á jörð en bjart. Stóðu loftsýnir þessar í norðaustri í nokkrar klukkustundir. Samkvæmt Þjóðólfi var hlýjasta vikan í bænum 23.-30. en sú kaldasta 14.-20. Mestur hiti í Reykjavík mældist um 3 stig þ. 28. segir blaðið, en mesta frost 11 stig þ. 15.   

1996_11_thick_an.png1996 (-2,0) Aðeins einn nóvember hefur orðið kaldari en þessi síðan 1865 í Reykjavík og það er einmitt vandræðamánuðurinn 1866. Tiltölulega kaldast var þó á Hólsfjöllum og í Möðrudal, sex stig undir meðallagi og var meðalhitinn -9,1 stig í Möðrudal. Telst það vera lægsta tala sem nokkur stöð í byggð hefur fengið á Íslandi sem meðalhita í nóvember. Mildast var tiltölulega á norðvestanverðu landinu. Þrátt fyrir kuldann var mánuðurinn ekki talinn óhagstæður af veðurathugamönnum. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík, 79 klst eða 40 stundir umfram meðallagið 1961-1990. Enn meira sólskin var þó á Hólum í Hornafirði, 81,3 klst., Reykjum í Ölfusi, 85 klst, og Sámsstöðum, 87,3 klst, og er það mesta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nóvember. Úrkoma var svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum. Fyrstu 9 dagana var hægviðri og mjög sólríkt á landinu en afar kalt, má segja að ekki hafi hlánað allan tímann í Reykjavík (hámark + 0,1°) og sá annar og þriðji settu þar dagshitamet fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita. Frostið fór í -24,3 stig þ. 4. á Grímsstöðum. Eftir þetta komu sex hlýir dagar og fór hitinn í 15,6 stig þann 14. á Seyðisfirði og 14,8 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hvasst var þennan dag og 12 vindstig í Litlu-Árvík. Kalt var á ný  seinni hluta mánaðarins og fór frostið í -26,9 stig þ. 24. í Möðrudal og -26,4 í Reykjahlíð við Mývatn. Á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga í Mývatni mældist frostið -30,4 stig þennan dag og -30,1 stig daginn áður. Lægri talan er lægsta tala sem hægt er að finna um lágmarkshita á landinu í nóvember. Þessi mánuður gerði það reyndar ekki endasleppt í kuldanum. Þegar sjálfvirkar stöðvar eru teknar með voru alls ein níu met yfir dagshitamet lágmarkshita sett á landinu, flest á Neslandatanga. Ekki hlánaði á mönnuðum stöðvum fjóra daga í röð, 20.-23. og má slíkt heita einsdæmi þegar enn er ekki nema nóvember. Veðurlag á Íslandi er mjög breytilegt og sjávarlegt og það er alveg furðulega sjaldgæft að ekki hláni neins staðar marga daga í röð. Slíkir dagar eru alltaf sárafáir. Snjólag landinu var 73%. Snjólétt var vestanlands en norðanlands og austan var sums staðar talsverður snjór og sömuleiðis syðst á landinu í mánaðarbyrjun. Eitthvert hið mesta Skeiðarárhlaup  kom dagana 5.-7. í kjölfar eldgoss í Vatnajökli og var sandurinn ófær í 22 daga. 

Þykktin yfir landinu og kringum það var niður úr öllu valdi eins og kortið sýnir, allt upp í hundrað metra undir meðallagi.  Mjög hlýtt að tiltölu var í A-Evrópu og norður og austur um allt Rússland í þessum mánuði. 

Clinton var endurkosinn forseti Bandaríkjanna þ. 5. Tvær fluvélar rákust á yfir Indlandi þ. 12. og fórust þar 349 í mesta árekstrarslysi flugvéla sem um getur.  

1919_11-850t_an.png1919 (-1,9) Í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur. Þar var þó hláka fyrstu vikuna en síðan oftast frost. Þann fyrsta fór hitinn í 8,1  stig í Eyjum sem var mesti hiti mánaðarins og hefur landshámark aðeins einu sinni verið lægra í nóvember og  var það árið 1910. Hægviðrasamt var á landinu þó kalt væri og iðulega lítið skýjað á suðurlandi. Norðanátt var ríkjandi. Af takmörkuðum mælingum að dæma má ætla að þetta sé einn af allra þurrustu nóvembermánuðum. (Litlu munaði að veðurathuganir á landinu legðust alveg af á þessu fyrsta  ári sjálfstæðisins). Alveg sérstaklega var þurrt fyrir norðan. Úrkoma á Möðruvöllum í Hörgárdal var aðeins 7 mm. Þar mældist einnig mesta frostið í mánuðinum, -17,7 stig þ. 21. Sólarstundir á Vífilsstöðum voru 49. Aftaka norðanveður var í Reykjavík þ. 24. og fórst einn maður af völdum þess. Þá var stórhríð fyrir norðan og austan. Á Ísafirði urðu skemmdir á bryggju. Ekki aðeins var kalt hér á landi þennan mánuð heldur einnig í Evrópu og er þetta t.d. kaldasti nóvember sem mælst hefur í Danmörku. Hæðasvæði var yfir Rússlandi sem beindi köldu lofti til Evrópu. Einnig var hæð yfir Grænlandi sem náði stundum suður um Ísland. Kortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 metra hæð.

Þann sjötta birtist frétt í breska dagblaðinu The Times um niðurstöður mælinga á sólmyrkva sem staðfestu afstæðiskenningu Einsteins. Varð hann heimsfrægur eftir þetta en hafði þangað til ekki verið almenningi kunnur. 

1969_11_850.png1969 (-1,8) Þetta er snjóþyngsti nóvember sem er á skrá. Snjólag var 80% á landinu. Aðeins einu sinni  hefur hámarkshiti mælst lægri í Reykjavík í nóvember, 5,6 stig en lægstur var hann 5,5, stig árið 1878. Snjólagið í borginni var 60% og alautt í aðeins einn dag en alhvítt í 12 daga. Sérlega hart var á suðurlandi að tiltölu og er þetta kaldasti nóvember á Fagurhólsmýri og sá næst kaldasti í Hreppunum. Á Þingvöllum, Jaðri í Hrunamannahreppi og reyndar einnig í Vík í Mýrdal var alhvítt allan mánuðinn. Í kalda nóvember 1973 var miklu snjóléttara á þessum slóðum. Mest snjódýpt mældist 84 cm þ. 28 á Sandhaugum í Bárðardal. Úrkoma var samt svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm þurrustu. Var úrkoman minni en helmingur af meðalúrkomu á landinu en þó meiri en það á norðaustanverðu landinu og tiltölulega mest á Húsavík. Fyrstu daga mánaðarins var oftast norðanátt með frosti og éljum nyrðra. Norðaustanóveður gekk yfir dagana 9. og 10. og urðu víða miklar skemmdir og einn maður varð úti. Mikil úrkoma var þessa daga frá Vestfjörðum til Austfjarða en bjart á suðurlandi. Eftir óveðrið kólnaði mjög og voru dagarnir 12.-15. einhverjir þeir köldustu sem komið hafa eftir árstíma síðustu áratugi og endaði þetta kuldkast á því að frostið fór í -22,0 stig á Grímsstöðum þ. 15. Hiti komst aldrei hærra í mánuðinum á landinu en í 10,2 stig og var það í þrjú skipti á austfjörðum í smáblotum. Annars var norðanáttin allsráðandi en var rofin af skammvinnum suðvestanáttum. Óvenjulega lágur þrýstingur var yfir Lofóten við Noregsstrendur. Kortið sýnir ástandið í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Þykktin yfir landinu var frá 50 metrum undir meðallagi vestast upp í 80 metra undir því austast á landinu. Mesta þynnkan náði langt norður í höf og á Jan Mayen var þetta kaldasti nóvembermánuður sem þar hafði þá mælst en metið var slegið strax 1971. Þetta var á hafísárunum.           

Samtök Frjáslyndra og vinstri manna voru stofnuð þ. 15. Þau komu mönnum á þing og lifðu nokkur ár. Tunglferð Appollo 12 stóð yfir.                 

1910_11_500.png1910 (-1,7) Á Vestfjörðum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur ásamt nóvember 1973 en sá næst kaldasti á Akureyri. Fremur var hægviðrasamt. Breytilegt veður var fyrsta þriðjunginn en mjög kalt um miðbikið, allt niður í -24,4 stig þann 13. á Grímsstöðum. Síðasta þriðjung mánaðarins hlýnaði mikið og var þá oftast hláka. Miklar úrkomur voru á austfjörðum 24.-26. í austanátt og í Vestmannaeyjum mældust 56,4 mm að morgni hins 23. Annars var fremur þurrt, einkanlega á vesturlandi og úrkomudagar fáir. Hlýjast varð 8,0 stig í Vestmannaeyjum dagana 24. og 25. og er þetta reyndar minnsti hámarkshiti á landinu í nokkrum nóvember. Yfir Grænlandi var jafnan hæð en lágur þrýstingur yfir Norðursjó og lægðadrög langt norður í höf en kortið sýnir hvernig þetta kom út í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð. 

Rússneska skáldið fræga, Leo Tolstoj, lést þann 10.    

1923_11_500_an.png1923 (-1,6) Þurrviðrasamt var í þessum nóvember og alls staðar var úrkoman undir meðallagi. Hugsanlega nær mánuðirinn jafnvel inn á topp tíu listann yfir þurrustu nóvembemánuði. Veðrátta sam samt talin óhagstæð. Þetta er næst kaldasti nóvember í Vestmannaeyjum ásamt 1887 og þriðji kaldasti í Hreppunum. Norðanáttinn var nánast linnulaus og fremur sólríkt var í Reykjavík, 47 klst. en snjó var þar þó talsveður.  Kaldast var um miðjan mánuð og mældust -20,4 stig á Grímsstöðum þ. 14 og 15. Dagarnir 13. til 15. eru líklega hinir köldustu sem komið hafa þá daga í Reykjavík eftir að Veðurstofan var stofnuð. Aðeins tvo daga var veruleg hláka á landinu, 9. og 10. og síðari daginn mældust 10,2 stig á Teigarhorni. Í aftaka norðanveðri og sjógangi þann 7. fórst vélbátur frá Bolungarvík með fimm mönnum  undan Stigahlíð. Kalt var í þessum mánuði á Bretlandseyjum og í vestast í Evrópu. Suðvestur og vestur af landinu var oft hæðasvæði mikið en óvenjulega lágur þrýstingur austur af landinu. Kortið sýnir frávik hæðar 500 hPa flatarins kringum landið.

Þann 8. gerði Adolf nokkur Hitler tilraun til valdaráns á bjórkrá í München. Byltingin miskeppnaðist herfilega og var hinn seinheppni Adolf síðar dæmdur í fangelsi en sat þar ekki lengi en skrifaði þar illlræmda bók um sína baráttu. Í mánaðarlok var þýska markið fallið niður úr ölu valdi. Hér á landi var stéttabaráttan að ná sér á strik og þann 11. fór fram svokallaður Blöndahlsslagur milli verkamanna og útgerðarmanna í Reykjavík. 

Nánari tölur um þessa mánuði er eins og venjulega að finna í fylgiskjalinu. 

Skýringar.      

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Spennandi

Þegar tveir þriðju af mánuðinum er liðinn er meðalhitinn í Reykjavík 6,7 stig eða  5,0 stig yfir meðallagi. Á Akureyri er hitinn 4,9 stig yfir meðallagi. Sjá nánar í fylgiskjalinu.

Fremur kalt var fyrstu tvo dagana í þessum mánuði og er meðalhitinn í Reykajvík frá þeim þriðja 7,3 stig eða 5,7 stig yfir meðallagi.

Þetta er allnokkuð. En árið 1945 var meðalhitinn þ. 20. í höfuðborginni  8,0 stig. Þá var mælt við Austurvöll við nokkuð sérstakar aðstæður, en jafnvel þó þessi tala sé færð yfir á núverandi stað Veðurstofunar var meðalhitinn 20 fyrstu dagana 7,6 stig árið 1945.

Árið 1956, sem er hlýjasti nóvember á Akureyri,  var meðalhinn þar 6,9 stig þann 20.  

Nú eru mestu hlýindin liðin hjá svo meðalhitinn mun fara að lækka. Þessi mánuður mun ekki slá hitametið í Reykjavík eða Akureyri.

En þetta er ekki alveg allt. Tiltölulega hlýjast er á austurlandi og á Egilsstöðum virðist meðalhitinn það sem af er vera jafnvel um sex og hálft stig yfir meðallagi fyrstu tuttugu dagana. Hann stendur í um 6,3 stigum. Þetta eru ekki alveg nákvæmar tölur en varla skakkar miklu. Meðalhiti alls mánaðarins  á Egilsstöðum 1961-1990 er -0,7 stig en  frá þessum degi til mánaðarloka mun hinn nátturlegi hitafallandi vera um hálft stig eða kannski ívið meira. Hlýjasti heili nóvember á Egilsstöðum er 5,0 stig árið 1993. Mælingar hófust árið 1948 en á Hallormsstað og Seyðisfirði, sem hafa talsvert lengri mælingasögu, er það einmitt nóvember 1993 sem þar hefur verið hlýjastur.

Ef ekki fer allt á versta veg verður spennandi að sjá lokatölur mánaðarins fyrir hitann, bæði einstakar stöðvar og landið í heild.

Fylgiskjalið horfir stolt og einbeitt til framtíðar á sinn sjálfstæða hátt! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitamet eða einhvers konar svindl í Reykjavík?

Í morgun klukkan 9 sýndi kvikasilfurshámarksmælir í Reykjavík 13,3 stig. Það er þá nýtt hitamet í nóvember. Mest hefur áður mælst 12,6 stig 19. nóvember 1999. Lesið er á þessa hámarksmæla tvisvar á sólarhring. Klukkan 18 og er þá lesinn mestur hiti sem mældist frá því klukkan 9 um morguninn og svo er lesið klukkan 9 að morgni og er þá skrráður mesti hiti sem mældist frá klukkan 18 daginn áður.  Reglur Veðurstofunnar kveða á um að hiti sé skráður á þann dag sem lesið er jafnvel þó mesti hitinn hafi t.d. mælst í raun  rétt eftir klukkan 18 daginn áður. En ekki  telur anarkistaveðurbloggsíða eins og Allra veðra von sig bundna af þessum reglum og reynir hvað hún getur, þó ekki sé það alltaf auðvelt og án þess að gera of mikið veður út af vafa sem stundum verður, að meta hvorum megin miðnættis hæsti hiti hefur mælst ef morgunhámarkið kl. 9 er hærra en dagshámarkið kl. 18 daginn áður. 

Klukkan 18 í gær var hitinn í Reykjavík 11,5 stig en hámark lesið af kvikasilfursmæli 11,9 stig. Á föstum athugunartímum á þriggja tíma fresti eftir kl 18 náði hiti aldrei 11 stigum á kvikasilfursmælinum sem er reyndar annar mælir en hámarkshitamælirinn. En svo voru þessi 13,3 stig á hámarksmælinum kl. 9. 

Lítum þá á sjálfvirku mælana sem mæla alveg stöðugt hámarkshita.  Frá því á hádegi í gær hefur sjálfvirki mælirinn í Reykjavík ekki sýnt hærra en 11,8 stig og var það á milli kl. 14 og 15 í gær og aftur milli kl. 16 og 17 en eftir klukkan 18 hefur hann ekki farið hærra en 11,4 stig og var það milli klukkan 18 og 19. Búveðurstöðin í Reykjavík hefur frá því um hádegi í gær sýnt mest 11,7 stig milli klukkan 16 og 17. Á sama tíma var Reykjavíkurflugvöllur með sitt hámark, 12,1 stig. Korpa hefur farið mest í 11,9 stig frá hádegi í gær og var það á milli klukkan 16 og 17. 

Er von að maður spyrji hvort taka eigi þá mark á þessari hámarksmælingu kvikasilfursmælisins upp á 13,3 stig sem hlýtur þá að hafa komið einhvern tíma eftir klukkan 18 í gær. 

Þetta skipti kannski allt saman litlu máli ef ekki væri beinlínis um algjört mánaðarmet að ræða.

En úr því svo er gæti þetta ekki verið meira pirrandi! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýjustu nóvembermánuðir

1945_11_500.png

Eins og áður er meðalhiti stöðvanna níu, sem við er miðað, í sviga aftan við árið. Meðaltal þeirra 1961-1990 er 0,8 stig.  

1945 (4,9) Hver skyldi trúa því að nóvember gæti orðið hlýrri en gengur og gerist í maí? Það gerðist eigi að síður í Reykjavík árið 1945. Þá var Veðurstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og hitamælaskýlið var á þaki hússins. Mældist þar meðalhiti mánaðarins 6,5 stig. Meðalhitinn í maí 1961-1990 í Reykjavík var 6,4 stig. Þetta  er langhlýjasti nóvember sem komið hefur í borginni.  Hiti mánaðarins telst vera 6,1 stig ef hann er miðaður við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar við Bústaðarveg. Miðað við landið í heild er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og auk þess sá hlýjasti á stöðvum frá Austfjörðum vestur og norður um að Ísafjarðardjúpi og einnig sums staðar í Húnavatnssýslum. Á Loftssölum í Dyrhólahreppi var meðalhitinn 6,8 stig en 6,7 í Vík í Mýrdal og er þetta hæsti meðalhiti sem mælst hefur á íslenskum veðursstöðvum í nóvember. Meðaltal lágmarshita var 5,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og hefur ekki orðið hærra á íslenskri veðurstöð í nóvember. Þar mældist hámarkshiti 10,4 stig þ. 10. og hefur aldrei  orðið hærri í nóvember og sama dag mældist nóvembermetið á Þingvöllum, 11,6 stig. Daginn eftir fór hitinn í Reykjavík í 11,5 stig sem var mánaðarmetið þar áratugum saman. Á Hamraendum í Dölum fór hitinn í 12,7 stig þ. 12. og hefur ekki mælst hærri í héraðinu í nóvember og ekki heldur í Miðfirði þar sem hitinn í Núpsdalstungu fór í  12,5 stig þ. 9. Mesti hiti á landinu mældist hins vegar 15,5 stig á Sandi í Aðaldal þ. 9. 

1945_11_500t_an.pngVeðráttan segir svo: „Tíðarfarið var einmuna gott, hlýindi svo mikil að blóm sprungu út, og var kúm beitt fram yfir miðjan mánuð." Það var látlaus suðlæg átt fyrstu tæpu þrjár vikurnar. Eftir það gerði skammvinnt kuldakast en hlýnaði svo á ný í lok mánaðarins. Meðalhiti fyrstu 24 dagana var 7,9 stig í höfuðstaðnum. Snjólagsprósentan á landinu allan mánuðinn var 16 en meðaltalið frá 1924 er 42%. Hvergi var alautt allan mánuðinn en á fáeinum stöðvum varð aldrei alhvítt. Síðasta daginn var reyndar mjög víða snjór og frostið komst niður í 17 stig á Grímsstöðum. Úrkoman var um 22% umfram meðallagið 1931-2000 og var mest 344 mm í Kvígyndisdal við Patreksfjörð. Á Blönduósi og nágrenni hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember, 181,4 mm. Í Stykkishólmi er  þetta sjötti úrkomusamasti nóvember frá 1856. Sólarlítið var syðra en suðaustanátt var yfirgnæfandi og er þetta fjórði sólarminnsti nóvember í Reykjavík. Fremur sólarlítið var einnig fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom reyndar níundi hlýjasti október.

Í þessum mánuði má segja að samfellt hæðasvæði með kuldum hafi ríkt alla leið frá Rússlandi og vestur til Bretlandseyja en yfir gervöllu Norður-Atlandshafi austanverðu voru hlýindi en tiltölulega mest á Íslandi. Hlýtt var einnig í Norður-Skandinavíu nema við sjóinn allra nyrst. Efra kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins yfir landinu en frávikið upp á við var geysimikið nærri landinu og þykktin upp í mitt veðrahvoldið nun hafa verið sú mesta sem þekkist í nóvember þó ekki sé hægt að sýna það hér. Neðra kortið birtir frávik hita í þessum 500 hPa fleti í um 5 km hæð. Bæði kortin eru falleg og glæsileg á að líta! Fyrir neðan sést svo á korti meðalhitinn á landinu í þessum maílega nóvember.

Þetta var sem sagt mánuður kraftaverkanna og þ. 4. varð enda lamaður maður á elliheimilinu Grund skyndilega alheill! Daginn áður var hin vinsæla 9. sinfónía Shjostavítsj frumflutt í Leningrad. Þann 8. efndu Sjálfstæðismenn í Reykjavík til prófkosninga. Lýðveldið Júgóslavía var stofnað þ. 29.  

nov_46.gif

2002_11_500.png2002 (4,5) Þessi mánuður kemst helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nokkrum mánuði, 971, 5 mm á Kollaleiru í Reyðarfirði sem er talsvert meira en ársúrkoma er að meðaltali í Reykjavík! Á Hánefsstöðum í Seyðisfirði mældust 907,7 mm. Skriðuföll urðu á austurlandi. Á Fagurhólsmýri mældist meiri úrkoma en í nokkrum öðrum nóvember frá 1922, 403 mm og á Hólum í Hornafirði frá 1931, 672,4 mm. Aftur á móti mældist úrkoman aðeins 3,1 mm á Stafni í Húnavatnssýslu. Austanátt var vitaskuld tíðasta vindáttin og mun víst hafa verið meiri en í nokkrum öðrum nóvember. Úrkoman var yfirleitt undir meðallagi á vesturhelmingi landsins. Snarpt kuldakast kom um miðjan mánuð og stóð í fjóra daga og fór þá frostið í -18,5 stig í Möðrudal þ. 17. Dró þetta  mánaðarmeðalhitann talsvert niður. En þess gætti lítt syðst á landinu þar sem meðalhiti mánaðarins var 6,5 stig í Vík í Mýrdal og 6,3 á Vatnsskarðshólum. Mestur hiti varð á Lambavatni á Rauðasandi 13,6 stig þ. 22. Þetta er nóvembermet á stöðinni og óvenjulegt er að mánaðarhámark landsins í nóvember mælist á þessum slóðum. Á sunnanverðu Snæfellsnesi, á Bláfeldi, fór hitinn þ. 28. í 11,9 stig og hefur aldrei mælst hærri á veðurstöðvum á þessu svæði frá 1955 en að vísu var allmikið hringl þar á stöðvum eftir um 1980. Á vesturlandi var talin einmunatíð í austanáttinni. Alautt var í Reykjavík, á sunnanverðum austfjörðum og víða á suðausturlandi og suðurlandi. Snjólag var 12% og hefur aðeins einu sinni orðið lægra, 1960. Desember sem fór í hönd reyndist einnig  vera sá næst hlýjasti sem mælst hefur eins og þessi nóvember var að sínu leyti. Mjög kalt var á Norðulöndum og NA-Evrópu í þessum mánuði en hlýtt á Íslandi og Grænlandi. Háloftahæð var yfir Norðurlöndum og norður í íshaf en lágur þrýstingur suðvestur af Íslandi.    

1956 (4,3) Frá Skagafirði og austur á firði er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og sá þriðji yfir landið. Á Siglunesi var meðalhitinn 5,1 stig og er það mesti meðalhiti í nóvember á norðlenskri veðurstöð. Afar hlýtt var dagana 6.-8. og komst hitinn á Dalatanga í 17,1 stig þ. 6. Ekki var síður hlýtt næsta dag sem mun vera einn allra hlýjasti nóvemberdagur að meðalhita á landinu síðan a.m.k. 1949. Í Reykjavík er þetta næst hlýjasti nóvember en þrátt fyrir hlýindin var snjór þar á jörð í 8 daga en aldrei þó mikill. Snjólagsprósentan á landinu var nokkuð há miðað við hlýindin, 24%. Mestur var meðalhitinn 5,8 stig á Vatnsskarðshólum en 5,7 í Fagradal í Vopnafirði og er það mesti meðalhiti á veðurstöð í nóvember á norðaustanverðu landinu. Í Fagradal  var úrkoman tiltölulega minnst en sunnan og suðvestanáttir voru tíðastar vindátta. Mánuðurinn var auðvitað talinn óvenju hagstæður um austanvert landið en óhagstæður vestan lands vegna storma og mikillar úrkomu. Þann 24. var stórviðri um allt land af suðvestri. Slitnuðu þá fimm vélbátar frá bryggju í Reykjavík. Talsvert kólnaði síðustu dagana og komst frostið í -14 stig þ. 27. og 28. í Möðrudal. Mikið vestanveður var síðasta daginn og barst þá sjávarselta langt inn í landi.

1956_11_500_nhan.pngÞetta er með úrkomumestu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm votustu. Sérstaklega var úrkoman mikil á suður-og vesturlandi, einkanlega í Borgarfirði og sums staðar á Vestfjörðum og suðurlandsundirlendi. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist mesta nóvemberúrkoma sem þar mældist 1934-1985, en árið 1993 fuku flest úrkomumet nóvembers í héraðinu á öðrum stöðvum. Í Kvígyndisdal við Patreksfjörð mældist meiri úrkoma en þar mældist í nokkrum mánuði 1928-2004, 466,1 mm. Á Þórustöðum í Önundarfirði mældist mesta nóvemberúrkoman á árunum 1955-1996, 348,3 mm. Af Sámsstöðum í Fljótshlíð er sömu sögu að segja 1928-1998, 324,5 mm. Ekki hefur heldur mælst meiri úrkoma í nóvember í Hrútafirði á fáeinum stöðvum sem þar hafa verið. Í Stykkishólmi er þetta þriðji úrkomusamasti nóvember. Æði var mánuðurinn drungalegur syðra og er þetta sólarminnsti nóvember í Reykjavík með aðeins 4,6 sólarstundir. Ekki var aðeins hlýtt á Íslandi þennan mánuð heldur norður um allt íshafið og til heimskautastrandar Rússlands en kuldi mikill í Evrópu og allt til Norðvestur- Afríku. Kortið (sem stækkar vel ef smellt er þrisvar á það) sýnir frávik hæðar 500 hPA flatarins á norðurhverli en það mynstur sem kortið sýnir er nokkuð líkt því mynstri sem kort um hitafrávik sýnir og þekur blái liturinn í stórum dráttum köldu svæðin en sá guli og rauði hlýju svæðin þó hlýjan á Íslandi komi ekki sérlega vel fram á þessu hæðarkorti. Landið var klemmt á milli óvenju mikillar hæðar suðvestur af Bretlandseyjum og venju fremur lágs þrýstings vestan við landið. Áttir milli suðurs og vesturs voru einstaklega tíðar. Næsti mánuður krækti í að vera tíundi hlýjasti desember.

Mikið var um að vera í heimsmálunum. Í fyrstu vikunni gerðu Rússar innrás í Ungverjaland eftir að landsmenn höfðu risið upp gegn stjórnvöldum og átök brutust út vegna þjóðnýtingar Egypta á Súezskurðinum. Síðast en ekki síst fyrir okkur Íslendinga fékk Vilhjálmur Einarsson þ. 27. silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. 

1958_11_thick_an.png1958 (4,1) Úrkoman var gríðarleg um sunnan og vestavert landið og er þetta næst úrkomusamasti nóvember á landinu að mínu tali. Á Stóra-Botni í Hvalfirði var úrkoman 603,2 mm og var það mesta mánaðarúrkoma sem þá  hafði mælst á veðurstöð á Íslandi. Í Reykjavík var þetta blautasti nóvember frá upphafi mælinga og þar til í nóvember 1993. En sums staðar á suður-og vesturlandi standa úrkomumet sem sett voru þennan mánuð enn þá. Má þar fyrst nefna Stykkishólm, 281,3 mm, og er þetta mesta úrkoma þar í nokkrum mánuði allan mælingatímann. Einnig má nefna Elliðaárstöð við Reykjavík (frá 1923), Eyrarbakka 283,1 mm (1880-1911 og frá 1926), Kirkjubæjarklaustur 357,6 mm (1931) og Seyðisfjörð 468,7 mm (1935-1953 og frá 1957). Á Ljósafossi mældist úrkoman 515,4 mm. Víða syðra rigndi alla daga nema einn í mánuðinum. Fádæma úrfelli var á suður- vesturlandi þ. 17.-18. Á Rafstöðinni í Andakíl mældist sólarhringsúrkoman 165,3 mm en 184,6 mm í Stóra-Botni. Metið á Rafstöðinni stendur enn þá en úrkoman í Stóra-Botni er nú næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi í nóvember. Urðu af þessu úrfelli víða vegaspjöll vestan lands og skriður féllu á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Tíðin var þó talin mjög hagstæð, einkum síðari hluti mánaðarins. Veðráttan segir: „Grænn litur var á túnum og fíflar og sóleyjar sprungu út. Fé gekk yfirleitt sjálfala, og fjallvegir voru lengst af opnir. Í lok mánaðarins var víða autt upp á efstu fjallabrúnir." Meðalhitinn á Horni í Hornafirði var talinn 6,5 stig og er það mesti meðalhiti veðurstöðvar í öðrum nóvember en 1945 (ásamt Vík í Mýrdal 2002) en satt að segja trúi ég ekki alveg á þessa tölu. Langt bil er í meðalhita nálægra stöðva. Hitinn fór í 11,3 stig á Loftssölum þ. 27. og mældist aldrei meiri nóvemberhiti þar frá 1951 og ekki heldur á Vatnsskarðshólum, skammt frá, síðan 1978. Snjólag á landinu var 19% en hvergi alautt allan mánuðinn. Alhvítir dagar voru hins vegar mjög fáir og víða enginn. Hlýindi voru mikil marga daga og þ. 10. fór hitinn í 16 stig á Siglunesi og 15,2 í Fagradal í Vopnafirði. Í tveggja daga smá kuldakasti fór frostið í -10,5 stig á Hellu þ. 8.

Fyrsta landhelgisstríð Íslendinga og Breta var í fullum gangi en það hófst 1. september þetta ár. Þann 18. kom Andrés Segovia, rómaðasti gítarleikari tuttugustu aldar, til landsins og hélt hér tónleika.

1941_11_850.png1941 (4,0) Til landsins var þetta mjög hagstæður mánuður. Fé gekk víða sjálfala og unnið var að jarðabótum. Sunnanlands var þó nokkuð vindasamt og tíðar úrkomur. Þetta var hlýjasti nóvembermánuður sem hafði mælst á landinu þegar hann kom. Hann var tiltölulega hlýjastur fyrir norðan og er enn annar hlýjasti nóvember í Grímsey. Þann 10.-11. var stormur víða á suður og austurlandi og um það leyti voru miklar rigningar á austfjörðum með skriðuhlaupum. Sólarhringsúrkoma var 101,3 mm að morgni síðasta dagsins á Hvanneyri í Borgarfirði og víða annars staðar var mæld mikil úrkoma. Snjór var lítill, 15%, og jafnvel á Akureyri var alhvítt í aðeins þrjá daga en einn dag í Reykjavík. Á Sandi í Aðaldal var aldrei mældur þurrari nóvember, 5,5 mm (1937-2004). Þar mældist og mesti hiti mánaðarins, 12,5 stig þ. 30. Á Húsavík var úrkoman aðeins 0,6 mm og  féll á einum degi (enn mninni úrkoma var þar 1942, 0,2 mm), Í stillum og hægviðri þ. 8. mældist mesta frostið, -16,3 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Eftir þennan mánuð kom 12. hlýjasti desember á landinu en á Akureyri sá fjórði hlýjasti. Á undan þessum mánuði fór hins vegar áttundi hlýjasti október á landinu.

Þann fyrsta var afhjúpað minnismerkið um forsetana fjóra á Mount Rushmore í Bandaríkjunum. Daginn eftir fórst flugvél með 11 bandaríkjamönnum á Reykjanesi. Og daginn þar á eftir tóku Þjóðverjar borgina Kursk í Rússlandi. Þann 7. voru tólf þúsundir gyðinga myrtir og grafnir i fjöldagröfum við Minsk í Hvítarússlandi. Og næsta dag skutu bandarískir hermenn að hópi Íslendinga og drápu einn. Í mánaðarlok náðu Þjóðverjar lengst fram við Moskvu og Ítalir gáfust upp í Eritreu. Rússa náðu Rostov á sitt vald frá Þjóðverjum þ. 29. og Rommel hershöfðingi Þjóðverja tók að hörfa frá Tobruk í Líbíu.   

1968 (4,0) Tíðarfarið var talið hlýtt og hagstætt en úrkoma vel yfir meðallagi í heild. Fyrir norðan var tiltölulega sólríkt. Fyrir austan var hins vegar mjög úrkomusamt. Aldrei mældist meiri úrkoma í nóvember á Hallormsstað (1937-1989), 271,8 mm og aðeins einu sinni (2002) á Grímsárvirkjun frá 1959. Færð var yfirleitt góð á landinu, tún voru mikið til græn og í görðum sprungu út blóm. Mánuðurinn byrjaði þó mjög kuldalega og var frost fyrstu fjóra dagana með því meira sem gerist eftir árstíma og í Reykjavík var síðasti októberdagurinn og sá fyrsti í nóvember þeir köldustu eftir dagsetningum sem þar hafa komið frá a.m.k. 1935. Þann annan fór frostið í -21,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Mikinn snjó setti niður í lok kuldakastsins á norðurlandi en hann hvarf fljótlega eftir að hlýnaði. Og eftir þetta voru mikil hlýindi nema fáa daga seint í mánuðinum á norðanverðu landinu. Á Hólum í Hjaltadal fór hitinn í 14,2 stig þ. 18. Sama dag fór hitinn á Hæli í Hreppum i 13,4 stig sem er þar nóvembermet alveg frá 1929. Úrkoma var yfir meðallag á landinu. Í stórrigningum dagana 12.-13. urðu miklar skemmdir austanlands á svæðinu frá Borgarfirði eystra að Hornafirði. Snjólag var 24%, hvergi alveg autt, en snjódagar á suður og vesturlandi voru yfirleitt aðeins einn til fimm og  yfirleitt minni en 15 fyrir norðan. Eins og 1941 var hæðasvæði yfir NA-Evrópu og Norðurlöndum en lægðir suður af Grænlandi. 

Þann 10. fórst vélskipið Þráinn í austanroki fyrir Mýrdalssandi og með því níu manns.      

1987_11-500t_an.png1987 (3,9) Á Akureyri, Stykkishólmi og Vestfjörðum er þetta þriðji hlýjasti nóvember. Hlýtt var á stóru svæði á Atlantshafi eins og kortið sýnir en það er af fráviki hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð. Úrkoma var í  minna lagi og snjór var lítill, snjólagið var 13%. Víða var alauð jörð eða því sem næst frá austfjörðum suður og vestur um til Breiðafjarðar. Mjög hlýtt var fyrstu vikuna og varð hitinn 14,6 stig þ. 5. á Seyðisfirði. Stutt kuldakast kom um miðjan mánuð og í byrjun síðustu vikunnar og varð kaldast -12,6 stig þ. 23. í Möðrudal. Nokkur leiðindaveður gengu yfir og  þ. 19. urðu talsverðir skaðar á austurlandi í norðanskoti. Á eftir þessum mánuði kom fimmti hlýjasti desember. 

1993 (3,8)  Þetta er kannski allra úrkomusamasti nóvembermánuðurinn, a.m.k. ef miðað er við þær stöðvar sem lengst hafa athugað. Og alveg sérstaklega er þetta úrkomusamasti  nóvember á vesturandi. Í Reykjavík er þetta ekki aðeins úrkomusamasti nóvember heldur úskomusamasti mánuður ársins sem þar hefur komið. Og þar kom eitthvað úr loftinu alla dagana! Svipaða úrkomusögu er að segja um nokkrar stöðvar á suður-og vesturlandi. Bæði í Stykkishólmi og á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti nóvember. Mest mánaðarúrkoma var 702,1 mm á Grundarfirði. Um miðbik norðurlands og á norðusturhorninu var hins vegar lítil úrkoma.1993_11_slp_an.png Loftvægi var með lægra móti, 9,8 hPa undir meðallagi, lægst á veðurstöð 989, 2 hPa á Galtarvita. Veðurfarið var talið mjög hagstætt á norður og norðausturlandi en úrkomu- og umhleypingasamt annars staðar. Þetta er einhver mesti sunnanáttamánuður í nóvember  sem dæmi er um. Tiltölulega svalast var vestantil en hlýnaði eftir því sem austar dróg og mest var hitafrávikið inn til landsins á norðausturlandi. Sérlega hlýtt var líka á austfjörðum. Mesti meðalhiti á landinu var 6,4 stig á Seyðisfirði og er þetta hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, frá 1906 og á öllu austurlandi. Á Seyðisfirð var meðaltal hámarkshita 9,4 stig og er það mesta á veðurstöð hérlendis í nóvember. Í Grímsey er þetta einnig hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, 4,1 stig, og næst hlýjasti á Akureyri. Sólskin var eðlilega ekki mikið syðra og er þetta næst sólarminnsti nóvember í Reykjavík en á Akureyri skein sólin tiltöluleg mikið, svipað og 1968. Snjólag var 20% á landinu. Í Reykjavík var þó alhvítt í 9 daga sem var með því meira á landinu en sérlega snjólétt var á norðausturlandi þar sem víða var aldrei alhvítt og Dratthalastöðum á Úthéraði, Strandhöfn í Vopnafirði, Seyðisfirði og Dalatanga var alautt allan mánuðinn. Líkt og 1956 var þessi nóvember óvenju hlýr norður um allt íshafið en kaldur í Evrópu. Eins og þá var lægðagangur á Grænlandshafdi en hæð yfir Norðurlöndum og N-Evrópu en þó enn sterkari og enn kaldara var í Evrópu en 1956. Kortið sýnir frávik loftþrýsings á norðurhveli þennan mánuð í millibörum.  

Þann fimmta biðu menn þess í ofvæni að geimverur birtust á Snæfellsnesi eins og mönnum hafði verið lofað af einhverjum speisuðum sjáendum. En verurnar gáfu aðdáendum sínum langt nef og létu ekki sjá sig.

1933_11-500t_an.png1933 (3,7) Á sínum tíma var þetta hlýjasti nóvember sem komið hafði síðan 1857 en var þó líklega lítið eitt hlýrri en sá mánuður. Veðráttan var nokkuð óstöðug og votviðrasöm, einkum vestanands.  En jörð var oftast alauð og klakalaus. Snjólag var aðeins 12% og alautt víðast hvar á suður og vesturlandi. Reyndar byrjaði mánuðurinn með hríðarveðri fyrir norðan og vægu frosti en strax þann þriðja var kominn 14 stiga hiti á Akureyri og á Vestfjörðum. Daginn eftir var mikið mistur á austurlandi og lítið skyggni og varð sums staðar sporrækt af sandfalli. Þá var norðvestan stormur eftir hlýja suðvestanátt og fórst þá vélbátur með fjórum mönnum og ýmsir aðrir skaðar urðu. Mikið suðvestanveður var á Vestfjörðum  þann 17. en þá voru rokna hlýindi á norðausturlandi svo hitinn fór í 17,8 stig í Fagradal í Vopnafirði sem þá var nóvembermet á landinu er stóð til 1964. Morguninn eftir mældist sólarhringsúrkonan í Hveradölum 128,2 mm sem þá var nóvembersólarhringsmet á landinu. Mesti kuldi í mánuðinum varð aðeins -9,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 22. og er það hæsta skráð  landslágmark í nokkrum nóvember. Meðalhiti mánaðarins þarna á Fjöllunum var 1,7 stig og hefur aldrei orðið jafn hár í nóvember en meðaltalið þar 1961-1990 var -3,2 stig. Mjög hlýtt var þrjá síðustu dagana á landinu, hámarkshiti 10-11 stig í Reykjavík og í kjölfarið kom þar næst hlýjasti desember en sá hlýjasti yfir allt landið. Hæðasvæði var yfir A-Evrópu og Norðurlöndum þennan mánuð en lægðasvæði vestur af Grænlandi. Hlýtt loft streymdi þarna á  milli yfir landið. Hæð 500 hPa yfir landinu var mjög afbrigðilega há sem og hitinn þar uppi en kortið sýnir frávik hans frá meðallagi.

19060_11_slp_1121399.png1960 (3,6) Nóvember þessi er sá snjóléttasti á landinu. Snjólag var aðeins 10%. Yfirleitt var snjólaust í byggð nema síðustu dagana. Á vesturlandi og suðurlandi var þó víðast hvar auð jörð alla daga. Þetta er þurrasti nóvember sem hér hefur verið fjallað um. Vatnsskortur var víða norðanlands og vestan. Aldrei hafa verið færri úrkomudagar í nóvember í Reykjavík, aðeins átta. Á austurlandi voru hins vegar þrálátar rigningar. Þó þessi mánuður teljist aðeins sá tíundi hlýjasti á landinu er hann hlýjasti nóvember sem mælst hefur á Ströndum, bæði á Hornbjargsvita og í Árneshreppi og sá þurrasti einnig á síðarnefnda stapnum. Var hann þar hlýrri í beinum tölum en í Reykjavík og miðað við meðallhita var mánuðurinn tiltölulega hlýjastur norðvestast á landinu. Á Suðureyri við Súgandafjörð var þetta til að mynda hlýjasti nóvember sem þar mældist 1923-1989, 4,8 stig. Þykktin yfir landinu, en hún ræður miklu um hitann, var mest á norðvestanverðu landinu en fór minnkandi til suðausturs. Mesti hiti í mánuðinum mældist á Galtarvita, 12,8 stig þ. 8. Þessi nóvember er einnig sögulegur fyrir það að vera þegar hann kom sólríkasti nóvember sem mælst hafði í Reykjavík en sólríkara varð svo  1996, þegar sólin skein hálfri stundu lengur, en sá mánuður var einn af köldustu nóvembermánuðum svo það er ekki saman að jafna um veðurgæðin. Tiltölulega svalt var í byrjun og enda mánaðarins en hlýindi þar á milli. Þann 28. gerði austan og suðaustan hvassviðri. Næstu dagana þar á undan höfðu verið stillur og hægviðri sem lauk með -16,3 stiga frosti  á Sauðárkróki þ. 28. Þessi blíði mánuður var verðugur endir á samfelldum góðviðriskafla sem ríkt hafði víðast hvar á landinu síðan í mars. 

Þann 8. var John F. Kennedy kosinn forseti Bandaríkjanna.

Fyrir 1866, sem hér er helsta viðmiðunarárið, eru líklega engir nóvembermánuðir sem ná því að skáka á landsvísu þeim tíu sem hér hafa verið taldir. Árið 1857 var meðalhitinn í Stykkishólmi 3,7 stig en 3,5 stig árið 1846. Seinna árið var meðalhitinn í Reykjavík 2,8 stig. Hlýjasti nóvember í Reykjavík árin 1820-1853 var hins vegar 1835, 2,8 stig og hafa þar einir 15 nóvembermánuðir verið hlýrri frá 1845. Árin 1846 og 1857 var einnig mælt á Akureyri en hitinn þar nálgaðist ekki að vera á borð við þá tíu hlýjustu sem hér hafa verið taldir. Þess má að lokum geta að meðalhitinn í nóvember 1876 var 4,7 stig í Reykjavík og er hann þar því fimmti hlýjasti nóvember allar götur frá 1820, svipaður og 1968, en hlýrri en 1941. Í Stykkishólmi gerði mánuðurinn ekki eins vel og mældist 3,2 stig. Af hita á Teigarhorni og í Grímey má svo ráða að mánuður þessi telst engan veginn til tíu hlýjustu nóvembermánaða á landinu.  

Viðbót: Nóvember 2011. Þó öll kurl séu ekki komin  til grafar með þann nóvember sem var að líða, sérstaklega eru upplysingar bágbornar frá Teigarhorni, er þó ljóst að hann er einn af hlýjustu nóvembermánuðum á landinu, mun sennilega vera í fimmta til sjötta sæti, svipaður og nóvember 1941. Hér má lesa um nóvember 2011.

Fyrra fylgiskjalið sýnir, eins og venjulega í þessum pistlum, hita og úrkomu öllum níu stöðvunum, en það seinna ýmislgt frá hinum hlýu mánuðum 1945,1956 og 1958.

Skýringar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitamet í Stykkishólmi og víðar

Veðrið sem var að ganga yfir hefur valdið nokkrum vonbrigðum hvað hitann varðar þó útlitið hafi verið efnilegt. Hiti fór óvíða í neinar sérstakar hæðir. 

Og þó! Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði fór hitinn i 20,6 stig. Það er mesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst í þeirri sveit í nóvember og kemst héraðið þar með í hinn fámenna, eða öllu heldur fástöðva tuttugustiganóvemberklúbb, Nóvember Hall of Fame! Þar voru fyrir Sauðanesviti, Dalatangi, Seyðisfjörður og Neskaupstaður.

Kannski er enn merkilegra að hitamet var slegið á elstu veðurstöð landsins, Stykkishólmi, þar sem hitinn fór í 12,5 stig en 12,8 á sjálfvirka mælinum. Í um 150 ár hefur sem sagt aldrei komið þar eins mikill hiti í nóvember. Gamla metið var 11,9 stig frá þeim sjöunda 2003.

Ekki margt merkilegra hefur verið í fréttum í dag. 

Í Hrútafirði kom met, 14,2 stig á Reykjum, en svo mikill hiti hefur aldrei áður komið í Hrútafirði í nóvember. Mælingar ná nokkuð langt aftur en hafa verið á ýmsum stöðum.

Met var sett í Hjarðarlandi í Biskupstungum, 12,0 stig, gamla metið var 10,6 frá þ. 6. 1995 en mælingar eru frá 1990. 

Metjöfnun var í Stafholtsey í Borgarfirði, 12,5 stig, og Ásgarði í Dölum 12,0 stig. Mælingar frá 1988 og 1992. 

Ýmislegt annað um þetta veður geta menn lesið - með áfergju - í pistlum bloggbræðranna Trausta og Einars.

Aðrar stöðvar með einhverja ára mælingasögu á kvikasilfursmæla blanda sér ekki í metabaráttu. Og veldur norðurland sérstaklega miklum vonbrigðum.

En þetta er samt merkilegt, ekki síst Stykkishólmsmetið, og kannski best að éta ofan í sig fyrri digurbarkalegar yfirlýsingar um almenn veðurómerkilegheit nóvembermánaðar. 

Það er náttúrlega ekkert annað en svæsin mánaða-rasismi!

Leiðrétting: Auðvelt að misstíga sig í miklu talnaflóði, þessi hiti í Stykkishómi á kvikasilfursmælinum var reyndar metjöfnun en ekki nýtt met, sami hiti mældist 19. nóvember 1999.  

Náttúruleg leiðrétting:  Stykkishólmur er alveg staðráðinn í að losa sig við gamla metið svo það fari ekki á milli mála. Hann setti nýtt met í dag, 13,0 stig á kvikasilfrinu en 13,7 á sjálfvirka mælinum. Keflavíkurflugvöllur var með 13,5 stig sem er met en ég trúi bara ekki alveg á þessa tölu. Þessi stöð hefur verið með nokkrar hásprengdar og ótrúlegar hámarkshitatölur á kvikasilfrinu undanfarið sem ríma engan veginn við sjálfvirku mælingarnar, ekki ólíkt því sem Reykjavík var með um tíma í sumar. Aðrar rótgrónar kvikasilfursstöðvar eru ekki með nein met. Á Sámsstöðum mældust á sjálfvirkri stöð 14,9 stig sem er hátt yfir kvikasilfursmetinu 12,5 stig frá þ. 6. 1947. Þingvellir voru að mæla 13,2 stig en gamla kvikasilfursmetið var 11,6 stig frá þeim tíunda í þeim æsiþrungna hitamánuði 1945. 

Ef ég dett ekki dauður niður eða verð brotthrifinn til frelsunar á himnum mun birtast hér á morgun harðsvíraður pistill um hlýjustu nóvembermánuði, svo langur og leiðinlegur að hann er alls ekki fyrir viðkvæma eða taugaveiklaða! En þá geta menn séð hvernig almennilegir nóvembermánuðir haga sér.  Og svo er bara að sjá hvort okkar nóvember muni á endanum komast í Nóvemberfrægðarhöllina með þeim eða verður bara sjálfum sér og þjóðinni til ævarandi smánar og skammar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nóvember

Því er ekki að leyna að mér finnst persónulega nóvember kannski sviplausasti mánuður ársins veðurfarslega.

Hann á samt sínar merkilegu stundir. Bæði góðar og vondar.  

En við vonum að nú verði mikill hasar!  Fylgiksjalið stendur sína pligt.

 

 


Ótrúlegt úrkomumet

Október hafði það af að verða yfir meðallagi 1961-1990 að hita bæði í Reykjavík og Akureyri og vera svona nokkurn veginn í hlýskeiðsmeðaltalinu 1931-1960. Þetta sést nánar í fylgiskjalinu. 

Öllu merkilegra er það að þessi október var æði votur og virðist hafa sett nokkur yfirgengileg úrkomumet. Þar ber fyrst að nefna Æðey í Ísafjarðardjúpi. Ég sé ekki betur en úrkoman þar sé  300 mm en meðaltalið er um 78 mm. Þetta er þá úrkomusamasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst á staðnum en mælingar hófust í nóvember 1953. Þetta er eiginlega ótrúlegt met! 

Önnur stöð með langa mælingasögu (frá 1948), sem virðast hafa sett nýtt allsherjar úrkomumet, er Hraun á Skaga. Grímsstaðir virðast svo hafa sett úrkomumet fyrir okótber. 

Það er ekki á veðurfarsöfgarnar logið! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband