Fordómar gegn geðsjúkdómum, Morgunblaðið og dómsmálaráðherrann

Þáttur Spaugstofunnar um Ólaf F. Magnússon borgarstjóra hefur vakið reiði margra. Ólína Þorvarðardóttir sagði að þar hefði borgarstjórnaum verið lýst sem vitfirringi og jafnframt hefði lýsingin verið fordómafull gagnvart geðsjúklingum almennt.

Umfjöllun Spaugstofunnar var þó alveg augljóslega ýkt og grótesk parodía

Fordómar eiga sér margar birtingarmyndir. Sú lúmskasta og skaðlegasta er tiltölulega "hógvær" og "fáguð" orðræða sem er full af skrauthvörfum og undanbrögðum frá því að nefna hlutina  sínum réttu nöfnum.

Það er einmitt eðli fordóma gegn geðsjúkdómum að veigra sér við að nefna hlutina réttum nöfnum. Jafnvel heitin "þunglyndi", "geðhvörf", "kvíðaröskun", "fælni"  og svo framvegis valda ótta og ranghugmyndum í augu þeirra sem eru fullir af villuhugmyndum, hræðslu og hleypidómum í garð þeirra fyrirbæra sem orðin lýsa.

Menn skammast sín þá svo mikið að þeir geta bara ekki nefnt neitt geð-rænt í heyranda hljóði þegar að þeim sjálfum eða þeirra nánustu kemur. Þess vegna tala þeir um að vera niðurdregnir eða hafa orðið fyrir andlegu mótlæti í stað þess að viðurkenna það hreinskilnislega og eðlilega að þeir hafi verið í slæmu þunglyndiskasti. Það er einmitt orðræða og undanfærsla af þessu tagi sem er lang hættulegasta gerð fordóma gegn geðrsökunum.

Eitt skulum við hafa á hreinu: Læknar gefa ekki út veikindavottorð nema læknisfræðilega skilgreindur sjúkdómur leynist þar að baki. Þeir gefa ekki út vottorð um andlegt mótlæti vegna þess að það hefur enga læknisfræðilega merkingu.

Margir eiga við ýmis konar mótlæti að stríða og eru býsna niðurdregnir en mæta þó til vinnu viku og mánuðum saman meðan það er að ganga yfir. Það segir sig hins vegar sjálft að átta mánaða fjarvera frá vinnu er eitthvað stærra í sniðum en bara þetta.

Svo er annað atriði sem við verðum að gera okkur grein fyrir.

Geðsjúkdómar eru með algengustu sjúkdómum. Aðeins lítill hluti þeirra veldur þó sturlunarástandi sem oftast gengur þó aftur til baka sem betur fer með viðeigandi læknishjálp og stundum án hennar. Kostnaðurinn við þessa sjúkdóma er óheyrilegur í peningum en er þó lítið mál miðað við þjáningar sjúklinganna og aðstandenda þeirra. Þess vegna ríður á að menn séu sæmilega upplýstir um geðsjúkdóma svo hægt verði að bæta ástandið. Og að sama skapi veldur það samfélagslegum skaða að ala á fordómum gegn geðsjúkdómum af því að það torveldar samfélaginu að ná valdi á  þeim.

Við verðum einnig að gæta að eftirfarandi: Starf borgarstjóra er mikilvægt opinbert embætti og því skiptir máli að sá sem gegnir því mæli af heilindum opinberlega og tali ekki merkingarleysu eins og hjalið um andlegt mótlæti sannarlega er. Skoðanir manna eru heldur ekki einkamál. Ekki heldur á sjúkdómum. Skoðun er ekki sama og það að hugsa eitthvað með sjálfum sér. Skoðun er eitthvað sem við deilum með öðrum og hefur margvísleg  áhrif á aðra og umhverfið. Þegar borgarstjóri fer í feluleik um geðræn vandkvæði sín er hann því á vissan og reyndar mjög áhrifamikinn hátt að dreifa út fordómafullum skoðunum úr sínu valdamikla og opinbera embætti.  

Í ljósi hinna vandræðalegu undanbragða borgarstjórans verður að skilja afkáralega paródíu Spaugstofunnar. Ef Ólafur hefði bara verið eðlilegur og ekki rokið í þessa vandræðalegu vörn hefði sú paródía ekki farið af stað.

Þáttur Morgunblaðsins í þessu máli er kapituli ut af fyrir sig. Áratugum saman hefur blaðið talið sér trú um að það standi í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn fordómum gegn geðsjúkdómum. En í þetta sinn gleymir blaðið sér algerlega í pólitískum átökum. Gott og vel! Blaðið telur að andstæðingar Ólafs hafi notað veikindi hans á fordómafullan hátt í ofsóknum gegn honum. Kannski er eitthvað hæft í því. Þá er ekkert athugunarvert við það  að Morgunblaðið atyrði þá sem þetta gerðu. En ef Morgunblaðið vill vera sjálfu sér samkvæmt í þessu efni getur það ekki látið sem fordómavekjandi skrauthvörf borgarstjórans um geðsýki sína hafi aldrei verið sögð. Ætli Morgunblaðið sér að minnast  aldrei á þann þátt málsins gerir það trúverðugleika þess að engu næst þegar það skrifar ritstjónargrein um nauðsyn þess að eyða fordómum gegn geðsjúkum á Íslandi. Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjórar eru það sem þykjast vera að vinna gegn fordómum í garð geðsjúkdóma sem geta látið í raun fordómahlaðnar málrósir um þá sem vind um eyru þjóta? Það er einmitt slíkt tal sem er viðsjárverðast.  

Það er svo enn þá furðulegra að blaðið skuli reyna að gera hetju úr borgarstjóranum en það skrifar í leiðara 27. janúar: " Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, talar  ... af hreinskipti um persónulega hagi sína. Hann gerir það opið og heiðarlega. Til þess þarf  ... kjark og hugrekki ... ."

Hvers konar blað er það og hvers konar ritstjóri er það eiginlega sem verður sleginn annarri eins blindu?

Það er ekki eins og menn hafi verið að leyna því síðustu áratugi að þeir hafi þurft að glíma við geðræn vandkvæði og sú umræða hafi farið lágt. Það eru nú komin t.d. þrjátíu og fjögur ár frá því ég skýrði í bók  minni, Truntusól, frá dvöl minni á geðdeild. Sú frásögn fór ekki framhjá þjóðinni. Bókin "Kleppur í 100 ár" segir að Truntusól sé einhver frægasta bók á tuttugustu öld. Síðan hafa ýmsir aðrir sagt slíkar sögur sínar. Og  þeir hafa ekki talað neina tæpitungu.   

Flæmingur borgarstjórans þegar talið barst að geðrænum veikindum hans er hins vegar eins og ámáttlegt bergmál af tíðarandanum fyrir mörgum áratugum. Og hann hefur einnmitt beinlínis sært  marga sem átt hafa við þunglyndi að stríða eins og sést á skrifum þeirra á blogginu og á athugasemdum við færslur þeirra. Hér er eitt dæmi og hér er annað. Ég treysti vitnisburði þessa fólks betur en orðum ritsjóra Morgunblaðsins sem þiggur tvær miljónir í laun á mánuði fyrir að rugla í blaði sínu um alvarleg þjóðfélagvandamál.

Hlutur dómsmálaráðherrans, Björn Bjarnasonar, er þó enn þá einkennilegri en þáttur Morgunblaðsins.      

Í pistlinum Ofsi nýs meirihluta á  heimsíðu sinni sér hann ástæðu til að velta því fyrir sér varðandi það sem hann kallar einelti gegn Ólafi F. Magnússyni:

"Hvar er Öryrkjabandalagið, þegar veikindi eru höfð til marks um að einstaklingur sé ekki fær um að sinna því starfi, sem sá hinn sami hefur tekið að sér?  Hefur Öryrkjabandalagið engar athugasemdir fram að færa við fordómana og eineltið?"

Þetta er ekki atriði úr Spaugstofunni. Það er dómsmálaráðherra þjóðarinnar sem talar.

En hvað með Geðhjálp? Kannski veigrar ráðherrann sér við að nefna svo mikið sem á nafn eitthvað sem hefur orðið GEÐ í sér.

Því  miður á ég svo eftir að nefna mesta áhyggjuefnið í öllu þessu máli. Og það er þetta:

Hið pólitíska upphlaup mun hjaðna eins og önnur slík upphlaup. Eftir stendur þá hvernig það kom upp um virka fordóma gegn geðsjúkdómum, jafnvel þar sem síst skyldi, meira að segja hjá þeim sem telja sig  vera sérstaka málsvara geðsjúklinga.

Full ástæða er til að  þjóðin ræði þetta á málefnalegan hátt.

Það væri því sannarlega ómaksins virði  að einhver marktækur aðili, t.d. Geðhjálp, beitti sér fyrir almennum umræðufundi meðal borgaranna, ekki til að fjalla um atburðina í borgarstjórninni sérstaklega, heldur til að ræða almennt fordóma gegn geðsjúkdómum í upphafi 21. aldar í íslensku samfélagi.  Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Og nú virðist sem aldrei fyrr vera jarðvegur fyrir slíka umræðu.

Það er svo margt ef að gáð sem um er þörf  að ræða.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Sigurður, fyrir þessi skrif. Þau eru eins og vin í eyðimörkinni í annars afar ruglingslegri umræðu sem er satt að segja talsvert erfitt að botna í.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 18:59

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Flottur pistill. Takk fyrir mig.

Hrannar Baldursson, 29.1.2008 kl. 19:04

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er nú bara með því betra sem þú hefur skrifað, svei mér þá!
Kærar þakkir... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:37

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þú ert svo vitur, Sigurður. Takk fyrir.

María Kristjánsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:41

5 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Kæri nafni!

Þegar þú ert í þessum ham þá bíður maður bara eftir 2. bindi af Truntusól. 

Sigurður Ásbjörnsson, 29.1.2008 kl. 19:47

6 identicon

Glæsilegur pistill!

Egill M. Friðriksson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 19:52

7 identicon

Asskoti góður. Verst að borgarstjórinn er í sjálfskipuðu farbanni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 20:06

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

RE: Bullið í Birni ...

Hann er nú löngu orðinn málefnalega fallít í utanríkismálum, trúmálum og fleiru en etv. varpar eftirfarandi steypa einhverju ljósi á þankagang hans. Þess má geta að það að hafa Bush til vitnis um sannsögli Bush sjálfs hlýtur að teljast alheimsmet í trúgirni.

"""...Nýlega var haft eftir frægum Hollywood-leikara, að eitt hefði hann lært af lífinu og það væri að treysta þeim aldrei, sem teldi sig hafa einkarétt á því að hafa Guð í liði með sér.

Þessi ummæli eru sprottin af deilum í Bandaríkjunum um það, hvort Bush sé með hernaðarlegan messíasar-komplex en Ralph Nader, einn mótframbjóðenda Bush í forsetakosningunum, komst þannig að orði: „Tölum um aðskilnað ríkis og kirkju: Enginn slíkur aðskilnaður er til í heilabúi Bush og það er ákaflega óþægilegt að búa við það.“

Óþægindin vegna þessa virðast teygja sig hingað til lands ef marka má þessi orð, sem birtust nýlega í forystugrein íslensks dagblaðs:

„Hér á landi og víðast hvar í Evrópu utan Bretlands eru ofsatrúarmenn taldir vera sérvitringar, sem ekki séu nothæfir til stjórnmála. Ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar eru hins vegar ekki aðeins viðurkenndir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, heldur sitja beinlínis við stjórnvölinn.

Vandamál Íslands er hið sama og vandamál alls mannkyns um þessar mundir, hvernig eigi að haga seglum eftir vindum er blása frá heimsveldi, sem rambar um eins og dauðadrukkið sé.“[2]

Mér þykir líklegt, að höfundur þessara orða setji Bretland í sérstakan bás meðal Evrópulanda, vegna þess að sagt var frá því, að þeir hefðu beðið saman í Camp David Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Breta.

Ég minnist þess úr sögutímum hjá Ólafi Hanssyni í Menntaskólanum í Reykjavík, að hann lýsti því þannig fyrir okkur, að þeir, sem væru haldnir messíasar-komplexi teldu sig þess umkomna að frelsa og umbreyta heiminum á eigin forsendum, allir yrðu að lúta þeim og vilja þeirra, þeir þyrftu ekki að leggja bænarefni fyrir neinn. Hvernig á að bregðast við, ef það er til marks um að vera haldinn þessum komplexi, að menn biðji um leiðsögn Guðs, jafnvel þótt þeir séu forseti Bandaríkjanna eða forsætisráðherra Bretlands?  Aikman segir í bók sinni um Bush, að hann hafi aldrei sagt, að Guð hafi sagt sér að fara í stríð. Hann hafi verið ákaflega varkár í orðum sínum.

En hvert stefnir, ef afsiðunarkrafa vestrænna þjóðfélaga er á þann veg, að þeir, sem taka þátt í stjórnmálastarfi mega ekki játa trú sína opinberlega.  Þeim sé bannað að viðurkenna, að við töku erfiðra ákvarðana, leiti þeir styrks hjá þeim, sem öllu ræður.

Mér er spurn: Hver er sá hér meðal okkar að hann telji sig þess umkominn að taka allar stærstu ákvarðanir lífsins án þess að eiga nokkra stund með Drottni sér til hjálpar? Er nokkur hér sem telur sig svo viðbúinn að mæta hverju sem vera skal, að Drottinn hefði þar engu við að bæta sem máli skipti og því til lítils að ráðslagast sérstaklega við hann umfram aðra?

Hitt á að sjálfsögðu  við um stjórnmálamenn eins og aðra, sem Jesús sagði um bænina: En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Ég þarf ekki að segja neinum hér, hvor þeirra gerði betri för og fór réttlættur heim, faríseiinn sem barði sér á brjóst og auglýsti guðhræðslu sína fyrir öllum sem heyra vildu og sjálfsagt fleirum, eða sá sem stóð álengdar, fann til misgjörða sinna og bað þess eins að Guð yrði sér syndugum líknsamur.

Hvað sem öllu þessu líður, er of langt gengið, ef stjórnmálamenn, sem játa trú sína á Jesúm Krist opinberlega, eru taldir „ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar.“ ..."""

http://www.bjorn.is/greinar/nr/2750

Baldur Fjölnisson, 29.1.2008 kl. 20:21

9 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Mjög gott innlegg, takk fyrir mig.

Víðir Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 20:32

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.1.2008 kl. 21:45

11 Smámynd: halkatla

stórglæsilegt, skil ekki alveg hvað málið er með þessa feimni og undanbrögð.

halkatla, 29.1.2008 kl. 21:47

12 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Mikið er gott að einhver með skilning á þessum málum skuli loksins skrifa hér á Moggablogginu eftir allan æsinginn og spunann í kringum núverandi borgarstjóra.

Hann fékk gullið tækifæri til þess að opna umræðuna um þunglyndi og geðsjúkdóma, jafnvel til þess að draga úr fordómum almennings, en því miður notaði hann það ekki. Ef eitthvað er auka viðbrögð hans á feluleikinn og fordómana í kringum andlega sjúkdóma.

Svala Jónsdóttir, 29.1.2008 kl. 22:35

13 Smámynd: Fríða Eyland

Flott grein hjá þér. 

Fríða Eyland, 29.1.2008 kl. 22:37

14 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

virkilega góður pistill hjá þér

Sædís Ósk Harðardóttir, 29.1.2008 kl. 22:54

15 identicon

Þú ert nú meiri andskotans víðáttusauðurinn! Níðir niður geðsjúka með því að gefa hastarlega í skyn að geðsjúkdómar séu eitthvað sem á að æpa um á torgum! Það er ekki að spyrja að innrætinu!

Nei, nei. Nú er ég bara að reyna að ná úr þér montinu eftir allt hrósið um þessa glæsilegu bloggfærslu. Maður á líka að kappkosta að hafa umræðu á kommentakerfum fremur neikvæða. A.m.k. er eitt fávitakomment algert skilyrði.

Auðvitað segi ég: Go Siggi sanasól!

Tóta p. (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 22:56

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Sigurður og takk fyrir þennan ágæta pistil.

Mig langar bara til þess að leiðrétta eitt lítilræði - úr því þú nefnir mig í upphafi þíns máls: Ég notaði ekki orðið "vitfirringur" heldur sagði ég að Spaugstofan hefði útmálað Ólaf sem "vitstola" mann sem ekki vissi hvað hann væri að segja eða gera. Það er hvorki sanngjarnt gagnvart honum né geðjúkum almennt.

Kannski er bara kominn tími á 2. bindi af Truntusól - eins og bent var á hér ofar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.1.2008 kl. 22:59

17 identicon

Þakka þér innilega fyrir þennan frábæra pistil. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 23:52

18 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Þökk fyrir þarfan og góðan pistil í öllum þessum „andbyr“...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 29.1.2008 kl. 23:57

19 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ólína: Afsaka þessa vitfirringslegu  ónákvæmni. Það gengur svona þegar maður vill vanda sig sérstaklega mikið. Tóta pönkína: Alltaf skalt þú nú koma með gáfulegustu kommentin!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.1.2008 kl. 23:57

20 identicon

Flott grein og loksins eitthvað af viti. Tek undir með sumum hér 2. bindi af Truntusól í jólabókaflóðið næst.

Jón Eiríksson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 00:00

21 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka góðan pistil og þarfan. Vonandi að umræðan þróist í þessa veru, en ekki í aumkunarvert hjal, pex og undanskot, eins og átt hefur sér stað undanfarna daga.

Halldór Egill Guðnason, 30.1.2008 kl. 00:00

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir þennan ágæta pistil. 

Pukrið kringum geðsjúkdóma vill gjarnan loða við því óttinn við að þér séu tengdir persónu viðkomandi, þ.e. geri einhvern mann minni fyrir vikið er fyrir hendi víða.  Þannig er umræðan um þá geðröskun sem kallast persónuleikaröskun algert olnbogabarn í umræðunni því slík röskun kemur niður á einu því dýrmætasta sem við erum, þ.e. persónur.  Mig grunar að þekking fólks almennt á því hvernig slík röskun sé skilgreind sé ákaflega takmörkuð og það er erfiðara að gera sér grein fyrir henni en t.d. þunglyndi eða kvíðasjúkdómum.  Kannski skrifa ég eitthvað um þetta síðar - Bestu þakkir frægi Truntusól -isti

Svanur Sigurbjörnsson, 30.1.2008 kl. 00:30

23 identicon

Megaflott grein - sem þyrfti að birtast víðar (í Mogganum?!!).

Ég lét Morgunblaðsáskriftina mína fjúka í gær eftir áratuga áskrift.  Það er ekki hægt að láta þennan hallærislega ritstjóra bjóða sér upp á þetta bull dag eftir dag.

Helga (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 01:27

24 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Sigurður. Guðrún bloggvinkona þín er stundum að skemmta sér yfir bloggfærslum þínum og þá verður ég að kíkja og lesa.

"Ekki dugir að hylja ásjónu sína þó eitthvað falli mótdrægt."            Jón Þorleifsson skáld. Ljóð og sagnamál, 1973.

"Lífið er auðvitað fullt af alls konar áföllum, það brýtur suma, bætir aðra, en við eigum aðeins þann valkost að halda áfram."              Arnar Jónsson leikari. Dv, 5. desember 1998.

Kær kveðja úr friðsælli og fallegri sveit.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.1.2008 kl. 02:12

25 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tek undir mergjuð hrósyrðin. Ákaflega vel ígrundaður pistill. Takk.

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.1.2008 kl. 02:27

26 identicon

Takk fyrir frábæra grein.

Þáttur Mbl er til skammar í þessu máli. Og mér fannst fokið í flest skjól þegar Ólína Þorvarðardóttir steinblind á kjarna málsins óð fram á ritvöllinn með sín skrif. Ég hélt alltaf að þar væri á ferðinni víðsýn manneskja sem kynni að greina kjarnann frá hisminu. En svona er þetta bara. Svo bregðast krosstré eins og önnur tré!!

Jón H. Eiríksson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 02:34

27 identicon

Heyr, heyr Sigurður. Hafðu bestu þakkir !!

Sólveig Margrét Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 04:18

28 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Sigurður; Af öllum þeim skrilljón færslum, fréttaflutningi, kaffistofuröfli og snökkti þá er þetta eina sem ég hef séð um málið sem eitthvað vit er í!!
Takk fyrir mig;)

Heiða B. Heiðars, 30.1.2008 kl. 08:25

29 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka afburðagóða umfjöllun.

Hrein unun að lesa.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.1.2008 kl. 09:06

30 identicon

Frábær skrif. Kjarni málsins.

Þegar Vilhjálmur hrópaði fyrstur manna "Aðför að heilsu Ólafs, aðför að heilsu Ólafs"!!!!!! Sukku sjálfstæðismenn í forarpytt.

Spurningin er: hefur einhver geð(heilsu) til að rétta þeim hjálparhönd?

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 11:54

31 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Mér sýnist eins og fleirum að þú sért í startholunum með aðra Truntusól.

Svava frá Strandbergi , 30.1.2008 kl. 14:23

32 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Andskotans bókakjaftæði er þetta og sólarhjal!

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.1.2008 kl. 14:33

33 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

„Góðir Reykvíkingar ég heiti Ólafur F., nýi borgarstjórinn ykkar og er nýkominn af geðdeild.“ Það hljóta allir að sjá að þetta er erfitt mál, fordómar gegn geðsjúkum eru því miður til staðar og kannski skiljanlegt að maðurinn hafi ferið feiminn við slíka umræðu. Spaugstofuþátturinn var líka í fullu samræmi við þá brandara sem um nýja borgarstjóra gekk.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.1.2008 kl. 14:37

34 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Enginn krefst þess að hann hefði sagt þetta svona. Það er hægt að segja hlutina á ýmsa vegu. Undanbrögðin voru verst. Ef hann hefði svarað hreint út þegar hann var spurður án þess að vera með glannakspa samt, hefði t.d.  sagst hafa verið í þunglyndiskasti, hefði það breytt öllu. Þá hefði ekki verið nein ástæða til paródíu í Spaugstofunni því þá hefði verð búið að kippa fótunum undir þá "brandara" sem gengu um borgarstjórannþ .  En það er rétt, Ólafur á sér málsbætur. Mogginn á sér hins vegar engar málsbætur.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.1.2008 kl. 14:47

35 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nei, hann hefði sálfsagt ekki orðað þetta alveg svona eins og ég gerði. En hann var í þeirri stöðu að vera nýbúinn að svíkja helming borgarbúa og þurfti því vinna sér traust sem flestra aftur. Það er ekki góður tími til að gera sjúkdóma sína opinbera, spurning hvort hann hafi ekki frá upphafi verið í ómögulegri aðstöðu.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.1.2008 kl. 14:59

36 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir góðan pistil.

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 15:16

37 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir greinina og takk fyrir Truntusól!  Ég las hana með áfergju þegar hún kom út, mér fanst hún ofsalega góð.

Kári Harðarson, 30.1.2008 kl. 15:24

38 Smámynd: Sporðdrekinn

Flottur pistill.

Sporðdrekinn, 30.1.2008 kl. 18:31

39 identicon

KOmdu sæll Sigurður. Þakka þér fyrir þennan frábæra pistil. Það er enginn svikinn af að lesa skrifin þín. Þakka þér enn og aftur. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 18:31

40 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir frábæran pistil.

Marta B Helgadóttir, 30.1.2008 kl. 19:10

41 identicon

Þessi lesning rifjaði upp fyrir mér nokkuð sem ég var búinn að gleyma - að Sigurður Þór er einn albesti pistlahöfundur landsins.

ábs (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 19:50

42 identicon

Vel sagt, takk fyrir mig!

Ragga (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 21:34

43 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Úr þættinum Vítt og breitt á Rás 1 30.01.08 hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.1.2008 kl. 03:11

44 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lára: Ég varð fyrir vonbrigðum með Svein. Hann gerir of mikið úr Spaugstofunni en lítið sem ekkert úr skrauthvörfum borgarstjórans. Villi villigeit: Hvað lokleysa er nú í þér!

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2008 kl. 11:32

45 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þá erum við sammála, mér fannst Sveinn alls ekki sannfærandi. Hann hefði mátt vera miklu meira afgerandi og taka umræðuna fastari tökum. Það besta við þetta fannst mér þó að Hanna G. Sigurðar skyldi reyna. Hún hefði bara átt að fá annan viðmælanda. En Sveinn er aftur á móti talsmaður Geðhjálpar sem lítið hafði heyrst frá í þessari umræðu svo valið á honum var kannski eðlilegt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.1.2008 kl. 15:27

46 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Voruð þið búin að sjá að það er gert grín að meintum veikindum Ólafs F í Mogganum í dag, nánar til tekið er það Sigmundur kallinn sem tekur aðeins á honum. Allavega get ég ekki skilið teikninguna öðruvísi en svo, hann heldur á pilluglasi og sexmenningarnir í bænahring í kringum hann. Pælið í því sjálfur Mogginn sem hneykslaðist mest á Spaugstofunni.

Gísli Sigurðsson, 1.2.2008 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband