Smá veðurraus 1. maí

Mikið er veðrið í dag eitthvað fyrstamaílegt. Á hádegi var sól og 5 stiga hiti í Reykjavík og hvergi frost á landinu. En í nótt var víða frost, allt niður í níu stig á Miðfjarðarnesi við Bakkaflóa. Þar verður lágmarkshiti furðu oft lægri en annars staðar. Ekki skil ég ástæðuna því þetta er strandstöð  fast við sjávarmál, Kannski streymir kalt loft þarna niður frá heiðunum. 

Einkennilegt er að sjálfvirka stöðin á Þverfjalli á Vestfjörðum er aldrei talin með á vef Veðurstofunnar þegar gefin er upp minnsti hiti á landinu á fjöllum. En oft er þar hvergi kaldara á sumum árstímum.

Ég er að pæla í hvort búið sé að gera einhverjar breytingar á Brunni, gagnavef Veðurstofunnar sem opinn er almenningi. Þar var nú margt að skoða. En nú, frá  því kringum 25. apríl, virðist þar vera einhver stífla. Ef farið er þarna inn og klikkað þar sem stendur myndatól er allt sem þar var boðið upp á steindautt. Meðal þess voru greiningarkort af Íslandi á klukkustundarfresti, undir fyrirsögninni veðurathuganir,  en hægt er að sjá slík kort, en þó í minna broti, á almenna vef Veðurstofunnar á þriggja klukkutíma fresti. Hvernig skyldi nú á þessu standa? Er kannski verið að takmarka upplýsingar frá því sem áður var eða er þetta kannski einhvers konar tæknileg truflun?

Apríl var nokkurn veginn í meðallagi að hita miðað við lásí meðallagið 1961-1990 en fyrir neðan gullaldartalið 1931-1960. Á vesturlandi virðist hann samt í hlýrra lagi, frá Breiðafirði til Vestfjarða. Þurt var víða og þetta var eiginlega skítamánuður. 

Mér líst hins vegar vel á þennan maí sem er að byrja. Ég vænti hlýinda og  stórra eldgosa og þess að menn segi af sér þingmennsku í stórhópum áður en alþýðan hendir þeim út með valdi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband