Hitamet í Stykkishólmi og víðar

Veðrið sem var að ganga yfir hefur valdið nokkrum vonbrigðum hvað hitann varðar þó útlitið hafi verið efnilegt. Hiti fór óvíða í neinar sérstakar hæðir. 

Og þó! Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði fór hitinn i 20,6 stig. Það er mesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst í þeirri sveit í nóvember og kemst héraðið þar með í hinn fámenna, eða öllu heldur fástöðva tuttugustiganóvemberklúbb, Nóvember Hall of Fame! Þar voru fyrir Sauðanesviti, Dalatangi, Seyðisfjörður og Neskaupstaður.

Kannski er enn merkilegra að hitamet var slegið á elstu veðurstöð landsins, Stykkishólmi, þar sem hitinn fór í 12,5 stig en 12,8 á sjálfvirka mælinum. Í um 150 ár hefur sem sagt aldrei komið þar eins mikill hiti í nóvember. Gamla metið var 11,9 stig frá þeim sjöunda 2003.

Ekki margt merkilegra hefur verið í fréttum í dag. 

Í Hrútafirði kom met, 14,2 stig á Reykjum, en svo mikill hiti hefur aldrei áður komið í Hrútafirði í nóvember. Mælingar ná nokkuð langt aftur en hafa verið á ýmsum stöðum.

Met var sett í Hjarðarlandi í Biskupstungum, 12,0 stig, gamla metið var 10,6 frá þ. 6. 1995 en mælingar eru frá 1990. 

Metjöfnun var í Stafholtsey í Borgarfirði, 12,5 stig, og Ásgarði í Dölum 12,0 stig. Mælingar frá 1988 og 1992. 

Ýmislegt annað um þetta veður geta menn lesið - með áfergju - í pistlum bloggbræðranna Trausta og Einars.

Aðrar stöðvar með einhverja ára mælingasögu á kvikasilfursmæla blanda sér ekki í metabaráttu. Og veldur norðurland sérstaklega miklum vonbrigðum.

En þetta er samt merkilegt, ekki síst Stykkishólmsmetið, og kannski best að éta ofan í sig fyrri digurbarkalegar yfirlýsingar um almenn veðurómerkilegheit nóvembermánaðar. 

Það er náttúrlega ekkert annað en svæsin mánaða-rasismi!

Leiðrétting: Auðvelt að misstíga sig í miklu talnaflóði, þessi hiti í Stykkishómi á kvikasilfursmælinum var reyndar metjöfnun en ekki nýtt met, sami hiti mældist 19. nóvember 1999.  

Náttúruleg leiðrétting:  Stykkishólmur er alveg staðráðinn í að losa sig við gamla metið svo það fari ekki á milli mála. Hann setti nýtt met í dag, 13,0 stig á kvikasilfrinu en 13,7 á sjálfvirka mælinum. Keflavíkurflugvöllur var með 13,5 stig sem er met en ég trúi bara ekki alveg á þessa tölu. Þessi stöð hefur verið með nokkrar hásprengdar og ótrúlegar hámarkshitatölur á kvikasilfrinu undanfarið sem ríma engan veginn við sjálfvirku mælingarnar, ekki ólíkt því sem Reykjavík var með um tíma í sumar. Aðrar rótgrónar kvikasilfursstöðvar eru ekki með nein met. Á Sámsstöðum mældust á sjálfvirkri stöð 14,9 stig sem er hátt yfir kvikasilfursmetinu 12,5 stig frá þ. 6. 1947. Þingvellir voru að mæla 13,2 stig en gamla kvikasilfursmetið var 11,6 stig frá þeim tíunda í þeim æsiþrungna hitamánuði 1945. 

Ef ég dett ekki dauður niður eða verð brotthrifinn til frelsunar á himnum mun birtast hér á morgun harðsvíraður pistill um hlýjustu nóvembermánuði, svo langur og leiðinlegur að hann er alls ekki fyrir viðkvæma eða taugaveiklaða! En þá geta menn séð hvernig almennilegir nóvembermánuðir haga sér.  Og svo er bara að sjá hvort okkar nóvember muni á endanum komast í Nóvemberfrægðarhöllina með þeim eða verður bara sjálfum sér og þjóðinni til ævarandi smánar og skammar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef fram heldur sem horfir, verður þetta lang hlýjasti nóvember á Austurlandi. Hitinn hefur verið stöðugt um og yfir 10 gráður ansi lengi, finnst mér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2011 kl. 00:54

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nóvember 1945 var hreint ótrúlega hlýr og slær alla aðra út og ekki áhlaupsverk að slá hann út. Pistill um hlýjustu nóvembermánuði er alveg um það bil að bresta á hér á blogginu. Hann verður langur og ekki fyrir neina aukvisa! Aðeins nörda og töffara!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.11.2011 kl. 11:31

3 Smámynd: Kama Sutra

Mikið voru þetta nú krúttlegir feðgar á baksíðu Morgunblaðursins í gær!

Kama Sutra, 11.11.2011 kl. 10:22

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En þetta fer nú að verða spennó Gunnar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.11.2011 kl. 19:36

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nýútsprungin morgunfrú á Reyðarfirði: http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/1204515/

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2011 kl. 20:02

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

I Better Get Moving

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2011 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband